Rannveig Vilhjálmsdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Rannveig og Gísli Þórðarson með Gísla son sinn.

Rannveig Vilhjálmsdóttir húsfreyja fæddist 20. apríl 1895 og lést 19. október 1970.
Faðir hennar var Vilhjálmur bóndi á Þrándarstöðum og í Bakkagerði í Borgarfirði eystra, f. 29. desember 1866, d. 15. október 1913, Stefánsson bónda á Jökulsá, Bakkagerði og á Þrándarstöðum, f. 12. desember 1836, d. 22. nóvember 1916, Abrahamssonar bónda og hreppstjóra á Bakka í Borgarfirði eystra, f. 27. nóvember 1798, d. 1873, Ólafssonar, og konu Abrahams, Sigurbjargar húsfreyju, f. 1809, Jónsdóttur.
Móðir Vilhjálms á Þrándarstöðum og kona Stefáns á Jökulsá var Rannveig húsfreyja, f. 29. nóvember 1835, d. 23. ágúst 1886, Jónsdóttir bónda á Fljótsbakka í Eiðaþinghá, f. 1796, Gunnarssonar (Skíða-Gunnars Þorsteinssonar), og konu Jóns á Fljótsbakka, Guðbjargar húsfreyju, f. 15. febrúar 1813, d. 7. desember 1862, Vernharðsdóttur prests Þorkelssonar.

Móðir Rannveigar og kona Vilhjálms bónda á Þrándarstöðum var Solveig húsfreyja þar, f. 8. apríl 1865, d. 17. júlí 1951, Guðmundsdóttir bónda í Nesi í Borgarfirði eystra, f. 30. september 1828, d. 17. júní 1890, Ásgrímssonar bónda á Hrærekslæk í Hróarstungu, f. um 1788, Guðmundssonar, og síðari konu Ásgríms, Helgu húsfreyju, f. 1796, Þorsteinsdóttur.
Móðir Solveigar á Þrándarstöðum og kona Guðmundar í Nesi var Ingibjörg húsfreyja, f. 14. janúar 1830, d. 30. september 1910, Sveinsdóttir bónda í Brúnavík, á Snotrunesi og víðar í Desjamýrarsókn, f. 1787, Snjólfssonar, og konu Sveins, Gunnhildar húsfreyju, f. 1801, Jónsdóttur sterka (annar Hafnarbræðra) í Höfn við Borgarfjörð eystra, Árnasonar prests á Desjamýri Gíslasonar.

Systkini Rannveigar í Eyjum voru:
1. Hildur Margrét Vilhjálmsdóttir húsfreyja, fyrri kona Eyþórs Þórarinssonar frá Oddsstöðum.
2. Björgvin Vilhjálmsson sjómaður, skipstjóri, síðar útgerðarmaður á Borgarfirði eystra, f. 30. júlí 1897, d. 9. nóvember 1961.

Rannveig var fósturbarn á Gilsárvelli í Borgarfirði eystra 1901, hjú þar 1910. Hún fluttist til Eyja frá Reykjavík 1916 og var vinnukona hjá Hildi systur sinni á Sólheimum í lok ársins.

Rannveig var þrígift:

I. Fyrsti maður hennar, (10. mars 1914, skildu), var Erasmus Gíslason bóndi, síðar kaupmaður í Reykjavík, f. 13. maí 1877 á Rauðabergi í Hörglanshreppi, V-Skaft., d. 13. mars 1941 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Gísli Magnússon bóndi, f. 20. ágúst 1829 á Orrustustöðum í V-Skaft., d. 3. júlí 1882, og kona hans Ragnhildur Gísladóttir húsfreyja, f. 9. september 1839, d. 29. september 1898.
Barn þeirra:
1. Ragnhildur Sóley Erasmusdóttir, f. 20. maí 1914, d. 10. ágúst 1917.

II. Annar maður, (óg.), Rannveigar var Gísli Þórðarson vélstjóri í Dal, f. 10. júní 1896 í Ámundakoti í Fljótshlíð, fórst með vélbátnum 13. febrúar 1920.
Börn þeirra Gísla og Rannveigar voru:
1. Bertha húsfreyja frá Dalbæ, f. 5. febrúar 1920, d. 23. apríl 2012, kona Martins Tómassonar, f. 17. júní 1915, d. 1. janúar 1976.
2. Magnús Gísli Gíslason kaupmaður, f. 22. nóvember 1917, d. 9. október 1980.

III. Hún átti síðast, (2. september 1922), Harald Viggó Björnsson bankastjóra Útvegsbankans í Vestmannaeyjum, f. 30. október 1889, d. 14. mars 1946. Þau voru barnlaus.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Magnús Haraldsson.
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.
  • Manntöl.
  • Íslendingabók.is.