Ritverk Árna Árnasonar/Leikir unglinga í Eyjum, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Leikir unglinga í Eyjum,
(fyrri hluti)


Fransmannaleikur


Þegar hefja skal leikinn, er fyrst kosið um það, hver á að byrja, þ.e. ,,vera inn á“ fyrst. Þá er teflt um það. Tveir leikendur taka stafinn og kastar annar honum til hins, sem grípur hann á lofti inn í opinn lófann. Þá kemur hinn leikandinn, grípur á sama hátt utan um stafinn þannig, að hönd hans er fyrir ofan og þéttfast við grip hins fyrra. Þannig fikra þeir sig upp eftir stafnum. Sá sem fær efsta gripið ,,er inn á“ og hefur því leikinn. Nú getur staðið svo á, að örlítill endi af stafnum standi upp úr lófa þess, sem efsta gripið hefur. Getur þá hinn reynt að grípa um stúfinn og verður svo að veifa stafnum kringum búk sinn svo oft sem hinn ákveður, t.d. 10 sinnum, 12 eða 15 sinnum. Takist hinum það, er hann inni á og byrjar leikinn. Þannig var líka teflt í langbolta um það, hvor foringjanna skyldi byrja að velja sér leikmenn úr fjöldanum, sem ætlaði að vera með. Vitanlega voru þeir bestu teknir fyrst og var mikið kapp um að ná strax í þá, sem slógu langt, gripu vel eða hlupu mikið. Það var að sjálfsögðu virðingarstaða að vera foringi í langbolta, en það var líka mikil virðingarstaða að vera næstur foringjanum.

Upphaf leiks:
1. stig, yfirlagning,
2. stig, slá endann,
3. stig, slá endann á lofti.

Spýtan er lögð yfir holuna. Leikmaður notar stafinn, ýtir honum niður í holuna undir miðju litlu spýtuna og lyftir henni snöggt og þeytir sem lengst hann getur burt frá holunni. Hinir leikmennirnir, sem úti á eru, mega reyna að grípa spýtuna í fluginu. Takist það, er sá inni á, sem hana grípur. Einhver þeirra, sem úti á er, nær spýtunni, ef enginn hefir gripið hana. Leggur þá sá, sem inni á er, stafinn yfir holuna og reynir sá með litlu spýtuna að hitta stafinn, sem yfir holuna liggur. Ef hann hittir hann, þá er hann inni á. Hitti hann ekki, mælir sá, sem inni á er frá þeim stað, sem spýtan kom niður á og að holunni. Fær hann 1 fyrir hverja staflengd. Ef þetta mælist vera 2, 4, 6 eða 8 staflengdir, fær hann jafnháar tölur til vinnings og geymir þær í huga sér þar til hann vinnur meira til viðbótar. En nú er það að athuga, að ef þessi mæling frá litlu spýtunni að holunni stendur á jöfnum tölum 2, 4, 6 eða 8 þá verður hann að endurtaka 1. stigið, þ.e. yfirlagninguna. Standi þessi tala hinsvegar á ójöfnum tölum t.d. 1, 3, 5, 7, 9 staflengdum, getur hann haldið leiknum áfram og hefir rétt til þess að byrja annað stig leiksins, þ.e. slá endann.

Hann leggur þá spýtuna á endann í holuna, þannig, að endi hennar komi vel upp úr holunni. Nú er slegið með stafnum á endann á litlu spýtunni eins fast og maður getur. Hún þeytist þá langt í burtu og hátt í loft upp. Þeir, sem úti á eru, reyna enn að grípa, og takist það, er sá sem grípur búinn að vinna þann, sem sló, og fer inn á. Takist það ekki, leggur hinn stafinn yfir holuna og hinn, sem spýtuna er með, reynir að hitta stafinn. Síðan er mælt alveg eins og áður. Standi nú á jafnri tölu, verður leikandinn að byrja aftur á yfirlagningu, hrapar úr öðru stigi niður í fyrsta stig. Standi hins vegar á ójafnri tölu í þessari mælingu, þá má leikandinn fara yfir í þriðja stig, þ.e. slá endann á lofti. Ég gleymdi að geta þess, að í öðru stigi fær leikandinn þrjá fyrir hverja staflengd, sem mæld er frá þeim stað, er litla spýtan kom niður og að holunni.

Nú hefir leikandi fengið ójafna tölu út úr þessari mælingu, t.d. 5 staflengdir eða töluna fimmtán, þá getur hann haldið áfram og byrjar nú á þriðja stiginu. Hann leggur spýtuna á endann í holuna eins og áður. Nú slær hann mjög laust á endann, helst þannig, að hún fari aðeins stutt frá. Þegar spýtan nú hrapar í fluginu, reynir leikandinn að slá hana aftur með stafnum og þá eins langt og hann getur. Hinir reyna þá að grípa, reyna svo að hitta með spýtunni stafinn yfir holunni eins og áður. Svo er mælt, og fái hann nú jafnar tölur, hrapar hann niður á fyrsta stig, en ójafnar gefa honum rétt til þess að slá endann á lofti aftur, og fær hann þá 5 fyrir hverja staflengd. Hann má líka reyna að tvíslá spýtuna á fluginu, en þá fær hann 7 fyrir hverja staflengd. Ef hann getur þríslegið spýtuna á fluginu, fær hann 9 fyrir staflengdina. Þegar þessu lýkur hefir leikandi spilað sig áfram gegnum leikinn og næsti maður tekur við. Síðan eru allar upphæðirnar lagðar saman og sá hæsti vitanlega vinnur leikinn. Hinir verða að greiða mismuninn frá sinni unnu upphæð og milli þess, sem hæstur er, með 1 eða 2 eftir því, hvort leikið er upp á einn eða tvo o.s.frv.

Fransmannaleikur hefir borist hingað allsnemma, líklega 1909 til 1910, og voru sjúklingar á Franska spítalanum hér oft að leika hann og kenndu okkur krökkunum. Síðan greip hann um sig svo, að segja má, að alltaf væru einhverjir einhvers staðar að leika Fransmannaleik. Þó var hann aldrei neinn fjöldaleikur, en þótti fremur skemmtilegur þar, sem 2 eða 3 menn voru. En hann gat verið skemmtilegur, og léku krakkar hann mikið heimavið.


