Ritverk Árna Árnasonar/Hin fyrsta atvinnubótavinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Hin fyrsta atvinnubótavinna


Hin fyrsta atvinnubótavinna, sem unnin var í Vestmannaeyjum var „Nýjatúnið“ svonefnda. Vesturmörk þess voru Landakotstúnið, austurtakmörkin garðarnir frá Fögruvöllum.
Það þykir nú á tímum varla frásagnarvert, þó að hið opinbera stofni til atvinnubótavinnu, þegar lítið er fyrir verkamenn að gera, en full þörf þeirra á fé til framfærslu sér og sínum. Þegar þannig stendur á, eru það sveitir og bæjarfélög, sem ráðast í einhverjar þær umbætur á t.d. vegum o.fl., sem framundan eru, þó ekki væri beint aðkallandi, til þess að skaffa atvinnuleysingjum eitthvað að vinna, svo að ekki komi til beinnar greiðslu á framfærslufé. Oft er vinna þessi máske unnin í ótíma, svo að lítið gagn er að, en oft líka bráðnauðsynlegar framkvæmdir, sem hafa dregist allt of lengi að framkvæma.
Ekki veit ég, hvort það var t.d. atvinnubótavinna, að í sumar var allur bærinn sundurgrafinn af gatnaskurðum, sem komandi rafmagnskapall á að leggjast í, en nú í miðjum nóvember er farið að fylla skurðina aftur upp með sandi til þess að forða gangandi fólki frá stórslysum. Enginn kapall kominn enn til niðurgraftar. Það mætti álykta sem svo, að það hafi verið atvinnubótavinna unnin í ótíma, þ.e.a.s. vinna, sem ekki hafi legið mikið á að vinna. Þó svo, að hægt sé að réttlæta vinnu þessa með því, í fyrsta lagi, að menn hafi orðið að fá einhverja vinnu sér til framfærslu og bærinn þess vegna ráðist í að láta grafa þetta, þareð að því kæmi, að það þyrfti að gerast. Þá má þó sanna, að verkið var ótímabært. Ekki of fljótt, heldur of seint.
Þegar Landssími Íslands ákvað að grafa bæjarsímann í jörð, var með vissu vitað, að stækkun rafstöðvarinnar stóð fyrir dyrum og að því hlyti að draga að grafa þyrfti rafmagnsnet bæjarins í jörð. Þá hefði verið vel hugsað að hefjast handa þegar í stað, panta jarðstrengina og slá saman og grafa sameiginlega fyrir bæði síma og rafmagni. Að vísu þurftu skurðirnir að vera lengri og breiðari, en hversu vel hefði það ekki borgað sig fyrir rafveituna og bæjarsjóð.
En máske var þessi samvinna ekki framkvæmanleg einhverra orsaka vegna. Þá voru þó möguleikar síst verri en 1947. Og þarsem L.S. gat útvegað sína jarðkapla, hefði Rafveitan sennilega getað útvegað sína líka. En þetta fór sem fór, að allar götur voru grafnar, skurðirnir stóðu svo opnir allan seinni part sumarsins og þar til í nóvember, að farið er að fylla þá upp með sandi til þess að afstýra umferðarslysum, því að bærinn er svo illa götulýstur, að hvergi mun annað eins fyrirfinnast á landi hér.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit