Gunnlaugur Halldórsson (arkitekt)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Gunnlaugur Halldórsson og Þorbjörg Klemensdóttir.

Gunnlaugur Pétur Christian Halldórsson frá Kirkjuhvoli, arkitekt fæddist 6. ágúst 1909 í Langa-Hvammi og lést 13. febrúar 1986 í Reykjavík.
Foreldrar hans voru Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir, f. 25. ágúst 1875 á Skeggjastöðum í Fellum í N.-Múl., drukknaði 16. desember 1924, og kona hans Anna Sigrid Gunnlaugsson húsfreyja, kaupmaður, fædd Therp 16. febrúar 1885 í Danmörku, d. 22. ágúst 1963.

Börn Önnu og Halldórs:
1. Ólafur Þorsteinn Halldórsson læknir, f. 4. desember 1906 í Langa-Hvammi, d. 20. febrúar 1997.
2. Gunnlaugur Pétur Christian Halldórsson arkitekt, f. 6. ágúst 1909 í Langa-Hvammi, d. 13. febrúar 1986.
3. Axel Valdemar Halldórsson stórkaupmaður, f. 22. september 1911 á Kirkjuhvoli, d. 31. maí 1990.
4. Ella Vilhelmína Halldórsdóttir verslunarmaður, kaupmaður, f. 2. ágúst 1914 á Kirkjuhvoli, d. 21. ágúst 2005.
Fóstursonur hjónanna var systursonur Halldórs,
5. Gunnar Þórir Þorláksson húsasmíðameistari í Reykjavík f. 10. júní 1919 í Garðhúsum, d. 27. apríl 1987.

Gunnlaugur var með foreldrum sínum.
Að loknu gagnfræðaprófi á Akureyri hóf hann nám í húsagerðarlist við Fagurlistaskólann í Kaupmannahöfn (Hið Konunglega Akademi) og lauk þar prófi 10. maí 1933.
Við heimkomu vann hann við að ryðja nýjar brautir í húsagerðarlist í svonefndum módernískum anda og eins og sagt hefur verið af sérfræðingum, að ,, Þessi nýstárlegu hús mörkuðu þáttaskil í íslenskri listasögu sem fyrsta birtingarmynd þeirrar alþjóðlegu stefnu í sjónlistum og hönnun sem mest áhrif hefur haft á 20. öld.“
Hann var tuttugu og eins árs, er hann mótaði í samvinnu við Sigurð Guðmundsson arkitekt hús Hauks Thors við Smáragötu, Georgs Ólafssonar við Freyjugötu og Stefáns Thorarensens við Sóleyjargötu. Af síðari byggingum, sem hann hannaði einn eða í samstarfi við aðra arkitekta má nefna Verkamannabústaðina við Hringbraut, hús Félagsgarðs við Hávallagötu, hús Magnúsar Víglundssonar við Garðastræti, viðbótina við hús Landsbanka Íslands, hús Búnaðarbanka Íslands í Austurstræti, og Reykjalund í Mosfellsbæ. Síðari byggingar, sem Gunnlaugur koma að hönnun á eru Stöðvarhús Búrfellsvirkjunar, Háskólabíó, háhýsin við Sólheima og hús Sparisjóðs Reykjavíkur við Skólavörðustíg og Amtsbókasafnið á Akureyri. Hann vann einnig að endurgerfingu gamalla húsa eins og Bessastaðastofu 1941.
Gunnlaugur kom einnig að skipulagsmálum bæði í Reykjavík og á Álftanesi, var fulltrúi Bessastaðahrepps í samvinnunefnd um skipulag höfuðborgarsvæðisins. Hann mun hafa átt fyrstu hugmyndir að miðbæjarkjarna Kringlumýrarinnar.
Gunnlaugur gegndi formannsstarfi í arkitektafélögunum, þ.e. Akademíska arkitektafélaginu og Arkitektafélagi Íslands árin 1928-1941, 1947-1950 og 1958-1961. Þá var hann formaður Byggingaþjónustu Arkitektafélags Íslands frá stofnun 1959-1971 og gegndi þar einnig formennsku eftir að hún varð sjálfseignarstofnun.
Pétur H. Ármannsson arkitekt hefur skrifað bók um Gunnlaug: Gunnlaugur Halldórsson arkitekt. Útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag, 2014.

Þau Guðný Þorbjörg giftu sig 1941, eignuðust fjögur börn, en misstu elsta barnið 17 ára gamalt. Þau byggðu hús á Álftanesi, sem þau nefndu Hof.

I. Kona Gunnlaugs, (31. maí 1941), var Guðný Þorbjörg Klemensdóttir frá Vestri-Skógtjörn á Álftanesi, húsfreyja, kennari, f. 8. febrúar 1912 á Bjarnastöðum á Álftanesi, d. 23. september 1991. Foreldrar hennar voru Klemens Jónsson bóndi, kennari á Vestri-Skógtjörn (Árnakoti), f. 1. apríl 1876 í Jórvík í Álftaveri, V.-Skaft., d. 16. ágúst 1955, og kona hans Auðbjörg Jónsdóttir húsfreyja, f. 5. maí 1888 í Skálmarbæ í Álftaveri, d. 14. desember 1977.
Börn þeirra:
1. Halldór Gunnlaugsson, f. 1. nóvember 1941, d. 21. janúar 1959.
2. Jón Gunnar Gunnlaugsson viðskiptafræðingur í Brekkukoti á Álftanesi, f. 19. janúar 1943. Kona hans Inga Ólafía Haraldsdóttir, látin.
3. Þrúður Gunnlaugsdóttir húsfreyja, tækniteiknari, skrifstofumaður í Gerði á Álftanesi, f. 4. maí 1945. Maður hennar Þorgeir Jónas Andrésson.
4. Klemens Björn Gunnlaugsson verkfræðingur í Seli á Álftanesi, f. 9. mars 1947. Kona hans Guðrún Ágústa Eggertsdóttir.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Knudsensætt 1-2. Ritstjóri Þorsteinn Jónsson. Sögusteinn 1986.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
  • Þjóðviljinn 21. febrúar 1986. Minningargrein. Hörður Ágústsson.
  • Þjóðviljinn 21. febrúar 1986. Minningargrein. Skúli H. Norðdahl.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.