Blik 1978/Bréf til vinar míns og frænda, II. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1978ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda
Æviþættir og vangaveltur
(2. hluti)

Og viti menn! Sólskinsríkan dag í janúar kom jákvætt svar frá skólastjóranum á Hvanneyri. Hann sendi mér þessar 800 krónur skilyrðislaust, svo að mér var borgið fjárhagslega með allri sparsemi og gætni fram að skólalokum. Vissulega var ég hamingjunnar barn. Allt lék nú í lyndi fyrir mér. Ég átti ekki kröfu á einn eða neinn í allri fátækt minni. Og ríkur var ég þó, því að ég var hraustur og samvizkusamur námsmaður, ötull og eljusamur og átti hylli kennara minna. Já, kröfur átti ég aðeins á sjálfan mig, kröfurnar þær að duga sem bezt og verða þjóð minni til sóma fremur en hitt. Sú hugsun var mér ávallt rík í huga, meðan ég dvaldist í hópi erlendra ungmenna. Ég var Íslendingur og eini útlendingurinn í hópi hundraða nemenda, sem stunduðu nám í þessum menntaskóla. — Og þó er þetta ekki nema hálfur sannleikur. Í einni af elztu deildum menntaskólans var piltur, sem var íslenzkur að föðurnum. Hann gaf sig aldrei á tal við mig allan veturinn. Þóttist ekki sjá mig eða vita uppruna minn. Skólabræður mínir trúðu mér fyrir því, að hann blygðaðist sín fyrir það að vera Íslendingur í aðra ættina og vildi hylma yfir það sem mest hann gæti. Hann var skrifaður sonur afa síns í föðurætt á danska vísu. Hann var alinn upp í Volda eða nágrenni, að ég bezt veit. Ungu Norðmennirnir hlógu, þegar þeir sögðu mér þetta. Ég hló ekki. Ég lét þetta fyrirbrigði land og leið. Hreykni og þótti létu á sér kræla innra með mér. Og munum það að ganga hægt um gleðinnar dyr. Seinna á lífsleiðinni varð þessi hálfbakaði Íslendingur, sem blygðaðist sín fyrir ætterni sitt, að leita hingað heim eftir atvinnu, þegar fokið var í öll skjól í hinu landinu. Það er vitað mál, að hroki er oft með fall í för.
Já, víst var hún smá, þjóðin mín, borin saman við erlendar þjóðir. Hún var fámenn og hún hafði verið hlunnfarin og kúguð öldum saman. Ekkert átti hún þá, sem mælt yrði á mælikvarða heimsins nema gömlu bókmenntirnar, — engan taflmann, engan íþróttamann, ekkert skáld, engan rithöfund síðan Snorri Sturluson leið, engan síldar- eða loðnuflota, sem sögur fóru af, ekkert varðskip, enga landhelgisgæzlu, enga flugvél, svo að eitthvað sé nefnt, sem vakið hefur aðrar þjóðir til eftirtektar og nánari kynna á íslenzku þjóðinni hin síðari árin.
Og þó varð ég aldrei þess var, að Norðmenn, yngri sem eldri, er ég kynntist, mætu ekki þjóð mína og virtu, þó að smá væri, og þá fyrst og fremst sökum Heimskringlu Snorra Sturlusonar og fleiri rita fornra íslenzkra rithöfunda. Yngri bókmenntir þjóðarinnar, sögur, sálmar og kvæði, virtust þá lítið þekkt með Norðmönnum.
Og íslenzkt mál var virt og mikils metið með þeim helmingi norsku þjóðarinnar, sem unni nýnorskunni eða norska „bændamálinu“ og notaði það daglega í máli og riti. Nýnorskan svokallaða með urmul af forníslenzkum orðstofnum og rótum var elskuð og ræktuð af lærðum og leikum, sem völdu sér það mál til daglegra orðaskipta og ritunar. Miklar heimildir um uppruna þessa máls eru sóttar til íslenzku fornbókmenntanna okkar. Heimskringla er hin helga bók næst Biblíunni og ritum Ivars Aasens. Þessi skyldleiki málanna heillaði mig og vakti með mér metnað. Ég var Íslendingur, og þarna gat smáa þjóðin mín miðlað frændþjóð sinni mikilvægum menningarlegum auði. — Já, þessi skyldleiki málanna heillaði mig, þó að mikið bæri á milli um framburð o.fl. Það vakti mér metnað, að Norðmenn urðu að leita sér fræðslu um móðurmálið sitt til okkar Íslendinga, til hinna fornu bókmennta okkar og málmenningar. Ef til vill hefur þessi barnalegi metnaður minn eða metnaðarkennd stafað af því, hversu þjóð mín var þá lítið þekkt og metin lítils á flestum sviðum. —
Og svo verð ég að lokum að geta þess, að ég hrósaði sigri sumarið 1924 að prófinu loknu. Ég varð fimmti í deildinni af þessum fjórtán, sem héldu áfram náminu eftir áramótin. Þá þótti mér vænt um að vera það sem ég var þjóðernislega. Svona voru þessar kenndir barnalegar hjá mér — hreykinn af því að vera sonur lítillar og vanmetinnar þjóðar, sem ég vissi að var atorkusöm og gáfurík, og mundi það koma berlega í ljós, þegar hún fengi notið sín.
Já, svona hugsuðu fleiri ungir Íslendingar en ég á þeim árum. Við vorum börn okkar tíma, segi ég, og ég blygðast mín ekki fyrir að viðurkenna það.
Að prófi loknu um sumarið (1924) vann ég þrjár vikur við bú rektorsins þessa ágæta manns, til þess að vinna mér inn fargjaldið heim með norska skipinu Nova. Það sigldi til Austfjarða það sumar og aurarnir mínir hrukku fyrir fargjaldinu, enda var það lágt á þriðja farrými. Ég kom heim 24. júlí. Þá átti ég dýrmætt skjal í vasa mínum, að mér fannst. Þegar ég kvaddi rektorinn við menntaskólann, afhenti hann mér vottorð. Þar standa skráð þessi orð á norsku „bændamáli“: „Viglundsson har synt stor interesse i alt sitt arbeid her pá skulen og nått lenger enn dei fleste, jamvel um hans fyrekunnskaper ikkje var so sers gode og fullnögjande i alle fag ...“ Og fleira sagði hann fallegt, hinn kunni skólamaður í Volda, hann rektor Olav Riste. Og mér fannst ég vera vellauðugur með þetta vottorð upp á vasann.
Ég vendi mínu kvæði í kross, kæri vinur.
Það er lýðum ljóst, að Biblían er að töluverðu leyti skrifuð á táknmáli. Þess vegna deila menn um það, hvernig eigi að skilja ýmsar frásagnir hennar og kenningar. Af þessum mismunandi skilningi manna á orðum hennar og setningum spretta hinar mismunandi kenningar og túlkanir á orðum hennar og efni. Afleiðingarnar verða svo margvíslegir trúflokkar, sem síðan takast á innbyrðis um kenningarnar, setningarnar og orðin, þó að grundvöllurinn sé trúin á einan sannan guð og son hans Jesú Krist, líf hans, ævistarf, dauða og upprisu. En þar ber ef til vill mest á milli um skilninginn á henni. Menn greinir á, sem eðlilegt er. En flestir hérlendis láta kyrrt liggja og leyfa bróður og systur, góðkunningja og vini, nágranna og samstarfsmanni að hafa sína trú og sínar skoðanir án áreitingar og hnýfilyrða. Flestir rækja trú sína í kyrrþey, hver sem hún svo er. Trúarskoðanir manna eru oftast háðar viðhorfum manna til sjálfs lífsins og tilverunnar, sprottnar af þroska hvers og eins og víðsýni, menntun þeirra og manngerð. Þessi einkenni þjóðfélagsins okkar gagnvart trúarskoðunum samþegnanna, landsmanna í heild, met ég mikils og dái. Frjálst fólk í frjálsu landi, frjálst í hugsun og ályktunum.

Grein sú, sem rektorinn í Skálholti, séra Heimir Steinsson, birti í 4. hefti Kirkjuritsins 1974 er alveg einstök í íslenzku tímariti og trúarlegu málgagni. Í grein þessari gerir hann m.a. heiftarlega árás á spíritista og spíritismann í heild og ýmsar skoðanir aðrar í trúarlífi og tilbeiðsluhneigð okkar Íslendinga, sérstaklega þeirra, sem íhuga dultrúarleg efni og sætta sig ekki við bókstafstrúna ómengaða, sem þá einnig er ekki á eina lund sökum þess dulmáls, sem Biblían er skrifuð á. Samkvæmt rannsóknum íslenzks háskólaprófessors og samstarfsmanna hans munu um 65% íslenzku þjóðarinnar hallast að dultrúarlegum kenningum og sætta sig ekki við kenningar bókstafstrúarmanna, sem hvergi nærri eru á eitt sáttir um það, hvernig skilja skuli dulmál hinnar helgu bókar í mörgum köflum hennar, svo að ekki sé um að villast og ratað verði í heila höfn.
Í janúar 1977 flutti síðan þessi guðfræðingur og rektor þrjú erindi í Útvarpið um Kirkjulega trú, eins og hann nefndi erindin. Ég hlustaði með íhygli og næmri eftirtekt á mál hans og meiningar og krotaði hjá mér vissar setningar.
Hvergi varð ég þess var, að málflutningur hans færi í bága við viðhorf okkar hinna um trúna á annað líf eftir þetta eða hnekkti á nokkurn hátt skoðunum okkar í þeim efnum. Þannig kom það hvergi fram í málflutningi hans, að spíritisminn samrýmdist ekki kirkjulegri trú. Fremur hið gagnstæða, eins og við vitum öll, sem hugleiðum annars nokkuð þessi atriði.
Enda sönnuðu þeir það íslenzku þjóðinni fyrir mörgum árum, hinir gáfuðu og mætu synir hennar, Haraldur prófessor Níelsson og Einar H. Kvaran, rithöfundur, að trúin á annað líf eða réttara sagt það lífsviðhorf, væri í fullu samræmi við kenningar Biblíunnar, og svo staðreyndir þær, sem áttu sér stað í starfi Jesú Krists, ræðum hans og stökum setningum, og ekki sízt um dauða hans og upprisu til framhaldslífsins eftir líkamsdauðann.
Hér óska ég að birta þér nokkrar tilvitnanir úr grein rektorsins fyrst þú virðist ekki eiga þess kost að lesa grein hans í Kirkjuritinu. Hann mun hafa neitað því, að hún yrði birt almenningi í blöðum landsins. Hér er fyrsta glefsan:
„Sjálfur fæ ég nefnilega ekki betur séð, en heimspeki þeirra (þ.e. sálarrannsóknarmanna) sé ámóta rakalaust bull og allur annar ídealismi, bull, sem fellur um sjálft sig strax við athugun þessa fyrsta hugtaks, og er því ekki þess vert, að það sé rakið lengra, nema þeim takist að leysa úr þessum vanda ...“
Ég undraðist þessi orð rektorsins eins og raunar þessi skrif hans öll. Hvar stæðum við Íslendingar, ef við vildum þannig hella stóryrðum og brigslyrðum yfir kirkjunnar þjóna og sértrúarsöfnuði landsmanna, þegar við getum ekki fellt okkur við skoðanir og kenningar eða túlkanir þessa mæta fólks á hinum mörgu vandskildu orðum og setningum Biblíunnar eða sætta okkur við eina allsherjar skýringu á dulmálsorðum hennar. Hvað gætum við t.d. sagt um kenningar þær, sem bornar voru á borð fyrir okkur börnin, sem lærðum á sínum tíma „Helgakverið“ fyrir fermingu og kennt var í íslenzkum barnaskólum um langt árabil, staðfest og viðurkennt af hinni kristnu kirkju og kennifeðrum þjóðarinnar til fræðslu okkur börnunum í trúarlegum efnum? Niðrandi orð læt ég hér ekkert frá mér fara um trúarlegar kenningar þess. Þeir, sem að þeim stóðu, voru börn sinnar trúar og tíðar, og þess vegna ber að fyrirgefa þeim.
„Rakalaust bull“ kallar rektorinn skrif og kenningar spíritista um líf mannssálarinnar eftir líkamsdauðann. Ekki minna!
Ýmsar staðreyndir komu mér í hug, þegar ég las þessi hrakyrði. Einnig um bull getur sagan endurtekið sig.
