Elliðaey (gönguferð)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Ellirey - Gengið við á gömlum og nýjum lundaveiðistöðum

Skráð af Pétri Guðjónssyni frá Oddsstöðum og síðar Kirkjubæ.

Okkur Þórarni Sigurðssyni rafvirkjameistara, með meiru, kom saman um það, að gaman væri að fara dagstund út í Ellirey, ganga um eyna og færa inn á blað hina ýmsu lundaveiðistaði, bæði gamla og nýja. Svo kom að því, að ákveðið var að fara skyldi einn laugardag eftir hádegi,enda var veðrið mjög gott, norðangola og ládauður sjór.

Farið var með m/b Lat, VE 10 skipstjóri að sjálfsögðu Sigurður Sigurðsson (Diddi frá Svanhóli), eigandi bátsins og formaður Ellireyjarfélagsins.

Uppgangan að austan í Elliðaey. Trillan Lubba bíður út á höfninni eftir mannskapnum. Vinstra megin við Lubbuna er Hleinin. Skáhallandi kletturinn sem einnig sést heita Norður-Búr. Í hamrinum aftan við Lubbuna er Teistuhellir. Mynd Ívar Atlason - ágúst 1986
Uppgangan að austan í Elliðaey séð frá Norður-Búrum. Mynd Ívar Atlason - júní 2004

Þegar komið var út fyrir hafnargarða, var haldið laust sunnan við Ellireyjartanga, sem er syðsti oddi á eynni. Þegar komið er fyrir tangana, er haldið í norður, austan við Suður- og Norður-Búr vegna þess, að norðan við Búrið er stór blindflúð, sem er að vísu upp úr á fjöru, en sést ekki á flóði nema í brimi. Þessi flúð er hið eina, sem forðast þarf þegar sjóleiðin er farin kringum Ellirey. Þá er haldið vestur,sunnan við mjög stóran klettadrang eða sker, sem heitir Hlein, og myndar hún mjótt sund við eyna.

Að austan eru þrjár uppgöngur. Sú syðsta er syðst á flánni og er aðaluppgangan. Þar út frá er haft ból, svo að í góðu leiði er hægt að hafa bátinn festan við það og í land. Þarf þá enginn maður að vera í bátnum, og svo var í þetta sinn.

Um það bil fyrir miðri flánni er kór, sem kallaður er Lundakór. Þar var báturinn, sem sótti lundann, alltaf afgreiddur áður fyrr, og hefur kórinn sennnilega fengið nafn af því. Nú er þessi staður ekki notaður nema um fjöru, enda er um flóð mjög gott að afgreiða bát norður á nefinu og mun styttri burður, ef um flutning er að ræða. Af nefinu er haldið upp í rétt, þar sem leiðinni er skipt, hvort sem borið er upp eða niður, og hefur svo verið í langan tíma. Áður en réttin var flutt, en það mun hafa verið um 1925, var þessi staður kallaður Skarð. Réttin var áður við Suður-Búr, en vetrarsjórinn jafnaði hana vanalega við jörðu.

Við körtuna Þessi lundaveiðistaður er oftast kallaður Skribbík Mynd Ívar Atlason - ágúst 2006

Þá er að ganga sólarsinnis með brúnum. Þegar komið er um 80 metra suður af réttinni, myndast dálítið nef. Þar er Norður-staðurinn á hamrinum, áttin rétt austan við Bjarnarey. Þetta var mjög góður staður, áður en réttin var flutt. Áfram er haldið. Uppi af miðri Austururð er stór steinn, sem er laus við bergið að ofanverðu, en hefur aðeins setu að neðan, svo að maður skilur ekki, að hann skuli ekki hafa hrapað niður. Þessi staður er nefndur „Við körtuna“. Áttin er suðaustankaldi.

Áfram er haldið suður með hamrinum, þar til hann endar. Þá tekur við annar hamar, sem liggur í austur, og austast er góður lundastaður, sem nefndur er Hrafnajaðar eða Hafnarjaðar. Þar þarf vindstaðan að vera mjög norðlæg eða standa norðan við Norður-Búr. Niður undan staðnum er hellir, sem heitir Teistuhellir. Þar hafa teistur verpt. Hægt er að komast í hellinn bæði austan og vestan frá um stórstraumsfjöru.

Norður -Búr Mynd Ívar Atlason - júlí 2007
Suður-Búr til vinstri.Réttarurð fyrir miðri mynd. Mynd Ívar Atlason - júlí 2007

Héðan er haldið í suður eftir hamri, sem nær suður að Suður-Búrum og heitir Réttarhamar. Undir honum er urð, sem heitir Réttarurð. Nöfnin eru sennilega frá þeim tíma, er réttin var syðst í urðinni vestan við Suður-Búr, enda stutt að ná í grjót í urðina. Á Réttarhamrinum er enginn lundastaður nema syðst, þar sem myndast smánef. Var stundum setið þar í sunnan-suðaustangolu, en veiði var aldrei mikil.

