Blik 1974/Búðarmenn beiðast líknar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974



Búðarmenn beiðast líknar


Hér birtum við markvert bréf, sem afgreiðslumenn í búðum Vestmannaeyjakauptúns 1906 sendu húsbændum sínum. Þá var það alþýðumál í Eyjabyggð að kalla þessa menn búðarlokur. Ekki viljum við halda því fram, að allir hafi lagt í það niðrandi merkingu. Nöfn bréfritaranna urðu síðar þekkt á sviði verzlunar- eða skrifstofustarfa hér í kauptúninu og svo í kaupstaðnum.
Orðið landmenn átti tvær merkingar. Í fyrsta lagi voru það aðkomumenn úr Suðursveitum landsins, sem komu til Eyja í viðskiptaerindum, bændur og búaliðar úr Rangárvallasýslu eða Skaftafellssýslu hinni vestari, og hefur orðið þá merkingu í bréfi þessu. Í öðru lagi voru landmenn kallaðir þeir, sem unnu að útgerðinni í landi (beitingamenn, aðgerðarmenn) gagnstætt þeim, sem sjóinn stunduðu, sjómenn.
Árin 1903-1905 bjuggu Eyjamenn sér nýtt barnaskólahús, sem jafnframt var fundarhús hrepps- og sýslunefndar og svo bókhlaða. Þetta var húsið nr. 3 við Heimagötu og hét Borg, eftir að það var selt úr eigu hreppsins 1913. Á vesturstafni þess var voldug stundaklukka, sem Eyjafólk yfirleitt tók tillit til, er það rétti af klukkur sínar eða vasaúr.
Bréfið:
„Með því að sá óvani er kominn hér á, að verzlunarbúðum er almennt haldið opnum til kl. 9 á kvöldin og þar fram yfir, þó ekkert sérlegt sé um að vera eða nein ös af landmönnum. Óvani þessi gjörir verzlunarþjónana leiða á starfi sínu, sem ekki er án orsaka, þar vinnutíminn er allt of langur eða um og yfir 14 tímar á dag að jafnaði. Í tilefni af þessu framanskráðu héldum vér undirritaðir verzlunarmenn fund með oss í gærkvöld og var þar samþykkt með öllum atkvæðum að fara fram á við húsbændur vora að fá búðartímann styttan þannig:
1. Að sölubúðum hér skuli hér eftir lokað klukkan 8 síðdegis (nema sérstök nauðsyn krefjist) frá 1. febr. til 31. okt. ár hvert og eigi opnast seinna en kl. 7 f.m. á því tímabili.
2. Hina 3 mánuði ársins, nóv, des. og jan. skulu búðir opnaðar kl. 8 f.m. og lokað kl. 7 e.m. og séu allir jafnt skyldir til að fara eftir sömu klukku með búðartímann allan ársins tíma.
Miða skal tímann við Þinghúsklukkuna.
Jafnframt göngumst við undir að vinna lengur, þegar nauðsyn krefur, t.d. ef afgreiða þarf landmenn eða annað þessháttar.
Þar krafa þessi er í alla staði mjög sanngjörn og í sjálfu sér sjálfsögð, væntum við, að hún verði samþykkt og okkur gefin ákveðið svar næstkomandi sunnudag 17. þ.m. þessu viðvíkjandi.

Vestmannaeyjum, 15. júní 1906.
Virðingarfyllst.
Þórarinn Gíslason,
Guðni Jóhannsson,
Jón Sighvatsson,
Páll Ólafsson,
Jóhann Þ. Jósefsson.

Til verzlunarstjóra A. Bjarnasen; kaupmanna G.J. Johnsens og L. Höydahl í Vestmannaeyjum.