Ritverk Árna Árnasonar/Gísli Lárusson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Gísli Lárusson.
Gísli Lárusson.

Gísli Lárusson var lágur vexti, en þrekinn um herðar og vel sterkur maður. Hann var ákaflega lipur og léttur og fyrr og síðar talinn einhver snjallasti veiðimaður og fjallgöngumaður, sem Eyjarnar hafa nokkurn tíma alið. Var hann jafnvígur laus og í bandi og sýndi oft undraverða leikni og áræði.
Hann var aðeins 15 ára, er hann seig mesta sig Eyjanna, þ.e.a.s. Stórhellana í Hellisey, síðan hvert stórsigið eftir annað og hélt þessu áfram um áraraðir. Við hann er kenndur Gíslakór í Álsey og Gíslanef í sömu ey, hvort tveggja merkir staðir og vel þekktir í bjargveiðisögu Vestmannaeyja.
Gísli var líka góður formaður og fengsæll, úrsmiður og gullsmiður, útgerðarmaður og kaupfélagsstjóri í mörg ár við hf. Bjarma. Hann var kátur og skemmtilegur í viðmóti, einn fróðasti maður í sögu eyjanna, glöggur og skyggn á verðmæti og undur lífsins. Heimili hans var ætíð rómað vegna gæða og risnu.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Gísli Lárusson


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir

  • Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.