Á Suður-Búrum eru tveir staðir. Uppi á Há-Búrum er smáhaus, og niður undan honum er flá, sem setið var á og háfurinn lá eftir. Þarna veiddist oft sæmilega vel. Áttin er suðaustankaldi. Hinn staðurinn er neðst norðan megin. Þar er smápallur, sem setið er á, horft er í vestur, en háfurinn liggur í norður. Þarna veiddist aldrei mikið. Áttin er suðaustangola. Suður-Búrum hallar frá austri til vesturs.

Að vestan er grasi gróin brekka, sem heitir Búrabrekka. Svo er önnur brekka, sem hallar frá vestri til austurs. Er þetta mikið flæmi, sem nær frá Hólum eða Hausum, sem eru upp af Hrafnajaðri, og upp að Stóra-Bunka og alla leið að suðurbrún. Þetta heitir Langihryggur. Þar sem þessar brekkur mætast, myndast skarð. Var oft setið syðst í skarðinu, þrír að austan og tveir að vestan. Þarna veiddist aldrei mikið. Fuglinn hætti svo fljótt að fljúga. Áttin suðaustangola.

Í Langahrygg, uppi af syðstu brún Réttarhamars, var oft setið. Þar voru útbúnar setur,og voru þar vanalega þrír menn, hver uppi af öðrum. Aldrei var mikil veiði á þessum stað. Áttin suðaustangola.

Búralón Mynd Ívar Atlason - júlí 2007

Á Norður-Búrum er enginn lundastaður, enda er gróður enginn. Að austan er þverhnípt standberg, og verpir þar nokkuð mikið af svartfugli. Að vestan er hallandi brekka alla leið niður að Réttarurð. Er hallinn sennilega um 45 gráður, en þó sæmilega gengur. Efni bergsins er móberg.

Frá efri staðnum á Suður-Búrum halla móbergslögin til suðurs alla leið niður í sjó. Neðst er mikil flá, sem heitir Búraflá. Þar fyrir ofan er nokkuð stórt lón, sem heitir Búralón, og er í því bæði flóð og fjara. Að ofan er urð, sem heitir Vatnsurð, og að vestan er smápallur, þar sem vatn seytlar. Er svo aðeins á þessum eina stað á eynni, en gallinn er sá, að vatnið er mjög salt.

Þegar komið er upp úr urðinni, liggur leiðin með lágum hamri, en mjög löngum, sem nær alla leið að syðstu brún. Þessi hamar heitir Vatnsurðarhamar, og er undir honnum gróin urð, sem heitir Vatnsurð.

Vatnsurðin Mynd Ívar Atlason - júlí 2007

Er hún oft þéttsetin fugli. Syðst í urðinni, eða á Landsuðurnefinu, eru mjög góðir lundastaðir, bæði þegar fuglinn flýgur norður eða suður. Þegar fuglinn flýgur í norður, er setið á steini, sem er alveg frammi í brúninni, og flýgur þar fyrir mjög mikið af fugli. Hefur og fengist í þessum stað mesta veiði, sem vitað er um á einum degi, eða 1000 fuglar. Rétt ofan við þessa setu er önnur seta, þar sem veiðist oft sæmilega, en ekki má vera nema lítill vindur þar. Áttin í báðum þessum stöðum er norðaustlæg. Þegar fuglinn flýgur í suður, er setan í upphlaðinni vörðu rétt hjá neðri setunni. Þar er áttin suðaustankaldi.

Svo er haldið áfram, og þá tekur við suður-brúnin, mjög mikill hamraveggur, sem nær alla leið vestur að Háubælum. Rétt vestan við nefið er sennilega besti lundaveiðistaður í eynni. Er setan þar um fjórir metrar neðan við brúnina. Þessi staður heitir Skora. Þarna veiðist mjög vel, ef áttin er hagstæð, en þá þarf að vera sunnan-suðaustankaldi. Mesta veiði á þessum stað eru 900 fuglar á 8 klukkustundum. Niður af setunni er nokkuð mikið af svartfugli.

Sókn í Elliðaey. Lubban sækir lunda sem veiðst hefur í Skorunni. Mynd Ívar Atlason-júlí 2000

Það er kallaðar Landsuðurshillur. Þarna var oft sigið til eggja, en var erfitt, því að loft er mikið. Eru þar um 300 egg. Rétt vestan við Skoruna er veiðistaður, sem heitir Gil. Þar er setan alveg frammi í brúninni, og hefur þar alla tíð aflast mjög vel. Áttin er vestankaldi.

Rétt vestan við Gilið, niðri í miðju bergi, er svartfuglabæli, sem heitir Kerlingabæli. Eru þar um 150 egg.

