Blik 1980/ Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum (framhald), III. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum
(Framhald frá árinu 1976)
(3. hluti)

10. Kaupfélag Vestmannaeyja
(Framhald)

Fyrri hluta ársins 1953 var ráðningartími Jóns kaupfélagsstjóra á enda runninn samkvæmt uppsögn hans. Við höfðum þá auglýst kaupfélagsstjórastöðuna. - Þrjár eða fjórar umsóknir höfðu þá borizt kaupfélagsstjórninni. Hún mælti einhuga með Þorvarði Arinbjarnarsyni, starfsmanni á Keflavíkurflugvelli, í kaupfélagsstjórastöðuna, eftir að hafa kynnt sér rækilega starfshæfni hans og nám. Hann var samvinnuskólagenginn. Hann var tengdasonur Filippusar Árnasonar endurskoðanda Kaupfélagsins. Áskilið var, að endurskoðandi þessi hyrfi frá endurskoðun við Kaupfélagið, yrði tengdasonur hans kaupfélagsstjóri.
Á þessa ráðningu í kaupfélagsstjórastöðuna gat forstjóri S.Í.S. ekki fallizt þrátt fyrir þessi ákvæði kaupfélagslaganna: „Félagsstjórnin ræður framkvæmdarstjóra“. (10. gr.) Forstjórinn mælti með manni að nafni Jóhann Bjarnason og vildi fá hann ráðinn í kaupfélagsstjórastöðuna. Hann hafði verið starfsmaður hjá Kaupfélagi Hafnfirðinga á undanförnum árum.
Í rauninni þótti okkur það ekkert óeðlilegt, þó að forstjórinn vildi hafa hönd í bagga um ráðningu kaupfélagsstjórans, svo skuldugt sem Kaupfélagið var orðið Sambandinu og fjárhagslega ósjálfstætt. Orsök þess voru ekki minnzt skemmdu vörurnar, sem það var neytt til að taka við af hinum gjaldþrota verzlunarfélögum og fleygja síðan, vegna þess að þær seldust ekki.
Ábyrgðarminnst var það líka fyrir okkur stjórnendur að láta forstjórann ráða kaupfélagsstjóranum eins og komið var um allan rekstur félagsins, enda vildum við með því reyna að hlýja honum eilítið um hjartaræturnar.
Brátt urðum við stjórnarmenn þess áskynja, að hér var kominn maður í kaupfélagsstjórastöðuna, sem var vandanum vaxinn. Hann réð brátt deildarstjóra, trúnaðarmann og stjórnanda í daglegu starfi í verzlunum Kaupfélagsins, svo að öll stjórn var þar til fyrirmyndar.
Samvinna okkar Jóhanns Bjarnasonar kaupfélagsstjóra var hin ánægjulegasta í alla staði. Og hlýlegt samband myndaðist brátt á milli heimilanna, heimilis okkar hjónanna og kaupfélagsstjórahjónanna. Og vegur Kaupfélags Vestmannaeyja fór vaxandi, svo að lýðum var ljóst. Traust mitt á þessum kaupfélagsstjóra, hyggjuviti hans, dugnaði og hagsýni fór vaxandi, og ég gerði mitt ýtrasta til þess, að Sparisjóður Vestmannaeyja gæti mætt fjárþörf Kaupfélagsins miðra garða með því að liðka til og greiða götu félagsins fjárhagslega af fremsta megni.
Þegar leið fram á sumarið 1953, tók það að vekja athygli, hversu vegur Kaupfélagsins fór vaxandi og verzlunarrekstur þess efldist almenningi til mikilla hagsbóta. Þá tóku gömlu andstæðingar samvinnuverzlunarinnar í bænum með kaupmannavaldið að bakhjarli að íhuga, hvernig hnekkja mætti þessari þróun í bænum. Þá kom berlega í ljós það afl, sem við vinstri menn, er stóðum að kaupfélagsstofnuninni, óttuðumst og tjáðum forstjóra Sambandsins, þegar hann sótti svo fast að sameina Neytendafélagið Kaupfélaginu og ryðja burt úr stjórn tveim samvinnumönnum til þess að staðsetja þar tvo stjórnarmenn Neytendafélagsins. Við kusum heldur að lofa Neytendafélaginu að fara hreinlega á hausinn og hirða þá rústir þess eftir því sem við töldum æskilegt og hagkvæmt okkur.
