Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Haffaraslysið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Haffaraslysið.


Síðari hluta vertíðar árið 1916 (9. apríl) fórst vélbáturinn Haffari á heimleið úr fiskiróðri.
Þennan dag hafði báturinn verið á sjó fyrir austan Bjarnarey, sennilega austur við svonefnt Holtshraun. Er fram á daginn kom hvessti við austur, og gjörði storm með stórhríð, svo ekki sá út úr augum. Mun báturinn hafa tekið ranga stefnu eða borið af, því ekki vissu þeir fyrri til lands en báturinn var kominn í landbrot, og fleygðist upp í stórgrýtisurð suður með Flugum á austurströnd Heimaeyjar. Tveir hásetanna björguðust með undraverðum hætti upp í urðina. Höfðu þeir fleygt sér út úr bátnum með landsjónum, og gátu haldið sér við stein meðan ólagið bar út og tók bátinn með sér. Klifruðu mennirnir síðan upp hamarinn, og komu að Hlaðbæ á Vilborgarstöðum til Bjarna Einarssonar bónda, um miðnætti, og sögðu farir sínar ekki sléttar.
Var hann einn eigendanna að bátnum, ásamt Jóni Einarssyni á Gjábakka, bróður sínum, og formanninum Jóni Stefánssyni í Úthlíð í Vestmannaeyjum, sem drukknaði með vélstjóranum og einum hásetanna.
Bjarni fór þegar um nóttina niður að Gjábakka, til þess að láta þau Gjábakkahjónin vita um slysið. Voru þau á fótum, því að þeim var uggvænt um útivist bátsins. Hafði vélstjórinn, sem var Austfirðingur, Gunnar Sigurfinnsson að nafni, verið hjá þeim hjónum nokkrar undanfarnar vertíðir, eins og þessa. Var það mesti myndarmaður, og var þeim hjónum vel til hans og honum til þeirra.
Eftir að hafa fengið þessa sorgarfregn, háttuðu þau hjón, því ekki varð neitt að gjört, meðan veður hélzt hið sama og náttmyrkur var á.
Innan skamms sofnaði kona Jóns, Sesselja Ingimundardóttir, og svaf hún um stund, en Jóni rann ekki blundur á brá. Eftir nokkurn tíma hrökk Sesselja upp af svefninum. Sagði hún Jóni þá, að sig hefði dreymt, að Gunnar kæmi til sín og segði við sig, að illa hefði nú tekizt til. Hefði þeir ekki hitt Bjarnarey á heimleið, en haldið áfram til lands enn nokkra hríð, eftir að þeir þóttust vera komnir í námunda við hana. Stöðvaðist þá vélin og kvaðst hann ekki hafa getað komið henni í gang aftur, hvernig sem hann fór að.
Skömmu eftir að vélin bilaði vissu þeir ekki fyrri en óhemjumikill brotsjór reið yfir bátinn, og kastaði honum upp í stórgrýtisurð. Báturinn hefði síðan sogazt út aftur með sjónum, og sokkið í brimgarðinum, og þar hefði hann drukknað og hinir mennirnir. Sagði hann að sig hefði rekið á land aftur, og lægi hann nú skorðaður milli tveggja steina í urðinni, skammt fyrir neðan flak úr bátnum, sem rekið hefði upp eftir að báturinn fór í spón í brimgarðinum. Kvaðst hann vera skaddaður á vinstra gagnauga. Var draumurinn ekki lengri.
Þegar birti af degi var farið suður með Flugum til þess að aðgæta, hvort nokkurt líkanna hefði rekið á land. Fannst þá lík Gunnars nákvæmlega á þeim stað, er hann hafði nefnt, og var líkið skaddað á vinstra gagnauga, eins og hann hafði sagt í draumnum. Önnur atvik komu líka heim við það, sem mennirnir, er björguðust, sögðu, þegar daginn eftir var farið að spyrja þá um það, með hverjum atburðum slysið hefði viljað til.
(Sögn Jóns Einarssonar, Gjábakka)