Upp er haldið. Þegar komið er upp á hábrún, er þar einkennilegt fyrirbæri, sem heitir Kerling. Virðist þetta vera hlaðið af mannavöldum. Fyrst er mjög mikil undirstaða, og koma svo á hana tveir stórir steinar með nokkru millibili, svo að þarna myndast gat. Undir þessum steinum eru steinklípi eins og til að gera þá stöðugri. Ofan á þessa steina kemur svo stór steinn, sem bindur þá saman, og síðan einn minni sem myndar höfuð frúarinnar. En eitt er víst. Ef þessi stytta er hlaðin af mannavöldum, hafa það verið mikil karlmenni, sem það gerðu.

Kerlingin. Myndina tók Stefán Erlendsson

Rétt austan við Kerlingu er mjög stór, gróinn steinn, sem heitir Stóri-Kerlingarhaus. Þegar fugl er uppi, er hann þéttsetinn og eins hamrar og brekkur í kring. Öruggt er, að þessi haus hefur aldrei verið höfuð frúarinnar, sem hér var verið að segja frá.

Vestan í Stóra-Kerlingarhaus er staður sem oft var setinn, en þar veiddist lítið. Þessi staður var kallaður Kerlingarklof.

Nú fer að halla til vesturs. Þar myndast nokkuð mikil brekka. Heitir þetta Flái, og hafa þeir lundastaðir, sem þarna eru, sama nafn. Uppi á brúninni er nokkuð stór steinn, og undir honum er seta. Þetta hefur alla tíð verið mjög góður staður og áttin vestankaldi. Rétt neðan við þessa setu er flatur steinn, og við hann er seta, þar sem oft veiddist vel. Þar er áttin suðaustankaldi. Rétt austan og ofan við þennan stað, í sjálfu nefinu, er seta. Þar heitir Lávarðadeild. Veiddist þarna oft sæmilega. Áttin suðaustankaldi.

Þegar farið er frá Fláanum og heim, er mikið um lautir og hóla alla leið að Stór-Bunka. Það heita Kirkjulágar. Vestan við þær og alla leið eru mjög stórir hraundrangar eða hausar, sem nefnast Kirkjuhausar. Í einum þeirra er nokkuð stór skúti, sem heitir Kirkja. Sunnan við hausana er dálítil flöt og þar út frá sker, sem kallast Smali. Uppi í eynni á móti er urð, sem heitir Smalaurð. Í hana er ekki hægt að komast nema á bandi. Uppi í berginu og austan við urðina er nef, sem heitir Smalaurðarnef. Var oft setið þar í háaustanátt. Veiddist þar oft mikið af svartfugli, því að þar austar og innar af er stærsta svartfuglabæli í eynni. heitir þar Stór-Kerlingarbæli. Maður hefur heyrt þess getið, að aðeins einu sinni hafi verið komið á þetta bæli, og var það Jón heitinn Ingimundarson í Mandal. Hefur það sennilega verið um síðustu aldamót. Hafði hann snarað 600 svartfugla. Að vísu var gerð tilraun til að komast á bælið fyrir nokkrum árum, en hún mistókst.

Svartbaksungar á toppi Norður-Búra Mynd Ívar Atlason - júní 1991

Upp af nefinu er haldið upp troðna fjárgötu, sem var áður mjög greiðfær, en er nú orðin gróin, síðan fé hætti að vera í eynni. Þegar upp er komið, komum við að nokkuð stórum steini. Austan í honum er seta, og veiddist þar vel í byrjun. Áttin er vestlæg. Þetta er kallað Árnasafn. Norðvestan af þessum stað er seta, sem heitir Moldaskora. Þar veiðist oft nokkuð vel, þegar lítið er að hafa annars staðar. Þarna vestur af og norðar er nokkuð langur laus hamar, sem stendur á allbröttum mófláa, og nær hann nokkru lengra fram. Þetta heitir Moldi. Fyrir miðjum hamrinum er seta með sama nafni. Frammi í brúninni á móflánni fyrir miðju, nokkra metra niðri í berginu, er allstór bekkur, sem nefndur er Moldabekkur. Þar verpa nokkrir fýlar, og fyrir neðan þennan bekk er svartfuglabæli, sem heitir Moldabæli. Er þar um 80 egg. norðan við Molda eru nokkuð miklar flatir, sem heita Suðurflatir. Þar var oft heyjað áður fyrr. Þess skal getið, að þegar Presthúsin fengu jarðarréttindi með hlunnindum í Ellirey, var eina grasnyt þeirra Suðurflatirnar.

Þá er haldið upp á brún Háubæla. Þar syðst er seta, sem heitir Jónsnef, og veiðist einkum svartfuglg þar. Áttin er suðvestlæg. Svo er haldið norður með brúninni á hæsta stað Háubæla. Síðan fer að halla til vesturs, og nokkru vestar er Bringur, sem nær að næstu brekku. Þegar niður er komið og gengið upp með Bringnum að brúninni, er komið að syllu eða bekk, sem gengin er í austur. Er þar rúmgóður pallur. Hér er maður þá kominn nokkuð langt niður í Háubæli, enda sést um þau öll af þessum stað.

Hringvía situr á syllu í Háubælum Mynd Ívar Atlason - júlí 1987

Er mjög fallegt að horfa á allar þær þúsundir fugla, sem þarna eiga heimkynni sín, enda er þetta helzti staður, sem gestum og ferðamönnum er sýndur. Þegar horft er í austur og aðeins ofar, er stór bekkur, sem heitir Fýlabekkur. Er þar um 40 til 50 fýlar. Þegar farið var að ná í svartfuglaegg, var fyrst farið niður á þennan bekk og svo niður af honum á nokkrum stöðum, enda mjög mikið af eggjum um öll Háubæli. Ekki er unnt að segja til um, hve mörg egg eru þar. Neðarlega í Háubælumer stór fláki, sem heitir Hurð, og þar niðri undir sjó er bæli, sem nefnist Hurðabæli. Ekki verður komist á það nema af sjó. Og svo er þröngt þar, að menn verða að skríða um það. Á þessum stað eru um 150 egg. Beint undir pallinum er stórt bæli, sem heitir Loftbæli, og eru þar um 200 egg.

Álka Mynd Ívar Atlason - júlí 1987

Nú er haldið til baka, og tekur þá við nokkuð löng og brött brekka, sem nær alla leið að miklum höfða, sem Lauphöfðar heita, en er vanalega kallaður Lauphausar. Þar sunnan undir er nokkuð stór skúti, sem nefndur er Suðurflatarheyból. Þar var heyið af Suður-Flötunum geymt, þar til það var flutt í land. Þá var því gefið þar niður beint fram af ofan í bátinn, sem var að sækja það. Þarna til norðurs er nokkuð stórt svartfuglabæli, sem nefnist Heybólsbæli. Á þetta bæli er hægt að ganga án þess að vera bundinn, enda oft farið þangað til veiða. Þessu næst er gengið til austurs sunnan undir höfðanum, þar til upp er komið. Er þar haldið í vestur og eru á báðar hendur brattar brekkur. Nær sú að norðan ofan í sjó að vestan og ofan í Vestururð að austan. Vestast er stór Bringur. Utan í honum er seta, og þar fyrir neðan, alveg frammi í brúninni, er önnur seta. Í þessum stöðum báðum veiðist oft mjög vel. Áttin norðvestlæg. Rétt norðan við þessar setur eru aðrar tvær setur, þegar áttin er á suð-vestan, en þar veiðist ekki eins vel. Norðan og vestan í höfðanum er gil, sem nær ofan í sjó. Heitir þar Gípur. Mjög mikið af svartfugli er vestan í höfðanum.

Mynd:Elliðaey-kort.PNG

Þá er haldið í austur með hamri, sem nær alla leið að Stóra-Bunka. Þessi hamar heitir Suður-Hamar. Þar eru engir lundastaðir. Þá liggur leiðin upp Stóra-Bunka að vestan. Þegar upp er komið, er grasi gróin brekka, sem hallar til vesturs. Niðri í henni er seta, þar sem veiðist stundum nokkuð vel. Áttin er á vestan. Nú höldum við nokkurn spöl í norður. Á þessu svæði voru fram til um 1950 þrír stórir hausar, kallaðir Ófeigshausar. Þá hrundu þeir, og var það mikið hrap, sem náði upp í mitt berg að austan og fram í sjó að vestan. Ekkert af þessu sést lengur, og hefur sjórinn séð um það.

Áfram er haldið um stund og komið að allstórum hól, sem nefnist Litli Bunki. Hann er aðeins til suðvesturs frá gamla kofanum. Höfðu gömlu mennirnir trú á því, að veiði yrði að morgni, ef fugl sat þar uppi að kvöldi. Þá er farið eftir hrygglaga granda með brekkum til beggja handa, þar til komið er að hamri, sem heitir Vestur-Hamar.