Skemmtanir unglinga í Eyjum 1895–1925


Skemmtanir unglinga hér í Eyjum um aldamótin og allt til 1925 voru með nokkrum öðrum hætti heldur en nú til dags. Hygg ég, að þær hafi þá verið miklum mun heilbrigðari, þó að ekki hafi verið lagt til þeirra einn hundraðshluti þess fjár, sem nú er gert af börnum og unglingum. Eigi að síður skemmtu unglingar sér mikið til eins vel, ef ekki betur þá.
Skemmtanalífi unglinga í dag þarf ekki að lýsa. Allir þekkja, hvernig það er, þekkja það því miður á þann hátt, að það vekur hræðsluugg. Í fjölmörgum tilvikum virðast foreldrar lítið eða ekkert hafa af 11 til 15 ára börnum sínum að segja. Þau fara sínar eigin leiðir, þrátt fyrir góðar bænir foreldranna.
Unglingarnir koma fram sem gestir á heimili sínu að öðru leyti en því að rífa í sig einhvern mat, en þjóta svo strax um eftirmiðdaginn niður á ,,sjoppurnar“. Þar hanga þeir svo allt fram að miðnætti, þamba gosdrykki, éta sælgæti og hlusta á grammofón o.s.frv. Sé kvikmynd sýnd í Samkomuhúsinu, er eins víst, að þar sé fullt hús kvöld eftir kvöld af unglingum á þessu reki. Þeir drattast heim einhverntíma nætur til þess að sofa, en komandi dagur sýnir ljóslega í hverju skemmtun næturinnar var helst fólgin. Ef foreldrarnir ávíta barn sitt fyrir næturgöltið, er þeim annaðhvort ekki ansað eða þá, að tilsvörin eru allt annað en ástúðleg. Hverju er þetta að kenna? Upplagi barnsins, heimilislífinu, agaleysi þar og afskiptaleysi eða þeim miklu peningum, sem börn hafa nú milli handa? Eða er þetta bein afleiðing af freistingum þeim, sem sjoppulíf þorpsins venur unglingana á í allskyns myndum? Ég veit ekki. Hitt veit ég, að víða á heimilum er þetta óbærilegt ástand.
Það væri ef til vill ráð, að foreldrar minnkuðu vasapeninga barnanna að miklum mun, og létu þau greiða fæði og annan lífskostnað, ef þau stunduðu vinnu utan heimilisns. Foreldrarnir gætu svo lagt þá peninga á bók til handa barninu, sem það svo fengi, t.d. við fermingu eða önnur sérstök tímamót. Ég hef átt tal við foreldra um ofanritað, og hafa þeir lýst þessu á grátlegan hátt, svo ótrúlegan, að ég gat varla trúað frásögn þeirra.
Þessu líkt eða annað eins þekktist ekki um og eftir aldamótin. Þá var hér ekkert bíó, kom varla fyrr en 1917, engar sjoppur eða kaffihús.
Slíkar ,,foretningar“ hefðu alls ekki dafnað hér. Börn og unglingar höfðu ekki neina teljandi vasapeninga og vinnan kallaði þá alla tíma dags að heimilinu. Í þann tíma fannst unglingum hið mesta ríkidæmi að eignast 5 og 10 aura, svo að ekki sé nú talað um 25-eyring. Svo stór peningur var oftast látinn í safnbaukinn til geymslu og mjög oft 10-eyringur líka. Að vísu gerðu þetta ekki allir krakkar, en fjölmargir. Sumir keyptu fyrir helminginn af 10-eyringnum, en létu hinn í safnbaukinn. Það var hægt að kaupa sér sælgæti fyrir 5 aura og létu margir sér það nægja. Í verslunum var nægilegt af allskyns góðgæti, svo sem súkkulaði, brjóstsykri, fínum smákökum o.m.fl., meira að segja ,,Export dobbeltöl“ og gosdrykkir. En þetta var til lítillar freistingar, nema ef vera skyldi fínabrauð og brjóstsykursstangirnar. Það var líka ódýrt þá. Ölið var aðeins fyrir fullorðna fólkið.


Kvikmyndir


Ég sagði, að bíó hefði ekki komið hér fyrr en 1917. Það er rétt að því leyti, að síðan hefir bíó starfað hér. En árið 1911 eða 1912 var hér starfandi bíó, þó að það hætti störfum rétt strax aftur.
Þegar þeir komu frá Ameríku, Magnús Eiríksson á Vesturhúsum og Sveinbjörn Jónsson í Dölum 1911 eða 1912, komu þeir með litla kvikmyndavél og nokkrar filmur. Þeir sýndu svo lifandi myndir í Gúttó. Aðgangur kostaði 10 aura fyrir börn en 25 aura fyrir fullorðna. Þetta þóttu undur mikil og býsn, og rak forvitnin marga niður í Gúttó. Maður varð að eyða 10-eyringnum í þetta, og býst ég við, að sumum hafi þótt það harðir kostir. Sú upphæð lá ekki á glámbekk, og hefir sumum hverjum ábyggilega orðið erfitt að sníkja þá af pabbanum.
Svo var byrjað að sýna sannkallaða prakkaramynd. Strákur svona 15 ára braut rúðu í húsi. Menn komu hlaupandi út og ætluðu að taka stráksa. En hann tók þá til fótanna og hljóp út á lóðina.
Þar var stórt vírbyrgi, sem hafði dyr á báðum endum og var til að sjá um 8-10 metrar á lengd. Strákurinn hljóp inn í byrgið, beið svolitla stund og lét karlana komast alveg að framdyrunum. Þá hljóp hann út um innri dyrnar og lokaði þeim utan frá. Karlarnir þutu á eftir honum inn í byrgið, en hann hljóp þá að hinum dyrunum og lokaði hurðinni. Allir karlarnir, minnst 5 eða 6, voru þar með orðnir fangar í þessu búri.
Skammt þar frá var vatnshani með slöngu. Strákurinn opnaði fyrir vatnið og lét bununa ganga á karlana í byrginu, sem létu öllum illum látum. Svo kom stúlka þarna og ætlaði að opna byrgið, en stráksi lét þá vatnsgusuna ganga á hana, svo að hún kútveltist, rass yfir haus, og lá síðast á fjórum fótum á jörðinni með pilsin fram á haus, en vatnið buldi á bossanum á henni.
Jú, vissulega var þá hlegið í Gúttó. Margur hélt um magann og hló sig máttlausan.
En svo kom önnur stutt mynd. Þar voru svertingjar í stríði með byssur og fleira. Margir karlmenn eltu þá ríðandi og sýndust koma á harða spretti fram í salinn. Skotreykirnirnir úr byssunum sáust, og allt varð í uppnámi. Við krakkarnir grenjuðum af hræðslu og margir hlupu út, guðsfegnir að komast úr stríðinu út á hólinn hjá Guttó. Sumir hafa líklega hlaupið alla leið heim og haldið að Tyrkinn væri þarna á ferðinni.
Þó að mörgum hafi ef til vill þótt gaman að sjá þessar lifandi myndir og langað að fara aftur, þá voru auraráðin ekki meiri en það, að fæstir gátu leyft sér það nema ef til vill einu sinni eða tvisvar, meðan þeir sýndu myndirnar. Þeir höfðu aðeins fáar myndir, og þær urðu gatslitnar. Líklega hefur verið miklum erfiðleikum bundið að fá myndir frá Bandaríkjunum, og þar sem fyrirtækið bar sig heldur ekki, urðu þeir að hætta starfa þessum hér.
Lengi á eftir vorum við Hjálmar í Dölum oft niðri í Dalahjalli að skoða gömul filmuslitur, og líklega hefir þessi fyrsta kvikmyndasýningavél orðið ryði og öðrum skemmdaröflum að bráð, einmitt í Dalahjallinum.


