Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Framslysið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Framslysið)
Fara í flakk Fara í leit


Framslysið.


Á jólaföstu árið 1914, var Einar Þórðarson í Hlaðbæ á leið heim til sín seint um kvöld neðan úr Sandi. Lagði hann leið sína austur með Urðum og hugðist fara upp með Vilborgarstaðatúngörðum. Þegar hann var kominn austur undir Helli, gengu sex menn fram á hann og hurfu honum út í myrkrið. Þekkti hann alla mennina, nema einn. Þeir voru allir í sjóklæðum og mjög blautir að sjá. Ekki yrtu þeir á hann. Furðaði hann mjög á ferðalagi þeirra, klæðnaði og öllu útliti, þar sem veður var þurrt. Á þessum slóðum átti hann heldur ekki von á mönnum þannig búnum um þetta leyti dægurs. Daginn eftir komst hann að því, að enginn þessara manna hafði verið þarna á ferð, um það leyti sem hann þóttist sjá þá. Þótti honum því sýn þessi enn furðulegri og lét lítið yfir.
Í byrjun næstu vertíðar (14. januar 1915) fórst vélbáturinn Fram austur af Kirkjubæ fyrir brotsjó og drukknaði þar öll áhöfn hans, sem var fimm manns. Formaður á bátnum var Magnús Þórðarson í Dal, en vélstjóri Ágúst Sigurhansson og hásetar Helgi Halldórsson lausamaður í Pétursborg, Arnkell Thorlacius frá Steintúni í Bakkafirði og Björn Eyjólfsson vinnumaður frá Skála undir Eyjafjöllum. Þetta voru hinir sömu menn, sem Einar hafði séð á Urðunum á jólaföstunni, og þekkti hann þá alla, nema Arnkel, sem komið hafði fyrst til Vestmannaeyja í vertíðarbyrjun. Þótti, er slysið var orðið, að sýn Einars hefði verið feigðarboði þessara manna.
Seinna um veturinn (7. apríl) drukknaði Jón Pétursson frá Reykjavík á Hörgeyrarhálsinum, en fleiri menn drukknuðu ekki þá vertíð. Einar var orðvar og vandaður maður. — Um Arnkel Thorlacius er sagt, að hann hafi ráðizt vertíðarmaður hjá Magnúsi, vegna þess að hann langaði til að róa eina vertíð í Vestmannaeyjum, en annars hafði hann langt skeið verið í siglingum erlendis. Hann var sundmaður góður. Þegar báturinn sökk var hann skammt undan landi. Náði Arnkell þá í belg og lét sig bera með honum upp að ströndinni, en keyrði sig í kaf, er ólögin riðu á hann. Landtakan var ógurleg, því að meðfram öllum Urðunum eru stórgrýtisklettar og hraunklappir, enda fór svo, að Arnkell rotaðist þar í brimgarðinum. Var fjöldi manns kominn á vettvang og munaði minnstu að í hann næðist.
Skömmu síðar rak lík þeirra Arnkels og Ágústs. Um haustið (19. september) fannst lík rekið inni í Botni. Var það mjög rotnað og vantaði bæði á það höfuð og handleggi. Héldu menn að það hefði verið af einhverjum þeirra, sem fórust með Fram.
Daginn, sem Fram fórst voru flestir bátar á sjó. Gekk um daginn upp í afspyrnu austanrok og veltubrim. Fram mun hafa verið á sjó á „landsuðri“, eða fyrir sunnan Sker. Kom hann sunnan með og fór djúpt, því vindur stóð á land. Þegar hann var kominn út af Kirkjubæjum, bilaði vélin og rak bátinn óðfluga til lands. Þegar skammt var orðið í land, reið óskaplegt ólag yfir bátinn og sáu menn, sem á horfðu, að í ólaginu hafði vélarhúsið sópazt af bátnum. Fyllti hann fljótt og sökk hann fyrst að aftan og stóð stafninn um stund upp úr áður en hann sökk. Ekkert sást til manna á bátnum nema Arnkels, eins og áður hefir verið sagt. Var talið sennilegast að allir hinir hefðu sokkið með bátnum. Báturinn var um 10 smálestir að stærð og alveg nýr. Hafði hann verið keyptur frá Danmörku fyrir vertíðina.
Um þetta leyti var Gissur Filippusson aðalvélsmiðurinn í Eyjum. Hafði hann áður en vertíð byrjaði gjört eitthvað við vélina í Fram. Nokkru eftir slysið var hann kvöld eitt úti á Botni í vélbát að lagfæra vélarbilun, ásamt fleiri mönnum. Er þeir höfðu lokið verkinu fóru þeir á smábát inn í Skildingafjöru og lentu fyrir framan smiðju Gissurar. Þar skildu mennirnir við Gissur, en hann tók verkfæri sín og hélt upp að smiðjunni. Þá sér hann Magnús í Dal standa fyrir framan sig. Gissur lét þetta ekki á sig fá og hélt áfram upp að smiðjudyrunum, en er hann kom þangað, stóð Magnús fyrir dyrunum og var ekki árennilegur. Stakk Gissur þá verkfærunum inn um hálfopinn glugga á smiðjunni, en er hann var að því, sér hann að Magnús er kominn inn í smiðjuna.
Gissur hélt síðan heimleiðis og fór Flatirnar, því að hann átti heima vestarlega í Þykkvabænum. Þegar hann var kominn spölkorn upp á Flatirnar varð honum litið við og sér þá að smiðjan stendur í björtu báli. Varð honum ekki um sel, en hélt þó áfram heim, enda kom á daginn, að enginn venjulegur eldur hafði verið í smiðjunni. Héldu menn, að Magnús hefði kennt Gissuri um það, að vélin bilaði og varð þeim öllum á Fram að aldurtila. Ekki varð Gissur síðar var við að Magnús sækti að honum. Gissuri varð svo um þetta, að hann lá rúmfastur næstu daga.
(Sögn Antoníusar Baldvinssonar).