Blik 1973/Sparisjóður Vestmannaeyja 30 ára, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Sparisjóður Vestmannaeyja 30 ára
(2. hluti)


Stofnendur
Sparisjóðs Vestmannaeyja


Kristinn Ólafsson, lögfræðingur, Reyni (Bárugötu 5).
Kjartan Guðmundsson, útgerðarmaður og ljósmyndari, Skólavegi 10.
Jón Ólafsson, útvegsbóndi, Hólmi Miðstræti.
Hermann Guðjónsson, tollvörður, Austurvegi 2.
Guðlaugur Brynjólfsson, útgerðarm., Lundi.
Jón Jónsson, útgerðarmaður, Hlíð (Skólavegi 4).
Gísli Þórðarson, verkamaður, Görðum (Vestmannabraut 32).
Húsið Reynir, nr. 5 við Bárugötu.
Hér var Sparisjóður Vestmannaeyja
til húsa tvö fyrstu starfsárin 1943-1945.
(Glugginn til vinstri á miðhæð, aðalhæð).
Guðmundur Böðvarsson, húsasm.meistari, Hásteinsvegi 8.
Filippus Árnason, yfirtollvörður, Austurvegi 2.
Stefán Guðlaugsson, útgerðarmaður, Gerði.
Einar Lárusson, málarameistari, Þorvaldseyri (Vestmannabraut 35).

Áður en lengra er haldið verður hér birtur listi yfir ábyrgðarmennina fyrstu, sem þá teljast stofnendur Sparisjóðsins, í þeirri röð, sem þeir í upphafi undirrituðu samþykktir stofnunarinnar, sem sendar voru á sínum tíma (haustið 1942) Viðskiptamálaráðuneytinu til staðfestingar.
Lög um sparisjóði samþykkti alþingi árið áður en Sparisjóðurinn okkar var stofnaður. Þeim hefur ekki verið breytt síðan, og eru þau satt að segja að ýmsu leyti úrelt orðin, svo mjög sem efnahagsmálin í landinu hafa breytzt á undanförnum aldarþriðjungi.
Samþykktir Sparisjóðsins eru í 40 greinum. Síðast kemur svo þessi klásúla:
„Framanritaðar samþykktir eru þannig samdar og samþykktar af undirrituðum ábyrgðarmönnum og stofnendum Sparisjóðs Vestmannaeyja.
Vestmannaeyjum, 31. okt. 1942.

Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri, Háagarði.
Helgi Benediktsson, útgerðarmaður, Skólavegi 27.
Sigurjón Sigurbjörnsson, fulltrúi, Kirkjuvegi 28.
Þórður Benediktsson, alþingismaður, Hásteinsvegi 7.
Jóhann Sigfússon, útgerðarmaður, Skólavegi 23.
Óskar Jónsson, útgerðarmaður, Vestmannabraut 15.
Magnús Guðbjartsson, forstjóri, Kirkjuvegi 26.
Einar Guttormsson, læknir, Kirkjuvegi 27.
Ásmundur Guðjónsson, framkvæmdastjóri, Gjábakka.
Kristinn Ólafsson, lögfræðingur, Reyni.
Kjartan Guðmundsson, útgerðarmaður, Skólavegi 10.
Jón Ólafsson, útgerðarmaður, Hólmi.
Hermann Guðjónsson, tollvörður, Austurvegi 2.
Guðlaugur Brynjólfsson, útgerðarmaður, Lundi.
Jón Jónsson, útgerðarmaður, Skólavegi 4.
Gísli Þórðarson, verkamaður, Görðum.
Guðmundur Böðvarsson, trésmíðameistari, Hásteinsvegi 8.
Filippus G. Árnason, útgerðarmaður, Austurvegi 2.
Stefán Guðlaugsson, útgerðarmaður, Gerði.
Einar Lárusson, málarameistari, Vestmannabraut 35.
Gunnar Marel Jónsson, skipasmíðameistari, Vestmannabraut 1.
Kjartan Ólafsson, útgerðarmaður, Hrauni.
Anders Hals Bergesen, útgerðarmaður, Þinghóli.
Guðni Grímsson, útgerðarmaður, Helgafellsbraut 8.
Sigurður G. Bjarnason, útgerðarmaður, Svanhóli.
Bjarni G. Magnússon, umboðsmaður, Vestmannabraut 10.
Þorbjörn Guðjónsson, bóndi, Kirkjubæ.
Konráð Bjarnason, netjagerðarmaður, Miðstræti 3.
Einar Guðmundsson, skipstjóri, Heiði.
Sveinn Guðmundsson, forstjóri, Arnarstapa.

