Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Reimleikar á Tanganum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Reimleikar á Tanganum.


Skömmu fyrir miðja nítjándu öld stofnsetti danskur maður, sem hét Jóhann Júlíus Birck, Tangaverzlunina í Vestmannaeyjum. Nefndi hann þar Júlíushaab, að dönskum sið, og hefir verzlunarstaður þessi síðan gengið undir því nafni, enda þótt almenningur kallaði þar Tangaverzlun eða Tanga eingöngu, og gjöri það enn.
Birck þótti að ýmsu leyti einkennilegur maður í háttum sínum, og var sérstaklega orð á því gjört, hversu afskiptalaus hann var um verzlun sína. Hann hafði verið myllusmiður, og kom fyrst hingað til lands í þeim erindum, að einhverjir Reykvíkingar fengu hann til þess að byggja fyrir sig myllu í Þingholtunum. Birck hafði verzlunarmann þann sér til aðstoðar, sem Karl Lúðvík Möller hét, og var hann að mestu einráður í búðinni. Var sagt, að spyrði Möller húsbónda sinn, hvort lána mætti þessum eða hinum, væri viðkvæðið jafnan hjá Birck, að því gæti hann sjálfur ráðið. Möller varð síðar verzlunarstjóri á Tanganum eftir að J.P.T. Bryde eignaðist verzlunina, og andaðist hann árið 1861. Kona hans var Ingibjörg Þórðardóttir frá Rifi undir Jökli, og áttu þau mörg börn. Meðal þeirra var Haraldur trésmiður í Reykjavík og á Vopnafirði. Maddama Möller átti heima í Túni eftir lát manns síns.
Birck hélt sig mest í lýsishúsi því, sem stóð skammt í norðaustur frá búðinni, og svefnhús hafði hann þar á loftinu. Þegar fram liðu stundir ágjörðist mjög einræningsháttur verzlunareigandans. Þótti hann lýsa geðbilun á svo háu stigi, að ekki væri ráðlegt að láta manninn einráðan ferða sinna, og gætti Möller hans eftir því, sem hann gat við komið.
Svo bar það við einhverju sinni, að Birck var horfinn og sömuleiðis fjögra potta kútur fullur af púðri. Var strax brugðið við og farið að leita mannsins. Eftir allmikla leit fundust nokkrar leifar af honum vestur með Skönsum og var talið víst að hann hefði fyrirfarið sér með þeim hætti, að hann hefði kveikt í púðurkútnum sitjandi á honum.
Eftir þetta fór að bera á reimleika á Tanganum, og þó helzt í lýsishúsinu. Heyrðu menn þar oft og tíðum umgang og hávaða, þó þeir þættust vissir um að enginn væri þar inni. Löngu síðar var lýsishúsið notað fyrir sjóbúð.
Um 1880 var skipshöfn úr Landeyjum þar á loftinu, og þar á meðal heimildarmaðurinn að þessari frásögn, Vigfús Jónsson frá Fíflholtshjáleigu. Þá var það oft, þegar allir voru komnir upp á kvöldin, að þeir heyrðu gengið upp stigann. Var fótatakið mjög greinilegt og stigið þungt til jarðar, og það brást ekki, að alltaf var tvístigið í hverja rim. Virtist komumaður helzt vera á járnuðum tréskóm, og var sem hann stappaði snjó af fótum sér, þegar komið var upp á pallinn. Bar þetta við svo að segja á hverju kvöldi og að öllum jafnaði á sama tíma, laust eftir tíu. Stundum kvað svo mikið að þessu, að þeir búðarmennirnir heyrðu gengið milli rúmanna hjá sér, en engan sáu þeir. Oft var rækilega athugað, þegar fyrirbrigði þetta gjörðist, hvort nokkur væri þarna á ferðinni, en sú athugun var jafnan árangurslaus. Þóttust menn þá vita, að Birck væri þarna á ferðinni að vitja sinna gömlu heimkynna.
Í ministerialbók Vestmannaeyjaprestakalls er sagt, að Birck hafi fargað sér með púðri 13. marz 1851 og frá því skýrt, að hann hafi þá verið 34 ára gamall.
(Að mestu eftir handriti Kjartans Jónssonar á Búastöðum)