Lundi með æti Mynd Ívar Atlason - júlí 1987

Þar fyrir neðan er Vestururðin, og nær hún alla leið að Suður-Hamri. Í urðina má komast bæði að noran og sunnan. Fyrir henni miðri, stutt út í sjónum, er nokkuð stórt móbergssker, sem heitir Hlein. Nyrst í Vestururð er stór steinn sem heitir Heysteinn, en við hann var áður fyrr skipað út heyi. Síðan göngum við eftir urðinni til norðurs, þar til við komum að fláa, sem liggur til vesturs, og höldum áfram rétt ofan við sjó fram á brún. Erum við þá komnir að annarri aðaluppgöngu eyjarinnar, þar sem heitir Pálsnef. Upp á efra nefið er brött flá, 50 metra há, og liggur þar band niður til stuðnings, þegar bátur er afgreiddur þarna megin á eynni. Verður að gefa því niður, sem heim á að fara, og draga það upp, sem kemur. Þarna uppi á pallinum, frammi í brúninni, þar sem gefið er niður, er seta. Er það besti svartfuglastaður í eynni og veiðist of vel þar. Uppi á efri brúninni er nokkuð stór steinn, sem slúttir fram, og er seta austan við hann. Hefur náðst þar góð veiði af lunda. Þar austan við er brött, grasi gróin brekka, Pálsnefsbrekka.

Nálin Mynd Ívar Atlason - júlí 2007
Svartsfugls & fýlsegg í körfum eftir sig í Nálinni Mynd Ívar Atlason - maí 1985

Nú er farið eftir löngum hrygg, Nálinni, sem nær frá PálsnefiHábarði. Að austan er hann grasi vaxinn, og þar er brekka, sem heitir Nálarbrekka. Að vestan er aftur á móti mikið til strandberg. Þá er haldið upp eftir og fyrst komið að litlum skúta, sem hlotið hefur nafnið Mandalur. Þar er seta sem veiðist í, en aldrei mikið. Rétt ofar er svo annar skúti, sem heitir Guðlaugsskúti, og þar fyrir ofan er grasi gróinn haus, sem heitir Guðlaugsskútahaus. Þar fyrir neðan, niðri í miðju bergi, er stór bekkur, sem heitir Fýlabekkur. Eru þar nokkrir fýlar, en í berginu fyrir ofan er mikið af svartfugli. Þarna fyrir norðan er svo annar bekkur, sem heitir Suður-Svelti. Eru einnig nokkrir fýlar þar. Þar fyrir neðan er fláki, sem nefnist Helgagöngur, og mikið af svartfugli í honum. Þessi bekkur er líka nokkuð langt niðri í bergi, og fyrir ofan hann er brattur fláki upp að brún. Þar strax fyrir norðan er mjög fallegur bekkur, sem heita Norður-Svelti, og er nokkuð mikið grasi gróið frá honum og alla leið upp á brún. Er þetta annað mesta fýlapláss í eynni. Nyrst á pallinum, rétt neðan við brúnina, er stórt svartfuglabæli, sem heita Sveltisbæli, en syðst á pallinum og einnig rétt fyrir neðan brún er fláki, sem við skulum kalla Sveltisfláka. Á báðum þessum stöðum er mikið af svartfugli. Fyrir miðjum þessum palli er mjög stór steinn upp á hryggnum, og heitir hann Hrútur. Þar nokkru norðar komum við svo að hæsta haus í Nálinni. Er hann mjög stór um sig og heitir Nálarhaus. Hann er grasi gróinn að ofan, en berg að sunnan og norðan. Vestan í honum er seta. Var þar oft veitt, þegar áttin var norðaustlæg. Rétt neðan við hausinn er seta, sem heitir Efri-Nálarstaður. Þar hefur alla tíð veiðst vel. Áttin er vestlæg. Rétt sunnar er önnur seta, sem heitir Neðri-Nálarstaður, en áttin aðeins suðlægari. Í báðum þessum stöðum er líka hægt að veiða, þegar áttin er orðin það norðlæg, að fuglinn fer að fljúga í norður. Þá snýr maður sér bara við og horfir í suður. Vestan í allri Nálinni er mikið af svartfugli, og má ná þar í um 2000 egg.

Af Nálarhausunum er haldið upp Hábarð að vestan. Þar uppi er langur móbergsflái, oft þéttsetinn fugli. Þar fyrir neðan eru hillur fáa faðma ofan í bergi og á þeim nokkuð af svartfugli.

Heimaey séð frá Hábarði Ungur drengur Elliði Ívarsson reynir að veiða lunda. Mynd Ívar Atlason - júlí 2006
Hábarðog Bólið séð frá Stóra-Búnka. Mynd Ívar Atlason - júlí 2006

Þegar komið er upp á brún, er haldið í austur með brúninni, en hún er hæsta brún á eynni. Hábarð er strandberg að norðan og vestan, en grasi gróin brekka að sunnan, nokkuð brött og mikið flæmi. Í berginu er mjög lítið af fugli, aðeins eitt svartfuglabæli austast og neðarlega. Er það alltaf nefnt Bælið í Hábarði. En í brekkunni er mjög mikið af lunda. Að austan er bergið bringir og kórar. Fyrir því miðju koma tvö nef, sem mynda skarð, og vestan við það er seta undir brík. Veiðist þar stundum í vestan kalda.

Heimaey séð frá Bólinu veiðihúsi Elliðaeyjafélagsins á síðsumarkveldi. Algjört logn er og spegilsléttur sjór Mynd Ívar Atlason - ágúst 2004

Þá er haldið upp að gamla kofanum. Fyrir vestan hann er mikið flæmi, sem nær að sunnan frá brekkunni vestan við Litla-Bunka, að Hábarðsbrekkunni. Þetta heita Norðurflatir, og voru þær allar heyjaðar í gamla daga. Á milli Stóra-Bunka og Litla-Bunka er slétt flöt, sem kölluð er Krókur. Þar var aðaltjaldstæðið fyrr og nú, enda lokað fyrir öllum áttum nema norðanátt. En þá hlífir Hábarðið. Rétt austan við gamla kofann er nokkuð stór laut, sem við köllum Kofalaut. Upp af henni að austan er smá hamar, sem heitir Skápar,

Kofalautin fyrir miðri mynd. Skáparnir er hamarinn lengst til vinstri. Stormsvala verpir í Skápunum. Hægra megin sést í þakið á gamla kofanaum og Litla - Búnka þar fyrir ofan. Mynd Ívar Atlason - júlí 2007

sennilega vegna þess, að þarna var geymsla fyrir ýmsa hluti, þegar búið var í gamla kofanum. Rétt austan við lautina er byrgi undir lágum hamrastöllum, sem heita Nautarétt, og er frá þeim tíma, þegar naut voru höfð í eynni. Á barðinu sunnan við er lítið op, og þar er smáhellir, sem heitir Höskuldarhellir. Sagt er, að stúlka að nafni Guðrún Höskuldsdóttir hafi verið við heyskap í eynni og hafi hún gengið þarna frá barni sínu. Sumir þóttust stundum heyra hljóð eða gól, helst ef veður fór versnandi.

Þá er að skoða Stóra-Bunka, konung eyjarinnar. Hann er hringlaga og mjög mikill um sig að neðan, en fer mjókkandi, er ofar dregur. Er hann allur grasi gróinn og með bröttum brekkum á allar hliðar. Þar er mikil lundabyggð. Efst uppi er smápallur, þar sem veifa var sett upp, þegar menn þurftu að hafa samband við land. Að vestan er brekkan ekki eins há og annars staðar vegna bergsins. Þar sem brekkan endar, tekur við allstór hóll, svo að skarð myndast þar. Var oft setið þar, helst að kvöldi til. setið var bæði að austan og vestan, og gátu verið þarna allt að fimm menn. Var þetta gert meira til gamans en það gæfi veiði. Rétt til suðvesturs frá Skarðinu er mjög djúp laut, sennilega eldgígur, sem heitir Bunkalág.

Þá förum við frá gamla kofanum norður í götu og komum að mikilli brekku, sem heitir Siggafles. Nær hún alla leið frá Hábarði að vestan og niður að Rétt að austan. Að norðan er bergið nokkuð mikið gróið, og þar er mesta fýlabyggð í eynni. Vestast er lítil tó, og í berginu neðan við hana er kór, sem heitir Strákakór. Nokkuð ofarlega, neðan við fýlabyggðina, er svartfuglabæli, sem kallast Siggaflesbæli. Eru þar um 100 egg. Fyrir miðju flesinu á brúninni er jaðar eða hryggur, sem er of þéttsetinn fugli. Þar undir bríkinni er seta, og þarf áttin að vera norðankaldi. En ofan við bríkina, undir jaðri, er seta, og þar þarf áttin að vera suðaustlæg. Í þessum stöðum veiðist aldrei mikið. Í brúninni ofan við réttina er bringur, sem setið er undir. Það er kallað Undir jaðrinum. Þarna veiðist oft sæmilega. Áttin er suðaustankaldi. Uppi af Norðurstaðnum á Austurhamrinum, aðeins til suðurs, er bringur. Þar er smáhellir, og er vatn neðst í honum. Hann heitir Vatnshellir.

Þess skal getið, að allar brekkur í eynni eru heimkynni lundans. Í þeim er mjög mikil lundabyggð og mikið af fugli og alla tíð vett þar. Ekki eru neinar sérstakar setur í brekkunum, heldur tylla menn sér niður, þar sem þeim líst best á. Þessir staðir eru mikið notaðir af byrjendum.

Nú erum við aftur komnir í Réttina og um leið búnir að fara hringinn. Þá er að fara niður Flána. Við förum í bátinn norður á nefi og höldum norður með. örum strax fram hjá flá, sem heitir Nautaflá. Þar munu nautin hafa verið tekin upp í gamla daga, þegar þau höfðu sumarbeit í eynni. Svo er önnur flá nyrst, sem nær lengra út. Hún heitir Stampaflá. Uppi af heni er sléttur pallur, sem nefnist Stampar. Norðan í þeim er ein uppgangan. Rétt vestar er skúti, sem heitir Stampahellir. Upp í hann er farið frá sjó. Eru þar nokkrir svartfuglar. Síðan er haldið vestur með. Þegar komið er móts við Hábarð, er sker stutt frá landi, og heitir Látrar. Þá er haldið heim.

