Einar Magnússon (vélsmíðameistari)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Einar Magnússon og María Vilborg Vilhjálmsdóttir.

Einar Magnússon járnsmíðameistari í Stóra-Hvammi fæddist 31. júlí 1892 í Hvammi u. Eyjafjöllum og lést af slysförum 25. ágúst 1932.
Foreldrar hans voru Magnús Sigurðsson bóndi, f. 19. júlí 1858, d. 3. ágúst 1921, og kona hans Þuríður Jónsdóttir húsfreyja, ljósmóðir, f. 18. apríl 1852, d. 10. október 1942.

Einar var með foreldrum sínum í Hvammi í æsku.
Hann fluttist frá Hvammi til Eyja 1916, nam vélvirkjun og járnsmíðar, stofnaði smiðju sína og starfrækti, kenndi lærlingum. Smiðjan var við mót Njarðarstígs og Kirkjuvegar og þar bjó hann meðan hann var einhleypur.
Hann hannaði bát af sérstakri gerð, sem draga átti gegnum brimgarðinn við Sandinn, þannig útbúinn, að hann var lokaður og varðist ágjöf.


Þessi teikning er af „brimbát“ Einars vélsmiðs Magnússonar. (Blik 1978, bls. 187).


Þau María Vilborg giftu sig 1921, bjuggu á Fögrubrekku 1921-1922, en voru komin í Litla-Hvamm (Norður-Hvamm), nýbyggt hús sitt 1923 og bjuggu þar í fyrstu, en reistu Stóra-Hvamm 1926 og voru komin í það hús 1927 og útleigðu þá Litla-Hvamm.
Þau eignuðust 6 börn.
Einar fórst í gassprengingu í smiðju sinni 1932.


ctr


Verzlunarhús Kf. Bjarma við Miðstræti í Vestmannaeyjakaupstað. Áður var hús þetta langstærsta hús í Eyjum, byggt 1878 að við vitum bezt. Það hét Frydendal og var íbúðarhús Johnsenfjölskyldunnar þar til Kf. Bjarmi keypti það og flutti um tvær breiddir sínar suður að Miðstræti. Austan við hús þetta sér á smiðju Einars heitins Magnússonar, sem bjó að Kirkjuvegi 39, Stóra-Hvammi. Hann lézt af slysförum í smiðju sinni við sprengingu, sem þar átti sér stað. (Blik 1974, bls. 51).


ctr
María Vilborg Vilhjálmsdóttir með börn sín.

Aftari röð: Magnús, Þuríður, Einar, Villa María.

Fremri röð: Sigríður, María, Björg.

I. Kona Einars, (1921), var María Vilborg Vilhjálmsdóttir húsfreyja, f. 26. júní 1897 í Knopsborg á Seltjarnarnesi, d. 18. febrúar 1974.
Börn þeirra:
1. Sigríður Margrét Einarsdóttir húsfreyja, f. 20. janúar 1923, d. 9. febrúar 2003.
2. Björg Einarsdóttir húsfreyja í Bandaríkjunum, síðan í Reykjavík, f. 16. apríl 1924, d. 30. júlí 1991.
3. Magnús Einarsson vélvirki, verkstjóri í Bandaríkjunum, f. 30. nóvember 1925, d. 13. janúar 1998.
4. Þuríður Einarsdóttir Ólafson húsfreyja, f. 9. október 1927, d. 12. júní 1962.
5. Villa María Einarsdóttir húsfreyja, snyrtifræðingur, f. 12. desember 1928.
6. Einar Einarsson vélvirki, vélstjóri, f. 2. september 1930, d. 29. júlí 2010.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.