Guðrún Pálsdóttir eldri (Kirkjubæ)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Guðrún Pálsdóttir eldri frá Kirkjubæ fæddist 18. apríl 1814 í Saurbæ í Holtum og lést 28. júní 1909 í Krosshjáleigu í A-Landeyjum.
Foreldrar hennar voru sr. Páll Jónsson, þá aðstoðarprestur í Efraholtsþingum, síðar prestur á Kirkjubæ í Eyjum, f. 9. júlí 1779, drukknaði í Eystri-Rangá 15. september 1846, og kona hans Guðrún Jónsdóttir húsfreyja og ljósmóðir, f. 16. maí 1791, d. 14. febrúar 1850.

Systkini hennar, sem lifðu bernskuna voru:
1. Eva Hólmfríður Pálsdóttir húsfreyja f. 22. janúar 1812, d. 28. maí 1866.
2. Guðrún yngri („Gunna skálda”) húsfreyja, f. 16. október 1815, d. 3. marz 1890.
3. Kristín vinnukona, ógift, f. 17. marz 1817, d. um 1900 í Straumfirði á Mýrum.
4. Solveig húsfreyja og ljósmóðir, f. 8. október 1821, d. 24. maí 1886.
5. Páll trésmíðanemi, f. 19. febrúar 1833, hrapaði til bana úr Hábarði í Elliðaey 20. ágúst 1857.

Guðrún fluttist til Eyja með foreldrum sínum og fjölskyldu 1818, er Páll faðir hennar varð aðstoðarprestur sr. Bjarnhéðins Guðmundssonar prests á Kirkjubæ. Þau bjuggu í fyrstu á Búastöðum, en fluttu að Kirkjubæ, er hann fékk prestakallið 1822.
Hún giftist ung Petreusi og var orðin húsfreyja í Hátúnum í Landbroti 1835. Þau fluttust til Eyja 1837 og bjuggu á Kirkjubæ.
Þau Pétur fluttust frá Eyjum „til Síðu“ 1840 og með þeim fór Kristín vinnukona, systir Guðrúnar. Þau settust þá að á Refsstöðum í Landbroti og bjuggu þar til ársins 1846, urðu þá húsmennskufólk í Nýjabæ í Meðallandi til 1847, í Rofabæ þar 1847-1854.
Þau fluttust þá í A-Landeyjar og bjuggu þar í Tjarnarkoti til ársins 1860, en þá lést Petreus.
Guðrún bjó áfram í Tjarnarkoti, en Pétur sonur þeirra stóð fyrir búi meðan hans naut við. Hann var formaður við Landeyjasand og fórst 28. mars 1893. Guðrún bjó í Tjarnarkoti til ársins 1899 með aðstoð Þorvaldar fóstursonar síns, en fluttist þá í Krosshjáleigu og lést þar 1909.
„All sérvitur þótti Guðrún í Krosshjáleigu og er til dæmis um það að hún fyrirbauð börnum sínum að giftast, og munu þau ekki hafa talið sér fært að brjóta gegn því banni.“ (Ragnar Ásgeirsson í Skruddu II).

Maður Guðrúnar, (19. október 1833), var Petreus Cephas Pétursson bóndi, f. 8. maí 1805 í Hörgslandi á Síðu, d. 6. október 1860 í Tjarnarkoti.
Börn þeirra hér:
1. Cephas Petreusson vinnumaður, f. 17. júní 1835 í Hátúnum, d. 29. september 1855, drukknaði, ókvæntur.
2. Pétur Petreusson, f. 29. september 1835, d. 21. júní 1839.
Barn fætt í Eyjum:
3. Þóra Petreusdóttir, f. 30. mars 1840, d. 7. apríl 1840 úr ginklofa.
Börn fædd utan Eyja:
4. Pétur Petreusson bóndi (ráðsmaður) í Tjarnarkoti og formaður við Landeyjasand, f. 15. maí 1841, drukknaði 28. mars 1893 við Landeyjasand. Aðrir skipverjar björguðust. Þjóðsögur spunnust um leitina að honum og líkfundinn. (Skrudda II).
5. Guðrún Petreusdóttir húskona í Kirkjuvogi í Höfnum, f. 14. júní 1844, d. 21. apríl 1928, ógift.
6. Páll Petreusson, f. 8. september 1847, d. 4. desember 1851.
7. Þóra Petreusdóttir bústýra hjá uppeldisbróður sínum Þorvaldi bónda á Krossi í A-Landeyjum 1923-1925, síðan vinnukona á Krossi í A-Landeyjum, f. 16. mars 1849, d. 3. ágúst 1934, ógift.
8. Sólveig Petreusdóttir bústýra hjá uppeldisbróður sínum Þorvaldi bónda á Krossi 1903-1923, f. 10. ágúst 1850, d. 1. febrúar 1923, ógift.
9. Cephas Petreusson, f. 29. september 1855, d. 6. október 1855 úr ginklofa.
10. Pálína Sigríður Björg Petreusdóttir, f. 16. nóvember 1856, d. 22. nóvember 1856.
11. Sigríður Petreusdóttir bústýra í Hallgeirsey, f. 20. júní 1858, d. 16. mars 1946, ógift. Hún eignaðist son, Pál Auðunsson, sem nam eðlisfræði við Hafnarháskóla, en lést úr berklum 1917. Aðrir voru ekki afkomendur Guðrúnar eldri og Petreusar.
Fóstursonur Guðrúar Pálsdóttur var
12. Þorvaldur Símonarson bóndi í Tjarnarkoti, f. 29. september 1868, d. 13. janúar 1955.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Skrudda II. Ragnar Ásgeirsson. Akureyri. Búnaðarfélag Íslands, 1958.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.