Í fjörunni


Skemmtanir unglinga um þessar mundir voru fjölbreyttar, en ódýrar. Ein helsta skemmtan stráka upp úr aldamótum var það, að vera niðri í fjöru og búa til flóðgarða úr sandinum. Síðan flaut sjórinn í kringum þá bæði í sogum og með hækkandi sjó. Var reynt að halda þeim heilum sem allra lengst með stöðugum ámokstri. En allt kom fyrir ekki. Sjórinn vann á þeim og urðu strákarnir þá að flýja í ofboði, oft meira en rassblautir. Þá fór maður úr sokkunum, vatt þá sem best, sló þeim við klappirnar, svo mesta bleytan fór úr þeim, og klæddi sig svo í þá aftur. Verst var, þegar buxurnar blotnuðu líka. Þá varð oftast að fara heim, og var þá ekki að sökum að spyrja. Kannske slapp maður við rassskellingu, en lokaður var maður inni, oftast það sem eftir var dagsins, og skipað að fara að læra í skólabókunum.
Þó að slæmt þætti að fá okkur strákana heim blauta neðan úr fjöru, þá var hitt þó verra, þegar verið var að veiða stórmurta á Nausthamri eða á Gömlu-Steinbryggjunni (fyrir neðan Brydabræðsluhúsið).
Þá var stundum ljót verkun á okkur. Blautir upp fyrir haus, allir staðir út í grút, sem við beittum, og var þarna nærtækur frá bræðsluhúsunum í Nausthamri og hjá Brydaskúrnum, og slorugir af stórmurtanum. Það var ljóta verkunin. En gaman var að atast í þessu, enda var þarna ávallt margt um manninn, oftast miklu fleiri en komust að til að veiða á klöppunum.
Slagsmál urðu stundum út af plássinu og beitunni og lenti margur í sjóinn, en slíkar erjur var ekki verið að erfa til næsta dags, þótt bleytan kostaði mann flengingu, þegar heim kom. Henni varð að taka með þögn og þolinmæði.


Farið ,,út á“


Strákar voru vitanlega uppi í hverjum bát. Stundum fengu þeir lánaðan bát hjá einhverjum góðum manni og réru þá út um Botninn, inn að Básaskeri, inn á Bólverk, inn undir Löngu o.fl. Ekki ósjaldan lenti tveim skipshöfnum af strákunum saman í reglulegan sjóslag. Þá var barist með kjafti og klóm, spýtum og árum. Þótti þá gott að eiga háfsegg og geta kastað á óvinina. Ekki voru þau þó notuð, fyrr en mikill æsingur var kominn í mannskapinn. Þá var einskis svifist og allt látið fjúka, sem að gagni mátti koma.
Eitt aðalleiksvæði okkar strákanna var hjá Austurbúðinni. Þar var ágætt luktarljós, sem lýsti vel upp sundið milli búðarinnar og Kumbalda, sundið milli búðarinnar og gamla verslunarhússins og nær því austur að Brydastofu og Kornloftinu.
Þarna mættust oft margir strákar. Var þá verið í saltabrauðsleik eða þar hafðar aðalstöðvar fyrir flokkaleik. Stundum var verið að reyna að erta Garðdrauginn og mana hann til að birtast okkur. Var þá staðið skammt frá Kornhúsinu, en þaðan væntum við hans helst. Ekki mátti mikið út af bjá til þess að allur skarinn tæki til fótanna og flýði, en aldrei komu særingar okkar að gagni að ég held, - og þó?


Söngleikir


Uppi á Ofanbyggjaratúnum, í Níelsarlág, inni á Póstflötum og á Péturstúni var oft verið í söngleikjum, og voru þátttakendur þá stúlkur og piltar.
Skólabörnum fannst mikið til um þá leiki. Meðal söngleika mætti nefna ,,Ræningjabönd“ eða ræningjaleik. Með leiknum var sungið eftirfarandi m.a.:

Fram, fram fylking, forðum okkur hættu frá,
því ræningjar oss vilja ráðast á.
Sýnum nú hug, - djörfung og dug.
Vakið, vakið, vaskir menn, - voða ber að höndum.
Sá, er verður síðastur, - mun sveipaður verða í böndum.


Í þessum leik var einnig oft sungið með sama viðlagi eftirfarandi danskt stef:

Bro, bro, brille,
klokken ringer elleve etc.


Oft voru og skólabörn í leik er nefndis Skógarleikur. Þá var sungið í leiknum:

,,Vil du være med í Skoven, jeg spör,
vil du lege med os? Ja, jeg gör,
Tralla la la, – i Skoven som för...


Hringaslá


Ungir og gamlir, fólk á öllum aldri, höfðu mjög gaman af leik sem kallaður var Hringaslá, er það fór t.d. í skemmtiferðir út um Eyjuna eða út í úteyjar. Þá var og í slíkum ferðum mikið verið í leik, er nefndist „Eitt par fram fyrir ekkjumann“, og var þátttaka í honum geysimikil. Leikurinn olli oft glensi og gamni, er fólk datt og kútveltist í grasinu. Vakti leikur þessi mikla kátínu enda mjög skemmtilegur.

„Saltabrauðsleik“ hef ég lauslega minnst á áður. Hann þurfti að vera, þar sem gott var um felustaði. Alltaf var metingur um það, hver skyldi fyrstur „liggja á“ og leita. Voru hafðar ýmsar aðferðir til þess að velja fyrsta leitandann, en eftir það skyldi sá liggja næstur og leita, er fyrstur fannst, áður en hann gat saltað brauð fyrir sig í saltborginni. Við fyrsta valið var oft notuð eftirfarandi klausa, þulin af einhverjum einum, sem valinn var úr hópi leikenda:

Gekk ég upp á eina brú,
þar sá ég standa klukku.
Hvað sló hún mörg högg?
Svara þú mér nú.

Við hvert orð í klausunni benti þulurinn á leikendur, sem höfðu stillt sér upp í röð, - og sjálfan sig. Sá sem hlaut síðasta orð þulunnar, NÚ, nefndi þá einhverja tölu frá 1 til 12, sem klukkan átti að slá. Var þá byrjað á honum og talið upp að nefndri tölu og um leið bent á hvern einstakan í röðinni. Síðan var byrjað aftur á einum upp að tólf, ef leikendur voru fleiri en nefnd tala. Sá, sem hlaut þá tölu, er klukkan sló, var úr valinu. Þannig var svo haldið áfram þar til aðeins einn var eftir. Þá skyldi hann liggja á og leita fyrstur.
Fleiri slíkar þulur voru notaðar, t.d.:

„Gekk ég upp á eina brú,
þar sá ég sitja fína frú,
hún var eins og kálffull kú,
kannske það hafi verið þú?“...

Sá sem hlaut síðasta orðið – ÞÚ – var úr valinu og svo haldið áfram þar til einn var eftir. Hann skyldi ,,liggja á“ fyrstur.

