Blik 1974/Ræða

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974



SIGURGEIR KRISTJÁNSSON:


Ræða


(Hinn 4. júlí 1974 minntust Vestmannaeyingar, sem þá voru aftur fluttir heim til Eyja, að ár var liðið frá þeirri stundu, er eldgosið á Heimaey tók enda. Á þriðja þúsund manns safnaðist saman við vesturbrún hraunsins og hlýddi þar á ræðu þá, sem forseti bæjarstjórnar kaupstaðarins, Sigurgeir Kristjánsson, flutti þar. Sú ræða fer hér á eftir. Þ.Þ.V.).


Sigurgeir Kristjánsson.
Á bjargi flutti forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, Sigurgeir Kristjánsson, ræðu sína 4. júlí 1974. Bjargið hafði Ístak hf. losað í hraunjaðrinum og gert að rœðustól.

Góðir Vestmannaeyingar og aðrir tilheyrendur.
Þegar við komum hér saman við hamravegginn, þar sem eldhraunið brann fyrir fáeinum mánuðum, er mér efst í huga þakklæti til forsjónarinnar fyrir þá náð og miskunn, að við skyldum öll á stund hættunnar sleppa heil á lífi og limum. Mér hefur oft fundizt eins og við værum undir verndarhendi allar götur frá því að ósköpin dundu hér yfir, og minni í því sambandi á, hve vel hefur tekizt til með alla þá flutninga á fólki og varningi án verulegra slysa, sem þó fóru fram á einhverju mesta slysaári í sögu þjóðarinnar.
Þetta er þakkarefni ásamt mörgu öðru, sem okkur hefur gengið í haginn þrátt fyrir allt og allt. Ég bið ykkur að muna eftir þessu og gera það að inntaki dagsins, með því að mæta sem flest til þakkargjörðar, sem hefst í Landakirkju í kvöld kl. hálfníu. Það var nærri okkur höggvið, þegar jörðin rifnaði og rauður loginn brann hér í túnfætinum. Það munaði mjóu að einhver okkar hefðu ekki kunnað að segja frá tíðindum, og hin þurft að bera þyngri byrðar en raun varð á.
Ég vil líka á þessari stund bera fram þakkir til allra þeirra mörgu aðila, sem með einum eða öðrum hætti hafa stutt okkur af mikilli rausn og ósérplægni. Má þar til nefna fjölmarga aðila innlenda og erlenda, sem hér verða eigi upptaldir. En þeirra hlutur má ekki gleymast, því án hjálpar vorum við illa stödd. Það hafa fyrr geisað eldgos á Íslandi og þeim hafa fylgt hörmungar svo að við landauðn hefur legið. Þá voru stundum fáir, sem gátu og eða vildu rétta hjálparhönd, enda þjáning og verðgangur hlutskipti þeirra, sem þá urðu að flýja frá jarðeldasvæðunum.
Það má segja, að við erum lánsöm að lifa á þeim tímum, sem betur gera, þegar slíka atburði ber að höndum, og við verðum að þakka fyrir það. Mér er kunnugt um, að margar þær gjafir, sem okkur bárust, voru fremur gefnar af góðum hug en miklum efnum. Og gleymum því ekki, að nú er með sérstökum ráðstöfunum stefnt að því, að við hér höldum sem næst þeirri stöðu fjárhagslega, sem við áður höfðum. Í stað þess, þegar slíkir atburðir gerðust áður, þótti gott, ef fólkið, sem fyrir þeim varð, fékk að halda líftórunni.
Ég vil ennfremur þakka öllum þeim, sem unnið hafa fyrir okkur margvísleg störf, hvort sem þau hafa verið launuð eða unnin í sjálfboðavinnu. Ég hef kynnzt ýmsum þáttum þeirrar vinnu og hvergi fundið annað en velvilja og vinsemd í okkar garð. Vestmannaeyjamálin voru og eru stórmál, og að þeim hefur margur góður drengur vel unnið. Ég held, að við ættum ekki að kasta steini að þeim mönnum að óathuguðu máli, en í því efni á margt eftir að skýrast.
Annars erum við hér komin til að minnast þess, að í dag er ár liðið frá því, að eldgosinu lauk hér á Heimaey. Ályktun Almannavarnanefndar Vestmannaeyja studd þekkingu færustu manna á sviði jarðfræðinnar var gefin út hér að lútandi - ályktun, sem hefur staðizt og hafði þýðingu, því að eftir að hún var birt, fór að slakna á ýmsum hömlum, sem hér voru settar vegna hættuástands, sem hér var ríkjandi, meðan eldgosið var í algleymingi. Dagur þessi markar því tímamót og verður í minnum hafður.