Jarðir þær, sem ítök áttu í Ellirey, voru 16, svonefnd niðurgirðing fjórar jarðir. Þessar jarðir voru:

Elliðaey
  • Garðurinn,
  • Miðhús,
  • Gjábakki,
  • Hof = 4 jarðir
  • Presthús 2 jarðir
  • Oddsstaðir 2 jarðir
  • Búastaðir 2 jarðir
  • Gerði 1 jörð
  • Steinsstaðir 1 jörð
  • Þorlugagerði 2 jarðir
  • Norðurgarður 2 jarðir
  • Samtals: 16 jarðir

Hver jörð hafði 12 sauða vetrarbeit og 19 sauða sumarbeit. Auk þess hafði fyrirliðinn, sem alltaf var kallaður köllunarmaður, fjögurra sauða beit fyrir sitt starf. Af þesu sést,að á vetrum hafa verið í eyni 196 kindur og á sumrin 310 kindur. önnur hlunnindi voru fugl, egg og stundum hey. Hagagangan var alltaf fullnýtt.

Árið 1909, þegar ég var tæplega 7 ára, fór ég mína fyrstu ferð í Ellirey með föður mínum, en hann var fjöldamörg ár veiðimaður þar. Síðan þá hafa einungis þrjú ár fallið úr, sem ég hef ekki verið veiðimaður þar. Í fyrsta sinni, sem ég fór, voru veiðimenn átta og tveir byrjendur. Ég ekki talinn með.

Gamli kofinn er vestan undir barði, sem er vestan við Skápana. Sennilega hefur hann verið staðsettur þarna til þess að hafa skjól fyrir austanáttinni. Gallinn er bara sá, að frá honum er ekkert útsýni og sést aðeins hluti af eynni.

Þegar veiðimenn höfðu komið dóti sínu upp að kofa, var farið að slá flöt sunnan við kofann. Svo var heyið borið inn í hann, sett á gólfið og slétt úr því, en síðan sett yfir teppi. Þá var undirsængin komin, því að þó nokkuð lengi var sofið í flatsæng. Á hliðum kofans voru breið borð, ekki þétt, og voru grafnir upphafsstafir veiðimanna á þau af mikilli snilld. Var slæmt að þessi borð skyldu glatast, því að þau hefðu sannarlega átt heima á byggðasafni. Á austurstafni kofans var breið hilla. Á henni voru hitunartæki; fyrst olíuþríkveikja og síðast prímus. Þvert yfir að vestan var stokkur. Þar tóku menn af sér skóna og fóru úr galla.

Á þessum tíma sá hver maður um mat handa sér og hafði því sinn matarkassa. Þeir voru þó nokkuð stórir og voru hafðir með báðum hliðum veiðikofans. Komu koddarnir að þeim, þannig að höuðin lágu upp að kössunum. Hver maður hitaði kaffi sinn dag.

Á þessum árum voru skipti þannig, að þegar hver maður fékk 100 fugla, fékk hver jörð 25 fugla. Var það kallað, að þær fengju 1/4 part úr hlut og einnig nefnt jarðarpartur. Þegar búið var að skipta aflanum, var hann hnýttur saman í kippur, 100 fuglar saman, og var það nefnd kippa. Ef ekki náði hundraði, var það nefndur hali. Þessi hlutföll af veiði til manna héldust, þar til menn fóru að verða færri við veiðarnar, vanalega fimm menn. Frá því fengu jarðirnar 1/4 part af veiði, og hélzt það alla tíð, þar til bærinn tók jarðirnar af bændum. Síðan hefur Ellireyingafélagið eyna á leigu fyrir ákveðna krónutölu.

Venjulega voru þeir, sem byrjuðu veiðitímann, hann til enda og margir þeirra ár eftir ár, enda þá eins og nú urðu menn gamlir. Þá tóku yngri menn við.

Um 1930 var kofinn endurbyggður. Var sett í hann trégólf og hann allur klæddur að innan með panel. Þá voru settar upp sex kojur, fjórar við norðurhlið og tvær fyrir austurstafni. Þar kom þá að því, að hver maður fékk sitt ágætisrúm. Innan við dyrnar að norðanverðu var lítið herbergi og haft sem geymsla. Inn af því var annað lítið herbergi sem eldhús.