Mikið var verið í „blindingsleik“. Var hann helst leikinn þannig, að tveir eða tvö leiddu krakkann milli sín og var hann með bundið fyrir augun. Síðan var haldið af stað og blindingurinn látinn lenda í einhverjum farartálmum, t.d. vaða yfir poll, leiddur inn í anddyri einhvers húss og skilinn þar einn eftir. Stundum var og farið með hann einhverja leið, og átti hann þá að þekkja staðhætti með því að þreifa á ýmsu og segja svo, hvar hann væri staddur. Svo tók annar við og var blindingur, og þá fundið upp á enn öðrum aðferðum.


Undir Pöllum


Þá þótti ekki leiðinlegt að leika sér „undir Pöllum“ sem svo var nefnt. Krærnar neðan við Strandstíginn voru byggðar á háum tré- og múrstöplum. Undir var víða sandur og klapparbelti. Þarna féll sjórinn undir, þegar að flæddi, en fjaraði svo langt undan í útfallinu. Þarna þótti strákum skemmilegt að leika sér, sérstaklega eftir háflæði. Þá var þar hreinlegast. En ef satt skal segja, var þetta óþrifalegur leikvangur. Lúgur voru á gólfum fiskikrónna, þar sem upp var tekinn sjór á flæðum, en slori og margskonar óþverra rótað þar niður um gatið þess á milli. Auk þess bar flæðandi sjórinn með sér margskonar drasl og óþverra, sem varð eftir, er fjaraði út. Einnig voru hreint ekki fáir sem gengu örna sinna undir pallana, þegar aðstæður leyfðu. Allt þetta var strákum vel kunnugt, en þeir kærðu sig kollótta um það. Þarna léku þeir sér mikið, enda þótt þeir yrðu að hoppa yfir eða krækja fyrir smávegis drasl í leik sínum. Þetta fundum við strákarnir ekki þá, en það er auðsætt, hversu mjög óþrifalegur leikvöllur þetta var.
Verið var þarna í saltabrauðsleik, flóðgarðabyggingum o.fl., o.fl., og man ég vel, að illa vorum við verkaðir stundum, af sandi, slýi af stöplunum, slori o.fl., en svo verkaði hver sig eftir bestu getu, skolaði af sér í sjónum, og síðan haldið á aðra leikvanga.
Þeir, sem áttu byrðinga og aðra litla báta, sóttu mikið niður í klappirnar við pallana og víðar, t.d. Nýjabæjarlónið, Litlabæjarvikið, öðru nafni Anesarvik, eða vestur í Bratta. Þar var allsstaðar gott að sigla á milli klappanna. En ekki áttu allir slík leikföng, og þeir, sem svo ríkir voru, leyfðu þá hinum að vera með sér. Aðrir voru þá gjarna að veiða smá ufsaseiði, sem mikið var af við klappirnar og í lónunum. Var þá oftast fiskað í bátinn, en formaður var vitanlega eigandi byrðingsins.


Fyrsta jólatrésskemmtunin


Sennilega mun það hafa verið 1908, að Gísli J. Johnsen kaupmaður hélt jólatrésskemmtun í Gúttó fyrir öll börn í þorpinu. Var skemmtun þessi mjög fjölsótt og mikil nýbreytni í skemmanalífi barna og unglinga hér. Fyrst var boðið börnum innan 10 ára aldurs um eftirmiðdaginn, en um kvöldið var boðið börnum 10 ára til 14 ára aldurs.
Stórt jólatré var í salnum, sem gengið var í kringum, spilað á harmoniku af Halldóri Brynjólfssyni blinda, en börnin sungu undir jólasálma og ættjarðarljóð og lög. Veitingar voru miklar og góðar. Hvert einasta barn fékk eitt stórt epli, brjóstsykurspoka og annan poka með fínabrauði, sem kallað var. Þetta þótti meir en rausnarlegt af Gísla Johnsen. Er alveg fullvíst, að flest af börnunum hafa aldrei átt jafnmikið af sælgæti í einu, og sum jafnvel aldrei bragðað sumt af því, sem fram var borið. Þá var og veitt mjólk og kökur. Ég man það vel, að við skemmtum okkur konunglega, krakkarnir, og má segja, að þetta hafi verið okkur eftirminnilegur þrettándi.
Þarna var mesti fjöldi af fullorðnu fólki, annað hvort starfsfólk verslunar Gísla Johnsen, sem þá úthlutaði sælgætinu, eða fólk úr þorpinu, sem var í fylgd með börnum sínum. Einnig það fólk fékk einhverjar góðgerðir, svo að segja má með sanni, að vel hafi verið veitt og fyrir öllu séð. Skemmtun þessi var lengi í minnum höfð hér, og þótti rausn Gísla Johnsen og þeirra hjóna mikil eins og oft síðar á ýmsum sviðum.


Sundiðkanir


Allmargir unglingar eyddu frístundum sínum í að læra sund. Um 1890 kenndi hér sund Friðrik Gíslason í Hlíðarhúsi, síðar eða eftir að almenn sundkennsla hófst (1894), þeir Guðjón Jónsson sýslunefndarmaður í Sjólyst, og Hjalti Jónsson síðar skipstjóri.
Áhugi fyrir sundinu var strax mikill, sem sjá má af því, að 1895 voru hér um eða yfir 40 sundæfingar. Þá voru kennarar þeir Guðjón Jónsson og Sigurður Sigurfinnsson síðar hreppstjóri, þar eftir kenndi Gísli J. Johnsen, ásamt Jóhanni Jónssyni á Brekku, síðar trésmiði og hinum mesta listamanni, þá Björgúlfur Ólafsson er síðar varð læknir. Einn okkar ágætustu sundmanna, Árni J. Johnsen, lærði fyrst hjá bróður sínum Gísla Johnsen, en næsta ár lærði hann hjá Björgúlfi Ólafssyni¹). Kennt var þá í Skildingafjöru við Grjótgarðinn, sem var í fjörunni við Slippinn og víðar. Síðar urðu hér sundkennarar þeir Haraldur Einarsson og Jónas bróðir hans, sem kenndu hér 2 – 3 sumur, Guðjón Guðjónsson, Strandbergi, Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands, Kristinn Ólafsson á Reyni o.fl.
Hér voru sem sagt margir ágætir sundmenn, og man ég sérstaklega eftir t.d. Guðjóni á Strandbergi, Ágústi Eiríkssyni, Kristni Sigurðssyni á Löndum, Haraldi Eiríkssyni á Vegamótum, Reynisbræðrum o.fl. Eitt sinn var danskur piltur í Stakkagerði sem Stanley hét. Hann var ágætur sundmaður. Eitt sinn man ég eftir, að hann synti frá bryggjunni og út undir Klettsnef og sá honum enginn bregða.
¹) Líklega mun það hafa verið 1911/12, sem Árni Johnsen var ráðinn sundkennari í Rangárvallasýslu og kenndi sund í Ljótarstaðavatni í A-Landeyjum. Var nemendafjöldi hans þar a.m.k. 40-50, þar á meðal ég sjálfur, sem þá var smali á Bryggjum í Landeyjum. Þess má og geta, að Árni Johnsen hefir líklega bjargað 7 manns frá drukknun hér og unnið frekari sundafrek.