Nú risu andstæðingarnir upp og vildu beita allskyns bolabrögðum til þess að hnekkja Kaupfélaginu og heimta aftur eignir Neytendafélagsins, hús og vörubirgðir, sem þeir töldu að hefðu verið afhentar Kaupfélaginu með undirferlum og lymsku, óbilgirni eða einskonar ofbeldi.

Hinn 20. júní um sumarið (1953) var stjórn kaupfélagsins birt svofelld sáttakæra:
„Um áramótin 1950-1951 afhenti stjórn Neytendafélags Vestmannaeyja Kaupfélagi Vestmannaeyja, eftir tilmælum Sambands íslenzkra samvinnufélaga, allar eigur og allan rekstur Neytendafélags Vestmannaeyja. En ekki hafði áður fengizt löglegur meiri hluti til þess að gera þessar ráðstafanir.
Stjórn Neytendafélags Vestmannaeyja hefur ákveðið að endurheimta þessar eignir og gerir þær kröfur, að Kaupfélag Vestmannaeyja eða stjórnin fyrir þess hönd afhendi eftirfarandi:

  1. Húseignina nr. 7 við Bárustíg ásamt meðfylgjandi lóðarréttindum í því ástandi, eða ekki verra ástandi, en hún var í um áramótin 1950-1951 og með viðaukum og endurbótum, sem á henni kunna að hafa verið gerðar, og að ógilt verði talið afsal á nefndri eign 4. apríl 1951. Á eigninni hvíli eigi hærri veðskuldir og eigi með verri kjörum en þær, er á henni hvíldu, er formleg afhending fór fram um áramótin 1950-1951. Engar kvaðir hvíli á eigninni.
  2. Vörubirgðir og áhöld tilheyrandi verzlun félagsins og afhent var Kaupfélgi Vestmannaeyja í umrætt sinn, allar innstæður hjá bönkum og viðskiptamönnum og öðrum, alla sjóði og peningaeign, allt í sama ástandi og það var í, er afhending fór fram, svo og bifreið og önnur tæki, en N.V. taki eigi við meiri skuldum en fyrir hendi var í umrætt sinn.
  3. Allar bækur og skjöl tilheyrandi rekstri Neytendafélags Vestmannaeyja, er afhending fór fram, svo sem sjóðbók og dagbók eða sjóðdagbók, viðskiptamannabók, höfðubók og vörutalningaskrá, fylgiskjöl, gjörðarbók og öll önnur skjöl og skilríki, er viðkoma rekstri félagsins í umrætt sinn.

Komi í ljós, að eignir hafi rýrnað, eða eignir þær, sem nefndar eru í 1.-3. gr. hér að framan, séu ekki lengur til hjá Kaupfélagi Vestmannaeyja, eða af öðrum ástæðum sé ekki hægt að skila þeim, eins og hér að framan er krafizt, að bætur verði þá greiddar sem svarar andvirði þess, sem glatað er. Þá er að lokum krafizt skaðabóta fyrir tjón það, sem Neytendafélag Vestmannaeyja hefur biðið við það að hafa ekki rekstur verzlunarinnar með höndum. Er krafizt kr. 10.000,00 á ári fyrir hvert ár, sem félagið hefur ekki getað haft rekstur verzlunarinnar vegna ofangreindra aðgerða. Þá er krafizt 6% ársvaxta af eign Neytendafélags Vestmannaeyja eins og hún var við afhendingu og frá þeim tíma til greiðsludags. Þá er krafizt málskostnaðar af skaðlausu eftir mati dómara.
Ég leyfi mér því hér með að snúa mér til hinnar heiðruðu sáttanefndar í Vestmannaeyjum með beiðni um, að þeir kalli undirritaða ásamt stjórn Kaupfélags Vestmannaeyja, Þorstein Þ. Víglundsson, Goðasteini, Steingrím Benediktsson, Hvítingavegi 6, Gunnar Sigurmundsson, Brimhólabraut 24, Jón Stefánsson, Strandvegi 42 og Pál Eyjólfsson, Heiðarvegi 28, allir í Vestmannaeyjum, f.h. Kaupfélags Vestmannaeyja til þess að fá þá til að sættast á að verða við ofangreindum kröfum.
Komist sátt eigi á, óskast málinu vísað til aðgerða dómstólanna.

