Guðríður Guðmundsdóttir (Hnjúki)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðríður Guðmundsdóttir (,,Frænka“) frá Gauksmýri í Línakradal, V.-Hún., húsfreyja, matráðskona, kennari fæddist þar 2. maí 1897 og lést 6. júlí 1992.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Sveinsson, þá ráðsmaður, f. 20. september 1868, d. 5. júlí 1945, og ekkjan Ólöf Sigurðardóttir, húsfreyja á Gauksmýri, f. 13. janúar 1865, d. 3. júlí 1925.
Fósturforeldrar Guðríðar voru hjónin á Hnjúki í Vatnsdal, Hallgrímur Sveinn Jónsson bóndi, f. 10. ágúst 1852, d. 22. október 1922 og kona hans Þorbjörg Þorsteinsdóttir húsfreyja, frænka hennar, f. 14. október 1862, d. 26. september 1941.

Börn Guðmundar og Önnu Helgu Jónasdóttur konu hans:
1. Marinó Líndal Guðmundsson verkamaður, sjúklingur, f. 19. ágúst 1914, síðast til heimilis á Hólagötu 23, en var á sjúkrahúsi í Reykjavík, d. 21. ágúst 1983.
2. Sveinbjörn Guðmundsson sjómaður, vélstjóri, útgerðarmaður, f. 28. júní 1921 að Öxl í Sveinsstaðahreppi, A.-Hún., d. 5. júlí 1998.

Guðríður var með móður sinni fyrsta ár sitt, en fór þá í fóstur að Hnjúki.
Hún naut heimakennslu, fór í Kvennaskólann á Blönduósi og var þar tvo vetur.
Guðríður var vel hagmælt.
Hún kenndi börnum í Vesturhópi í V.-Hún. einn vetur, annan vetur var hún í vist á Akureyri og síðan á Hnjúki um skeið.
Hún flutti til Eyja frá Hnjúki 1922 að ósk Guðmundar föður síns, ætlaði að dvelja þar einn vetur, en hún bjó þar í 30 ár, í fyrstu með föður sínum, Önnu Helgu og Sigurbirni skáldi frænda sínum á Sólbergi við Brekastíg 3. Hún tók þátt í byggingu Hnjúks við Brekastíg 20 með þeim og Sigurbirni föðurbróður sínum, bjó þar og annaðist skáldið. Sigurbjörn nefndi hana ætíð ,,frænku“.
Guðríður kenndi börnum á vetrum, en vann við fiskþurrkun að sumrinu. Síðustu 12 árin í Eyjum var hún matráðskona á Sjúkrahúsinu.
Hún flutti til lands, var aðstoðarráðskona á Vinnuheimilinu að Reykjalundi í tvö ár.
Guðríður keypti íbúð að Garðastræti 16 í Reykjavík og hóf flatkökubakstur í bílskúrnum, prjónaði með annari konu barnapeysur á vél og seldi í verslun. Síðar gerðist hún dagmóðir, var um skeið við barnagæslu hjá hjónum á Húsavík, flutti með þeim til Svíþjóðar, er hún var 77 ára og gætti barns í eitt ár.
Hún flutti að Seljahlíð 17. júní 1986 og dvaldi þar, en var sjúklingur á Borgarspítalanum síðustu tvær vikur ævinnar.
Guðríður lést 1992, ógift og barnlaus.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.