Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Huldukona vísar á týndan grip

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Huldukona vísar á týndan grip.


Á síðari hluta 19. aldar bjó Þorsteinn Jónsson, alþingismaður (d. 28. ágúst 1886) að Nýjabæ í Vestmannaeyjum. Það bar við sumar eitt nálægt 1880, að önnur kýr hans, sem venjulega var kölluð Nýjabæjar-Svertla, týndist, og fannst ekki hvernig sem hennar var leitað. Bjuggust menn helzt við, að hún hefði fallið fyrir björg.
Um þetta leyti var Runólfur Runólfsson, sem nefndur var mormóni, húsmaður í Dölum.
Tveimur eða þremur nóttum eftir hvarf kýrinnar, dreymdi Runólf, að til hans kæmi huldukona. Kvaðst hún eiga heima í Nónkletti, en hann er syðst í Dalatúninu og hefur jafnan legið orð á, að þar væri huldufólksbyggð. Bað huldukonan Runólf að ganga með sér, og fannst honum í svefninum, að hann færi með henni. Leiddi hún hann suður í Djúpadal, sem er skammt í suðaustur af Dölum, að jarðfalli miklu austast í dalsbrúninni. Niðri í jarðfallinu lá kýr Þorsteins í Nýjabæ og gat sig hvergi hrært.
Daginn eftir var það fyrsta verk Runólfs, að fara austur í Djúpadal, þangað, sem hann þóttist hafa farið í draumnum með huldukonunni. Kom allt heim við drauminn.
Lét Runólfur síðan Þorstein vita um kúna og var hún dregin upp úr jarðfallinu með brekánum. Ekki varð henni meint af jarðfallsvistinni. Þorsteinn launaði Runólfi vel fundinn.
(Heimild: Jón Jónsson).