Skíðaferðir


Skíðaferðir hafa aldrei verið hér sérlega miklar, enda sjaldan mikið um góðan skíðasnjó og skíðabrekkur ekki margar. Helst fóru menn upp í Helgafellsdal, inn á Brimhóla eða skáskáru brekkuna niður norðan í Hánni. Það gerðu reyndar ekki nema þeir bestu.
Heyrt hef ég talað um, að eitt sinn hafi Bergur frá Rima í Mjóafirði rennt sér á skíðum niður frá Litla-Klifi, Náttmálaskarði og niður á Póstflatir og hefði ekki orðið mikið fyrir því. Hann var víst afbragðs skíðamaður. Ekki vissi ég aðra leika það eftir Bergi að fara þessa leið, en nokkrir fóru brekkuna niður af Hánni og farnaðist vel. En Helgafellsdalur var í minni tíð talið besta skíðasvæðið.


Stultur


Þá áttu unglingar margir stultur, sem hér voru nefndar „öndrur“ og gengu mikið á þeim sér til gamans. Voru þær misjafnlega háar, en margir voru leiknir í þeirri list. Heyrt hefi ég, að Jón gamli í Gvendarhúsi hafi verið góður stultugöngumaður. Strákar hefðu einhverntíma manað hann, þó að hann væri þá orðinn aldraður, að ganga á stultum og lofa þeim að sjá leikni hans. Jón var þá ekki lengi að stíga á stulturnar og lék þær listir svo vel, að alla stórfurðaði á leikni hans.


Flokkaleikur


Flokkaleikur var mjög vinsæll leikur meðal unglinga. Oftast léku hann einungis strákar hjá Austurbúðinni, en þegar verið var uppi í Níelsarlág, sem var milli Vesturhúsa og Nýjabæjar, í túninu, voru stelpur oft með. Þarna voru ágæt leiksvæði og mikið notuð á haustin.
Krakkarnir mættu þar á góðviðriskvöldum frá kl. 6 til 8 og voru að leik frameftir kvöldi, allt til kl. 10, þau elstu. Oft voru þá 10 eða 12 í hvorum flokki. Var víða farið um og felustaðir vel valdir. Gat stundum tekið jafnvel allt kvöldið að finna flokkinn, sem faldi sig.
Ekki var óvanalegt, að heimsóttir voru þurrir þorskhausabaggar landmanna, sem voru víða, og hirtir nokkrir kjammar, sem étnir voru með góðri lyst. Hver strákur átti sjálfskeiðing, svo að engin vandræði urðu með að rífa kjammana. Ég er ansi hræddur um, að einnig hafi horfið nokkrar gulrófur úr görðum náungans. Ekki var það þó mikið. Þetta hvorttveggja var herramannsmatur, og alltaf voru krakkarnir svangir í leikjum sínum úti í náttúrunni, svo að þessi matarföng voru freistandi.
Bændur og búendur urðu að vonum hálfgramir vegna þessa athæfis okkar, sumir bálvondir. Hótuðu þeir jafnvel að skjóta baunum á hópinn, ef hann ekki snautaði burtu. Verstu prakkararnir tóku þessum aðfinnslum með góðlátlegu brosi, þar til einn garðeigandinn og bóndinn sást koma með byssu. Þá vorum við fljótir að hlaupa burtu, þótt engu væri skotið.
Sumum bændum þarna uppi frá var illa við allan þennan krakkafans, sem var að leik í Níelsarlág. Var hið mesta ónæði af honum, sérstaklega þegar unglingar „neðan úr Sandi“ voru að flækjast þangað uppeftir. Þeir krakkar voru frakkari í framkomu og ýmsum aðgerðum. Búendur ráku þessvegna oft alla „Sandkrakka“ burtu, en létu hina vera áfram í láginni. Það var raunverulega einka leiksvæði þeirra. Oft dró til áfloga í Níelsarlág milli Sandkrakka og krakka „ofan af bæjum“ og veitti þeim síðarnefndu oftast betur. Þar voru mestu kraftajötnar og frakkir á sínum heimahaug, t.d. Jón í Ólafsshúsum, Búastaða- , Oddstaða-, Gerðis- og Kirkjubæjarstrákarnir, að ógleymdum strákunum á Vesturhúsum.
Helst amaðist Jónas bóni í Nýjabæ við ólátunum, enda mæddi mikið á hans heimili, hávaðinn og atorkusemi sumra frökkustu strákanna.
Við máttum aldrei koma nálægt hólnum Frið hjá Nýjabæ. Það var stranglega bannað, og einmitt þessvegna vildu Sandstrákar gjarna kanna þar landslagið! Guðjón á Oddstöðum hafði hinsvegar gaman af ærslabelgjunum, eggjaði þá til glímu og átaka og hló að, er í hart sló. Hann fyrirgaf okkur alltaf, þótt nokkur víxlspor sæjust eftir okkur í kálgörðum hans, og hávaði yrði ærinn heima á hlaði á Oddsstöðum.
Eitt sinn sem oftar vorum við í flokkaleik. Byrjað var uppi í Níelsarlág, fyrst í langbolta, en síðar farið í flokkaleik. Liðið, sem fyrst átti að fela sig, tók svo á rás austur túnin og niður á túnið á Hofi. Þar var allstór kofi, sem reynt var að kúldrast inn í, en hann reyndist of lítill. Við vorum líklega 12 til 15 í hvorum flokki. Þaðan var þá haldið niður tún og niður á Skans. Litast var um eftir felustöðum, en engir fundust góðir. Aftur á móti var tekinn tollur af gulrófnagarði á Gjábakkabæjunum, síðan farið niður á Skansinn. Þar voru harðir hausabaggar, sem landmenn hafa líklega átt. Af þeim var tekinn góður tollur og svo haldið niður að Austurbúð. Þar vissi einhver af góðum felustað undir Austurbúðarpöllunum austast, og þangað var farið. Þar var stór og mikill hellir inn undir vegginn og tróðumst við þangað inn. Þar var upplagður felustaður. Þar vorum við svo allt kvöldið, allt fram til kl. 11, átum gulrófur og rifum í okkur harða hausa. Það þótti meiri lúxusinn. Þegar við loks þrömmuðum upp tún aftur, hrópandi „gefum okkur í ljós“ svaraði enginn, því að allir krakkar voru farnir heim. Síðar var ekki hægt að nota þennan felustað, því að ekki lentu alltaf sömu krakkarnir í sama flokki. Varð þá að finna aðra felustaði, sem oftast voru nógir.