Um s.l. aldamót var íslenzkur landlæknir að kenna nemendum sínum læknisfræði. Hann sagði þeim m.a. frá frönskum sérvitringi, sem hann kallaði svo, og héti hann Pasteur. Þessi sérvitringur fræddi landa sína á því, að hann hefði uppgötvað ósýnilegar öragnir eða örverur, sem hann kallaði bakteríur, og ættu þær að valda sjúkdómum. Landlæknir bað nemendur sína síðast orða að trúa ekki slíku bulli hins sérvitra manns.
Við hjónin vorum eitt sinn stödd á listasafni Alberts Thorvaldsens í Kaupmannahöfn. Við dáðumst að listaverkunum, og innra með mér lét á sér kræla dálítill metnaður, því að mér var ljóst, að listamaðurinn var íslenzkur í aðra ættina. Mér flaug í hug árátta danskra skriffinna að draga fjöður yfir hinn norska uppruna Ludvigs Holberg og státa af honum sem Dana í húð og hár. Skálkurinn bærði á sér innra með mér, og ég sagði glettnislega við hinn danska umsjónarmann þarna á safninu: „Man ég það rétt, að faðir listamannsins Albert Thorvaldsen væri íslenzkur?“ Daninn sagði ekki orð en hristi höfuðið. Hann virti ekki spurningu mína hins minnsta svars. Vegna máls míns hefur hann líklega ályktað, að ég væri norskur eða sænskur. — Þá vatt sér að okkur danskur maður, sem heyrði mál mitt, og sagði: „Það er rétt, faðir hans var íslenzkur.“ „Waas“ (þvaður, bull), sagði umsjónarmaðurinn danski, snéri upp á sig og skundaði frá okkur.
Ég á marga steingervinga af Tjörnesi. Jarðfræðingar okkar og vísindamenn segja þá vera 10-12 milljón ára gamla. Þetta sagði ég eitt sinn góðkunningja mínum, góðum manni í forustuliði mannbætandi sértrúarflokks í þessu landi.
„Guð fyrirgefi þér bullið úr þér, Þorsteinn minn,“ sagði þessi bókstafstrúaði ágætismaður. Allt sitt vit um sköpun jarðar og mannkyns hafði hann úr Sköpunarsögunni. Fyrir mér er þetta aukaatriði. Ég álasa honum ekki. Hann skilur dulmál Biblíunnar á þessa lund og trúir því, að skilningur sinn sé réttur. Það er átölulaust af mér. Manngæði hans og siðferðilega festu met ég mest. Þau eru aðalatriðið í lífi mannsins af mínum sjónarhóli séð.
Eitt sinn sat ég foreldrafund barnaskólakennaranna í Vestmannaeyjum. Þá var ég skólastjóri gagnfræðaskólans í kaupstaðnum. Á fundinum stóð upp móðir, sem þá átti hjá okkur barn sitt í gagnfræðaskólanum. Hún kvaðst vilja nota tækifærið, fyrst ég væri þarna staddur. Hún kvaðst ekki una vel því bulli náttúrufræðikennara gagnfræðaskólans, að jörðin okkar væri að skapast þann dag í dag, því að það stæði skýrum stöfum í heilagri ritningu, að guð hefði skapað hana með öðrum dásemdum jarðar á sex dögum, og mikil væru líkindi til þess, að hann hefði gert það fyrir svo sem 5—6 þúsundum ára, samkvæmt helgum kenningum sköpunarsögunnar. Þegar blessuð frúin hafði lokið máli sínu, fór ég að velta því fyrir mér, hvernig ég ætti að snúast við þessari árás á náttúrufræðikennara skólans og samstarfsmann minn. Ekki vildi ég særa frúna með því að ráðast gegn þröngsýni hennar og bókstafstrú. Sú hlutdeild mín í fundi þessum gat leitt af sér ýmislegt miður heppilegt fyrir samstarf kennaraliðsins í kaupstaðnum. Þarna sat t.d. einn af kunnustu forgöngumönnum hins kunna bókstafstrúarsafnaðar í kaupstaðnum, og ég satt að segja treysti nú á hann, að koma vitinu fyrir frúna. Og það gerði hann drengilega, enda var hún safnaðarsystir hans og leit svo á, að hann hefði ávallt lög að mæla um trúarlegar kenningar. Ég þagði, steinþagði þunnu hljóði. Og blessuð frúin gekk glöð og ánægð af fundi þessum, glöð og sæl í trú sinni. Nú býr hún í Eyjum við nýtt hraun og gjörbreytt landslag. Veturinn 1951-1952 ferðuðumst við hjónin um Noreg endilangan svo að segja. Við ferðuðumst á vegum Nordens í Oslo. Ég flutti þá fyrirlestra um land mitt og þjóð á einum 50 stöðum í landinu eða í flestum Nordens-deildunum í Noregi. Við höfðum með okkur merka kvikmynd, sem fræðslumálastjórinn lánaði mér til fararinnar.
Liðið var fram á veturinn og við vorum á leið suður austanverðan Noreg norðan frá Tromsö. Við ferðuðumst suður Guðbrandsdalinn og sóttum heim eitt af Nordensfélögunum á ónefndum stað í Hringjaríki. Þar átti ég að flytja fyrirlestur og sýna kvikmyndina. — Brátt fann ég, að eitthvað óvenjulegt var á seyði þarna með fundarfólkinu, sem var margt. Svo kom til mín frú, sem var í forustuliði norrænafélagsins. Henni var mikið niðri fyrir. Hún kvaðst þurfa að taka mig alvarlega tali undir fjögur augu. — Hvað amaði að? Hún tjáði mér, að sum dagblöðin í Osló hefðu þá að undanförnu birt nokkrar greinar um Ísland og íslenzku þjóðina og komið þar inn á ýmislegt, sem einkenndi íslenzkt trúarlíf, sem Norðmönnum væri ekki geðfellt. Norskur prestur hafði verið á ferð heima á Íslandi. Hann sagði eða hafði sagt norskum lesendum sínum, að æðistór hluti íslenzku þjóðarinnar væri í sannleika sagt villutrúarfólk. Það fólk tryði t.d. á kenningar spíritista um lífið eftir dauðann og fleiri villukenningar dulræns eðlis. Frúin var brúnaþung og málhvöss og varaði mig alvarlega við að koma inn á þvílíkt bull í fyrirlestri mínum. Það yrði illa séð af hinum norsku tilheyrendum þarna í Hringaríkinu. Auðvitað tók ég þessari málaleitan frúarinnar létt og hét öllu góðu um það að skáganga þessar villukenningar, þetta bull um lífið eftir dauðann í fyrirlestri mínum. Það heit hélt ég og allt fór vel. — Bull var það! Bull er það!
Þegar þetta er skrifað eru aðeins fáar vikur síðan Nóbelsskáldið íslenzka endurtók þá kenningu sína í Sjónvarpi, að þjóðskáldin okkar, Einar Benediktsson og séra Matthías Jochumsson, væru bullarar, skáldskapur þeirra væri þvaður. Um leið og Nóbelsskáldið fullyrti þetta, blés það tóbaksreyknum í átt að andlitum þeirra, sem sáu og hlustuðu. Við þessari fullyrðingu skáldsins er ekkert að segja. Það er vissulega ekki öllum gefið að skilja djúpthugsandi skáld, og ekki heldur öllum svokölluðum skáldum er lán það léð eða gáfur. Vissulega erum við mennirnir mismunandi vitrir og skilningsgóðir á skáldskap, sem ristir djúpt í mannlegt líf og tilveru. Og sæmandi mannasiðir eru heldur ekki öllum ljósir.
Sigurður prófessor Nordal segir á einum stað um séra Matthías Jochumsson skáld: „Af mönnum, sem ég hefi kynnzt, hefi ég dáðst mest að séra Matthíasi.“ Prófessorinn kynntist prestinum persónulega og var auðvitað þaulkunnugur skáldskap hans, bókmenntafræðingurinn og rithöfundurinn. — Hvað eigum við svo að halda um Nóbelsskáldið íslenzka. Hefur ekki ljónið hans Dante heltekið sálarlíf þessa manns?