Upp úr 1950 var ákveðið að koma upp nýju húsi, og var því valinn staður neðst og austarlega í Hábarði. Þaðan er mjög gott útsýni og sést um mikinn hluta flóans og eins mjög langt til vesturs. Þetta var að vísu nokkurt átak af fáum mönnum, en tókst, og í húsið var flutt árið 1953. Þar eru níu rúm, lítið eldhús og geymsla. Í húsinu er gaseldunartæki, ljósavél og gashitunartæki, talstöð og að sjálfsögðu útvarp og kæliskápur. Sameiginlegt mötuneyti var ekki fyrr en flutt var í nýja húsið. Fram að þeim tíma kom bátur alltaf tvisvar í viku til að ná í fuglinn og koma með mat. Svo er ennþá.

Nú er gamli kofinn notaður sem geymsla fyrir fuglinn. Þar eru hillur úr járnplötum og fuglinum raðað á þær.

Árið 1936 var kofanum gefin gestabók, og sýnir hún, að nokkuð mikið er um gestakomu í eyna.

Að endingu vil ég geta þess, að um þetta 70 ára tímabil - eða frá því 1909 til 1979 - hefur alla tíð ríkt mjög góður félagsandi í eynni, svo til fyrirmyndar er. Ellireyingar hafa að sjálfsögðu með sér félagsskap. Þó að ég hafi í þessu mjög svo sundurlausa yfirliti yfir örnefni og liðinn tíma í Ellirey og enga menn nafngreint sérstaklega, ætla ég að nefna núverandi formann og varaformann félagsins. Þeir eru Sigurður sigurðsson frá Svanhól og Marinó Sigursteinsson.

Þá er þetta komið á blað, sem getur geymt ýmsar minningar um ástkæra Ellirey. Ætla ég svo að síðustu að setja hér það, sem Óskar heitinn Kárason sagði um Ellirey í ljóði, en hann var lengi veiðimaður þar á yngri árum sínum:

Ellirey á frelsi og fegurð lista,
fugl og gróður prýða björgin ströng,
hennar fold ég ungum gerði gista
glöðum drengjum með í leik og söng.
ég þrái hennar frelsi og dýrð að finna
fullkomin þá júlísólin skín
þá er hún meðal draumadjásna minna
dásamlegust paradísin mín.

EFTIRMÁLI UM NAFNGIFT

Það er víst rétt að ég láti í ljós hug minn á Ellireyjarnafninu. Ég held að það sé framburðarheiti á Erlendsey og það sé hennar rétta nafn. Rök mín fyrir þessu eru þau, að heima í Eyjum, - hvort það hefur verið víðar veit ég ekki, - var sá maður, sem Erlendurhét, alltaf í framburði kallaður Ellindur. Sama var um þá eða þann sem var Erlendsson, - hann var alltaf sagður Ellindsson.

Í Víkinni norðan undir Stórhöfða, rétt ofan við sjó, eru tóttleifar, sem heita Erlendarkrær. Þær eru sennilega frá þeim tíma er útræði var úr Víkinni. Í framburði eru þær kallaðar Ellindakrær.

Þetta eru helstu rök mín fyrir Ellireyjarnafninu, enda ekki ósennilegt að hún heiti mannsnafni eins og eyjan rétt sunnan við hana, Bjarnarey.

Að eyjan heiti Elliðaey, held ég að ekki komi til greina, vegna þess þá hefði hún alltaf verið kölluð því nafni, sem er svo gott í framburði.

Það að eyjan líkist skipi vestan úr sjó finnst mér ekki nein rök vegna þess að sjófarendur í gamla daga komu að landi austan frá, samanber Ingólf Arnarson, sem nam land við Ingólfshöfða.

Séra Brynjólfur Jónsson var prestur að Ofanleiti árin 1858-1884. Hann skrifaði sóknarlýsingu Vestmannaeyja 1873, sem Hið íslenska fræðafélag gaf út árið 1918. hann kallar eyna í riti sínu Ellirey. Og sýnir það best að það hefur verið daglegt mál í Eyjum á þeim tíma. Enda man ég ekki eftir að hafa heyrt annað nafn en Ellirey fyrr en um 1920 eða síðar.

Ég minnist þess að einu sinni heimsótti okkur út í Ellirey einn af orðabókarmönnum Háskólans. Þá kom til tals heitið á eynni. Hann sagðist eitt sinn hafa verið staddur austur í Landeyjum. Þá hefði hann séð í gömlum skjölum að eyjan væri notuð sem mið á landamerkjum og þar hefði verið skýrt skrifað Ellirey. Honum fannst engin ástæða til annars en halda því nafni.

Fleiri dæmi gæti ég nefnt um framburðarheiti á úteyjum í Vestmannaeyjum, en læt hér staðar numið að þessu sinni.

1.6.1980 P.G.

Pétur Guðjónsson Myndina tók bróðir hans Ingólfur Guðjónsson