Grágæs

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Fuglar
Sjófuglar
Vaðfuglar
Mávar, kjóar, þernur
Andfuglar
Spörfuglar
Annað
Útdauðir fuglar

Grágæs (Anser anser)

Grágæs er andfugl og er hún með stærstu gæsum á norðurslóðum. Grágæsin er grá, bæði ljósgrá og dökkgrá með hvíta bringu. Hún er 75-90 cm að lengd, 3-4 kg að þyngd og vænghaf hennar er 1,5-1,8 m. Grágæsin er jurtaæta, hún fer á beit á daginn en hvílir sig yfir næturtímann. Gæsin lifir og heldur sig oftast við strandlengjuna, uppi í móum og við árbakka. Í Vestmannaeyjum verpa ekki margar grágæsir, aðeins er vitað um eitt par sem heldur sig rétt hjá flugvellinum.

Grágæsin er yfirleitt orðin 3-4 ára áður en hún gengur í ævilangan hjúskap, þ.e þegar hún velur sér maka til lífstíðar. Gæsin verpir á vorin, frá byrjun maí til byrjun júlí eftir að varphjónin hafa fundið sér varpsetur sem þau halda mikilli tryggð við. Gassinn sér um að vakta og fylgjast með hreiðrinu. Eggin eru yfirleitt 4-6 og vega um 160 g, eggjaskurnið er gulleitt eða rjómagult á litinn. Útungunartíminn er 4 vikur. Gæsarungarnir fylgja foreldrum sínum á farstöðvar á haustin og eru með þeim yfir veturinn. Nytjar af grágæsinni eru m.a. af kjötinu, eggjunum og dúninum. Auk þess þykir hún góð villibráð og það hefur verið mikið sport á Íslandi að skjóta gæsir. Stofn grágæsarinnar í Vestmannaeyjum telur enungis örfá pör.