Framangreindar samþykktir staðfestast hér með.

Viðskiptamálaráðuneytið, 3. desember 1942
Magnús Jónsson
Torfi Jóhannsson

Að fenginni þessari staðfestingu stjórnarráðsins var efnt til hins eiginlega stofnfundar Sparisjóðs Vestmannaeyja. Sá fundur var haldinn að Breiðabliki, — í leiguhúsnæði Gagnfræðaskólans þar, — sunnudaginn 10. jan. 1943.
Stofnfundinn sátu 24 ábyrgðarmenn af hinum 30, sem undirritað höfðu samþykktir stofnunarinnar. Sumir þeirra höfðu þá þegar fengið ákúrur og hótanir vegna undirskriftar sinnar og einn lagt niður rófuna að fullu og öllu, krafizt þess, að nafn sitt væri strikað út af samþykktarskránni. Þá ósk var ekki hægt að veita honum, því að það voru brot á gildandi landslögum.
Þ.Þ.V. setti stofnfundinn og skipaði fundarstjóra Kristinn Ólafsson, lögfræðing frá Reyni í Eyjum, með samþykki allra fundarmanna.
Ekki er því að leyna, að stofnfundarmenn voru ekki allir einhuga lið um kosningu stjórnarmanna hinnar nýju peningastofnunar.
Kosning hinna þriggja fyrstu stjórnarmanna féll á þessa lund:
Helgi Benediktsson, útgerðarmaður og kaupmaður, hlaut 16 atkvæði.
Kjartan Ólafsson, útgerðarmaður að Hrauni, hlaut 17 atkvæði.
Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri, hlaut 19 atkvæði.
Sá síðastnefndi var síðan á fyrsta stjórnarfundinum kosinn formaður stjórnarinnar og var það í 22 ár samfleytt eða til 4. jan. 1965. En þá var skipt um formann í stjórninni. Var þá Sveinn Guðmundsson, fulltrúi, kosinn formaður hennar og hefur verið það síðan.
Strax eftir stofnfundinn var hafizt handa um að láta prenta sparisjóðsbækur og ávísanabækur, en þær síðarnefndu voru þá samkvæmt lögum notaðar við ávísanareikninga aðra en hlaupareikninga. Þá þurfti einnig að láta prenta ávísanahefti, víxileyðublöð, tryggingarbréf, nótur o.fl., sem þurfti til daglegs rekturs stofnunarinnar. — Jafnframt var leitað eftir leiguhúsnæði handa sparisjóðnum og þurfti það auðvitað að vera í hjarta bæjarins.
Sá hnútur reyndist okkur erfiðastur til lausnar.
Loks gaf Kristinn Ólafsson, lögfræðingur, - þá málaflutningsmaður í Vestmannaeyjum, fyrrv. fulltrúi bæjarfógetans þar, — okkur kost á að leigja handa Sparisjóðnum eina stofu á aðalhæð íbúðarhússins að Reyni við Bárugötu. Þar var því Sparisjóður Vestmannaeyja til húsa næstu tvö árin eða til vorsins 1945.


