Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Hansínuslysið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Hansínuslysið.


Í marzmánuði árið 1863 fórst dekkbáturinn Hansína í hákarlalegu með sjö manna skipshöfn. Formaður fyrir bátnum var Sæmundur Ólafsson, og var hann einn eigendanna. Báturinn var ákaflega hrörlegur. Svo að hann skyldi síður leka, var hann klæddur í strigabrók í sjó. Var striginn festur með sveigum, sem negldir voru undir hverja skör.
Sæmundur var albróðir Bjarna bónda í Svaðkoti, og voru þau mestu mátar, Ragnheiður Gísladóttir, kona Bjarna, og Sæmundur. Í ávarpi nefndi hann Ragnheiði alltaf telpuna sína.
Ragnheiði hafði órað eða dreymt fyrir því, að Sæmundur mundi farast með Hansínu. Ámálgaði hún oft við hann, að ekki mundi hann hætta við Hansínu fyrri en hún dræpi hann. En ekki vildi hann fallast á, að hann ætti að bera beinin með Hansínu. Einhverju sinni var hún að þrefa í þessu við hann, og varð henni þá síðast að orði: „Taktu eftir,“ sagði hún, „og minnstu mín, þegar þar að kemur.“
Þennan marzmánaðardag fór Sæmundur út í hákarlaferð. Loftsútlit var ljótt, og hafði Sæmundur verið í vomum um það, hvort hann ætti að leggja út. Hafði þá einhver frýjað honum hugar, og stóðst hann það ekki. Er á daginn leið gekk að með afspyrnuútsynningsveður og veltubrim. Eftir þetta spurðist ekki til Hansínu, og vissu menn aldrei með hverjum hætti hún hafði farizt. Um nóttina, eftir að Sæmundur lagði út, vaknaði Ragnheiður í Svaðkoti við það, að lögð var köld hönd á brjóst henni, en einskis annars varð hún vör. Þykist hún þá vita hvers kyns var, og vekur Bjarna bónda sinn og segir honum hvað við hafði borið, og muni nú Sæmundur hafa drukknað í nótt.
Skömmu síðar gekk Ragnheiður með barni. Einhverja nótt kemur Sæmundur til hennar í draumi og segir hann þá við hana: „Satt sagðirðu, telpa mín, að hún Hansína yrði líkkistan mín.“ Þá þykist Ragnheiður spyrja hann: „Hvað ætlarðu að verða lengi hjá mér núna?“ Hann svarar: „Ég ætla að verða hjá þér á níunda ár.“ Á sínum tíma eignaðist Ragnheiður barnið, og var það drengur. Var hann látinn heita eftir Sæmundi. Hann dó úr barnaveikinni á níunda ári.
(Eftir sögn Guðríðar Bjarnadóttur, dóttur Ragnheiðar.)