Jónas Sigurðsson (Skuld)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Jónas við frágang á lunda

Jónas Sigurðsson í Skuld, fæddist að Helluvaði á Rangárvöllum 29. mars 1907 og lézt í Eyjum 4. janúar 1980.
Foreldrar hans voru Sigurður Pétur Oddsson útgerðarmaður í Skuld og k.h. Ingunn Jónasdóttir húsfreyja.
Foreldrar Sigurðar voru Oddur bóndi á Rauðafelli u. Eyjafjöllum, Krossi í Landeyjum og Heiði á Rangárvöllum, f. 7. sept. 1842 á Hrútafelli u. Eyjafjöllum, d. 16. nóv. 1922 á Heiði, Péturs bóndi á Hrútafelli Oddssonar og konu Péturs, Valgerðar húsfreyja, f. 7. jan. 1809, d. 29. apríl 1876, Hróbjarts bónda í Berjanesi u. Eyjafjöllum, f. 1769, d. 27. júní 1824, Björnssonar. Móðir Sigurðar Péturs og f.k. Odds var Sigríður húsfreyja á Heiði á Rangárvöllum, f. 5. júlí 1840, d. 27. febr. 1885, Árna bónda í Skálakoti, f. 9. ágúst 1798, d. 5. ágúst 1864, Sveinssonar og konu Árna bónda, Guðfinnu húsfreyju, f. 3. okt. 1806, d. 8. maí 1882, Sveins bónda á Ytri-Sólheimum í Mýrdal, f. 1761, d. 17. okt. 1845, Alexanderssonar.
Foreldrar Ingunnar í Skuld voru Jónas bóndi á Helluvaði á Rangárvöllum, f. 20. sept. 1862 í Eystrihól, d. 15. júní 1924, Ingvars bónda á Valstrýtu í Fljótshlíð, Ártúnum og síðar á Eystrihóli í Landeyjum, formanns við Landeyjasand, f. 28. ágúst 1824 á Galtalæk á Landi, d. 12. apríl 1875, drukknaði í lendingu á Skúmsstaðafjöru, Runólfssonar og konu Ingvars, Kristínar húsfreyju, f. 8. júlí 1822, d. 22. des. 1914, Sigurðar bónda í Ártúnum, f. 1791, d. 28. maí 1866 í Ártúnum, Þorsteinssonar.
Móðir Ingunnar og kona (6. jan. 1882) Jónasar var Elín húsfreyja, f. 10. nóvember 1856, d. 12. apríl 1911, Jóns bónda á Oddsstöðum í Eyjum, f. 1808, d. 6. júní 1866, Þorgeirssonar og konu Jóns, Margrétar húsfreyju, f. 16. janúar 1832, d. 15. febrúar 1919, Halldórs bónda í Steinum u. Eyjafjöllum, Eiríkssonar.

Jónas fluttist ársgamall með foreldrum sínum til Vestmannaeyja, þar sem hann ólst upp.
Þau Sigurður og Ingunn byggðu sér íbúðarhús sem þau nefndu Skuld. Húsnafnið fylgdi Jónasi alla tíð og nefndist hann því í daglegu tali Jónas í Skuld. Ungur hóf Jónas sjómennsku á Baldri og síðar á Mínervu. Árið 1927 byrjaði Jónas formennsku á Skógafossi og var með hann í 9 vertíðir. Eftir það var hann með fleiri báta, meðal annars Skíðblaðni og Gulltopp.
Þau Sigurður og Ingunn eignuðust 11 börn og var Jónas þeirra elztur.
Ungur fór hann að stunda sjómennsku og gerðist formaður á vélbáti og stundaði það starf um margra ára skeið. Eftir að Jónas hætti sjómennsku gerðist hann starfsmaður loftskeytastöðvarinnar í Vestmannaeyjum og gegndi því starfi í tæpa tvo áratugi. Árið 1960 hóf Jónas störf sem húsvörður við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum.

Þorsteinn Þ. Víglundsson og Jónas í Skuld

Frá unglings aldri stundaði Jónas bjargsig og fuglaveiði. Hann var foringi göngumanna við súlnaveiði í Eldey 1936.
Lundaveiði stundaði hann í Álsey á hverju sumri um margra áratuga skeið. Á yngri árum seig Jónas á hverju vori í björg til eggjatöku. Bjargsig sýndi hann mörg sumur á þjóðhátíð Eyjamanna og vakti það ætíð mikla athygli þjóðhátíðargesta. Þegar erlenda gesti bar að garði, oftast blaðamenn og ljósmyndarar, var Jónas oft fenginn til að sýna þessa „þjóðlegu“ íþrótt. Blaðagreinar og ljósmyndir voru birtar í erlendum blöðum og tímaritum og vöktu mikla athygli lesenda enda oft glæfralegt á að líta fyrir ókunnuga.
Í janúarmánuði 1928 kvæntist Jónas Guðrúnu Kristínu Ingvarsdóttur frá Reykjavík og eignuðust þau fimm börn, Ingunni, Guðrúnu, Sjöfn, Sigurgeir og Sigurjón Ingvars. Auk þess ólu þau upp dótturson, son Guðrúnar, Jónas Þór Steinarsson.

Myndir


Heimildir

  • Legstaðaskrá.
  • Rangvellingabók
  • Sjómannablaðið Víkingur. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.