Starfskraftar og starfshættir


Engin tök voru á að hafa Sparisjóðinn opinn til þjónustu við almenning nema stuttan tíma úr deginum sökum fjárskorts. Það hlaut að reynast allt of dýr rekstur, svo sáralítið sem fjármagnið var og hlaut að verða í upphafi tilverunnar. Mjög reið á að spara í öllum rekstri stofnunarinnar og stofna ekki til útgjalda, sem ekki varð við ráðið, þó að við gerðum okkur strax von um eitthvert sparifé, innlög, þegar stofnunin væri komin á laggirnar og Eyjafólk sæi svart á hvítu, að henni væri það alvara að verða til.
Afráðið var að hafa Sparisjóðinn opinn til afgreiðslu frá kl. 4—5,30 e.h. Þá gat starfsdegi verið lokið kl. 6 daglega að loknu uppgjöri. Þessi afgreiðslutími hlaut að henta vel hinu vinnandi fólki við höfnina og í hraðfrystihúsunum, sjómönnum og verkafólki. Vonað var fyrst og fremst til viðskipta við það.
Þegar við tókum að leita eftir starfskröftum til vinnu á þessum tíma, reyndist næsta erfitt að afla vinnuliðsins. Helzt hlutu það að vera kennarar, sem gátu komið því við að inna þetta starf af hendi á þessum tíma dags að lokinni daglegri kennslu í skólunum. Þegar á reyndi voru þeir heldur ekki tilkippilegir til starfans. Sumir báru við vankunnáttu í bókhaldi. — Bráðlega rættist þó úr þessu um ráðningu bókarans. Fráleitt var, að nokkur vildi taka að sér gjaldkerastarfið. Ég neyddist því til að binda þann bagga á eigið bak. Síðan var ég gjaldkeri Sparisjóðs Vestmannaeyja næstu 17 árin eða til ársins 1960.
Magnús Jónsson, kennari hjá mér við Gagnfræðaskólann (síðar skólastjóri Gagnfræðaskóla verknáms í Reykjavík), gaf kost á að hefja sparisjóðsreksturinn með mér og gerast bókari stofnunarinnar. Hann var vel að sér í bókhaldi og kenndi bókfærslu við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum.
Persónulega varð ég að fullnægja ákvæðum 8. greinar í samþykktum Sparisjóðsins, sem er í samræmi við gildandi landslög, en þar stendur skrifað: „Féhirðir skal setja tryggingu fyrir fé því, sem honum er trúað fyrir. Sparisjóðseftirlitið ákveður fjárhæð tryggingar að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar.“ Ég þykist muna það rétt, að upphæð þessi var afráðin kr. 10.000,00 og fékk stofnunin veð í íbúðarhúsinu okkar þá, Háagarði, fyrir upphæð þessari. Síðan hefur aldrei verið imprað á tryggingu fyrir misfellum í gjaldkerastarfinu. — Tímarnir breytast. Verðgildi fjármuna breytist. Alls konar lagafyrirmæli, samþykktir og reglugerðir úreltast, fyrnast og hverfa af sjálfu sér. Löngu seinna eru svo þessar úreltu samþykktir numdar úr gildi með lagabreytingum og nýjum samþykktum í samræmi við þær. Þetta allt er viss tegund af þróun.


Andstæðingur svívirðir Sparisjóðinn á bæjarstjórnarfundi


Svo sem lög mæla fyrir, þá ber bæjarstórn Vestmannaeyja að kjósa tvo menn í stjórn Sparisjóðsins. Þegar bæjarstjórn Vestmannaeyja skyldi í fyrsta sinni kjósa mennina tvo í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja, kom fyrir atvik, sem aldrei hefur úr minni okkar liðið og má ekki gleymast. Það segir sögu sína um velvild og skilning, hug og hjarta sumra ráðandi bæjarfulltrúa þá í garð hinnar nýju peningastofnunar. Einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn gerði það að tillögu sinni, að tveir miður kunnir reiðumenn í viðskiptalífi bæjarins yrðu kosnir í sparisjóðsstjórnina. Þar skyldi skel hæfa kjafti, ályktaði þessi bæjarfulltrúi hins alls ráðandi meiri hluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja þá, árið 1943.
Þá var það sem Guðlaugur Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins reis upp með þjósti og mótmælti kröftuglega slíkri vanvirðu, slíkri svívirðu. Féll þá flokksbróðir hans frá tillögunni. Síðan var Guðlaugur sjálfur kosinn í hina fyrstu stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja og sat í stjórninni í 19 ár samfellt við góðan orðstír, eða til ársins 1962. Þess skal jafnan getið, sem vel er gert.
Ég vil gjarnan skjóta því hér inn í mál mitt, að komið hefur það fyrir, að þessi miður velviljaði atvinnurekandi í garð hinnar nýfæddu peningastofnunar hefur þurft á hjálp hennar að halda í öllu fjármálastússi sínu og atvinnurekstri, og hefur honum þá jafnan verið veitt hin bezta fyrirgreiðsla eftir því sem efni stóðu til og fjárhagsástæður leyfðu hverju sinni. Þar hefur sannazt sem svo oft annars, að enginn veit, á hvaða stundu mælt er. Stundum reynist erfitt að sjá ævi sína fyrir eða greina atburðina löngu fyrirfram. Þess vegna er alltaf vissast fyrir okkur mannskepnurnar að láta jafnan lítið og „ganga hægt um gleðinnar dyr.“ Það er svo margt á hverfanda hveli. Það er síður en svo af nokkru aggi, að ég minnist hér á þessa tillögu. Hún var aðeins ávöxtur ríkjandi hugsunarháttar og anda hér í kaupstaðnum þá. Og tillögumaður var barn síns tíma hér, en hefur nú vaxið mjög að reynslu og lífsviti, sem betur fer. „Enginn gjöra að því kann, út af hverju fæðist hann.“


