Fyrsta bæjarstjórn Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Vestmannaeyjasýsla varð kaupstaður að lögum árið 1918. Er þetta eitt af merkisárum sögu Vestmannaeyja, þó svo að margir atburðir þetta árið hafi varpað skugga á þennan stóratburð. Kosningar voru haldnar strax í janúar 1919.

Kosningar

Valið var í kjörstjórn og í henni voru Karl Einarsson bæjarfógeti, Högni Sigurðsson og Jón Einarsson, Gjábakka. Kjörstjórn bárust sjö framboðslistar og voru þeir merktir með stöfunum A-G. Til að bera fram lista þurfti 5 meðmælendur.

A-listi B-listi C-listi
Jóhann Þ. Jósefsson kaupmaður Jón Einarsson kaupmaður Gísli J. Johnsen konsúll
Halldór Gunnlaugsson læknir Ólafur Auðunsson, Þinghól Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum
Þórarinn Árnason, Oddsstöðum Símon Egilsson, Miðey Páll Bjarnason ritstjóri
Sigurður Sigurðsson lyfsali Sveinn P. Scheving hreppstjóri Árni Sigfússon kaupmaður
Geir Guðmundsson útvegsmaður Gísli Magnússon, Skálholti Magnús Jónsson, Túnsbergi
Guðlaugur Hansson þurrabúðsmaður Högni Sigurðsson hreppstjóri Högni Sigurðsson, Vatnsdal
Ágúst Árnason kennari Kristján Ingimundarson, Klöpp Gísli Lárusson framkvæmdastjóri
Ágúst Gíslason, Valhöll Guðlaugur Jónsson, Gerði Gísli Magnússon, Skálholti
Gísli Jónsson útvegsmaður, Arnarhóli Hannes Sigurðsson, Hjalla Kristján Ingimundsson, Klöpp
D-listi E-listi F-listi
Páll Bjarnason ritstjóri Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri
Gísli Lárusson framkvæmdastjóri Eiríkur Ögmundsson, Dvergasteini Sveinn Scheving hreppstjóri
Árni Filippusson, Ásgarði Sigfús Scheving, Heiðarhvammi Högni Sigurðsson, Vatnsdal
Johan Reyndal bakarameistari Högni Sigurðsson, Vatnsdal Sigurður Sigurðsson lyfsali
Brynjólfur Sigfússon kaupmaður Guðmundur Sigurðsson, Birtingarholti Eiríkur Ögmundsson, Dvergastöðum
Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri Páll Bjarnason ritstjóri Sigurjón Jónsson, Hrafnagili
Þorsteinn Jónsson Laufási Jóhann Þ. Jósefsson kaupmaður Magnús Jónsson, Túnsbergi
Gísli Magnússon, Skálholti Magnús Jónsson, Túnsbergi Þorsteinn Jónsson, Laufási
Sveinn P. Scheving hreppstjóri Sigurjón Jónsson, Hrafnagili Kristján Ingimundsson, Klöpp
G-listi
A.L. Petersen símstjóri
Árni Sigfússon kaupmaður
Páll Bjarnason ritstjóri
Eiríkur Ögmundsson, Dvergastöðum
Árni Filippusson, Ásgarði
Magnús Ísleifsson, London
Högni Sigurðsson, Vatnsdal
Gísli Lárusson framkvæmdastjóri
Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri

Athyglisvert er að sjá að flestir frambjóðendur eru á fleiri en einum lista. Þrjátíu og fimm menn sitja í 63 sætum, sem þýðir að hver og einn situr að meðaltali í tæplega tveimur sætum. Högni Sigurðsson og Páll Bjarnason voru á fjórum listum hvor, og aðrir á færrum. Var sá háttur hafður á að atkvæði af öllum listum voru talin saman og bætt við þann lista sem að frambjóðandi fékk flest atkvæði á.

Kosningar fóru fram 16. janúar 1919 í húsinu Borg. Kjörseðlar voru 800, samþykktir af umboðsmönnum framboðslistanna, og voru 556 kjósendur sem nýttu kosningarréttinn. Flest atkvæði fékk C-listinn, 163, og því fjóra menn inn. A-listinn fékk þrjá menn og E-listinn tvo.

Fyrsta bæjarstjórnin

Þegar samanlögð atkvæði einstakra frambjóðenda voru talin kom í ljós að þessir voru réttkjörnir bæjarfulltrúar fyrir Vestmannaeyjakaupstað:

Nafn Fjöldi atkvæða
Jóhann Þ. Jósefsson 184
Gísli J. Johnsen 162
Páll Bjarnason 155
Högni Sigurðsson 146
Magnús Guðmundsson 138
Halldór Gunnlaugsson 115
Jón Hinriksson 101
Eiríkur Ögmundsson 99
Þórarinn Árnason 96

Mynduðu þessir menn því fyrstu bæjarstjórn Vestmannaeyja, og komu þeir saman í fyrsta skipti til fundarhalda þann 14. febrúar 1919. Oddviti bæjarstjórnar var Karl Einarsson og mættu 8 af 9 bæjarfulltrúum á fundinn. Fjarverandi var Gísli J. Johnsen. Á þessum fyrsta fundi var kosið í nefndir og stöður hjá bænum. Stöður hjá bænum voru 12 árið 1919 og voru sum þeirra lítið launuð aukastörf.

Sjá einnig


Heimildir

  • Haraldur Guðnason. Við Ægisdyr: Saga Vestmannaeyjabæjar í 60 ár, I. bindi. Reykjavík, Vestmannaeyjabær, 1982.