Vestmannaeyjum, 20. júní 1953
Í stjórn Neytendafélags Vestmannaeyja
Jón Eiríksson hdl.
s.u.

Út af ofangreindri kæru er kærður ásamt kæranda kvaddur til að mæta á sáttafund, sem haldinn verður í húsi K.F.U.M. og K. næstkomandi mánudag 22. júní 1953 kl. 5 1/2 e.h.

Stefnufrestur er tveir sólarhringar. Vestmannaeyjum, 20. júní 1953.
Í sáttanefnd Vestmannaeyja
Sig. Ólason (Sign)
Har. Guðnason (Sign)“

Eftir að okkur vinstri mönnum í stjórn Kaupfélags Vestmannaeyja hafði verið birt þessi sáttakæra, lýsti ég yfir því við stefnanda, að við myndum höfða meiðyrðamál á hann fyrir grófar mannorðsskemmdir, þegar hann væri kominn með málsókn þessa fyrir bæjarþingið, - því að efni sáttarkærunnar væri nánast fullyrðing um það, að við hefðum stolið vörulager Neytendafélagsins og húseign þess. Þar væri borið á okkur stórþjófnaður eða nánast rán. Fyrir þann áburð, þau brigzlyrði, skyldi hann fá að svara að lokum fyrir Hæstarétti, þar sem við gætum ekki treyst dómi undirréttar nema hóflega af pólitískum ástæðum.
Ekki varð ég nánar var við framhald þessarar málsóknar og á sáttarnefndarfundinn kom ég ekki og enginn okkar.
Á kjörtímabilinu 1950-1954 stóðu þrír flokkar að meiri hluta í bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar. Við Framsóknarmenn áttum þar tvo fulltrúa, sósíalistar eða kommúnistar tvo og Alþýðuflokksmenn einn fulltrúa.
Við bæjarstjórnarkosningarnar í jan. 1954 töpuðum við Framsóknarmenn öðrum fulltrúanum úr bæjarstjórninni sökum mikils fylgistaps. Almenningur í bænum virtist eiga erfitt með að draga hreinar línur milli Framsóknarflokksins annars vegar og Sambands íslenzkra samvinnufélaga hins vegar, eins og ég hefi minnzt á áður. Kjósendum okkar fannst það í alla staði óeðlilegt, að gamlir andstæðingar S.Í.S. skyldu nú eiga að stjórna Kaupfélaginu að kröfu forstjórans. Gremjan sauð og vall.
Þó var önnur ástæða enn ríkari fyrir hinu mikla tapi Framsóknarflokksins við þessar bæjarstjórnarkosningar. Ég einn bar þar sök á. Ég hafði beitt mér eindregið fyrir því á kjörtímabilinu 1950-1954, að bæjarsjóður seldi a.m.k. annan bæjartogarann úr eigu sinni til þess að rétta við fjárhag bæjarins, sem nú hafði tapað mörgum milljónum króna á togararekstri sínum á undanförnum árum, svo að lánstraust hans var með öllu þrotið. Ekki var lengur staðið í skilum með kaupgreiðslur til starfsfólks bæjarins, hvað þá greiðslur á skuldum til opinberra stofnana og banka. Fjármál bæjarins voru öll í kaldlakoli sökum þessara milljónatapa á togaraútgerðinni. Hinsvegar hafði fulltrúaefnum Sósialista eða Kommúnista í átökum bæjarstjórnarkosninganna tekizt að koma verkalýðnum í bænum til að trúa því, að ég hefði á hinu liðna kjörtímabili framið „glæp“ gagnvart atvinnulífi bæjarins með því að beita mér fyrir sölu bæjartogaranna. Þessi skoðun fólksins og trú olli öðrum þræði fylgistapinu mikla. Um þessa atburði alla mun ég skrifa á öðrum stað í riti þessu, því að þeir eru sögulegir.
En hvers vegna svo að geta um þessi fyrirbrigði, þetta fylgistap, hér í sögu Kaupfélags Vestmannaeyja? Af þeirri einföldu ástæðu, að gremja Kommúnistanna í bæjarstjórninni sökum „glæpsins“ leiddi til þess, að samstaða tókst með fyrrverandi stjórnarmönnum Neytendafélagsins, Sjálfstæðismönnunum, og fulltrúa hinna grömu í stjórn Kaupfélagsins um það, að sparka mér út úr stjórninni þar, svo fljótt sem því yrði við komið. Einnig leiddi salan á togurunum úr eigu bæjarins til þess, að samvinna tókst við Sjálfstæðismenn um stjórn bæjarfélagsins eftir kosningarnar í jan. 1954. Það gramdist Kommúnistum verulega, svo að fulltrúar þeirra gerðu allt, sem þeir gátu, til þess að loka leiðum okkar Framsóknarmanna til áhrifa. Hins vegar var okkur mörgum það ljóst frá upphafi, að það var hugsjón hinna fyrrverandi stjórnarmanna Neytendafélagsins í kaupfélagsstjórninni að ná þar yfirráðum og verða þannig fulltrúar S.Í.S. um rekstur félagsins, fyrst þeirra eigin félagsskapur hafði farið í hundana.
Þetta sögðum við forstjóra S.Í.S. í upphafi átakanna, en hann lagði engan trúnað á fullyrðingar okkar. Undir niðri gat ég dáð það og undrast, hvernig Steingrími og Páli gat tekizt með skynsamlegum fortölum og mælskulist að stela hjartanu úr forstjóranum. Sagt var okkur, að sú gáfa reyndist þó ekki öllum gefin og fjarri því.
Sumarið 1956 afréðum við hjónin að fara í ferðalag austur í átthagana og dveljast þar um hálfsmánaðarskeið. Þegar við komum aftur heim úr þeirri ferð, var ég ekki lengur í stjórn Kaupfélags Vestmannaeyja. Hinir þrír ráðandi menn í meiri hluta stjórnarinnar höfðu strax boðað til aðalfundar, þegar ég var horfinn úr bænum. Sá fundur var ekki svo vel sóttur að löglegur yrði. Til þess þurftu að sitja fundinn um 250 félagsmenn, því að alls höfðum við náð undirskriftum um það bil 500 manna, þegar hér var komið vexti Kaupfélagsins. - Brátt var boðað til framhalds-aðalfundar. Hann sátu milli 20 og 30 félagsmenn. Og hann var löglegur samkv. kaupfélagslögunum þó að fámennur væri.
Á þessum fundi bar einn af foringjum Kommúnistanna í bænum, Gísli Þ. Sigurðsson, fram þá tillögu opinskátt, að mér yrði hafnað í stjórn Kaupfélagsins. Ástæðurnar voru sá „glæpur“, sem ég átti mesta sök á gagnvart verkalýð bæjarins, þegar ég hafði beitt mér fyrir sölu bæjartogaranna. Tillaga þessi var sambykkt með um það bil 3/4 hlutum hinna fáu fundarmanna.
Þegar hér var komið þessari valdasókn hinna gömlu andstæðinga Sambandsins og samvinnusamtakanna í landinu, afréð Jóhann Bjarnason, kaupfélagsstjóri, að segja upp stöðu sinni. Það gerði hann með löglegum fyrirvara. Þann fyrirvara notuðum við í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja til þess að draga sem mest saman seglin um víxlakaup og aðra fyrirgreiður við Kaupfélagið, því að okkur bauð í grun. Við þekktum allt okkar „heimafólk“ og gátum ráðið nokkuð fram í tímann.
Formaður hins gjaldþrota Neytendafélags var nú orðinn formaður kaupfélagsstjórnarinnar og kommúnistinn í stjórninni varaformaður.
Og nú hófust sérlegir og sögulegir atburðir í rekstri Kaupfélagsins.
Nýr kaupfélagsstjóri var ráðinn í stað Jóhanns Bjarnasonar, hins ötula og hyggna kaupfélagsstjóra. Sá hét Jón Bergsteinsson. Hann tók við stöðunni 1. febr. 1957. Hann hvarf frá henni í janúar 1958. Þá var hann saddur þeirra starfsdaga.
Hver tók nú við?
Dag nokkurn kom ókunnur maður inn í Sparisjóð Vestmannaeyja og æskti þess að fá að ræða við mig. Það var auðsótt mál. Þessi maður kvaðst heita Jóhann og nefndi fððurnafn sitt, sem ég læt liggja milli hluta. Hann kvaðst vera ráðinn kaupfélagsstjóri í stað Jóns Bergsteinssonar. Gott var það og blessað. Og erindið?
