Magnús H. Magnússon (bæjarstjóri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Magnús Magnússon


Magnús H. Magnússon, fyrrverandi bæjarstjóri og ráðherra.

Magnús Helgi Magnússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og alþingismaður, fæddist í Vestmannaeyjum 30. september árið 1922 og lést 23. ágúst 2006. Foreldrar hans voru Magnús Helgason, gjaldkeri og Magnína Jóna Sveinsdóttir, húsmóðir. Magnús giftist Filippíu Mörtu Guðrúnu Björnsdóttur 24. nóvember 1951. Saman eignuðust þau fjögur börn, Sigríði, Pál, Björn Inga og Helgu Bryndísi. Frá fyrra hjónabandi átti hann tvö börn, Magnús og Guðlaug Ægi.

Magnús lauk gagnfræðaskólaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1938 og prófi frá Loftskeytaskólanum árið 1946. Símvirkjapróf, radíótækni sérgrein, 1948, síðan framhaldsnám hjá Pósti og síma.

Magnús var sjómaður á árunum 1937 til 1942, m. a. á norsku fragtskipi á fyrstu árum seinni heimsstyrjaldar. Hann starfaði sem bifreiðarstjóri 1942—1945 og loftskeytamaður á togara 1946 og síðar í afleysingum. Magnús starfaði í radíótæknideild Pósts og síma 1946—1956, verkstjóri þar 1950—1953, yfirverkstjóri 1953—1956. Hann var stöðvarstjóri Pósts og síma í Vestmannaeyjum 1956—1966, 1975—1978 og 1983—1987. Magnús tók sæti í bæjarstjórn Vestmannaeyja árið 1962 og var ráðinn bæjarstjóri í Vestmannaeyjum frá 1966 til 1975.

Magnús sat á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn í Suðurlandskjördæmi frá 1978-1983. Hann var skipaður félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1. september 1978. Hann fékk lausn frá störfum 12. október 1979, en gegndi þó störfum til 15. október. Þá var hann skipaður félags-, heilbrigðis- og tryggingamála- og samgönguráðherra 15. október 1979. Hann fékk lausn frá störfum 4. desember 1979. en gegndi þó störfum til 8. febrúar 1980.

Hann sat á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Alþýðuflokkinn í Suðurlandskjördæmi í nóvember 1983, nóvember 1984, október 1985, apríl og október 1986 og febrúar til mars 1987.

Magnús gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum og var m.a. varaformaður Byggingarsamvinnufélags símamanna á árunum 1951 til 1954 og formaður þess frá 1954 til 1956. Hann sat í yfirskattanefnd Vestmannaeyja 1957—1962 og í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja 1957—1978. Magnús var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum frá 1962 til 1982. Þá sat hann í framkvæmdastjórn Brunabótafélags Íslands frá 1966, stjórnarformaður 1980. Aukinheldur var Magnús varaformaður Alþýðuflokksins á árunum 1980 til 1984.

Í Heimaeyjargosinu 1973 varð Magnús landskunnur fyrir baráttu sína fyrir byggðarlagið og fólkið sitt í Vestmannaeyjum, en hann var þá bæjarstjóri. Fyrir þessa baráttu var hann sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

Myndir


Heimildir