Ingveldur Guðbrandsdóttir (Brandshúsi)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Ingveldur Guðbrandsdóttir húsfreyja, húskona í Brandshúsi, fæddist 23. júlí 1808 á Sámsstöðum í Fljótshlíð og lést 29. júlí 1863.
Foreldrar hennar voru Guðbrandur Halldórsson bóndi á Sámsstöðum og Vatnagörðum á Landi, f. í Vatnsdal í Fljótshlíð, skírður 25. maí 1777, d. 17. júní 1839 í Eystri-Kirkjubæ á Rangárvöllum, og kona hans Halldóra Magnúsdóttir húsfreyja, f. á Brekkum í Hvolhreppi, skírð 5. nóvember 1775, d. 12. maí 1849 á Brekkum í Hvolhreppi.

Ingveldur var systir Magnúsar Guðbrandssonar vinnumanns á Gjábakka, f. 8. júní 1820, d. 30. janúar 1847.

Ingveldur var með foreldrum sínum í æsku, var vinnukona á Velli í Hvolhreppi 1835, vinnukona hjá Ástríð systur sinni á Stóra-Moshvoli í Hvolhreppi 1840.
Hún fluttist að Hólnum 1841 „til að giftast“.
Þau Brandur voru komin í Brandshús á því ári og bjuggu þar síðan og hún ekkja þar með fyrirvinnur og húsfreyja þar að nýju frá 1847.
Ingveldur fæddi Solveigu 1842. Brandur drukknaði í nóvember á því ári og Solveig dó úr ginklofa mánuði síðar.
Síðari maður Ingveldar var Sveinn Þórðarson tómthúsmaður. Þau eignuðust eitt barn, Ólöfu, en misstu hana rúmlega viku gamla úr ginklofa.
Sveinn lést 1860 og Ingveldur 1863.

Ingveldur var tvígift.
I. Fyrri maður hennar, (30. október 1841), var Brandur Eiríksson tómthúsmaður og sjómaður, f. 2. maí 1798, drukknaði 18. nóvember 1842.
Barn þeirra var
1. Solveig Brandsdóttir, f. 15. júlí 1842, d. 19. desember 1842, „22 vikna af ginklofa“.

II. Síðari maður Ingveldar, (18. júlí 1847), var Sveinn Þórðarson tómthúsmaður, f. 1824, d. 10. júlí 1860.
Barn þeirra var:
2. Ólöf Sveinsdóttir, f. 25. september 1847, d. 3. október 1847 úr ginklofa.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Landmannabók – Landsveit. Valgeir Sigurðsson, Ragnar Böðvarsson og fleiri. Rangárþing ytra, Hellu 2003.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.