Skautað á Vilpu


Mikið var verið á skautum á Vilpu í frostum á veturna. Þá voru allir á stjái, sem áttu skauta. Margir voru á hrossaleggjum, sumir á íslenskum skautum, á spýtukubbum, sleðum o.fl., en á seinni árum eða 1906/10 áttu þó nokkrir strákar útlenda skauta.
Vilpa gat orðið allstór, ef miklar leysingar höfðu verið fyrir frostin. Frárennsli hafði hún aðeins til austurs og rann þá með fram Kirkjubæjarveginum austur að Norðurbænum. Þar bjó Guðjón Eyjólfsson og Halla Guðmundsdóttir kona hans. Við þessar aðstæður gat svellið verið stórt og var þá umhleðsla Vilpu og girðingarinnar hjá henni í kafi undir ísnum. Stöku sinnum fóru strákar niður úr ísnum, en aldrei varð það að slysi.
Einhvernveginn björguðust allir þótt stundum skylli hurð nærri hælum og var í sannleika sagt engu líkara en að einhver hulinn verndarkraftur vekti yfir lífi krakkanna í Vilpu.
Inni í Herjólfsdal fóru margir síðari árin. Daltjörnin gat orðið vel stór í leysingum og svellið þar oftast mikið betra en á Vilpu. Var stundum svo margt um manninn á Daltjörninni á skautum, að varast var þverfótað. Þangað sóttu margir fullorðnir skautaferðir. Þar var hér einn besti skautahlauparinn Brynjólfur Sigfússon kaupmaður. Þá mætti minnast trésmiðs úr Reykjavík er Jósef hét. Hann var hér við húsasmíðar, sérstaklega slyngur á skautum. Margir kunnu ágætlega á skautum hér, en þessir báru þó langt af.

——


Stundum safnaðist mikið fyrir af vatni og sjó á Póstflötunum við Klifin. Þegar vatnið svo fraus á vetrum, var oft verið þar að leikjum, ýmist á skautum, sleðum eða að hlaupa á jökum. Varð þarna nokkuð djúpt vatn, og höfðu strákar stundum lítinn bát til leiks og umferðar. Fengu þeir oft ódýrt bað þarna og rauðan rass fyrir blautan, er heim kom.


Sprang


Þótt nokkrir staðir væru á Heimaey, þar sem strákar gátu lært að spranga, hygg ég að Skiphellar hafi verið bestir og algengastir sem skólastaður í þessari list. Strax á vorin var farið með bandið inn undir Hella, þar sem það var geymt uppi á brún allt sumarið og til hausts. Í hvert skipti, sem spranginu lauk, fóru einn eða tveir strákar upp á brún og drógu upp bandið og hringuðu það niður. Svo næst þegar farið var, fóru einn eða tveir upp á brún, gengu frá festu bandsins utanum móbergssnös, sem var mjög vel löguð til þess að koma bandinu á hana, settu upp rofalíu eða torf í skoruna, sem bandið lá í niður úr brúninni, svo að það skærist ekki þar sundur.
Sprangið hófst á því, að þessir tveir, sem upp fóru, fóru niður á lærvað. Bandinu var þá brugðið undir annað lærið, hægra eða vinstra eftir vild. Með annarri hendinni er haldið við bandið að aftan, en hinni um bandið að framan nokkuð fyrir ofan brjósthæð. Svo lætur sígandinn sig síga smátt og smátt niður eftir bandinu, um leið og hann spyrnir sér frá berginu og tekur útrið eða hliðarrið. Lærvaður er mikið notaður í fjallaferðum. Þótti ávallt heldur lélegt að láta binda sig, þótt farið væri í töluverðu lofti niður og það allt að 10 til 15 faðma bjarg.
Mætti minnast á það, að niður í Dufþekju, sem er mannskæðust fjallaferð í Eyjum og talið er, að hrapað hafi þar 18-19 menn, er t.d. alltaf farið á lærvað. Sagt var, að Jökulsá á Sólheimasandi og Dufþekja kölluðust á um slysfarir, og er sagt, að svo hafi virst vera um mörg ár, en svo fór Jökulsá fram úr Dufþekju, enda hefir enginn hrapað úr Dufþekju síðan, en hinsvegar 21 eða 22 drukknað í Jökulsá.
Eftir að lærvaðnum lauk, var næsti maður kominn í bandið og tók að lesa sig upp á tábragði. Maður grípur þá báðum höndum í bandið, eins hátt og maður getur fyrir ofan höfuð sér. Síðan vegur bjargmaðurinn sig upp á handafli allt í brjósthæð, en svo eru fæturnir dregnir upp eins hátt og hægt er og bandinu, sem lafir beint niður milli fótanna, brugðið með öðrum fætinum undir ilina á hinum fætinum og síðan stigið ofaná bandið þar, sem það liggur á ristinni. Þegar þannig hefur verið fengin festa á bandinu, lyftir maðurinn sér með fót- og handaflinu, um leið og hann rennir höndunum upp eftir bandinu, grípur fast um það og tekur svo nýtt bragð með fótunum.
Þannig er farið að þar til upp er komið. Aðalerfiðleikarnir voru að ná sér inn fyrir bjargbrúnina. Þannig er það víða og verður þá alla aðgæslu að hafa við, svo að allt fari vel. Margir óvaningar fóru í Dönskutó í Heimakletti. Þar var allmikil fýlabyggð. Þeir urðu að lesa sig upp úr tónni, annars urðu þeir að „láta úti“ sem kallað var, þ.e. að gleðja samgöngumenn sína í fjallaferðinni. Það þótti líka amlóðaháttur að geta ekki lesið sig upp úr Dönskutó. Menn notuðu þá helst tábragð, en brúnin er slæm og gekk mörgum það mjög illa að komast upp á hana. Sumir urðu að láta sig dúndra niður aftur og láta síðan draga sig upp. Það þótti mörgum óvaningnum leitt. Stundum var og strengt tóg frá brúninni niður í stóran stein, sem var skammt frá brúninni í Dönskutó. Máttu þeir þá reyna að „flá kött“ upp eftir bandinu, en það þótti ekki fjallamannsleg aðferð.
En undir Hellum var sem sagt aðalsprangskólinn. Þar lærðu strákar að taka hliðarrið, fyrst af neðsta bekk og smáhækka sig síðan upp, allt upp í Grastó, eftir því sem leikni þeirra óx. Grastóin var mesti og erfiðasti sigastaðurinn, enda voru hliðarriðin þaðan löng og hröð. Það var alltaf að gæta þess vel, að ekki væri slinkur á bandinu eða það fast á nibbu. Slíkt gat kostað að sigmanni sneri í riðinu. Svo spyrnti maður sér frá berginu og flaug suðureftir, gaf mjúklega eftir, þegar fæturnir námu við bergið, spyrnti sér svo þaðan sem best og náði sér inn á efsta bekk. Þannig var farið stall af stalli, uns maður að síðustu náði sér inn á neðsta bekk.
Þetta var skemmtilegur leikur, enda mikið iðkaður af drengjum hér, sennilega frá ómunatíð. Og enn í dag er þetta gert, þó að nú noti drengir aðra aðferð en áður var, þ.e. að hanga neðan í bandinu, sem allt er sett hnútum. Nú hafa drengir bandið ekki lengur um lærið eða fara lærvað, hvað þá að þeir geti lesið sig upp eftir því. Það eru ólíkar aðfarir.
Það kom stundum fyrir, að í odda skarst milli stráka, sem voru að spranga undir Hellum, og urðu þá all alvarlegar deilur og jafnvel handalögmál. En þetta jafnaðist þó oftast furðu fljótt. Eitt sinn urðu slagsmál mikil milli Guðmundar Árnasonar í Ásgarði og Ólafs uppeldissonar Sigurlínusar Stefánssonar, Óla Lín, sem kallaður var. Hann var alltaf í slagsmálum og þótti bæði ill- og harðskeyttur. Slógust þeir lengi, en voru síðan skildir. Hafði þá Óli Lín orð um að hefna sín síðar. Var hann manaður til stórræðanna af mörgum strákanna, sem margir fylgdu Guðmundi að málum, hétu honum fulltingi og sögðu honum að láta engan bilbug á sér finna, þrátt fyrir stóryrði Óla Lín. – Skoraði þá Ólafur á Guðmund að mæta um kvöldið á Flötunum innan kálgarða (þar sem nú er þvottahúsið og fleiri hús) og mundi hann safna að sér liði til þess að jafna um okkur hina svo um munaði.
Var þá hafist handa og liði safnað fyrir kvöldið, og urðum við allmargir áhangendur Guðmundar, sem lofuðum honum fullu fylgi. Svo leið að hólmgöngutímanum, og vorum við mættir þarna innfrá, 20 strákar tilbúnir í allt. Þá komu þeir Óli Lín og hans föruneyti, sem munu hafa verið 8 eða 10 strákar. Voru þeir óspart egndir til atlögu, en enginn þorði að byrja. Stóð þá Óli Lín upp og sást blika á dolk mikinn í hendi hans, sem vitanlega átti að hræða okkur hina með, en þegar hann sá, að Guðmundar-menn voru hvergi smeykir og tilbúnir til varnar, hörfaði Óli frá og allt hans fylgdarlið og röltu þeir skömmustulega niður Flatirnar. Þóttu þeir farið hafa hina mestu sneypuför og dundu á þeim skammirnar og hvatningarorð til atlögu. Ekkert dugði og hurfu þeir af vígvellinum við lítinn orðstír. Engin eftirmál urðu vegna uppþots þessa, og aldrei reyndi Ólafur að hefna sín neitt á Guðmundi. Hann hefir séð, að slíkt hefði til lítils orðið, nema egna alla stráka til atlögu við sig, svo að kjark hans hefir brostið. Ég man það glöggt, að búið var að skipa mann móti manni og minnir mig, að Óskar Bjarnasen eða Sigurður Högnason í Vatnsdal hafi stjórnað öllu meðal okkar sem fylgdum Guðmundi.

