Blik 1974/Skýrsla um Vinnuskóla Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum vorið 1938

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1974Skýrsla um Vinnuskóla Gagnfræðaskólans
í Vestmannaeyjum vorið 1938
(Sjá bréf til vinar míns og frænda)


Skólinn tók til starfa 24. maí og starfaði til 23. júní eða 24 virka daga.
Í náminu tóku þátt 19 drengir, þá flestir voru, á aldrinum 13-17 ára. Þessir voru drengirnir:

1. Arinbjörn Kristinsson, f. 1. júní 1925.
2. Bárður Auðunsson, f. 2. nóv. 1925.
3. Bergþór Guðjónsson, f. 28. ágúst 1925.
4. Brynjólfur Jónatansson, f. 23. júní 1924.
5. Einar Einarsson, f. 23. júlí 1924.
6. Erlingur Eyjólfsson, f. 31. júlí 1924.
7. Gísli G. Magnússon, f. 20. okt. 1924.
8. Guðjón Tómasson , f. 29. ágúst 1924.
9. Guðni Gunnarsson, f. 25. okt. 1925.
10. Ívar Magnússon, f. 3. okt. 1923.
11. Jón Hjálmarsson, f. 30. desember 1922.
12. Jón Kristinsson, f. 5. febr. 1925.
13. Leifur Eyjólfsson, f. 6. marz 1922.
14. Sigurjón Kristinsson, f. 8. júlí 1922.
15. Sigurður Sveinbjarnarson, f. 5. sept. 1923.
16. Stefán Jónsson, f. 15. ágúst 1920.
17. Sveinn M. Björnsson, f. 19. febr. 1925.
18. Tómas Ólafsson, f. 3. júlí 1924.
19. Þórarinn Sigurðsson, f. 24. febr. 1925.

Nemendur skólans bjuggu í „heimavist“ í húsnæði gagnfræðaskóla kaupstaðarins að Breiðabliki undir eftirliti kennara dag og nótt, og höfðu þeir til afnota auk leiguhúsnæðis gagnfræðaskólans borðstofu og eldhús á efstu hæð skólahússins.
Hver vinnudagur var notaður sem hér segir:

Kl. 7,30-8,45: Klæðzt, teknar morgunæfingar, búið um rúm sitt, þvegið andlit og hendur, snæddur morgunverður.
— 8,45: Gengið til vinnu.
— 9: Vinna hefst.
— 10-10,15: Hvíld, borðað brauð smurt íslenzku smjöri.
— 11-11,15: Hvíld.
— 12,30: Gengið frá vinnu til miðdegisverðar.
— 2,15: Gengið aftur til vinnu.
— 4-4,15: Kakó og brauð.
— 5,15: Vinnu hætt, gengið frá verkfærum.
— 5,30-7: Erindi og íþróttaiðkanir (knattleikur, hlaup, sund o. fl.).
— 7-7,30: Snæddur kvöldverður.
— 7,30-8,30: Frjáls stund, íþróttaiðkanir eða erindi.
— 8,30-9: Þvegið sér og háttað.
— 9-9,30: Nemendur lesa bækur eftir frjálsu vali.
— 9,30-10: Kennarinn les fyrir nemendur.
— 10: Næturró.

Daglegur vinnutími var að jafnaði 6 stundir. Þetta var unnið:
1. Smíðaðir litlir kassar með lömum og lás handa öllum nemendunum til þess að geyma í smáhluti, sem nemandi hver notaði í skólanum, svo sem sápu, handklæði, tannbursta, inniskó o. fl. þ. h.
2. Útbúin voru flet úr borðum handa hverjum nemanda í aðalkennslustofu gagnfræðaskólans.
3. Unnið var í ræktunarsambandi Skógræktarfélags Vestmannaeyja:
a. Grjótnám 70 m³.
b. Garðhleðsla (tvíhlaðinn varnargarður, 64 m á lengd).
c. Lagður vegspotti, þriggja m. breiður.
d. Gróðursettar 250 furuplöntur.
4. Nemendur voru látnir gróðursetja við heimili sín 150 furuplöntur samtals.
5. Nemendum voru gefnar alls um 400 kálplöntur (hvítkál og blómkál, kennt að skapa þeim gróðurskilyrði og gróðursetja þær. (Plönturnar voru úr vermireitum Þ.Þ.V.Háagarði).
6. Rofagræðsla:
a. Í nánd við iþróttavöllinn í Botninum.
b. Rof uppi á Neðri-Kleifum. - Lengd rofahleðslu alls 586,35 metrar á lengd eða 530,58 fermetrar.
7. Fjarlægt lausagrjót af grasflötum, þar sem almenningur dvelur oft sólríka hvíldardaga.
8. Þrjá óveðursdaga var unnið inni að smíðum og teikningum.
9. Gerðar gróðurathuganir og nemendum kennt að þekkja jurtir og skapa sér hugmyndir um byggingu þeirra og störf.
10. Stutt erindi flutt um markmið vinnuskólans, gildi vinnunnar, hegðun við störfin, og svo erindi um gróður og heilsuvernd.