Daglegur starfstími og laun starfsmanna


Þó að ég dveldist árum saman við skólanám, hafði ég aldrei lært hið minnsta í bókfærslu. Ég fékk þess vegna góðkunningja minn, sem var gróinn starfsmaður hér í Útvegsbankaútibúinu, til þess að segja mér til í þeirri grein og kenna mér að færa sjóðbók Sparisjóðsins og aðrar lögskipaðar bækur, sem notaðar voru þá í daglegum rekstri sparisjóðanna í landinu. Þetta fræðslustarf innti hann af hendi af mikilli ánægju á góðri stund. En sú hjálp hans varð að vera gjörsamlegt leyndarmál og hefur ávallt legið í þagnargildi af mjög gildum ástæðum. Við pukruðumst með þetta á kveldin.
Hvorki hafði ég vilja né beinlínis ástæður til að gera miklar kröfur um há laun fyrir gjaldkerastarfið, svo fáfróður sem ég var í bókfærslunni. Og svo var sparisjóðurinn hugsjón mín, peningalaus og allslaus. Ég þurfti einnig að fá samstarfsmann til þess að vinna fyrir svo lág laun, sem nokkur kostur var, af sömu ástæðu.
Afráðið var, að laun okkar starfsmannanna skyldu vera kr. 300,00 á mánuði. Vinnustundirnar voru frá kl. 4—6 e.h. fimm daga vikunnar og á laugardögum frá kl. 11—12 f.h. Launin voru því sem næst kr. 5,00 á hverja vinnustund, ef eftirvinnustundunum er breytt í dagvinnu.
Láta mun nærri, að sú launagreiðsla hafi numið 2/3 af tímakaupi verkamanns á þeim árum.
Ef ég tapaði fé úr höndum mér sökum mistalningar, varð ég auðvitað að greiða það sjálfur. — Ég sætti mig vel við þetta allt saman. Stofnunin var komin á stofn og það var hið mesta og stærsta í mínum augum. Ekkert var annað sjálfsagðara en að fórna henni starfi eftir föngum. — Bókarinn var hins vegar óánægður og hvarf frá starfinu eftir tvo mánuði. Kom þar fleira til en launagreiðslurnar. — Þá réðst til okkar annar kennari, Friðbjörn Benónýsson, barnakennari, og gegndi því næstu þrjá mánuðina.
Og enn gerðist kennari bókari Sparisjóðs Vestmannaeyja. Það var minn gamli og góði nemandi og vinur Árni Guðmundsson frá Háeyri í Eyjum, (Árni úr Eyjum). Hann bar síðan með mér hitann og þungann af rekstri stofnunarinnar næstu þrjú árin.


