Guðrún Guðnadóttir (Nýborg)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðrún Guðnadóttir vinnukona í Nýborg, síðar í Utah, fæddist 24. júní 1856 í Hallgeirseyjarhjáleigu í A-Landeyjum og lést 1. nóvember 1926 í Utah.
Faðir Guðrúnar var Guðni bóndi þar, f. 4. desember 1813 á Arnarhóli í V-Landeyjum, d. 23. desember 1872, Guðnason bónda á Arnarhóli og Hallgeirseyjarhjáleigu, f. 1778 á Núpum í Fljótshverfi, V-Skaft., d. 6. janúar 1850 á Arnarhóli, Ögmundssonar bónda á Núpum, f. 1726, d. 19. september 1780, Ólafssonar, og síðari konu Ögmundar, Guðrúnar húsfreyju, f. 1748, d. 28. júlí 1818, Þorsteinsdóttur bónda á Arnbjargarlæk í Þverárhlíð, Borgarfirði, Þorvaldssonar.
Móðir Guðna yngri í Hallgeirseyjarhjáleigu og kona, (19. júlí 1804), Guðna eldri var Kristín húsfreyja, skírð 6. apríl 1778, d. 28. september 1854, Bjarnhéðinsdóttir bónda í Langagerði í Hvolhreppi, f. 1743, d. 8. ágúst 1811, Sæmundssonar, og konu Bjarnhéðins, Guðrúnar húsfreyju, f. 1751, d. 11. febrúar 1834, Einarsdóttur.

Móðir Guðrúnar og kona Guðna í Hallgeirseyjarhjáleigu, (1. júlí 1852), var Elín húsfreyja, f. 18. júní 1826 í Efri-Vatnahjáleigu (Svanavatni) í A-Landeyjum, d. 23. nóvember 1908, Ísleifsdóttir bónda á Bryggjum þar, f. 27. febrúar 1799 í Búðarhóls-Norðurhjáleigu þar, d. 20. mars 1893 í Hallgeirseyjarhjáleigu, Eyjólfssonar bónda í Búðarhóls-Austurhjáleigu (Hólavatni) þar, f. 1768 í Norður-Búðarhólshjáleigu þar, d. 26. nóvember 1838 í Austurhjáleigu þar, Guðmundssonar, og konu Eyjólfs, (15. ágúst 1790), Elínar húsfreyju og yfirsetukonu, f. 1767 í Bakkahjáleigu í A-Landeyjum, d. 7. maí 1855, Ísleifsdóttur.
Móðir Elínar í Hallgeirseyjarhjáleigu og kona, (6. júní 1824, skildu), Ísleifs á Bryggjum var Guðný húsfreyja á Bryggjum, f. 11. október 1805, d. 23. september 1877, Jónsdóttir bónda á Syðri-Úlfsstöðum, Ljótarstöðum og Snotru í A-Landeyjum, f. 1766 á Syðri-Úlfsstöðum, d. 2. apríl 1842 á Snotru, Þorkelssonar, og konu Jóns Þorkelssonar, (28. október 1790), Margrétar húsfreyju, f. 1765, d. 18. júlí 1834, Hreinsdóttur.

Systkini Elínar í Eyjum voru:
1. Elín Guðnadóttir vinnukona á Heiði fæddist 24. júní 1856 og lést 18. júní 1923. Hún var tvíburi við Guðrúnu.
2. Guðný Guðnadóttir vinnukona, síðar í Utah, f. 14. júlí 1858, d. 26. maí 1939.
3. Ísleifur Guðnason bóndi á Kirkjubæ, f. 30. janúar 1862, d. 1. júní 1916.

Guðrún var með foreldrum sínum í Hallgeirseyjarhjáleigu í bernsku, var léttastúlka í Hallgeirey 1870, vinnukona þar 1880.
Hún fluttist ásamt Guðnýju systur sinni úr Landeyjum til Eyja 1882, Guðný að Juliushaab, en Guðrún að Nýborg og var þar vinnukona 1890 og 1891, en í Julíushaab 1892 og þaðan fór hún til Utah 1893.
Guðrún giftist ekki vestra, lést 1926 úr heilablóðfalli.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • The Icelanders in Utah. La Nora Allred.
  • Vesturfaraskrá 1870-1914. Júníus H. Kristinsson. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1983.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.