Í grein rektorsins og guðfræðingsins í Skálholti í Kirkjuritinu 1974 stendur þessi klausa:
„Nú verður veruleg tilvist „eilífðar“ ekki sönnuð með áþreifanlegum hætti, ekki fremur en „framhaldslíf“ þeirra sálarrannsóknarmanna. Þess vegna er hið heimskulega hugtak „eilífð“ aðeins hugtak, tjáir engan sannaðan veruleika ... Engar áþreifanlegar líkur benda til þess, að til sé nokkurt líf handan grafar og dauða yfirleitt ... Óheimspekilegt þvaður um ímyndað „framhaldslíf“ er einnig auðvelt að bera sér í munn, ef menn hafa lyst á slíkum andlegum lággróðri. En hvorugt höfum við við áþreifanlegan veruleika að styðjast. Annað kann að vera huggun þeim, sem gaman hafa af rökrænni heilaleikfimi. Hitt er e.t.v. hæfilegt athvarf þeirra, sem óska að fela fyrir sér staðreyndir dauðans í þoku hugsunarlausrar tilfinningasemi. En hvorttveggja er hugarburður og annað ekki. Þessi hugarburður er megin orsök þess, að ég nú hefi drepið niður penna. Hann er fyrirferðarmestur í munni „sálarrannsóknarmanna“ hér á landi. Það er ósæmilegt að ala vitiborna menn á hugarburði. Öll erum við vitibornir menn samkvæmt skilgreiningu. Þess vegna er það óhæfa að hafa í frammi fullyrðingar um „eilífð“ eða framhaldslíf í eyru okkar, hvort heldur þær eru byggðar á ímynduðum rannsóknum, rakalausum heilaspuna eða abstrakthugsun rökrænnar heimspeki ... Það er hlutskipti mannsins að lifa á þessari jörð um takmarkaðan tíma, unz dauðinn bindur endi á líf hans. Dauðinn er hið eina, sem öldungis er víst, að okkar allra bíður. ... Segja má, að hrein trú sé undanbragðalaust uppreisn gegn mannlegri viðleitni til að finna vit og tilgang í vitlausum og tilgangslausum heimi ...
Jesús Kristur reis upp frá dauðum. Upprisa hans er óskiljanlegust alls. Ef við reynum að „skýra“ hana með „raunvísindalegum“ hætti að sið „sálarrannsóknarmanna“, verður hún að ámóta skoplegri þvælu og sálarrannsóknir yfirleitt. Sé reynt að skilgreina upprisuna með heimspegilegt eilífðarhugtak að vopni, verður hún dauð, köld og óviðkomandi eins og hver önnur rökfræðileg abstraktion ...
Hér á landi er það sérstök skylda okkar að herja á andatrúna, þetta fyrirlitlega samsull lygavísinda, rakalausrar trúarheimspekilegrar þvælu og ógeðslegrar sefjunar af lágreistri og ómennskri gerð ...“ — Hér lýkur að sinni tilvitnun í grein rektorsins og guðfræðingsins í Skálholti.
Þegar ég las þessi fáheyrðu stóryrði rektorsins um lífsviðhorf vissra manna, komu mér í hug þessar ljóðlínur Einars skálds Benediktssonar:

Heimsins þraut er eldsins eðli að skilja,
eiga tök á strengjum ljóssins brúar,
þar sem mætast vegir vits og trúar,
vaðið tæpa þræða milli hylja.

Vitað er, að einstaklingar og söfnuðir hinnar kirkjulegu trúar, eins og rektorinn vill kalla trú sína, fara heldur ekki varhluta af íhreytum og lastyrðum fyrir kenningar sínar og trú. Líklega voru þeir trúbræður rektorsins og guðfræðingsins í Skálholti, sem Kristján Fjallaskáld kvað þetta um:

„Þótt rífi þeir í sig ritninguna
og rembnir af trúnni stæri sig,
þótt hlaði þeir saman heilaspuna
og hjátrúin ríði þeim á slig,
hendi mig aldrei heimska sú
að hyllast þeirra blindu trú.“

Og þarna notar skáldið orðið heilaspuna eins og rektorinn um spíritistaskoðanirnar.
