Fanney Gísladóttir (Jaðri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Fanney Gísladóttir.

Fanney Gísladóttir verkakona frá Jaðri fæddist 16. desember 1914 í Görðum og lést 10. júní 2005.
Foreldrar hennar voru Gísli Þórðarson verkamaður, f. 5. desember 1877, d. 7. nóvember 1943, og kona hans Guðleif Kristjánsdóttir húsfreyja , f. 13. október 1886, d. 22. janúar 1917.

Systkini hennar voru:
1. Haraldur Gíslason sjómaður, verkamaður, f. 24. apríl 1907, d. 24. nóvember 1989. Hann var tökubarn í Múlakoti 1920.
2. Sigríður Stefanía Gísladóttir húsfreyja í Reykjavík og Kópavogi, f. 11. apríl 1908, d. 10. mars 1995. Hún ólst upp hjá ömmusystur sinni í Hamragörðum u. Eyjafjöllum.
3. Þuríður Guðlaug Gísladóttir, f. 19. september 1909, d. 6. ágúst 1971. Hún var tökubarn á Grjótá í Fljótshlíð 1920.
4. Kristján Belló Gíslason leigubifreiðastjóri í Reykjavík, f. 1. febrúar 1912, d. 31. maí 2005. Hann var með föður sínum á Litlu-Grund 1917, í Múlakoti 1920.
5. Soffía Gísladóttir húsfreyja í Fljótshlíð og í Hvolhreppi, f. 31. desember 1915, d. 14. september 2003. Hún var tökubarn í Múlakoti 1920.
7. Ásta Gísladóttir, f. 17. janúar, d. sama dag.

Móðir Fanneyjar lést, er hún var nær þriggja ára. Hún fór í fóstur til hjónanna í Miðkoti í Fljótshlíð, Sveins Jónssonar og Margrétar Guðnadóttur. Tólf ára gömul fluttist hún til hjónanna Guðlaugs Ólafssonar og Júlíu Jónasdóttur á Guðnastöðum í A-Landeyjum.
Hún fór í vinnumennsku til Eyja, er hún var 18 ára, vann þjónustustörf hjá hjónunum í Sólheimatungu, hjá Andersen-hjónunum á Sólbakka og hjá Stefaníu og Guðmundi Vigfússyni frá Holti.
Fanney veiktist af berklum 23 ára, var á Vífilsstöðum um hríð. Flutti hún síðan til elztu systur sinnar Sigríðar Stefaníu og Ólafs Jónssonar manns hennar og var þar til heimilis meðan þau lifðu. Hún stundaði þar heimilisstörf og hannyrðir, en Sigríður rak þá saumastofu. 1945 flutti hún ásamt fjölskyldu Sigríðar í Kópavog. Þar ræsti hún hjá bæjarfógetaembættinu.
Fanney lést 2005 og var jarðsett í Hlíðarendakirkjugarði við hlið fósturforeldra sinna í Miðkrika.
Hún var ógift og barnlaus.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.