Jóhanna Sigríður Margrét Bjarnasen

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Jóhanna Sigríður Margrét Jóhannsdóttir Bjarnasen frá Kornhól, síðar í Vesturheimi fæddist 22. júní 1839 í Sjólyst og lést 4. apríl 1910.
Foreldrar hennar voru Jóhann Bjarnasen verslunarstjóri, f. 9. febrúar 1808, d. 18. júlí 1845, og Sigríður Jónsdóttir Bjarnasen húsfreyja, f. 1816, d. 13. apríl 1842.

Börn Jóhanns og Sigríðar í Eyjum:
1. Jóhann Pétur Benedikt Bjarnasen verslunarstjóri, f. 15. nóvember 1834, d. 1. maí 1869.
2. Sigurður Gísli Gunnar Bjarnasen verslunarstjóri, f. 30. maí 1837, fór síðar til Danmerkur.
3. Jóhanna Sigríður Margrét Bjarnasen, f. 22. júní 1839, d. 4. apríl 1910 í Vesturheimi.
4. Emilía Geirlaug Ágústa Bjarnasen, f. 23. ágúst 1841. Hún fluttist með fósturforeldrum sínum til Kaupmannahafnar 1860, þá 19 ára.

Jóhanna missti móður sína tæpra þriggja ára. Hún var í fyrstu með föður sínum og þá honum og Jóhönnu Abel móðursystur sinni og síðan um skeið með Guðfinnu Austmann, en þær voru bústýrur Jóhanns.
Jóhann lést 1845, 37 ára. Börnin voru þá á aldrinum 4-11 ára.
Jóhanna fór í fóstur til Abels sýslumanns og konu hans Diderikke Claudine Abel húsfreyju í Nöjsomhed.
Hún var send til Reykjavíkur 1846, fór þaðan til Kaupmannahafnar, kom að Nöjsomhed til sr. Brynjólfs og Ragnheiðar móðursystur sinnar 1856, var þar jómfrú 1856-1859, var þjónustustúlka hjá Stefáni Thordersen sýslumanni á Ofanleiti 1860.
Jóhanna fór til Kaupmannahafnar 1861, kom að Ofanleiti 1864 og Torfi kom að utan á sama ári.
Þau Torfi giftust 1864 og bjuggu í Pétursborg, síðan í Jónshúsi.
þau eignuðust andvana barn 1865 og Richard eignuðust þau 1866.
Torfi fluttist til Reykjavíkur 1866 og var verslunarþjónn þar. Kona hans kom með Richard árið eftir.
Þau bjuggu á Göthúsastíg (timburhús) í Reykjavík 1870, í Kristjánshúsi þar 1880.
Samkvæmt Vestur-íslezkum æviskrám fóru þau með 4 börn sín til Vesturheims 1887, en Torfi kom aftur 1897. Brottför hennar er getið í Vesturfaraskrá, en hans er ekki getið.
Torfi var hjá Hans Magnúsi syni sínum í Árbæ í Holtum 1901 og bjó hjá honum á Ísafirði 1910.
Hann var síðast bæjarfógetafulltrúi á Ísafirði.
Jóhanna lést 1910 Vestanhafs og Torfi 1917.

Maður Jóhönnu, (12. júlí 1864), var Torfi Magnússon verslunarmaður, f. 30. júlí 1835 á Eyvindarhólum u. Eyjafjöllum og lést 28. apríl 1917.
Börn þeirra hér:
1. Andvana fætt sveinbarn 24. apríl 1865.
2. Richard Torfason prestur, biskupsritari, bókhaldari, f. 16. maí 1866 í Jónshúsi, d. 3. september 1935.
3. Jóhann Sveinbjörn Torfason, f. 1867.
4. Hans Magnús Torfason sýslumaður, alþingismaður, alþingisforseti, f. 12. maí 1868, d. 14. ágúst 1948.
5. Guðrún Torfadóttir húsfreyja í Reykjavík og víðar, f. 23. október 1869, d. 3. maí 1950.
6. Sigríður Torfadóttir, f. 11. desember 1870, fór til Vesturheims, d. 1888.
7. Jóhanna Rósa Torfadóttir, f. 1873, fór til Vesturheims.
8. Sigurður Torfason, f. 5. nóvember 1875, fór til Vesturheims.
9. Pétur Gísli Torfason, f. 20. september 1877, fór til Vesturheims, d. 11. ágúst 1959.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vesturfaraskrá 1870-1914. Júníus H. Kristinsson. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1983.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.