Blik 1978/Hjónin á Sæbóli

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1978Hjónin á Sæbóli í Norðfirði
„Æskuminnin munann sækja á“

Miðvikudaginn 21. sept. á f.á. var til moldar borin í Fossvogskirkjugarði frú Steinunn Símonardóttir Zoëga, ekkja Tómasar Zoëga sparisjóðsstjóra í Neskaupstað. — Og minnin frá æskuárum mínum gera vart við sig eitt af öðru.
Tómas Zoëga var fæddur 26. júní 1885 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Jóhannes skipstjóri Tómasson og k.h. frú Guðný Hafliðadóttir tómhússmanns í Reykjavík Nikulássonar.

Frú Steinun Símonardóttir Zoëga.

ctr

Tómas Zoëga.


Árið eftir fermingarárið sitt, eða aldamótaárið, fluttist Tómas til Austfjarða til þess að leita sér atvinnu. Þá settist hann að á Eskifirði og gegndi þar ýmsum störfum um hríð, en árið eftir (1901) fluttist hann norður til Norðfjarðar og gerðist vinnumaður og sjómaður hjá ýmsum útgerðarmönnum þar, sem gerðu þá út árabáta sína á hin fiskisælu grunnmið í mynni fjarða og dýpra úti, þegar veður og straumar leyfðu.
Árið 1906, þegar Konráð Hjálmarsson kaupmaður frá Brekku í Mjóafirði stofnaði til verzlunarreksturs á Nesi í Norðfirði, gerðist Tómas Zoëga afgreiðslumaður í búð kaupmannsins. Síðar gerðist hann skrifstofumaður við sama fyrirtæki og síðast skrifstofustjóri verzlunarinnar, sem hafði orðið mikil umsvif í kauptúninu, þar til yfir lauk í kreppuárunum.