Á kvöldin las kennari Grettissögu fyrir drengina og hluta af Egilssögu.
Hvern virkan dag unnu drengir saman heima hjá matseljunni að ræstingu húsnæðisins, uppþvotti, sendiferðum o. fl. þ. h.
Hvert laugardagskvöld fengu nemendur heitt og kalt bað í þvottahúsi skólahússins.
Lýsis neyttu þeir hvern morgun, áður en gengið var til vinnu, en kaffi var drukkið í mötuneyti vinnuskólans.
Drengirnir fengu eina krónu í dagkaup auk fæðis, sem kostaði skólasjóðinn kr. 1,62 á dag.
Matselja var frú Júlía Árnadóttir að Breiðabliki.
Daglega stjórn skólans, kennslu og vinnustjórn önnuðust hinir föstu kennarar gagnfræðaskólans, Þorsteinn Einarsson og undirritaður.
Skólann kostuðu bæjarsjóður og ríkissjóður af hálfu hvor.

Vestmannaeyjum, 9. sept 1938.


Þessi skýrsla er eins og ég birti hana í Vestmannaeyjablaðinu Víði 24. sept. 1938. Ýmsu má hér brosa að. T. d. tek ég það fram, að nemendur Vinnuskólans fái að nota íslenzt smjör út á brauðið sitt. Þá var það aðeins efnaðasta fólkið í Eyjum, sem hafði efni á að veita sér annað og meira en smjörlíki út á „daglegt brauð“.
Aðgang að böðum hafði gagnfræðaskólinn engan og urðu því nemendur Vinnuskólans að þvo sér úr bölum eða vatnsfötum hvert laugardagskvöld.
Þorsteinn Einarsson, síðar íþróttafulltrúi ríkisins, var fastur kennari við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum á þessum árum. Við unnum sem einn maður saman að þessu skólastarfi sem öðru til velferðar æskulýð kaupstaðarins.
Næsta ár eða vorið 1939 fengum við einnig aðstöðu til að reka vinnuskóla til velfarnaðar piltum á svipuðum aldri. Síðan var þetta starf lagt niður illu heilli. Fé fékkst ekki til rekstursins. Var þá treyst á framtak Einars Sigurðssonar um vinnu handa unglingunum, eftir að hann stofnaði til reksturs á Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, - gerðist hinn merki brautryðjandi í atvinnulífi Eyjafólks. (Sjá bréf til vinar míns og frænda hér í ritinu). Þ. Þ. V.1974 b 229 A.jpg


Hér birtir Blik mynd af tveim verkstjórum hjá Einari Sigurðssyni, hraðfrystistöðvareiganda í Vestmannaeyjum. Myndin er tekin árið 1941 í tilefni þess, að þá hafði Einar rekið hið stóra hraðfrystihús sitt í Eyjum í eitt ár. Þetta er afmœlismyndin. Með verkstjórunum á myndinni eru blómarósir, sem unnið höfðu undir þeirra stjórn á vertíð 1941. - Aftari röð frá vinstri: Þorsteinn Sigurðsson frá Melstað, Bergþóra Þórðardóttir frá Bergi, Ágústa Eyjólfsdóttir frá Laugardal, Margrét Guðjónsdóttir frá Hlíðardal, Sigríður Eyjólfsdóttir frá Laugardal, Sigríður Gísladóttir frá Haukfelli, Einar Ingvarsson, Faxastíg. - Fremri röð frá vinstri: Erla Ólafsdóttir frá Strönd, Guðbjörg Bergmundsdóttir, Nýborg, Guðlaug ..., Grafarholti, Geirlaug Jónsdóttir, Vestmannabraut og Ásta Þórðardóttir frá Bergi.