Erindið var það, að fá kr. 20.000,00 að láni hjá Sparisjóðnum til þess að geta fest kaup á húsgögnum, því að hann ætlaði sér að hefja búskap í kaupstaðnum, þegar hann hefði sótt konuefnið sitt, sem þá dvaldist erlendis. - Og hver yrði svo ábyrgðaraðili fyrir láni þessu? - Það yrði Kaupfélag Vestmannaeyja, sagði hann. - Nei, það fyrirtæki átti nóg með sig eða kom til að eiga það á næstunni, þó að við í stjórn Sparisjóðsins værum ekki að auka því skuldbindingar og bæta við þá erfiðleika. Þar með var það útkljáð mál.
Nokkru síðar barst sú fregn um bæinn, að nýi kaupfélagsstjórinn hefði horfið úr bænum skyndilega öllum að óvörum. Kaupfélagsstjórnin frétti síðan af honum í Færeyjum, þar sem hann lifði eldheitu ástarlífi með færeyska frúarefninu sínu. Og vikur liðu og ekki lét nýi kaupfélgsstjórinn á sér kræla. En sporlaust hafði hann ekki horfið, þegar skyggnzt var í sjóð Kaupfélagsins. Hann hafði tekið með sér úr sjóðnum um 70 þúsund króna svona í smávegis veganesti. Seint og síðar mun hann hafa endurgreitt þessa peninga. Framar lét hann ekki sjá sig í kaupstaðnum. Þetta ævintýri mun hafa gerzt sumarið 1958. Prókúru þessa ævintýramanns afturkallaði kaupfélagsstjórnin 24. okt. um haustið.
Gamall og hamrammur andstæðingur S.Í.S. kostaði nú kapps um að koma syni sínum í kaupfélagsstjórastöðuna. Nú átti að geta viðrað vel til þess, þar sem tveir kunnir flokksmenn höfðu þar völdin með „Komma“, sem líka var kunnur andstæðingur Sambandsins. Um þetta urðu nokkur átök innan kaupfélagsstjórnarinnar, að sagt var, enda má lesa það á milli línanna í fundargjörðarbók hennar. Vissulega fannst sumum vel bera í veiði með að koma þessari ráðningu í framkvæmd. Til þess átti nú kaupfélagsstjórnin að vera vel skipuð og hagkvæmnislega, þegar „glæpamaðurinn“ var horfinn úr stjórninni.
Á árinu 1958 getur þess í fundargjörðarbók kaupfélagsstjórnarinnar, að miklir fjárhagsörðugleikar steðji að kaupfélaginu. Stjórnin samþykkti þá að kalla til Eyja fjárhagslegan ráðgjafa S.Í.S. til skrafs og ráðagerða. En hvernig átti hann að geta séð í einu vetfangi, hvað að var? Gerðist þarna ekki ýmislegt að tjaldabaki, sem hulið var stjórninni? - Hvernig stóð á vörurýrnuninni miklu árið 1957? Þá nam hún um 350.000,00 króna, eftir því sem fundargjörðarbók stjórnarinnar greinir frá. Olli þessari vörurrýrnun lausungin í kaupfélagsstjórastarfinu? Ekki var nú skemmdum vörum til að dreifa. Þeim hafði verið fleygt fyrir löngu og þær afskrifaðar. – Samhliða vörurýrnuninni nam tap á rekstri Kaupfélagsins kr. 350.000,00 þetta sama ár.
Á aðalfundi Kaupfélagsins árið 1958 gaf fulltrúi Sósíalistaflokksins í stjórn Kaupfélagsins ekki kost á sér í stjórnina lengur. Þá fannst honum víst nóg að gert undir hatti þeim, er hann hafði kosið félaginu sumarið 1956, þegar ég var ekki heima, enda urðu þá átök mikil með stjórnarmönnum varðandi starfsmenn í búðum samtakanna.
Þegar fréttist um hinn bága fjárhag Kaupfélagsins, tóku kunnir andstæðingar samvinnusamtakanna í bænum til að kasta á milli sín þessum orðum, sem kunn urðu þar með almenningi: „Sambandið borgar. Sambandið borgar.“ – Og svo hlakkaði í þeim görnin. Sumir stjórnarmenn Kaupfélagsins urðu ástmegir viss flokks í bænum í vissum skilningi. Í gremju okkar og beiskju þótti okkur samvinnumönnum verst, að afleiðingar mistakanna og þvermóðskunnar bitnuðu ekki á forstjóranum V.Þ., því að hann hvarf frá forstjórastarfinu 1. jan. 1955 og gerðist þá bankastjóri sjálfs þjóðbankans.
En nú skulum við láta sjálfa fundargjörðabók kaupfélagsstjórnarinnar segja frá.
Öðrum ástmegi forstjórans, fyrrverandi stjórnarmanni Neytendafélagsins sálaða, hafði tekizt að fá þrjú börn sín ráðin til starfa í búðum Kaupfélagsins. Þegar svo kaupfélagsstjórinn lét ekki sjá sig vikum saman, - dvaldist erlendis við yl og yndi, var rætt um það í kaupfélagsstjórninni, að sjálfsagt væri að ráða nýjan kaupfélagsstjóra. Þá sóttu fyrrverandi stjórnarmenn Neytendafélagsins mjög fast, að sonur annars þeirra yrði ráðinn kaupfélagsstjóri K.F.V. Það gat meiri hluti kaupfélagsstjórnarinnar ekki fallizt á eða samþykkt. Þá söfnuðu fyrrv. Neytendafélagsmenn og gamlir andstæðingar Sambandsins undirskriftum meðal starfsfólks Kaupfélagsins, þar sem skorað var á stjórnina að ráða soninn kaupfélagsstjóra. Hótað var uppsögnum ella. Þegar meiri hluti stjórnarinnar lét sér samt ekki segjast um ráðningu sonarins, hvarf nokkur hluti fólksins frá störfum í Kaupfélaginu og hóf önnur störf. Þannig logaði allt í ófriði og eiginhagsmunastreitu innan þessarar stofnunar.
Fjárhagsstaða Kaupfélagsins var nú lakari en nokkru sinni fyrr. Það vissi almenningur í bænum. Og enn var hrópað með gleðibragði: „Sambandið borgar. Sambandið borgar.“
Hinir tveir ástmegir forstjórans, eins og fyndinn náungi kallaði hina tvo fyrrverandi stjórnarmenn Neytendafélagsins, létu nú bóka vítur á meiri hluta kaupfélagsstjórnarinnar fyrir að hafna syni kaupfélagsstjórnarmannsins í kaupfélagsstjórastöðuna.
Við, sem stóðum utan við þessi átðk öll en skiptum samt einlæglega við Kaupfélagið, - við hinir útskúfuðu samvinnumenn, - fundum til þessarar niðurlægingar og allra þeirra sálarlegu vankanta, sem við höfðum kynnzt í þessu félagsstarfi frá upphafi, og hinum skaðsamlegu mistökum. Okkar á milli og í leynd létum við í ljós undrun hver við annan yfir því, hversu sálgreining okkar frá fyrstu vonbrigðunum stóðst allar staðreyndir.
Og þarna í fundargjörðabókinni standa skráð nokkur hrakyrði eins stjórnarmannsins til föðurins, sem réri að því öllum árum með fylgi flokksmanns síns að fá son sinn ráðinn í kaupfélagsstjórastöðuna. „Er leitt til þess að vita,“ stendur þar „að mætir menn skuli geta blindazt svo af valda- og hagsmunastreitu, að þeir blátt áfram vinni að því að skaða það fyrirtæki, sem þeim hefur verið trúað fyrir að stjórna, eins og hér hefur átt sér stað...“
Á næsta fundi kaupfélagsstjórnarinnar blossaði enn upp rimma og gengu þá klögumálin á víxl þarna inni í skrifstofu Kaupfélgsins á annari hæð verzlunarhússins að Bárustíg 6. En niðri í búðunum gengu flest störfin á neikvæða vísu. En hvað var um það að fást? Sambandið stóð straum af afleiðingunum. Það borgaði!

Og nú var ráðinn nýr kaupfélagsstjóri. Þar var ekki leitað langt yfir skammt. Hann hafði verið gjaldkeri kaupstaðarins á undanförnum árum, og hét Halldór...
Þrátt fyrir stjórnleysið og allar sögurnar, sem gengu um bæinn af ófriðnum innan kaupfélagsstjórnarinnar, þá hafði vörusala kaupfélagsins aukizt að miklum mun á árinu 1958. Hún nam þá alls kr. 7.741.428,15. Þessi staðreynd sannaði okkur, sem unnum samvinnuhugsjóninni, þann samvinnuanda og skilning á gildi þessara samtaka, sem ríkti orðið með Eyjafólki, því til léttis og hjálpar í lífsbaráttunni í vaxandi dýrtíð og ýmsum öðrum fjárhagslegum erfiðleikum, sem þá steðjuðu að heimili verkamannsins og sjómannsins.
Í desembermánuði 1959 var þessi nýi kaupfélagsstjóri látinn hætta skyndilega störfum við kaupfélagið sökum þess, að hann hafði orðið uppvís að því að stela hálfri milljón úr sjóði kaupstaðarins, meðan hann var þar gjaldkeri. (sjá grein í Framsóknarblaðinu 27. jan. 1960).
Þó að ég greini hér frá sögulegum staðreyndum í sögu og rekstri Kaupfélags Vestmannaeyja, þá er það fjarri mér að ásaka kaupfélagsstjórnina um alla þessa ógæfu í rekstri félagsins. Lánið getur leikið við einstaklinginn í eigin rekstri, þó að það reynist mótdrægt einstaklingum í rekstri, sem er þeim ónáttúrlegur, stríðir gegn þeirra eigin manngerð og lífshugsjónum. Þó geta örlögin hafa látið það eftir þeim að annast hann til þess að fullnægja vissum hvötum hjá þeim til dæmis í valdastreitu eða „pólitískri valdagræðgi“.
Þegar sú frétt barst um kaupstaðinn, að nýi kaupfélagsstjórinn hefði reynzt býsna fingralangur í gjaldkerastarfinu hjá bænum, fór hrollur um kaupfélagsstjórnina. Hún vék honum þegar úr starfi og pantaði endurskoðanda frá S.Í.S. til þess að rannsaka fjárhag Kaupfélagsins og rekstur þess. Þá kom í ljós, að ekki minna en kr. 112.000,00 vantaði í sjóð þess. Engin vissa var fyrir því, að kaupfélagsstjórinn væri að öllu leyti valdur að þessari sjóðþurrð. Þar að auki lá grunur á um útteknar vörur úr búðum félagsins, sem hvergi voru skráðar og enginn stafur var fyrir. (Sjá fundargjörðarbækur stjórnarinnar).
Þessi kaupfélagsstjóri hafði með bréfi sótt það fast að fá veruleg lán hjá Sparisjóði Vestmannaeyja til aukins reksturs Kaupfélaginu, til vaxtar þess og viðgangs. Ýmsir stjórnarmenn Sparisjóðsins, sem nálægir stóðu þessum nýja kaupfélagsstjóra í vissum skilningi og unnið höfðu að því, að hann hlyti kaupfélagsstjórastöðuna, höfðu talið þessa fyrirgreiðslu Sparisjóðsins alveg vísa og sjálfsagða af gildum ástæðum. En samt lá fé Sparisjóðsins ekki þar á lausu. Einhverjum bauð í grun. Ekki voru þar allir vissir um andlega heilbrigði og traustan heiðarleik manns þessa.
Þegar hér var komið kaupfélagsrekstrinum, sendi S.Í.S. til Eyja trúnaðarmann sinn til þess að reka kaupfélagið meðan öll þessi ósköp voru til lykta leidd.
Við vörutalningu og birgðarannsókn kom í ljós, að vörurýrnun í búðum Kaupfélagsins nam samtals kr. 837.794,41 árið 1959. – Þá mun hafa komið til tals hjá stjórn Sambandsins að gera Kaupfélagið upp. En hitt varð þó uppi á teningnum: Lofa því að tóra enn um stund.
Halli á rekstri Kaupfélagsins árið 1959 nam kr. 1.291.246,73. Fréttin barst um bæinn og vissir menn glöddust: „Sambandið borgar. Sambandið borgar“.
Við samvinnumenn glöddumst vissulega ekki, þó að við gætum þarna engu ráðið. Frá upphafi hafði forstjórinn þannig á málunum haldið, að áhrifa okkar samvinnumanna gætti ekki í stjórn Kaupfélagsins og hafði ekki gætt árum saman. Þarna höfðu öll völd í hendi sér gamlir andstæðingar Sambandsins. Var hægt að ætlast til þess, að þeir legðu sig fram um það, að félaginu yrði ráðið gott starfsfólk, þar sem pólitík eða persónulegur kunningsskapur væri ekki látinn ráða gjörðum, heldur einvörðungu starfshæfni?