Jarðeldarnir á Heimaey marka þáttaskil í sögu byggðarlagsins. Að baki er þúsund ára saga byggðar hér í Eyjum, saga Vestmannaeyinga frá upphafi, fólksins, sem hér hefur lifað og starfað og þolað sín örlög í sorg og gleði kynslóð fram af kynslóð. Svo er kaflinn þegar ósköpin dundu yfir, þegar jörðin brann, þegar eldi og eimyrju rigndi yfir byggðina, þegar bærinn okkar hvarf að hálfu í hraun og ösku. Það er nú orðinn kafli í sögu bæjarins, og um leið þáttur í ævisögu okkar, sem hér áttum heima og þar á meðal okkar, sem hér erum saman komin í dag. Óvæntur reynslutími allra Vestmannaeyinga. Prófraun og þolraun, sem við hlutum að ganga í gegnum. Hvort við stóðumst þetta próf, mun ég ekki dæma um. Hitt vil ég segja, sem mér er kunnugt um, að margir og ekki sízt konurnar báru í kyrrþey þungar byrðar án þess að kvarta, og kom þar fram að stofninn er sterkur, þegar á reynir.
Það er víst, að myndin og minningin um Heimaey, eins og hún var fyrir jarðeldana, situr ákaflega fast í okkur Vestmannaeyingum, og vafalaust eiga margir erfitt með að sætta sig við orðinn hlut. Allra sízt þeir, sem misstu hús og heimili, athvarf sitt og æskustöðvar undir hraun og ösku.
Skáldið segir: „Það, sem verður að vera, viljugur skal hver bera.“ Og svo sem hraunkvikan hér bak við hamravegginn kólnar smátt og smátt, eins mun spennan og sársaukinn í okkur slakna með tímanum. Við munum fegurð Eyjanna eins og þær voru, og við sjáum líka þá nýju fegurð í línum og litum á nýju landsvæðunum, sem hér eru í mótun.
Já, ár er liðið síðan eldgosinu lauk. Mikið hefur verið unnið hér að endurreisn og uppbyggingu bæjarins á þeim tólf mánuðum. Bærinn hefur að miklu leyti verið grafinn úr öskunni, og ég held að ég megi fullyrða, að því verki verði haldið áfram og því lokið á næstu mánuðum. Endurbygging húsa í bænum er vel á veg komin og atvinnutækin voru rekin með furðu miklum krafti þegar á s.l. vetri. Jafnvel hefur verið lagt til atlögu við hraunið sjálft, það er verið að flytja fjöll. Þvílík tröllatök eru fádæmi hér á landi eins og hamraveggurinn hérna á bak við okkur, sem hefur verið heflaður, ber merki um.
Það er líka verið að græða foldarsárin. Sandflákarnir munu með tímanum smátt og smátt hyljast grænu grasi. Og grasið er hvergi grænna en hér í Eyjum.
Það er verið að byggja upp nýjan bæjarhluta í stað þess, sem hvarf undir hraun. Tveir þriðju hlutar af fólkinu, sem hér var fyrir gos, er nú komið heim. Sannast þar hið fornkveðna, að römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til. Og Vestmannaeyingar hafa komið heim til að starfa að uppbyggingu bæjarins. Þeir hafa lagt fram krafta sína alla, enda sína verkin merki þess. Í því sambandi má ekki gleyma uppbyggingu sjálfra heimilanna, sem var og er mikið verk út af fyrir sig. Það liggur við, að ég hafi stundum óttast, að öll þessi vinna yrði sumum ofraun, og ég held, að menn og konur ættu að hyggja að því.
Ég var á fyrstu dögum jarðeldanna spurður að því, hvernig ég héldi, að sál bæjarfélagsins kæmi út úr þessu. Ég svaraði því á þá leið, að sál hvers bæjarfélags mundi mótast af umhverfinu og þeim viðhorfum, sem þar væru hverju sinni. Við mundum verða að sætta okkur við nýtt landslag og bæjarfélagið mundi að vissu leyti fá nýja sál.
Ég held að við, sem höfum gengið í gegnum reynslutíma jarðeldanna, séum ekki alveg söm og við vorum áður. Það er eins og einhver strengur í okkur hafi brostið eða slaknað.
Vonandi hefur reynslan samt gert okkur að betri mönnum.
En hvað sem því líður, þá erum við komin heim til þess að byggja upp aftur fegurri bæ og betra samfélag. Að því skal unnið.
Síðast vil ég biðja ykkur að hrópa ferfalt húrra fyrir Vestmannaeyjum eins og þær voru og þær eru. Þær blessist og blómgist. Þær lengi lifi.