Rétt er að geta þess, að Bakkus stytti aldur þessa skálds um drjúgan spotta. Góðkunninginn með halann og hófana bauð honum æði oft til vistar í kapellu bróður síns, þar sem hann stytti sér stundir við drykkju og daður, en þar mun hann hvorki hafa fundið föðurinn eða son hans, eins og rektorsefnið, og kem ég að þeirri frásögn hans bráðlega.
Nú spyrð þú auðvitað, frændi minn sæll: Hvers vegna ertu að senda mér þessar klausur úr grein rektorsins? Það skal ég segja þér afdráttarlaust. Orðalag rektorsins er af mínum sjónarhól séð, sérlega merkilegt og eftirtektarvert af sérstökum ástæðum. Og þær eru þessar: Þessi grófustu skammaryrði hans um spíritista og kenningar þeirra eru nálega þau sömu og ég heyrði í ræðum „Félaga Stalins“ í Vestmannaeyjum fyrir tæpri hálfri öld. Þá létu þeir fyrst á sér kræla í kaupstaðnum þeim. Þá vildu þeir rótfesta rússneskar kommúnistakenningar í hugum Eyjabúa. Þeir voru í ýmsu tilliti skynugir náungar og ræddu og bollalögðu með sér þær leiðir, sem þeim bæri að fara til þess að geta rutt sem fljótast brautina fram á við til sigurs stefnunni, Stalinismanum, í bænum. Þeir ályktuðu, að guðstrú fólksins og hin ýmsu trúarlegu lífsviðhorf, svo sem spíritisminn, væru þeir grjótgarðar og þær klettaborgir, sem lokuðu veginum fyrir framgangi stefnunnar í kaupstaðnum. Óneitanlega var þetta athyglisverð ályktun. Þá þurfti fyrst og fremst að ráðast á þessar hindranir, mylja þær mélinu smærra og fjarlægja leifarnar. —
Boðað var til funda. Þar voru haldnar orðþrungnar og magnaðar ræður gegn kirkju og kristindómi, gegn trúarsöfnuðum, gegn spíritisma og öðrum viðhorfum til dulfræðilegrar trúar og tilbeiðslu. Ég á orðaleppana enn, skráða í minnisbók mína frá þessum árum. Öll átti þessi trúarlega starfsemi, þessar biblíulegu og kirkjulegu kenningar með hliðstæðu starfi, svo sem rannsóknum spíritista, að vera trúargrillur, heilaspuni, bábyljur, bull og þvaður til þess gert að villa fyrir fólkinu og fjarlægja það raunverulegt þjóðlíf með mannsæmandi lífskjörum. Allt átti þetta starf að vera í þágu auðvaldsins til þess að stinga fólkið svefnþorni. Fyrir áhrif þessara trúarlegu svæfilyfja átti að takast að deyfa fólkið og fá það til þess að þræla kauplítið til auðssöfnunar nokkrum einstaklingum í auðvaldsþjóðfélaginu. Þetta sögðu þeir, Félagar Stalins í Vestmannaeyjakaupstað, fyrir svo sem hálfri öld. Ég á sem sé glefsur úr þessum ræðum þeirra enn í fórum mínum. — Og orðaleppar rektorsins í Skálholti í grein hans í Kirkjuritinu minna átakanlega á þessar hálfrar aldar gömlu ræður „Félaganna“. Svona geta ýmis fyrirbrigði í þjóðfélaginu verið lífseig og endurtekið sig eins og sagan sjálf.
En þessi ræðumennska „Félaga Stalins“ í kaupstaðnum tók brátt enda eins og árás rektorsins á spíritismann. Trúarheitar sálir, sem þó gátu á ýmsa lund aðhyllzt kenningar kommúnistanna, tóku af skarið. Þar minnist ég sérstaklega frú Unu Jónsdóttur, skáldkonu, og ýmissa annarra einlægra fylgjenda verkalýðsbaráttunnar í kaupstaðnum. Þær góðu konur sannfærðu „Félagana“ um þá staðreynd, að ræður þeirra og árásir á trú og tilbeiðslu fólksins ykju ekki fylgi þess við „stefnuna“ eða tryggði henni sigur í baráttunni. — Líklega alveg hið gagnstæða.
