Minningarvefur um Pál Steingrímsson/Kvikmyndanám í New York

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Kvikmyndanám í New York


Í beinu framhaldi af auknum áhuga hans á myndlist og ljósmyndun þá hóf hann einnig feril sinn í kvikmyndagerð. Páll tók að sér leiðsögn fyrir heimsþekktan þýskan ljósmyndara, Hermann Schleinker, þar sem hann aðstoðaði hann við að komast á torsótta staði þar sem Schleinker myndaði fuglalíf Eyjanna. Schleinker átti ekki fyrir farinu heim og bauðst Páli að kaupa ljósmyndavél hins þýska. Þetta var ekki síðasta ferð Schkeinker til Eyja en 10 árum seinna kom hann til landsins í annað sinn og ferðaðist Páll með honum víðsvegar um landið og leiddi hann meðal annars á staði eins og Snæfellsnes, Vestfirði og Mývatn. Sú ferð endaði líkt og sú fyrri, það er, að hann átti ekki fyrir heimferðinni og fór svo að Páll keypti einnig kvikmyndavél hans svo hann kæmist aftur heim til Þýskalands. Um hálfu ári síðar hélt Páll til New York þar sem hann hóf kvikmyndanám við kvikmyndadeild New York University og útskrifaðist hann þaðan 1972, þá 42 ára að aldri (Ólafur J. Engilbertsson, 2009). Eftir þetta var ekki aftur snúið og var Páll heltekinn af kvikmyndagerð. Hann hætti að mála, teikna og taka ljósmyndir og fór að einbeita sér alfarið að kvikmyndagerð og var aðal umfjöllunarefni mynda hans náttúran og dýralífið (Páll Magnússon o.fl., 2016).


Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður og Óskar Björgvinsson, ljósmyndari.
Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður og Óskar Björgvinsson, ljósmyndari.


Þegar Páll kom heim að loknu námi í kvikmyndagerð í Bandaríkjunum þá þráði hann heitast að setjast að í Vestmannaeyjum og hefja tökur þar á náttúrunni og lífríkinu. En það hefði ekki gengið upp þar sem að Páll hefði ekki haft atvinnu af því að mynda hér heima. Þó svo að Páll hafi að loknu námi í kvikmyndagerðinni sest að í Reykjavík þá hafði hann ávalt sterkar tilfinningar til Eyjanna og kom reglulega til Eyja og lét sig aldrei vanta á eggjatímanum og lundatímanum (Páll Magnússon o.fl., 2016).