Kristín Jónsdóttir (Vesturhúsum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Kristín Jónsdóttir húsfreyja á Vesturhúsum fæddist 27. ágúst 1817 í Ey í V-Landeyjum og lést 8. október 1859.
Foreldrar hennar voru Jón Jónsson bóndi í Ey, f. 6. ágúst 1786, d. 5. október 1843, og fyrri kona hans Auðbjörg Einarsdóttir húsfreyja, skírð 27. júní 1780, d. 15. ágúst 1828.

Kristín var 24 ára vinnukona á Oddsstöðum 1840 og 1843, og vinnukona í Nöjsomhed 1845 hjá ekkjunni Margréti Einarsdóttur.
Hún átti barn 1840 með Sigurði Sigurðssyni, síðar í Þorlaugargerði. Þá var hún vinnukona á Oddsstöðum hjá Jóni Þorgeirssyni og átti barn með honum 1843. Við fæðingu fyrsta barns þeirra Sveins Hjaltasonar fyrir hjónaband 1848 var Kristín vinnukona í Stakkagerði og var það þriðja barneign hennar utan hjónabands að sögn prestsins. Það styður þá skoðun, að um rétta Kristínu Jónsdóttur sé að ræða, en þær voru nokkrar í Eyjum á þessum árum.
Kristín var húsfreyja á Vesturhúsum 1850 með Sveini Hjaltasyni bónda og lóðsi 33 ára, barninu Margréti þriggja ára, Gyðríði Sveinsdóttur móður Sveins 68 ára og Guðmundi Þorkelssyni syni Gyðríðar frá síðara hjónabandi hennar, 28 ára.
Kristín bjó enn á Vesturhúsum 1855 með Sveini og barninu Margréti 8 ára og móður Sveins og tveim hálfbræðrum hans.
Hún lést 1859 „af umgangsveikindum“.

I. Barnsfaðir Kristínar var Sigurður Sigurðsson yngri bóndi í Þorlaugargerði, f. 17. maí 1813, d. 9. september 1844.
Barn þeirra var
1. Auðbjörg Sigurðardóttir, f. 30. maí 1840, d. 5. júní 1840 úr ginklofa.

II. Barnsfaðir hennar var Jón Þorgeirsson kvæntur bóndi á Oddsstöðum, f. 1808, d. 6. júní 1866.
Barn þeirra var
2. Guðmundur Jónsson, f. 4. janúar 1843, d. 11. janúar 1843 úr ginklofa.

III. Eiginmaður Kristínar, (7. september 1849), var Sveinn Hjaltason bóndi og lóðs á Vesturhúsum, f. 3. desember 1815 í Mýrdal, d. 23. júni 1879 í Norðurgarði.
Börn þeirra hér:
3. Margrét Sveinsdóttir, f. 1847, vinnukona í Jómsborg, d. 30. maí 1882, hrapaði úr Dalfjalli.
4. Þorbjörg Sveinsdóttir, f. 7. febrúar 1850, d. 18. júlí 1851 úr „barnaveikindum“.
5. Filippus Sveinsson, f. 3. október 1851, d. 23. október 1851 „af barnaveiki“.
6. Gyðríður Sveinsdóttir, f. 2. febrúar 1853, d. 16. mars 1853 úr „barnaveikindum“.
7. Filippína Sveinsdóttir, f. 10. mars 1854, d. 17. mars 1854 „af barnaveiki“.
8. Gunnar Sveinsson, f. 2. júlí 1857, d. 8. október 1863 „af taksótt“.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.