Árið 1883, 7. okt., fæddist bændahjónunum í Bakkakoti í Skorradal, Símoni bónda Jónssyni og frú Sigríð Davíðsdóttur, húsfreyju, meybarn. Það var vatni ausið, eins og komizt er að orði í merkum heimildum, og skírt Steinunn.
Tæplega tvítug að aldri lagði Steinunn Símonardóttir leið sína til Reykjavíkur, þar sem hún vildi stunda framhaldsnám. Þar settist hún í 4. bekk Kvennaskólans, en því marki hafði hún stefnt að á undanförnum árum með heimanámi, sem henni reyndist notadrjúgt, því að hún var skynsöm og skapföst og ástundunarsöm námsmey, sem setti markið hátt. Þegar hún hafði lokið þessu námi, stundaði hún verzlunarstörf í Reykjavík um sinn.
Árið 1911 leitaði hún sér atvinnu austur á Fjörðum. Ferð sú var farin af einskonar ævintýraþrá, því að miklar sögur fóru þá syðra af aflasæld og mikilli atvinnu á Austfjörðum, ekki sízt á Norðfirði. Ungfrú þessi réðst til Norðfjarðar og gerðist verzlunarmær við verzlun Konráðs Hjálmarssonar í kauptúninu. Þar kynntust þau Tómas Zoëga og hún, og leiddu þau kynni sem sé til hjúskapar.
Þau giftust 17. jan. 1914. Þá tóku þau á leigu íbúð hjá hjónunum á Hóli þarna á Stekkjarnesinu, fósturforeldrum mínum. Síðan áttu þau heimili sitt á Norðfirði.
Á Hóli bjuggu þau í skemmtilegu og hlýju sambýli. Tómas var dagfarsprúður maður og snyrtimenni mikið. Hann átti það til að vera fyndinn og spaugsamur. Og ég, unglingurinn, hafði ánægju af að kynnast honum náið. — Undanfarin ár hafði ég kynnzt honum í stöðu búðarþjóns við afgreiðslustörfin, þegar ég var sendur í búðina, þar sem fósturforeldrar mínir verzluðu svo að segja einvörðungu um allt, sem heimili þeirra þurfti daglega með, og svo útgerð fóstra míns. Enda var allur aflinn lagður inn í þessa verzlun, þegar við höfðum fullverkað hann að sumrinu. Í annað hús var ekki að venda um árabil þarna í nágrenninu.
Já, þarna á Hóli var ánægjulegt sambýli. Það leyndi sér ekki, að nýgiftu hjónin voru mannkostafólk. Unga frúin var fóstru minni góð og þær hvor annarri. Á sumrin efndu ungu hjónin til ferðalaga. Þau fengu sér leigða hesta í Norðfjarðarsveit og riðu út, eins og það var kallað. Eitt sinn fengu þau leigðan hest handa mér, unglingnum, sem aldrei hafði fyrr á hestbak komið. Ég þáði boðið og gerðist útreiðarmaður. Þessi ferð er mér minnisstæð, sérstaklega sökum þess, hversu erfiðlega mér gekk að halda jafnvægi á klárnum.
Ég minnist þess, að æði fyrirferðarmikil taska með eldunaráhöldum var óluð við hnakkinn minn. Þegar svo klárinn tók til að skokka undir mér, hringlaði eitthvað í töskunni. Við þennan skarkanda kipptist klárinn við, lifnaði allur og tók á sprett, svo að ég mátti hafa mig allan við að detta ekki af baki, óvanur með öllu að sitja hest.
Inni í Fannardal var numið staðar og áð æðilanga stund. Þar voru eldunaráhöldin tekin fram úr töskunni, hlóðir hlaðnar og kveiktur eldur, sem glæddur var við sprek, mosa og tað, sem við tíndum þarna í úthaganum. Hitað var kaffi matlystugum ferðalöngum, og hið bezta meðlæti skorti ekki. Það eitt er víst.
Allt tókst þetta vonum framar, og ég var reynslunni ríkari eftir ferðalagið. Aldrei bar ég hestamennsku við eftir þetta eða ferðalag á hestbaki. Til reiðmennsku fannst mér ávallt mig skorta jafnvægisgáfu, svo að ég væri öruggur um það að detta ekki af baki og beinbrjóta mig. Þessi vinsemd Tómasar Zoëga og þeirra hjóna að taka mig með í ferðalagið og leigja undir mig hest, færði mér heim sanninn um það, að ég hefði enga eiginleika til að stunda reiðmennsku, enda hefi ég aldrei komið á hestbak síðan.
Brátt keyptu ungu hjónin sér eigið hús, sem þau bjuggu í um tugi ára. Það stóð þarna ofan við Strandveginn í námunda við fjarðarströndina, og þau kölluðu það Sæból. Það var næsta íbúðarhúsið innan við beituskúr og aðgerðarhús fóstra míns, þar sem ég vann öll sumur frá 10 ára aldri til tektar og vel það, — fram á 17 ára aldurinn. Þarna var gott nágrenni, skipzt á hlýjum orðum og blandað geði svo að segja daglega.
Svo skildu leiðir, eins og gengur. Ég hvarf frá æskuheimili mínu í fjarlægar byggðir og svo af landi burt. — Þegar ég vitjaði æskuslóðanna aftur eftir nokkur ár, höfðu tímarnir breytzt og mennirnir með og vík varð á milli vina. Hefi ég þá í huga samband okkar Tómasar Zoëga.
Árið 1925 réðst Tómas Zoëga sparisjóðsstjóri á Nesi í Norðfirði. Því ábyrgðarstarfi gegndi hann síðan í 31 ár eða til andlátsstundar.
Vestmannaeyingurinn Kristinn Ólafsson frá Reyni í Eyjum var bæjarfógeti í hinum nýstofnaða kaupstað, Neskaupstað, á árunum 1928-1937. Jafnframt var hann bæjarstjóri þar um hríð. Á þessum embættisárum sínum kynntist hann vel sparisjóðsstjóranum í kaupstaðnum unga. Þeir áttu mörg sameiginleg áhugamál, sem lutu að aukinni menningu og framförum í þéttbýli því.
Eftir fráfall hans 1956 skrifaði Kristinn Ólafsson þessi minningarorð m.a.: „Tómas sparisjóðsstjóri vakti af lífi og sál yfir stofnun þeirri, er honum hafði verið trúað fyrir, eins og vænta mátti af svo sómakærum manni. Það má segja, að hann hafi þar jafnan haft að leiðarljósi hag og öryggi sparisjóðsins, þegar hrævareldur stríðsgróða og boðaföll kreppu riðu hjá, enda tókst honum að sigla heilu skipi í höfn án teljandi áfalla, þegar aðrir höfðu réttu stóra. —
Hann var stálheiðarlegur í öllum viðskiptum, enda er það dyggð, sem sízt má vanta í slíkum stöðum. Hann var mikill verkmaður og hamhleypa til allra skrifstofustarfa og vann þar stundum á við tvo. Honum var mjög sýnt um meðferð á tölum og öllu, sem varðaði bókhald. Yfirleitt má segja, að Tómas hafi verið sérstakt snyrtimenni í allri framgöngu og allt, sem hann snerti við, bar svipmót snyrtimennsku og reglusemi.“ — Þetta voru orð Kristins heitins Ólafssonar um Tómas Zoëga, sparisjóðsstjóra. Þeir voru báðir félagslyndir menn svo að af bar.
Á síðari árum ævinnar beindust áhugamál Tómasar sparisjóðsstjóra einkum að skólamálum í kaupstaðnum og svo sjávarútvegs- og hafnarmálum. Hann beitti sér t.d. fyrir stofnun Bátaábyrgðarfélags Norðfirðinga og annaðist rekstur þess í hjáverkum, þar til það var með lögum sameinað Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, þegar sú stofnun varð til samkv. samþykkt alþingis.
Áratugum síðar lágu leiðir okkar Tómasar Zoëga saman á ný. Þá bárum við ábyrgð hvor í sínu lagi á rekstri tveggja sparisjóða í landinu, — hann á rekstri Sparisjóðs Norðfjarðar og ég Sparisjóði Vestmannaeyja. Leiðir okkar lágu þá saman í Reykjavík. Við áttum þá margs að minnast frá uppvaxtarárum mínum á Norðfirði og dvöl þeirra hjóna í kauptúninu og svo kaupstaðnum. Og svo bárum við saman reynslu okkar í þessum ábyrgðarmiklu störfum við lánastofnanirnar. Þar vorum við vissulega á eitt sáttir.
Tómas Zoëga, sparisjóðsstjóri, andaðist árið 1956. Þá hafði hann sem sé verið sparisjóðsstjóri á Norðfirði í 31 ár, eins og ég drap á.
Tómasi og frú Steinunni varð þriggja barna auðið. Þau eru þessi:
1. Frú Unnur Zoëga, póstfulltrúi í Neskaupstað. Hún var gift Jóni skipstjóra Sigurðssyni. Þau eignuðust fjórar dætur.
2. Jóhannes Zoëga, hitaveitustjóri í Reykjavík. Hann er kvæntur frú Guðrúnu Benediktsdóttur alþingismanns og skjalavarðar Sveinssonar. Þau eiga fjögur börn.
3. Reynir Zoëga, gjaldkeri Dráttarbrautarinnar h/f á Norðfirði. Hann er kvæntur frú Sigríði Jóhannsdóttur fyrrv. rafveitustjóra í Neskaupstað Gunnarssonar frá Holti í Mjóafirði. Þau eiga fjögur börn. — Móðir frú Sigríðar og kona Jóhanns er frú Ólöf Gísladóttir frá Sandhól í Norðfirði Þorlákssonar.

