Karl Gauti Hjaltason

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Karl Gauti

Karl Gauti Hjaltason var skipaður sýslumaður í Vestmannaeyjum 27. maí 1998 og tók við embætti 1. júlí 1998. Karl Gauti fæddist í Reykjavík þann 31. maí árið 1959. Foreldrar hans eru Hjalti Karlsson fyrrum verktaki í Kópavogi og Kolbrún Steinþórsdóttir fyrrum sjúkraliði.

Karl Gauti lauk cand. juris frá Háskóla Íslands 1989. Hann starfaði um langt skeið innan íþróttahreyfingarinnar og hefur setið í Íþróttadómstól ÍSÍ frá 1997 sem nú heitir áfrýjunardómstóll ÍSÍ. Hann var stofnandi og formaður Karatefélagsins Þórshamars 1979-1985, formaður Karatesambands Íslands í þrettán ár frá 1985-1998. Þá sat hann í stjórn UMSK 1986-88 og í stjórn íþróttafélagsins Gerplu 1983-86. Hann hlaut gullmerki ÍSÍ 1998. Hann var í stjórn Taflfélags Vestmannaeyja frá 2003-2019 og formaður þess í 6 ár frá 2007-2013 og aftur frá 2023. Þá var hann ritari í stjórn Skáksambands Íslands frá 2006-2008 og í varastjórn til 2009. Þá var Karl Gauti frumkvöðull að stofnun og fyrsti formaður Stjörnufræðifélags Vestmannaeyja frá 2012, en lét af formennsku félagsins vorið 2014.

Karl Gauti var fulltrúi bæjarfógetans í Keflavík, Grindavík og Njarðvík og sýslum. í Gullbringusýslu 1989-1990 og starfaði um skeið hjá ríkisskattanefnd. Karl Gauti var settur sýslumaður á Hólmavík um skeið sumarið 1996. Hann var fulltrúi sýslum. í Árnessýslu og bæjarfógetans á Selfossi, síðar sýslumannsins á Selfossi 1990-1998. 27. maí 1998 var hann skipaður sýslumaður í Vestmannaeyjum frá 1. júlí 1998 og gengdi því starfi í 16 ár. Hann var skipaður skólastjóri Lögregluskóla ríkisins frá 1. júlí 2014. Hann lét af störfum sem skólastjóri Lögregluskóla ríkisins hinn 30. september 2017 við niðurlagningu skólans og flutning náms lögreglunema yfir á háskólastig. Karl Gauti starfaði sem formaður yfirkjörstjórnar í Suðurlandskjördæmi frá 1998 síðan í hinu nýja Suðurkjördæmi frá 2003 til október 2017. Karl Gauti var kosinn á alþingi fyrir Flokk fólksins í kosningunum október 2017 í Suðurkjördæmi. Hann sat í kjörbréfanefnd alþingis, umhverfis- og samgöngunefnd og Þingvallanefnd frá 2017-2021. Hann var skipaður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum frá 1. apríl 2023.

Höfundur ásamt Gunnari B. Eydal heitnum ritsins, "Mat á vafaatkvæðum" sem var gefið út í samstarfi við innanríkisráðuneytið. Ritið var endurútgefið með viðbótum 2016 og aftur 2021. Í ritnefnd endurútgáfu bókarinnar Forystufé 2016. Hann hefur haldið fyrirlestra og erindi á margvíslegum vettvangi, sérstaklega um stjórnmál, löggæslu, sögu, byggðamál og stjörnufræði, og ritað fjölmargar greinar á þessum sviðum í blöð og tímarit.

Kona hans er Sigurlaug Stefánsdóttir, B.Ed. frá K.H.Í. 2006, áður kennari við Barnaskólann í Vestmannaeyjum. Þau eiga þrjú börn, Alexander f. 1994, Kristinn f. 1997 d. sama ár og Kristófer f. 1997. Þau bjuggu að Ásavegi 31.