Ritverk Árna Árnasonar/Gamanljóð úr fjarlægð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Gamanljóð úr fjarlægð,
(flutt í lundamannahófi 1961)


Lag: Á trillu ég fór með Trana
Ég kærustu kveðjur sendi
og koss hverri meyjarsál,
er huganum heim ég vendi
og heilsa með veigar-skál.
Ég lít ykkur öll í anda
með augu, er sindra af glóð,
og Gumma og Gísla standa
með glösin og biðja um hljóð.


Við strákana talar Tóti
og tekur sér bragð af stút:
„Gegn ræðum ég mæli á móti
svo meyjuna leiði út.
Ég bauð henni með á ballið
og bjó hana undir það
að kenna mér réttar-rallið
og rúmbu á góðum stað“.


Og hlægjandi sé ég Hjála
í horninu inn að vegg
við baugalíns brjóst að rjála
eins blítt og við skurnlaust egg.
Þá listina kann hann karlinn
og kvenhylli nýtur enn,
því Álseyjar aldursjarlinn
er breyskur sem yngri menn.


Og Súlli á Saltabergi
flott svífur með hrund í dans,
er konuna sá hann hvergi
af hrifningu féll í trans.
Hann sveiflast með fríðu fljóði
og fitlar við þrýstinn barm
sem veiðimaður af móði
og manndóm í styrkum arm.


En svona eru fyglingar flestir,
þeir fyllast af veiðimóð,
finnst sambræðra svannar bestir
og sinna ekki um eigið fljóð.
En kannske er ég karlanna verstur,
því komi „á skot“ ungt sprund
við hlið þess er varla sestur
þá veit hún ég er frá Grund.


Ég vildi, að ég væri yngri,
því víst er það fjandi hart
að fá ekki að styðja fingri
á fljóðið svo ungt og bjart.
Ef æfður eg væri eins og Tóti
frá Elliðaeyjar-rétt,
þá hefði ekki hrundin á móti
að hlaupa einn slíkan sprett.


Við leiksviðið Jói setur
að sumbli með öl og vín,
og gerir sem best hann getur
að ginna eina baugalín.
Hann kann líka á þessu lagið
og lærði í Álsey mest.
Þar komast flestir í fagið
og fræðast af Magga best.


En síst eru Brandarar bestir
við borðið í miðjum sal.
Þeir syngja og fífla allflestir
öll fljóðin við skálahjal.
Ég kærustu kveðjur sendi
og koss hverri meyjarsál,
er huganum heim ég vendi
og heilsa með veigar-skál.


Þetta skemmtilega ljóð sendi Árni Árnason heim til Eyja árið 1961, og var það sungið
á úteyjahófinu (lundaballinu) það ár. Árni dvaldi í Reykjavík vegna veikinda sinna
og átti ekki heimangengt, en greinilega kemur fram við lestur ljóðsins, hvar hugur hans er.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit