Blik 1980/Minningar frá námsárum mínum í Gagnfræðaskólanum

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1980ELÍN GUÐFINNSDÓTTIR:


Minningar frá námsárum mínum
í Gagnfræðiskólanum í Vestmannaeyjum
fyrir 30 árum

(Þessa grein hefur frú Elín Guðfinnsdóttir húsfreyja í Unnarholti í Hrunamannahreppi sent Bliki til birtingar. Hún stundaði nám í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum á árunum 1949-1952 og lauk þá miðskólaprófi með mjög góðri 1. einkunn. Við þökkum Elínu húsfreyju fyrir greinina og þá einnig fyrir myndina, sem hér birtist, þar sem námsmeyjarnar, bekkjarsystur hennar eru klæddar hinum þjóðlega búningi, og leyfðu þær bekkjarbræðrum sínum að vera með á myndinni. Þá voru þær hið afgerandi og sterka afl í samfélaginu. Þökk og heill sé þeim öllum. Þ.Þ.V.)

Haustið 1949 hófst merkis áfangi í lífi mínu. Þá hóf ég nám í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum. Eftir mikið þóf höfðum við fjórar bekkjarsystur í barnaskólanum í kaupstaðnum fengið leyfi til að taka fullnaðarpróf ári fyrr. Og þá með því skilyrði að ganga a.m.k. einn vetur í Gagnfræðaskólann. - Þetta tókst mjög vel. Við vorum allar með þeim hæstu í vorprófinu. Þetta varð því mikil breyting, - nýr skóli, nýir kennarar og ný bekkjarsystkini.
Kennararnir voru aðeins þrír fyrsta veturinn; allir góðir hver á sinn hátt:
Þorsteínn skólastjórí, mikill mælskumaður og húmoristi, kennari af guðs náð.
Sigurður Finnsson, strangur og rólegur, svo að aldrei missti hann stjórn á sér, hvað sem á gekk.
Einar Haukur, algjör andstæða hans, gat helzt aldrei setið kyrr en gáfaður vel og allt of góður við okkur til þess að geta haldið góðum aga.
Þorsteinn er minnisstæðastur sem íslenzkukennari. Augljós ást hans og aðdáun á móðurmálinu hreif mann með, svo að við gátum ekki annað en lært. Einnig kenndi hann náttúrufræði af sömu innlifun. Oft gekk hann um gólf og spjallaði og skýrði út námsefnið. - Það var í náttúrufræði. Anton veslingurinn var eitthvað ókyrr í bekknum og tók þess vegna ekki vel eftir. Þarna snérist skólastjóri allt í einu á hæl með grallarasvip og sagði: „Anton, hvaða munur er á loppu og hönd?“ Og veslings pilturinn hann Anton varð svo hvumsa, að allt stóð í honum, en kyrr sat hann og rólegur, það sem eftir var tímans.
Kennslustundirnar hjá Sigurði voru aftur á móti mjög hátíðlegar og formfastar, svo að enginn leyfði sér að koma í þær ólesinn. Oft höfðum við gaman af að reyna á stillingu hans. Og ekki var laust við, að hann roðnaði stundum og bretti brúnir, en aldrei missti hann stjórn á sér.
Hann kenndi einnig íþróttir, og þar kynntumst við allt öðrum manni. Þar var hann áreiðanlega á réttri hillu. Allt var þar miklu óþvingaðra.
Einar Haukur gekk oftast um gólf, þegar hann kenndi. Og honum gekk ekki allt of vel að troða í okkur dönskunni og mannkynssögunni, mest vegna þess að hann var ekki nógu strangur. Oft fóru tímarnir í ýmislegt spjall um allt annað en námsefnið. Þeir voru oft skemmtilegir og við fróðari eftir, þó að ekki væri fjallað um það, sem við áttum að læra.
Við vorum 31, sem hófum nám í 1. bekk haustið 1949 og við fengum þá aðsetur í stóru stofunni uppi í gamla Breiðabliki.
Félagslíf í skólanum var gott. Oft héldum við málfundi, þar sem ýmislegt gleðjandi bar á góma, en oft gekk treglega að fá okkur til að tala, taka þátt í umræðum. Málglaðastir voru þeir Sveinn Tómasson, Ármann Eyjólfsson o.fl. sem nú eru orðnir þekktir menn í þjóðfélaginu. - Síðan var dansað, þar sem Gísli Brynjólfsson eða nafni hans Bryngeirsson þöndu nikkurnar. Oftast voru það stúlkurnar sem höfðu þar forgöngu. Dansaðir voru gömlu dansarnir af lífi og sál, svo að gamla Breiðablik dansaði með, fannst manni. Og ekki var þá laust við, að rómantíkin læddist að einu og einu parinu.


ctr

Nemendur 1. bekkjar Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum veturinn 1949-1950. Vestmannaeyskar blómarósir með bekkjarbræðrum sínum og ,,skjólstæðingum “.
Nöfn bekkjarbræðranna frá vinstri: Hörður Runólfsson frá Bræðratungu, Trausti Þorsteinsson frá Eystri-Vesturhúsum, Bjarni Ólafur Björnsson frá Bólstaðarhlíð, Ólafur V. Valdimarsson frá Ofanleiti, Sigurgeir P. Scheving frá Hjalla við Vestmannabraut, Guðjón P. Ólafsson frá Gíslholti og Jósep Guðmundsson frá Norðfirði.
Blómarósirnar fjórar í miðröð: Ragnheiður Magný Kristinsdóttir, ballettmær, frá Garðabæ, Sigríður Ólafsdóttir, Skólavegi 23 í Vm., Guðrún Steinsdóttir frá Múla, Kristín Jónsdóttir frá Sólvangi.
Fremsta röð frá v.: Halldóra Ármannsdóttir, Hásteinsvegi 18, Guðrún Lísa Óskarsdóttir, Sólhlíð, Elín S. Guðfinnsdóttir, Kirkjuhól við Skólaveg, Gunnhildur Bjarnadóttir frá Breiðholti, Edda Sveinsdóttir, Heiðarvegi 11, Gunnhildur Helgadóttir frá Staðarhóli og Guðbjörg Hallvarðsdóttir frá Pétursborg.

Hápunkturinn í skemmtanalífi nemendanna var árshátíðin 1. desember ár hvert.
Sá dagur hefur alltaf verið merkisdagur í mínum huga síðan. Og aldrei fyrr né síðar hefi ég komizt í þvílíkt hátíðarskap á nokkurri skemmtun.
Allur skólinn var þá skreyttur og upp á ýmsu var þá fundið til skemmtunar. Ég man eftir frábærri tízkusýningu, þar sem sýnd voru m.a. skíðaföt, sem voru að mig minnir föðurlandsnærföt af þykkustu gerð. Annað var þar eftir því. - Einnig voru þá flutt minni dagsins og minni pilta og stúlkna.
Eitt sinn var mér falið að flytja minni pilta. Það var víst í fyrsta skipti, sem ég steig í pontuna. Þá sá ég eftir að hafa aldrei þorað að tala á málfundum.
Haustið næsta, 1950, vorum við aðeins orðin 18 í bekknum. Þá kom nýr kennari að skólanum. Það var Sigfús J. Johnsen, aðeins tvítugur að aldri. - Við nemendurnir höfðum orð á því okkar á milli, að hann gætum við sjálfsagt haft í vasanum, svo ungan og óreyndan kennara. En það urðu okkur vonbrigði. Hann náði strax slíkum tökum á okkur, að ótrúlegt var. Hann kenndi okkur reikning og eðlisfræði. Og þá gátu allt í einu allir lært þessar námsgreinar.
Síðast var það námið í 3. bekk, 1951-1952.
Þann vetur var Sigurður Finnsson settur skólastjóri í fjarveru Þorsteins, sem þá fékk orlof frá starfi eitt ár.
Oft þreyttum við skyndipróf þennan vetur. Skólastjóranum setta fannst næstum ótrúlegt, hversu vel við stóðum okkur í skyndiprófunum í eðlisfræðinni og reikningnum, sem Sigfús hafði kennt okkur veturinn áður. Eitt sinn bjó Sigurður sjálfur út verkefnin í skyndipróf í þessum kennslugreinum Sigfúsar. Allir skiluðu úrlausnum með mikilli prýði, nema síðasta reikningsdæminu, sem vafðist fyrir sumum, en því hafði Sigfús bætt við vegna þess, að honum fannst prófið of létt.
Sigfús er einn af þeim, að mínum dómi, sem hefur meðfædda kennsluhæfileika, þó að ekki hefði hann tilskilda menntun þá, þegar þetta var.
Það bættist líka nýr nemandi í hópinn þetta haust. Það var stúlka úr Reykjavík. Hún hafði gengið þar í ballettskóla og vildi endilega kenna okkur það, sem hún hafði lært í þessum listdansi. Þá skorti okkur algjörlega húsnæði til þess.
Að lokum fengum við leyfi til að nota fimleikasal barnaskólans klukkan 7-8 á morgnana. – Svo rifum við okkur upp klukkan hálf sjö og röltum upp í barnaskóla til að æfa ballett. Þetta gekk vel, og við höfðum bæði gagn og gaman af. - Um vorið sýndum við ballett á skólaskemmtun við góðan orðstír.
Ýmislegt datt okkur bekkjarsystrunum í hug. Einu sinni fengum við t.d. allar lánaðar upphlut og létum mynda okkur í þeim þjóðlega búningi. Auðvitað fengu piltarnir, bekkjarbræður okkar, að vera með á myndinni. Um kvöldið fórum við svo á skólaball í skrúðanum. Þá uppnefndu hinir strákarnir okkur og kölluðu okkur „Elliheimilið“. Ekki kom það við okkur, svo fáranlegt sem uppnefnið var.
Alltaf var farið í skemmtigöngur nokkrum sinnum á vetri: Upp á Klif, vestur og niður í Stafsnes, upp á Helgafell eða Molda. Alltaf var farið út í Stórhöfða á hverjum vetri. Þá var það fastur liður að segja draugasögur innst í Höfðahelli. Oftast var það einhver af piltunum, sem það gerði. Þeim tókst þá mörgum frábærlega vel upp, svo að hárin risu á manni og við þorðum varla að hreyfa okkur á eftir. -
Þessar ferðir voru allar mjög skemmtilegar og fróðlegar, því að kennararnir notuðu tækifærið til að fræða okkur um eyjuna okkar. Einnig miðluðum við hvert öðru því, sem við vissum í þeim efnum hvert um sig.
Stundum fengum við að hrista af okkur slénið á skólalóðinni í einhverjum leikjum. Eitt sinn sendi Þorsteinn okkur út í snjókast. Það varð æðislegur bardagi, strákar á móti stelpum. Og mátti þá ekki á milli sjá, hvor hópurinn hefði betur. Gott ef veikara kynið varð ekki yfirsterkara þar. Allir skemmtu sér a.m.k. innilega. Og grun hefi ég um, að Þorsteinn hafi þó skemmt sér bezt, en hann horfði á og eggjaði liðin.
Um þessar mundir var Þorsteinn mjög önnum kafinn. Hann var fulltrúi í bæjarstjórn. Svo var hann sparisjóðsstjóri auk þess að vera skólastjóri. Stundum kom það fyrir að hann gleymdi sér og fór heim, þegar hann átti að kenna okkur. Ef honum seinkaði eitthvað í tíma, sátum við eins og mýs undir fjalaketti og biðum með eftirvæntingu, hvort hann mundi nú ekki gleyma sér og við þá fá frí í þeim tíma. Einu sinni komst hann út að hliði. Þar stanzaði hann og leit á klukkuna. Þá sneri hann við. Í annað skiptið fór hann og kom ekki aftur. – Eitt sinn biðum við í 10-15 mínútur eftir honum. Svo læddumst við flest austur fyrir skólahúsið. Eftir stutta stund kom einn piltanna og kallaði á okkur. Þá stóð skólastjóri í tröppunum. Þá var það námsstjórinn eða fulltrúi hans, sem tafði skólastjóra frá starfi. Það var heldur lágkúrulegur hópur, sem læddist í sætin sín í það skiptið.
Í þriðja bekk vorum við ekki nema átta talsins. Það var síðasti hópurinn, sem útskrifaðist frá Breiðabliki. Það var vorið 1952. - Um haustið var flutt í nýju gagnfræðaskólabygginguna. Skólavist mín varð ekki lengri. - En ég held, að hún hafi gefið mér gott veganesti út í lífið.

Unnarholti, 24. júní 1979.
Elín Guðfinnsdóttir