Guðrún Sveinsdóttir (Kró)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Guðrún Sveinsdóttir húsfreyja í Kró fæddist 27. september 1821 á Lækjarbakka í Mýrdal og lést 29. október 1887 á Gjábakka.
Foreldrar hennar voru Sveinn Ingimundarson bóndi, síðast í Pétursey í Mýrdal, f. 1788 á Reyni þar, d. 30. júlí 1859 í Pétursey, og fyrri kona hans Helga Jónsdóttir húsfreyja, f. 1786 á Brekkum í Mýrdal, d. 17. september 1843 á Lækjarbakka.

Guðrún var með foreldrum sínum til um 1845, vinnukona á nokkrum bæjum til 1852, var þá hjá föður sínum í Pétursey 1852-1853, vinnukona þar 1853-1858, á Felli þar 1858-1863.
Hún giftist Árna 1862, var húskona á Ketilsstöðum í Mýrdal 1863-1865, í Kárhólmum þar 1865-1866, á Brekkum þar 1866-1868.
Þau Árni fluttust úr Mýrdal að Miðhúsum 1868, voru þar í vinnumennsku til 1869 og Guðrún einnig 1870. Hún var „sjálfrar sín“ í Elínarhúsi 1871, í húsmennsku þar 1872.
Þau voru tómthúsfólk í Helgahjalli 1873-1876, húsfólk í Kornhól 1877, í Kró 1878-1881, er Árni lést úr lungnabólgu.
Guðrún fór að Fögruvöllum 1881 og var þar „sjálfrar sín“, ekkja í Helgahjalli 1883 og 1884, bjó ein í Nýjahúsi 1885, vinnukona í Brekkuhúsi 1886.
Hún lést á Gjábakka 1887.

Maður Guðrúnar, (16. október 1862), var Árni Árnason tómthúsmaður, vinnumaður, sjómaður, skírður 27. ágúst 1837, d. 13. apríl 1881.
Þau voru barnlaus í Eyjum.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.