Ritverk Árna Árnasonar/Hinir fyrstu handvagnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Hinir fyrstu handvagnar


Ég hef áður lítillega áminnst flutningaerfiðleikana hér á vörum, fiski og fleiru fyrr á tímum eða fyrir aldamótin síðustu. Þá var allt borið á bakinu, sem mögulega var hægt að halda á sér. Allar vörur til og frá skipum, til og frá vörugeymsluhúsunum og til og frá heimilunum.
Það má nærri geta, að þessi burður hefir verið mjög erfiður og seinlegt verk, að losa full-lestað skip á þann hátt og koma vörunum í hús, – bera síðan afurðirnar úr vörugeymslunum niður í skip. Þetta var þó töluverð leið að fara og hefur líka efalaust þreytt margan, bæði kvenmann og karlmann, í bakinu. En önnur aðferð á flutningum þekkist ekki og menn gerðu sér það að góðu að vinna svona dag eftir dag, fyrir 10 og 12 aura um tímann. Af þessum sífellda burði, urðu margir þekktir í plássinu og rómaðir fyrir ódrepandi seiglu og þol, gátu borið bæði mikið og verið að allan daginn.
Einhver slyngasti burðarskrokkur um aldamótin síðustu var hér Guðmundur nokkur Jesson, son Jes Thomsens og munu margir kannast við þá feðga, að minnsta kosti af afspurn. Guðmundur var lítill maður vexti og þótti aldrei neinn afburðamaður að kröftum, en hann gat verið að bera vörur á bakinu allan daginn án þess nokkur sæi honum bregða. Lék hann sér með rúg-, hveiti- og grjónasekkina, sem voru nærri eins stórir og hann sjálfur, í einum spretti neðan úr Nausthamri og upp í Miðbúð og þar upp allháar tröppur upp í geymsluhúsið. Þeir segja mér líka gömlu mennirnir, að þegar búið var að láta pokann á bakið á Gvendi Jes, hristi enginn pokann af karlinum, hann skyldi víst hafa hangið við hann.
Annars voru víst margir afar duglegir að bera á bakinu, því að burði vöndust menn frá blautu barnsbeini, eins og t.d. Ingvar Árnason, Hólshúsi o.fl.
Um 1880 fékk séra Brynjólfur Jónsson á Ofanleiti vagn hingað, sem hann ætlaði að nota til flutningaléttis við heimili sitt fyrir ofan hraun. Hvaðan hann hefir fengið hann, er ekki hægt að grafast fyrir, en líklegt er talið, að hann hafi komið hingað frá Englandi. En svo stór var hann og vegir slæmir, að ómögulegt var að nota hann, hvorki heima né heiman. Vagn þennan fékk svo Brydesverslun, notaði hann eitthvað fyrst, en síðan var hann tekinn sundur og hefir svo týnst. Honum varð ekki viðkomið að neinu gagni, því að vegir voru svo mjóir og ójafnir.
Framfarafélagið stofnað 1893, flutti inn vagn frá Englandi“, ritar ÁÁ ofan kaflans¹).
Um árið 1895 flutti Gísli Stefánsson kaupmaður vagn hingað frá Englandi til þess að létta sér flutninga á áburði á nýræktir sínar, flutning á fiski á þerrireiti o.fl., sem allt var áður borið í skrínum eða á handbörum.
Ekki verður hægt að skilja það, hvers vegna vagnar ekki ruddu sér til rúms hér strax, nema ef vegakerfið hefir haft sín áhrif á það. Vegir voru eiginlega engir. Um aldamót (1910) er meira að segja ekki orðið betra en það, að með hörmungum er hægt að koma handvagni inn í Dal, helst ekki upp „fyrir hraun“. Austurhluti Strandvegarins var lagður móhellum, ójöfnum, lausum og afar slæmum yfirferðar og upp í bæinn austurávið var ekki hægt að fara með vagn lengra en upp fyrir húsið Heiði. Annarsstaðar voru aðeins troðningar.
Árið 1902 eru pantaðir hingað 4 handvagnar frá Noregi og komu þeir um haustið. Þá vagna fengu Guðmundur Þórarinsson á Vesturhúsum, Gísli Stefánsson kaupmaður, Pétur Pétursson í Vanangri og Guðjón Þórðarson í Sjólyst. Enda þótt menn væru í þennan tíma farnir að sjá ágæti vagnanna, komu þeir enn ekki að verulegu gagni vegna vegleysu, en voru notaðir helst heimavið.
Þegar t.d. Búastaðir voru uppbyggðir árið 1904, voru vagnar þessir svo til skömmu komnir. Segir Pétur Lárusson, að þá hafi þeir getað notað handvagn við flutninga „upp í Skarð“, þ.e.a.s. upp að girðingunni, skammt frá þar, sem nú stendur [Goðasteinn]. Lengra eða nær hússtæði Búastaða varð hvergi komist með vagn. Varð því að bera allt í skrínum, stömpum, handbörum eða reiða á klökkum úr Skarðinu og heim. Allan sand og möl reiddi hann í laupum austan af „Urðum“, því að styttri og betri leið var það, heldur en að fara „inn í Botn“ eftir því. Þá voru vagnar þessir leigðir á 3 aura um tímann.
Vögnum fjölgaði svo ár frá ári, vegir voru lagfærðir, svo að vagnfært varð um miðþorpið, inn í Dal, upp fyrir hraun, austur á Kirkjubæi o.s.frv. Gripu vagnarnir alveg ótrúlega fljótt um sig, enda má með sanni segja, að þeir hafi verið aðal flutningatækin allt fram að 1919, t.d. við alla fiskuppkeyrslu af bryggjunni, frá og til vörugeymsluhúsa o.fl.
Og er við lítum á bryggjumyndir Eyjanna frá þeim tímum, t.d. á núgildandi 50 kr. seðli sjáum við handvagnana standa í tugatali og bíða uppkeyrslunnar í aðgerðarhúsin. Má segja, að nær því hafi verið stórhættulegt að fara gangandi á bæjarbryggjuna, þegar mest var að gera þar. Þá var líf og fjör í tuskunum. Nú eru handvagnarnir horfnir að mestu og viðteknir bílarnir, sem rutt hafa sér hér til rúms sem annarsstaðar.
Fyrsta hestavagn fékk hingað Kapt. Kohl. Var það fjórhjólaður vagn, sem hann notaði við æfingar sínar hér, lét hann ryðja veg í vestur frá Kirkjunni inn að Brimhólum og ók svo þeim, er þátt tóku í æfingunum inn á Brimhóla. Til skamms tíma sást „brúin“ svonefnda, sem var hleðsla yfir rof eitt á þeirri leið og hlaðin af Kohl og flokki hans til þess að komast með vagninn alla leið. Síðustu leifar vagns þessa, hjólin, lentu hjá Þorsteini alþingismanni í Nýjabæ. Þau voru til fram undir aldamót, voru frekar lítil, en mjög kröftugleg. Hvað um þau hefur orðið veit nú enginn.
¹) Framfarafélagið samþykkti kaup á handvagni í október 1894. Var hann leigður út til félagsmanna. (Sjá Blik 1953/Framfarafélag Vestmannaeyja, II. hluti. (Heimaslóð).