Blik 1974/Skýrsla um matsveinanámskeið Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum 1937

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974



Skýrsla um matsveinanámskeið
Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum 1937


ctr


Aftari röð frá vinstri: Kristján Thorberg, Garðstöðum, Hlöðver Johnsen, Suðurgarði, Gestur Auðunsson, Sólheimum, Jóhann Kristjánsson, Skipholti, Pétur Sigurðsson, Pétur Guðbjartsson, Brimhólabraut.
- Fremri röð frá vinstri: Guðjón Jónsson, Vinaminni, Ármann Bjarnason, Hásteinsvegi, Sigurbjörn Ásbjörnsson, matreiðslukennari, Ögmundur Sigurðsson, Landakoti og Vigfús Guðmundsson, Vallartúni.


Námskeiðið hófst 26. október. Því lauk 11. desember. Þessir 10 nemendur sóttu námskeiðið:
Ármann Bjarnason, f. 10. nóv. 1911.
Gestur Auðunsson, f. 23. júní 1915.
Jón Hlöðver Johnsen, f. 11. febrúar 1919.
Jóhann Kristjánsson, f. 29. des. 1915.
Guðjón Jónsson, f. 3. nóv. 1905.
Kristján Thorberg, f. 10. apríl 1916.
Pétur Guðbjartsson, f. 14. júlí 1904.
Vigfús Guðmundsson, f. 21. október 1908.
Ögmundur Sigurðsson, f. 17. janúar 1911.
Pétur Sigurðsson, f. 30. júlí 1921.


Matreiðslukennari var hr. Sigurbjörn Ásbjörnsson frá Reykjavík.
Starfið hófst daglega kl. 9 að morgni. Voru þá tveir nemendur saman látnir kveikja upp eld og laga morgunverð, sem oftast var hafragrautur með mjólk og smurðu brauði. - Kl. 9, eða að loknum morgunverði, tóku allir nemendur til starfa. Var þá skipt með þeim verkum. Sumir undirbjuggu miðdegisverðinn. Aðrir ræstu híbýlin eða undirbjuggu bökun.
Nemendur matsveinanámskeiðsins lærðu að búa til 27 sjálfstæða miðdegisrétti úr algengum matarefnum. Færri súpur og grauta.
Til miðdegisverðar voru ýmist kjöt-, fisk- eða síldarréttir; kálréttir einnig stöku sinnum. Úr kryddsíld lærðu piltarnir að búa til þrjá rétti og fjóra rétti úr nýrri síld. Einnig álegg úr salt- og kryddsíld. Áherzla var lögð á að kenna að matreiða úrgangsfisk, svo sem karfa, ufsa og tindabykkju.
Til kvöldverðar voru oftast notaðir afgangar frá miðdegisverði, lagaðir og breyttir. Þannig lærðu nemendur nýtni og sparsemi. Þeir lærðu að baka öll algeng brauð, pönnukökur, kleinur, klatta úr graut o.fl. þvílíkt. Einnig brenndu nemendur sjálfir það kaffi, sem þeir notuðu.
Daglegu starfi lauk kl. 7 að kvöldi.
Hreinlætisföt sín, dúka og þurrkur þvoðu nemendur sjálfir. Mikil áherzla var lögð á hreinlæti um allt, stundvísi, sparsemi og nýtni, en þó gott fæði.
Öll umrædd störf fóru fram undir handleiðslu matreiðslukennarans. Nemendur sýndu mikinn áhuga og mikla skyldurækni í starfinu.
Meiri hluta námstímans kenndi undirritaður sveinunum íslenzku 2 stundir, reikning 3 st. og bókfærslu 1 st. á viku. Bókfærslukennslan miðaði að því, að sveinarnir gætu fært heimilisdagbók og fylgzt með tekjum og gjöldum síns eigin heimilis. Jafnframt lærðu þeir að færa dagbók um matarkaup á útilegubát, svo að þeir mættu m.a. vera því vaxnir að gera sjálfum sér og öðrum grein fyrir því, til hvers fæðispeningarnir hefðu farið.
Nemendur greiddu sjálfir fæðisreikning sinn og fæddu kennarann. Skólagjald var ekkert. Kaup kennarans, tímakennsla og húsnæði nemur samtals kr. 720,00.
Bæjarsjóður Vestmannaeyja leggur fram kr. 450,00 upp í þann kostnað (þar af voru teknar kr. 350,00 af rekstrarfé gagnfræðaskólans). Fiskifélag Íslands greiddi kr. 200,00 samkvæmt loforði og mismuninn greiddi undirritaður úr eigin vasa.
Námskeiðið var starfrækt að Geirseyri í Vestmannaeyjum.
Við, sem starfað höfum að þessu námskeiði, vonum, að það sé vísir af öðru meira. Slíkt námskeið þarf að starfrækja hér á hverju ári. Það þarf að efla og fullkomna eftir föngum og betur, en við höfðum tök á í þetta sinn. Við hljótum öll að sjá þörfina á því að stofnað sé hér til hliðstæðrar kennslu fyrir stúlkur.
Feður hér hafa ekki efni á að kosta dætur sínar til húsmæðranáms í önnur héruð. (Þetta var á aumustu kreppuárunum)! Þær verða því að hefja móður- og húsmóðurstarfið, svo vandasamt og afleiðingaríkt sem það getur verið, án annars undirbúnings en þess, sem stúlkur fá á heimilum sínum eða í vist. Ég veit, að sumar mæður eru því vaxnar að kenna dætrum sínum nauðsynlegan undirbúning húsmóðurstarfsins, en hvergi nærri allar, sem ekki er von til, eins og að þeim var hlynnt mörgum hverjum á æskuárunum.
Ég leyfi mér að skora á háttvirta bæjarstjórn að veita fé á næstu fjárhagsáætlun til að stofna vísi að húsmæðraskóla hér á næsta hausti. Ég leyfi mér jafnframt að skora á háttvirtan þingmann kjördæmisins, hr. Jóhann Þ. Jósefsson, og uppbótarþingmann þess, hr. Ísleif Högnason, að beita sér fyrir því á næsta þingi, að ríkið leggi fram fé til stofnunar húsmæðraskóla í Vestmannaeyjakaupstað.
Ánægjulegt væri, ef þeir vildu vinna saman að þvi framfara- og menningarmáli.
Ég vil að lokum þakka öllum þeim, sem lagt hafa þessu áhugamáli okkar matsveinanámskeiðinu, stuðning sinn og sýnt því réttan skilning. Er þar fyrst að nefna stjórn Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, skólanefnd, bæjarstjórn (og þá alveg sérstaklega Ólaf Auðunsson, bæjarfulltrúa) o.fl. - Ég þakka matreiðslukennaranum góðan vilja og mikinn áhuga og nemendunum skyldurækni, áhuga og prúðmennsku.
Síðast en ekki sízt þakka ég samstarfsmanni mínum, Jónasi Jónssyni framkvæmdastjóra, sem með ráðum og dáð studdi að undirbúningnum og starfinu. (Sjá Víði, 47. tbl., 18. des. 1937).

Þ.Þ.V.