Jón Ágúst Kristjánsson

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Jón Ágúst

Jón Ágúst Kristjánsson fæddist að Marteinstungu í Holtum 9. ágúst árið 1879. Hann var vel gefinn og hlaut mætan vitnisburð sóknarprests síns við fermingu.

Vorið 1903 fluttist Jón Ágúst ásamt konu sinni, Guðrúnu Tómasdóttur til Vestmannaeyja. Brátt reistu þau hjónin sér íbúðarhús norðan við Vilborgarstaðaveginn og nefndu það Laufás.

Um haustið 1903 stofnaði Jón Ágúst blandaðan söngkór í Eyjum og æfði hann til söngmenntar og menningarauka í byggðarlaginu. Var kórinn kallaður Principal kórinn. Kórinn starfaði til ársins 1905. Þá var Söngfélagið undir stjórn Sigfúsar Árnasonar við lýði og hafði sungið fyrir Eyjabúa undanfarin 9 ár. Sumir töldu að með nafninu á kórnum, Principal (í merkingunni aðal) væri miðað að kór Sigfúsar, sem þá væri settur skör lægra.

Fyrst í stað æfði Jón Ágúst kór sinn í gömlu verslunarhúsunum á Tanganum sem höfðu staðið að mestu auð. Eftir að húsið Laufás var fullbyggt æfði kórinn þar í dagstofunni. Söng kórinn nokkrum sinnum fyrir almenning og gat sér góðan orðstír, að minnsta kosti á meðal þeirra sem ekki höfðu tekið enska nafngift kórsins nærri sér.

Eftir að Sigfús Árnason sagði af sér organistastarfinu í Landakirkju sótti Jón Ágúst um það starf ásamt 19 ára syni Sigfúsar sem hlaut stöðuna. Þótti Jóni sér misboðið og þau hjón seldu Laufás árið 1905. Það hús keyptu Þorsteinn Jónsson og Elínborg Gísladóttir.

Jón Ágúst og Guðrún fluttu til Ameríku og síðar til Reykjavíkur þar sem Jón Ágúst var starfsmaður Landsbankans.

Jón Ágúst lést 14. nóvember 1949.


Heimildir