Vissulega fékk Sambandið að blæða fyrir mistökin. Það greiddi skuldirnar, en svo eignaðist það auðvitað um leið allar eignir Kaupfélgsins, fastar og lausar. Við, sem unnum samvinnusamtökunum, vorum felmtri slegnir. Enn sátu sömu menn við stjórnartaumana, með því að félagsmenn virtust orðið kæra sig kollótta um það, hvernig þetta veltist allt saman, ef þeir aðeins mættu njóta þess, að Kaupfélagið héldi niðri vöruverði í kaupstaðnum, meðan það væri til. Til dæmis um áhugaleysi kaupfélagsmanna um rekstur Kaupfélagsins má geta þess, að enginn aðalfundur þess var löglegur, þegar hann var fyrst boðaður, og fjarri því. Það átti sér stað, að ekki mætti til aðalfundar einn einasti kaupfélagsmaður utan stjórnarmennirnir og kaupfélgsstjórinn, og þó töldust félagsmenn þess um 500, þegar þeir voru flestir. Hvað olli þessari deyfð? Hér skal hver og einn vera sér um sefa. En við hinir gömlu samvinnumenn veigruðum okkur við að leggja til atlögu til þess að ná völdum innan stjórnarinnar af ótta við að skaða viðskipti félagsins, draga úr umsetningu þess og vezlun. Flokkadrættir um verzlunarfyrirtæki skaða það alltaf. Við létum því kyrrt liggja, svo að við yrðum ekki sakaðir um eitt eða neitt.
Þrátt fyrir það, sem á milli bar í stjórnmálunum og verzlunarmálum hjá okkur Steingrími Benediktssyni, þá vorum við ávallt kunningjar og engir óvildarmenn. Hann var, sem kunnugt er mörgum enn, einn af forgöngumönnum kristilegra samtaka í Vestmannaeyjakaupstað, K.F.U.M. og K. og vann þar mikilvægt uppeldisstarf.
Nokkrum dögum eftir að uppvíst varð um þjófnaðinn og sjóðþurrðina hjá Kaupfélaginu, hittumst við Steingrímur á förnum vegi. Við ræddum þessi mál. Hann lét þá í ljós undrun sína yfir þeirri ógæfu, sem virtist yfirskyggja kaupfélagsreksturinn, og þá vanvirðu eða niðurlægingu, sem stjórnarmennirnir hefðu af honum. Hann kvaðst hættur að skilja þessi ósköp, sem yfir þá dundu.
Ég var hinn brattasti og kvaðst skilja þetta allt á einn veg. Hann vildi fá að vita meira í hug mér. Ég skýrði mína sannfæringu fyrir honum á þessa lund: Þegar ég gekk til prestsins til undirbúnings fermingunni, las ég það í kristnum fræðum, að Kristur hefði eitt sinn sagt, er hann ræddi um Faríseana í Gyðingalandi: „Sá sem upp hefur sjálfan sig, mun niður lægjast.“ -
Við stofnun kaupfélagsins fenguð þið forstjóra S.Í.S. til þess að hefja ykkur upp á kostnað okkar samvinnumanna í kaupstaðnum. Nú hafa átakanlega sannazt á ykkur orð Frelsarans.
Þetta voru síðustu orðin, sem á milli okkar fóru í þessari tilveru.
Þegar sjóðþurrðarmanninum mikla hafði verið sagt upp stöðunni, tók við kaupfélagsstjórastarfinu til bráðabirgða maður að nafni Einar Árnason. Hann var sjöundi eða áttundi kaupfélagsstjórinn þau 10 ár, sem liðin voru frá stofnun Kaupfélagsins. Og fyrsti áratugur í ævi félagsins enti með því, að löglega kosnir endurskoðendur þess neituðu að inna þetta trúnaðarstarf af hendi. Þá var endurskoðunardeild Sambandsins fengin til þess að framkvæma verkið. Rekstrarhalli liðinna ára var þá orðinn samtals kr. 1.830.990,88. Þar af nam rekstrarhallinn árið 1960 kr. 447.576,93. Það ár seldi þó Kaupfélagið vörur fyrir kr. 8.214.494,19, en dýrtíðin í landinu fór þá ört vaxandi.