Guðrún Jónsdóttir (eldri) (Kirkjubæ)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Guðrún Jónsdóttir húsfreyja á Kirkjubæ fæddist 27. mars 1862 á Ketilsstöðum í Mýrdal og lést 14. janúar 1939.
Faðir hennar var Jón bóndi á Ketilsstöðum, síðar á Litlu-Hólum í Mýrdal, f. 1. mars 1830 í Hryggjum, d. 20. mars 1871, Þorkelsson bónda í Hryggjum í Mýrdal 1835, f. 25. apríl 1801, d. 24. mars 1862, Runólfssonar húsmanns í Rofabæ 1801, Hávarðssonar og konu Runólfs í Rofabæ, Ragnhildar Ólafsdóttur.
Móðir Jóns á Ketilsstöðum og kona Þorkels í Hryggjum var Þórunn húsfreyja frá Brekkum í Mýrdal, f. 20. október 1791, d. 8. febrúar 1870, Sveinsdóttir bónda á Brekkum 1801, Eyjólfssonar, og konu Sveins, Guðrúnar húsfreyju Þóðardóttur prests í Kálfholti Sveinssonar og konu sr. Þórðar, Guðfinnu Þorsteinsdóttur í Árbæ í Holtum Kortssonar.
Móðir Guðrúnar á Kirkjubæ og kona Jóns á Ketilsstöðum var Ingiríður húsfreyja, f. 2. nóvember 1832 í Fjósum, d. 18. janúar 1913 í Norðurgarði í Eyjum, Einarsdóttir bónda á Giljum í Mýrdal 1835, f. 1790 í Vindási í Hvolhreppi, d. 3. júní 1866 í Hryggjum, Jónssonar bónda á Brekkum í Hvolhreppi, f. 1762, d. 12. febrúar 1842, Þorbjörnssonar, og konu Jóns á Brekkum, Vilborgar húsfreyju, f. 1763, d. 14. febrúar 1843, Jónsdóttur.
Móðir Ingiríðar Einarsdóttur og kona Einars á Giljum var Salgerðar húsfreyja, f. 1789 í Eyjum, d. 10. júní 1862 á Ketilsstöðum, vinnukona á Flókastöðum í Fljótshlíð 1816, Bjarnadóttir og Guðrúnar Björnsdóttur, f. 1765.

Systkini Guðrúnar í Eyjum voru:
1. Vilborg Jónsdóttir húsfreyja á Kirkjubæ, f. 28. febrúar 1855, mun hafa látist í Utah.
2. Einar Jónsson bóndi og sjómaður í Norðurgarði, f. 12. júní 1859, d. 8. ágúst 1937, kvæntur Árnýju Einarsdóttur.
3. Bjarni Jónsson í Norðurgarði, bóndi og málari í Utah, f. 19. apríl 1863.
4. Þorkell Jónsson bóndi á Gjábakka, f. 1. október 1867. Hann fluttist til Vesturheims. Kona hans var Kristín Jónsdóttir húsfreyja, f. 2. júní 1864.
5. Salgerður Jónsdóttir vinnukona á Kirkjubæ og í Hólshúsi f. 28. desember 1869 á Litlu-Hólum í Mýrdal. Hún fluttist frá Frydendal til Reykjavíkur 1889, vinnukona.

Guðrún var með foreldrum sínum á Ketilsstöðum í Mýrdal til 1868, á Litlu-Hólum þar 1868/9-1870, var ómagi á Hryggjum þar 1870 eða fyrr til 1880. Hún var vinnukona á Búðahóli í Landeyjum 1890.
Guðrún fluttist til Eyja 1891, var vinnukona í Jómsborg, húsfreyja í Norðurgarði 1896, í Háagarði 1899, á Kirkjubæ 1905 og síðan.
Þau Arngrímur giftu sig 1896, eignuðust þrjú börn, en misstu eitt þeirra viku gamalt.
Arngrímur lést 1937 og Guðrún 1939.

I. Maður Guðrúnar, (20. nóvember 1896), var Arngrímur Sveinbjörnsson bóndi á Kirkjubæ, f. 17. júní 1868, d. 11. febrúar 1937.
Börn Arngríms og Guðrúnar hér:
1. Engilbert Arngrímsson, f. 17. ágúst 1899 í Háagarði, d. 14. maí 1920, drukknaði af smábát í Höfninni.
2. Sigurjón Arngrímsson, f. 25. október 1903, d. 2. nóvember 1903.
3. Salgerður Sveinbjörg Arngrímsdóttir, (Sala á Kirkjubæ) húsfreyja á Kirkjubæ, kona Jóns Nikulássonar, f. 20. október 1905 á Kirkjubæ, d. 25. mars 1981.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.