Skrapað saman sparifé hjá ábyrgðarmönnum
og vandamönnum þeirra


Þegar hefja skyldi starfrækslu Sparisjóðsins í apríl 1943, höfðum við vitaskuld engan eyri af sparifé milli handa. Ábyrgðarmennirnir höfðu greitt samtals kr. 15.000,00. Það var ábyrgðarfé þeirra. Af því greiddi ég rúmar fjórar þúsundir fyrir prentun á ýmsum gögnum, sem ég hef áður nefnt.
Hvað var nú til ráða?
Hvatt var til fundar með nokkrum ábyrgðarmönnum og leitað úrræða.
Fáir af okkur voru aflögufærir um lausafé. Þó nældum við saman nokkrum krónum hver og lögðum inn í sparisjóðsbækur. Það er ástæðan fyrir því, að lægstu númer þeirra bóka finnast hjá ábyrgðarmönnunum eða nánasta skylduliði þeirra eða vandamönnum. Ekki mun það fjarri hinu sanna, að 50—100 krónur hafi til jafnaðar verið lagðar inn á hverja bók barna eða maka. Þannig reittist saman nokkurt fé til að hefja lánastarfið.
Fyrsta fasteignalánið var svo veitt fyrsta mánuðinn, sem starfað var, kr. 1.500,00. - Víst er þetta allt aumlegt og broslegt, af því að okkur verður á að bera saman fúlgurnar á tímunum, sem við nú lifum á, við auraleysi og fjármagnsskort kreppuáranna og fyrstu styrjaldaráranna.
Til þess að spara vélakaup fyrst í stað, fengum við lánaða reikningsvél hjá einum af ábyrgðarmönnum sparisjóðsins. Ég tók hana heima hjá honum, þegar ég gekk til starfa í stofnuninni og skilaði henni aftur, þegar ég gekk heim frá starfi. En þessi „sæla“ stóð stutt, aðeins eina viku, því að frúin í húsinu neitaði með öllu að lána vélina slíkri stofnun, sem þessi nýi banki í bænum var sagður vera. Öll slík fyrirbrigði vöktu mér ánægju.
Brátt tók Eyjafólk að leggja fé sitt inn í stofnunina og ávaxta það þar, þó að lítið færi fyrir því lengi vel, eins og skráin um innlögin ber vitni um. Hún er birt hér með grein þessari.
Ýmsar ástæður lágu til þess, hve naumt var það fé, sem lagt var inn hjá okkur um árabil. Fyrst og fremst var þá lítið um peninga hjá öllum almenningi í bænum. Flestir höfðu rétt til hnífs og skeiðar og naumlega það sumir.
Húsnæði það, sem við áttum kost á að leigja til þess að starfrækja sparisjóðinn í, hafði yfir sér heldur lítinn blæ bankastofnunar. Því er heldur ekki að leyna, að við sumir hverjir, sem stóðum að starfrækslu þessari, vorum ályktaðir viðsjárgripir og jafnvel stórhættulegir valdaaðstöðu og gróðabuxum vissra manna í kaupstaðnum. Áróðurinn að tjaldabaki var því ekki veigalítill á vogarskálunum og stóð lengi sparisjóðnum fyrir vexti og viðgangi. Einnig er ekki rétt að draga fjöður yfir það, að hin gróna peningastofnun hér í bænum, Útvegsbankaútibúið, átti rík ítök í brjóstum flestra þeirra í bænum, sem peninga áttu aflögu daglegum nauðþurftum. Þá þrengdi það líka kosti okkar í þjónustustarfinu við almenning í bænum, að við vorum skuldbundnir samkvæmt lögum, að leggja til hliðar og geyma tíunda hluta sparifjárins, sem við máttum ekki lána af öryggisástæðum. Þessi ákvörðun löggjafarvaldsins gagnvart öllum sparisjóðum landsmanna var viturleg og varfærnisleg, þó að hún gæti valdið erfiðleikum í bráð hjá þeim lánastofnunum, sem bjuggu yfir mjög takmörkuðu fjármagni annars vegar, en við mikla ásókn um lán hins vegar.
Við völdum Búnaðarbankann til þess að geyma fyrir okkur þann tíunda hluta innstæðufjárins, sem við máttum ekki lána. Búnaðarbankinn var að öðru leyti aðalviðskiptabanki Sparisjóðs Vestmannaeyja þar til Seðlabankinn var stofnaður og tók að knýja á um viðskipti sparisjóðanna við sig samkvæmt reglugerð um bankann dagsett 24. des. 1957. Þau viðskipti við Seðlabankann hófust árið 1960.
Við töldum sjálfsagt að reyna til hins ítrasta að starfrækja sparisjóðinn sem næst athafna- og verzlunarsvæðum bæjarins, þó að það gengi býsna erfiðlega um árabil eða fyrstu 20 árin, sökum skorts á viðhlítandi húsnæði.

III. hluti

Til baka