Hjá Reyni syni sínum og frú Sigríði tengdadóttur dvaldist frú Steinunn S. Zoëga lengst af frá því hún missti mann sinn eða rúmlega tvo tugi ára. Um dvöl hennar hjá þeim hjónum segir svilkona frú Sigríðar, frú Guðrún Benediktsdóttir, í blaðagrein: „Skömmu eftir lát manns síns flutti frú Steinunn til Reynis sonar síns og Sigríðar konu hans og dvaldist hjá þeim til æviloka. Þar leið henni vel, enda voru þau hjón henni einstaklega góð. Frú Sigríður annaðist tengdamóður sína af stakri prýði og mikilli umhyggju.“
Þessi orð svilkonunnar vöktu athygli mína, ekki sízt sökum þess, að nú er það í tízku að gera sitt ítrasta til að koma aldraða fólkinu fyrir á „gamalmennahælum“, þegar aldurinn færist yfir og starfskraftarnir þverra. Ekki lasta ég það, ef vel fer þar um aldraða fólkið. En rétt þykir mér að halda til haga frásögnum um dvöl hinna aldurhnignu á heimilum barna sinna og venzlafólks, þegar í frásögur er fært, hversu vel þeim hefur liðið þar. Það vottar fórnarlund og annan manndóm, sem vert er að minnast.
Frú Steinunn Símonardóttir Zoëga lézt aðfaranótt 10. sept. á fyrra ári. Þá skorti hana tæpan mánuð í 94 ára aldurinn. Hafði hún þá verið ekkja í 21 ár.

Þ.Þ.V.