[Laust smáblað:]
Auk þess voru margskonar aðrir leikir iðkaðir af unglingum inni á Póstflötum, leikir, sem stefndu að íþróttum og stæltu líkamann. Þar voru t.d. iðkuð hlaup, víðavangshlaup og kapphlaup, langstökk milli grasrofanna, sem þarna var mikið af. (Voru síðustu leifar hins mikla graslendis, er náði frá Hánni austanverðri, norður að Almenningsréttinni, upp að Hlíðarbrekkum og fram svæði það, sem nú er Innri Höfnin). Þá voru og Höfrungahlaup mikið iðkuð. – Sumir þátttakendur stóðu þá hálfbognir, aðrir nær uppréttir og var nokkuð bil milli þeirra. Hinir tóku svo hratt tilhlaup og hlupu yfir þá, sem stóðu, með því að styðja höndunum á bak þeim eða axlir. Margir voru vel æfðir í þessu og þurftu stutt tilhlaup.


Skiphellar og örnefni:
1. Neðstibekkur 6. Ferðarauga
2. Miðbekkur 7. Blásteinninn
3. Hatturinn 8. Hnjúkurinn
4. Efstibekkur 9. Skoran, Finnskora, síðar Siggaskora
5. Grastóin

Eitt sinn vorum við undir Hellum að spranga Eyjarhólasystkinin, Sigríður, Jóhannes, Guðlaugur Gíslabörn Geirmundssonar og undirritaður. Ég var þeirra elstur.
Nú ætlaði ég að fara úr Grastónni og fara með bandið með mér, þar eð varast treysti ég eða vildi, að strákarnir færu að fara upp á Efstabekk til þess að rétta mér bandið þaðan og í Grastóna, en af Efstabekk var bandinu venjulega slöngvað yfir til þess sem úr Grastónni ætlaði að fara. Allt gekk vel, en þegar ég var að komast yfir í Grastóna, missti ég af bandinu.
Nú voru góð ráð dýr. Ég vildi reyna að fara til baka úr Grastónni, sem þó aldrei var gert, og vildu systkinin það ekki. Það varð því úr, að Sigríður Gísladóttir fór upp á Efstabekk og gat slöngvað bandinu til mín. Það var hraustlega gert af ungri stúlku. En hún var vel vön að tildrast og vildi heldur gera þetta sjálf, heldur en bræður hennar, sem voru miklu yngri, færu að reyna þetta. Ekki efast ég um, að þeir hefðu getað þetta, en Sigríður tók af þeim ráðin og gerði þetta sjálf. Ég held ég segi ekki of mikið, þótt ég fullyrði, að hún var mesti fjallaköttur og algjörlega óhrædd að tildrast.

——————————


Mér dettur í hug sem áframhald af hinu eftirsótta bandi á Vilborgarstaðamyllunni, að ekki var óvanalegt, að strákar tækju bandið af henni og færu með það austur á Urðir og sprönguðu þar rétt hjá Gyðugati, þ.e.a.s. hjá Helli. Eitt sinn tóku þeir bandið sem oftar, vitanlega í leyfisleysi, og fóru með það austur á Urðir. En þá sá Árni bóndi til þeirra, hljóp á eftir þeim og tók af þeim bandið.
Ekkert varð hann reiður við strákana, enda var hann hið mesta ljúfmenni, en sagði aðeins: „Greyin mín, látið þið bandið vera í friði á myllunni.“
Annað skipti fóru strákar í hlöðuna hjá honum og náðu þar í reipi, sem þeir tóku traustataki, og fóru með austur á Urðir til að spranga þar. Þá kom Árni bóndi að þeim í þann mund, er þeir voru nýbúnir að ganga frá sér og einn á leið niður. Þá sáu þeir, sem undir sátu, hvar Árni kom. Urðu strákarnir lafhræddir, svo að þeir slepptu bandinu með stráknum í, sem kominn var niður til hálfs og féll hann alla leið niður.
Strákurinn var Árni Oddsson, sonur Jóhönnu Lárusdóttur, síðar á Grund, og unnusta hennar Odds Árnasonar, Þórarinssonar. Það bjargaði Árna Oddssyni, að fallið var ekki hátt og að hann kom á fæturna niður. Ekkert varð Árni bóndi vondur við strákana vegna reiptökunnar úr hlöðunni, en hinsvegar urðu strákarnir mjög smeykir við hann í þetta skipti. En sem sagt, Árni var hið mesta ljúfmenni og hefur sennilega skilið löngun strákanna til að æfa sig í að spranga. Hann hjálpaði svo til að ná Árna Oddssyni upp, sem var furðu lítið meiddur.