Brátt snéru „Félagarnir“ alveg við blaðinu eins og rektorinn, þegar hann flutti útvarpsræður sínar um hina kirkjulegu trú. Kristur varð nú uppreisnarmaðurinn mikli í ræðum þeirra og Stalin var staðgengill hans á þessu jarðarkríli, endurlausnari af guði sjálfum sendur!
Þannig minnti grein rektorsins mig á þessi fyrirbrigði í Vestmannaeyjakaupstað, þegar ég las hana fyrst. Síðan hefi ég lesið hana oft. Hún er bráðfyndin með tilliti til þess, að guðfræðingur skrifar hana.
Þegar líða tók frá deilunum, sem árásin mikla olli með kirkjunnar mönnum og honum, flutti hann þrjú erindi í Útvarpið um kirkjulega trú, eins og hann nefndi þau, og ég hefi drepið á. Þar talaði auðheyrilega auðmjúkur og iðrandi maður, sem vitkazt hafði að undanförnu á mistökum sínum og yfirsjónum. Það met ég mikils við hvern mann. Þarna skrifaði ég hjá mér þessa málsgrein t.d. úr ræðu hans: „Sjálfur hefi ég ekki af miklu að má.“ — Jæja, var svo? „Og stundum beitum við hörðum orðum. Það er mannlegur veikleiki,“ sagði hann einnig. Þannig minnti ræðumaður mig á hinn iðrandi syndara, sem Jesús bauð vist með sér í Paradís strax eftir andlátið. Að sjálfsögðu hefur það átt sér stað um stundarsakir.
Eftir þessa játningu rektors er hann meiri maður eftir í mínum augum.
Hvar værum við Íslendingar staddir andlega, ef við stæðum í trúardeilum í þessu landi okkar í líkingu við stjórnmáladeilurnar, með hrakyrðum, lygum, rógi og yfirþyrmandi mannskemmdum?
Ég hef átt því láni að fagna, að kynnast á lífsleiðinni mörgu fólki í ýmsum trúarsöfnuðum frá því ég var á æskuskeiði. Ef til vill skilst mér það betur, eftir því sem aldurinn færist yfir mig, hversu allur þorri þessa fólks er heiðarlegur og vandar eftir mætti líf sitt og hugsun í einlægri trú og tilbeiðslu. Þetta er mín reynsla af öllum þorra þessa fólks.
Stundum hittir maður fyrir menn, sem hirða ekkert um allt, sem heitir trú og kristindómur, andlegt líf og eilífðarmál. Þá koma mér í hug tvær ljóðlínur í kvæðum hins vitra skálds á Bessastöðum, Gríms Thomsens:

Menn sjá illa og minna trúa,
í maganum flestra sálir búa.

Ég hefi lagt það í vana minn, að álasa engum fyrir trúarskoðanir sínar. Þeim vana mínum mun ég halda, þar til yfir lýkur. — Væru tök á að sanna allt eins og dauðann eða sannreyna allt eins og hann, þá kæmi engin trú til greina. Á henni þyrfti tæpast að halda.
Margt fleira en ég hefi hér getið um finnst mér eftirtektarvert og til íhugunar í grein rektorsins. Þessi klausa vakti sérstaka athygli mína:
„Einu sinni sat ég með nokkrum vinum mínum að austan í einu af mannfagnaðarhúsum Reykjavíkurborgar, stundarkorn á laugardagskvöldi. Þarna var glatt á hjalla og allir önnum kafnir við að drepa hinn óþolandi tíma með drykkju, dansi og öðrum dægramun. Ég minntist þess, að alla þá stund, sem ég sat þarna, sótti að mér sama hugsunin: Hér er guð. Hér er Kristur. Hér er hann einfaldlega vegna þess, að hér ríkir tómið eitt, vonlaus viðleitni okkar örvæntingarmanna til að troða marvaðann ... Hér er guð. Hér er Kristur ...“ Og svo segir höfundur: „Næsta dag átti ég því láni að fagna að þjóna í einni af höfuðkirkjum borgarinnar. Sem ég stóð þar alskrýddur fyrir altari, var ég lostinn annarri hugsun, ólíkri hinni fyrri: „Hér er enginn guð. Hér er Kristur fjarri“.

III. hluti

Til baka