——————————


Ekki verður vitað hvenær strákar fóru fyrst að spranga undir Skiphellum. Það hefur verið snemma á árum. Áhugi fyrir þeirri list hefir ávallt verið hér mikill og Skiphellar verið skóli verðandi bjargmanna í Eyjum.
Oft áttu unglingar erfitt með að fá sigabönd, þó að einhvern veginn greiddist úr þeim vanda þeirra. Það kom fyrir, að drengir tóku bönd traustataki í fjarveru eigenda. Svo var a.m.k., er þeir tóku band það, sem Árni á Vilborgarstöðum batt með kornmylluna á hólnum þar.
Þegar hann sást fara til kirkjunnar, fóru strákarnir, losuðu bandið, fóru með það undir Skiphella og sprönguðu á því. Þeir vissu nákvæmlega um kirkjutímann og fjarveru Árna bónda, svo að þeir gættu þess vandlega að vera búnir að koma bandinu á sinn stað nákvæmlega í sömu stellingar og verið hafði, þegar Árni kom úr kirkju. Þeir urðu að taka vel eftir, hvernig bandið var bundið undir mylluna, svo að Árni sæi ekki neina missmíði þar á, er hann bar þar að. Þessu lík voru fjölmörg dæmi um bandlán strákanna fyrr og síðar.
Um aldamótin fór að lagast með bönd. Kaðlar fóru þá að verða almennari og fengu strákar gefins gömul bönd, er tímar liðu. Undir Skiphellum var alltaf fjöldi stráka að spranga, og urðu margir þeirra síðar mestu fjallgarpar og sigamenn ágætir. Þarna lærðu þeir hliðarrið, að lesa sig á handafli, tábragði eða leggjabragði, síga ofan af brún og niður, lærðu að fara á lærvað, taka loftsig o.s.frv. Mesta hliðarriðið var úr Grastónni og Efstabekk, en loftrið af Hnúknum og skorunni. Byrjendur fóru fyrst af Neðstabekk, síðan úr Miðbekk og síðast af Efstabekk og úr Grastónni. Þá gátu þeir bestu farið af Hnjúknum og Skorunni, er Grastóin var sigruð. Lært var að ná sér inn á bekkina, hvern eftir annan. Fara t.d. úr Grastónni, ná sér inná Efstabekk, þaðan að ná sér inn á Miðbekk og síðast inn á Neðstabekk. Þaðan var svo farið og náð sér inn í Ferðarauga. Af Blásteininum var mikið hliðarrið og glæsilegt loftrið efst úr skorunni. Hún var síðar nefnd Siggaskora, og þá kennd við Sigurð Sveinsson á Sveinsstöðum, en þaðan fór hann stráka fyrstur líklega 1912.
Einn ætlaði einu sinni að fara hliðarrið ofan af brún fyrir ofan Ferðarauga. Sú ferð hans endaði þannig, að hann lenti í rofinu fyrir neðan og meiddist nokkuð. Þó var það minna en ætla mætti. Líklega hefur Siggaskora fyrrum verið nefnd Finnskora, þar til bendir orða samtengingin „Finnskorukjaftur og Ferðarauga“.
Örnefni þarna undir Skiphellum eru: Ferðarauga, Blásteinninn, Skoran, Hnjúkurinn, Hatturinn, Neðsti-, Mið- og Efstibekkur og Grastóin. Örnefni þessi hverfa nú óðum fyrir skrípanafnagiftum stráka, þar eð enginn hefir sagt þeim hið rétta og láta hvern stað halda sínu upprunalega nafni.
Bæjarfélagið hefir hin síðari árin lagt drengjum til sigabönd og haft umsjónarmann með þeim, séð um góða festing o.fl., en hinu sama hefir láðst að láta kenna strákunum rétt örnefni, svo að þau eru sem sagt óðum að gleymast. Þá hafa drengir nú þá aðferð að hanga ávallt í enda bandsins, sem alsett er hnútum, í stað þess að bregða bandinu um lærið, eins og gert er í fjallaferðum og við bjargsig. Kennara hefir því auðsjáanlega vantað þarna svo vel færi. Mundi lítið verða úr þessum aðferðum drengjanna, ef í fjöll færu með bjargmönnum.
Fyrrum voru sjaldnast strákar „ofan fyrir Hraun“ við sprang undir Skiphellum. Þeir héldu sig mest í Ofanleitishamri og Töglunum. Höfðu þeir þar band og tildruðust lausir um bekki og grastætlur. Bændur fyrir ofan hraun veiddu vetrarfýl í Hamrinum, en lunda að sumrinu til, og voru strákarnir þá í fylgd með þeim. Þannig kynntust þeir Hamrinum og lærðu að ferðast um hann lausir. Þeir voru ekki einvörðungu á Ketilbekk og í Góðu ofanferðinni að tildrast, heldur um allt þetta hættulega bjargbelti allt sunnan frá Töglum norður undir Blákrók, jafnvel norður að Kaplagjótu. Ofanleitishamar var því hinn raunverulegi bjarggönguskóli drengja „fyrir ofan hraun“. Ofanbyggjara- eða uppgirðingastrákarnir frá t.d. Gerði, Ólafshúsum, Vesturhúsum, Oddsstöðum, Vilborgarstöðum og Kirkjubæ, komu hinsvegar mikið undir Hella til að spranga. En þeir voru líka austur á Urðum, suður við Flug, Lambaskorur og víðar þar syðra, ýmist með bönd eða lausir að tildrast.
Árin 1910/11 var ég í Dölum hjá Jóni Gunnsteinssyni bónda þar og Þorgerði frænku minni, konu hans. Var ég þar yfir sumarmánuðina til snúninga heimavið og sendiferða með Hjálmari frænda mínum, syni þeirra hjóna. Við áttum oft ekki heimangengt inn undir Skiphella, enda nokkuð langt þangað frá Dölum. Í þess stað vorum við að klifra og spranga í litlu hamrabelti ofan og norðan við Bússu, suðaustur af Hrafnaklettum. Þar er nokkuð hátt hamrabelti og gott yfirferðar. En þarna æfðum við okkur í bandi og trítluðum léttir um bríkur og bekki. Þá skoðuðum við okkur töluvert um í Lambskorum, Skarfatanganefi, við Flugin, í Kervíkurfjalli, Sæfjalli undir Brimurðarloftum og víðar. Þarna vorum við í góðum skóla, en ekki var hann hættulaus. Fórum við þetta allt í leyfisleysi, nema í hamrabeltið við Bússu. Þar var okkur frjálst til leikja.

Síðari hluti



Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit