Blik 1973/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, V. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja


6. kafli


Saumar, hekl, föndur o.fl.
Áhöld, tól, tæki


497. Fjaðranálar frá tímum sauðskinns- og leðurskónna. Einnig voru nálar þessar notaðar við skóklæðasaum og þá kallaðar fyrirseymur. Tvær gerðir af nálum voru þá notaðar, fjaðranálar (fyrirseymur) og sívalar nálar (eftirseymur). Stungið var gagnstætt gegnum nálarsporið og svo hert að.
498. Fjaðranálar frá tímum sauðskinns- og leðurskónna.
499. Heklunál úr hvalbeini. Kristján Sigurðsson, verkamaður á Brattlandi við Faxastíg (nr. 19), smíðaði nál þessa og gaf hana Byggðarsafninu.
500. Heklunál úr málmi með tréskafti. Hún var smíðuð í Fljótshlíð árið 1889. Frú Guðrún Þórðardóttir, Framnesi við Vesturveg gaf Byggðarsafninu nálina.
501. Heklunál, um aldar gömul. Skaftið er smíðað úr eik en nálin úr eirblendi. Frú Sigríður Guðmundsdóttir í Batavíu við Heimagötu (nr. 8) gaf Bygðarsafninu nálina. Hún segir hana um 100 ára gamla.
502. Hnappagataskeri. Þetta eggjárn átti frú Solveig Jónasdóttir á Hrauni (nr. 4 við Landagötu) hér í bæ. Það er til þess gert að skera hnappagöt á flíkur. Eggjárn þetta er gamalt. Sigurður Jónsson, Hásteinsvegi 47, gaf Byggðarsafninu eggjárn þetta. Solveig Jónasdóttir var síðari kona Jóns Einarssonar á Hrauni, langafa gefandans.
503. Hnappagata„prím“.
504. Ísaumspúði, („broderingspúði“), sem frú Katrín Þórðardóttir í Júlíushaab á Tanganum átti. Hún var tengdamóðir Gísla Engilbertssonar verzlunarstj. Kona verzlunarstjórans, frú Ragnhildur Þórarinsdóttir í Júlíushaab, dóttir Katrínar, notaði þennan púða, er hún skreytti brúðarklæðnað sinn árið 1868. (Sjá hann á Byggðarsafninu). „Broderings“ púði þessi er gjöf frá frú Elínborgu Gísladóttur í Laufási til Byggðarsafnsins, en hún er dótturdóttir frú Katrínar Þórðardóttur.
Geymdur er í knipplingaskríni í Byggðarsafninu afgangur af silfurþræði þeim, sem frú R.Þ. notaði, þegar hún saumaði sér brúðkaupsklæðnaðinn veturinn 1868.
505. Knipplingakefli. Kefli þetta er mjög gamalt. Guðríður Hallvarðsdóttir, sem lengi var húsfreyja á Kirkjubæ hér í Eyjum, átti keflið og notaði það við hannyrðir sínar öll búskaparár sín á Kirkjubæ. Hún var amma frú Jónínu Jónsdóttur í Gerði, sem erfði keflið og gaf það Byggðarsafninu.
506. Knippligakefli með púða. Gefandi: Frú Guðrún Árnadóttir Johnson, Ásgarði (nr. 29) við Heimagötu. Áhald þetta er um það bil 50 ára gamalt.
507. Knipplingaskrín. Þetta skrín átti frú Katrín Þórðardóttir í Júlíushaab (Sjá fyrra nr.). Í skríninu er skúffa til þess að geyma í knipplingakeflin með silfurþræðinum. Frú Elínborg Gísladóttir í Laufási átti skrínið eftir ömmu sína og gaf það Byggðarsafninu.
508. Krókarefskefli. Það er tálgað úr einni harðviðarspýtu og hvergi sett saman. Þessa smíðaþraut skyldu t.d. ungir menn leysa af hendi til þess að sanna, að þeir væru efni í smiði, sem vert væri að kosta til náms í iðngreininni.
Miklar hannyrðakonur áttu jafnan krókarefskefli. Upp á það var undinn mislitur þráður til útsauma. Þau voru oft 10—15 þumlunga löng, og voru á þeim 2—3 þráðarhöld. Þau þóttu jafnan kjörgripir.
509. Leggjatöng, gjörð úr tveim lambsleggjum. Leggjatangir voru notaðar til þess að draga nálina gegnum skinnið, þegar skinnklæði voru saumuð. Klipið var um odd nálarinnar með leggjatönginni og hún dregin gegnum skinnið, stundum margfalt, þegar um sauma á skinnklæðum var að ræða. Einnig voru leggjatangir notaðar við seglasaum frá ómunatíð og fram undir síðustu aldamót.
Þessa leggjatöng átti Gísli formaður og bóndi Eyjólfsson á Búastöðum. Hún er gjöf sonar hans, Eyjólfs fyrrv. skipstjóra Gíslsonar á Bessastöðum, til Byggðarsafnsins.
510. Leggjatöng með „fingurbjörg“ og tveim nálum. Hún var um árabil notuð í Frydendal við sjóklæðasaum þar á því útgerðarheimili. Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti hér, sonur hjónanna í Frydendal, Jóhanns Jörgens og frú Sigríðar, gaf Byggðarsafninu töngina.
511. Leggjatöng með þrem nálum í enda annars leggsins til þess að sýna, hvernig skinnklæða- eða seglasaumararnir geymdu nálar sínar. Þeir notuðu tvennskonar nálar: „Fyrirnálarnar“ — „fyrirseymurnar“ — voru fjaðranálar, en „eftirseymurnar“ voru sívalar.
512. Leggjatöng með einni skónál og þrem „eftirseymum“.
513. Leggjatöng. Þessa leggjatöng átti Jón formaður Ingimundarson í Mandal við Strandveg. Hann stundaði sjóklæðasaum árum saman á haustin.
514. Málbandastokkur með mörgum málböndum. — Gjöf frá frú Guðrúnu Grímsdóttur, fyrrv. húsfreyju á Oddstöðum. Hún stundaði karlmannafatasaum um tugi ára og þá notaði hún málbönd þessi.
515. Nálabrýni heinarbrýni. Brýni þetta fannst í maí 1968 í „öskuhaug Tyrkja-Guddu“ í Stakkagerðistúni, þegar Hilmisgatan var breikkuð. Tættur þær, sem þar sjást sunnan við götuna gegnt húseigninni Arnardrangi, eru sagðar vera leifar af bæ hjónanna Guðríðar Simonardóttur og Eyjólfs Sölmundarsonar, er þau bjuggu í, þegar Alsír-ræningjarnir rændu húsfreyjunni.
Sigurður Magnússon, Kirkjuvegi 59, fyrrv. verkstjóri hjá bæjarsjóði, gaf Byggðarsafninu brýnið.
516. Nálahylki úr tré. Á það er skorið annars vegar ártalið 1877. Á hinni hlið hylkisins er skorið fangamarkið O.M.d. Ekki er kunnugt um hinn upprunalega eiganda hylkisins. Frú Nikulína Eyjólfsdóttir, húsfr. í Laugardal við Vesturveg (nr. 3B), gaf Byggðarsafninu nálahylki þetta.
517. Nálaprilla. Nálaprillur voru einskonar nálhús. Þær voru með nokkrum hólfum, þar sem geymdar voru í nálar af mismunandi gildleika og stærð, svo sem saumnálar, skónálar, fjaðranálar o.s.frv. Í nálaprillum voru oft 3—8 hólf úr fjöðurstöfum. Oft voru notaðar álftafjaðrir. Voru þá gildustu hlutar fjaðranna saumaðir hlið við hlið í dúkpjötlu, og síðan var „lok“ úr sama efni fest við og lagt yfir enda fjaðurstafanna. Ýmist var lokið hneppt eða á því var smella, sem var yngri háttur á hafður. Hér í Eyjum var algengt að búa til nálaprillur á þann hátt að bora mismunandi holur í trébút úr hörðu efni. Þessar nálaprillur eru til á Byggðarsafni Vestmannaeyja.
Þessi nálaprilla hefur 8 hólf — fjöðurstafi, og hún er með hnepptu loki. Hún er gjöf til Byggðarsafnsins frá frú Ingibjörgu heitinni Jónsdóttur í Hraungerði (nr. 9 við Landagötu) hér í bæ. Hún var frá Ey í Vestur-Landeyjum og var seinni kona Gottskálks Hreiðarssonar, en þau hjón fluttu hingað til Eyja árið 1912. Frú Ingibjörg var fædd 1874 og lézt hér 1969 á 96. aldursári. Móðir hennar átti nálarprilluna, en frú Ingibjörg var 83 ára, þegar hún gaf Byggðarsafninu hana.
518. Nálaprilla. Hún er gjörð úr álftafjöðrum með 6 mismunandi gildum fjöðurstöfum. Þessa nálaprillu gaf frú Ragnheiður Ólafsdóttir, Urðavegi 41, Byggðarsafninu.
519. Nálaprilla úr tré. Á hana er skorið ártalið 1860 annars vegar og stafirnir M.V.D. hins vegar. Þessa nálaprillu átti Margrét húsfreyja Vigfúsdóttir á Gjábakka. Hún var kona Jóns bónda Einarssonar þar. Þau hjón bjuggu á „Syðri-Gjábakka“ í Eyjum fyrir miðja 19. öldina. Nálaprillan er með fjórum hólfum.
520. Nálaprilla úr tré. Annars vegar er skorið á hana ártalið 1886 en hins vegar stafirnir S.O.D. Þessa nálaprillu átti Sigríður húsfreyja Ólafsdóttir í Brandshúsi (síðar: Batavía, Heimagata 8) hér í bæ. Eiginmaður hennar var Hreinn Jónsson tómthúsmaður (þurrabúðarmaður) í Brandshúsi. Hann fórst með þilskipinu Hansínu frá Eyjum árið 1864. Nálaprillan er með þrem hólfum.
521. Nálaprilla úr tré, lögð látúni á brúnum. Á botni hennar stendur ártalið 1892. Á loki, sem er á hjörum og lagt látúnsplötu, stendur þetta grafið og þannig stafsett: „Jhanna Jhannesar“. Nálaprillan er með þrem hólfum og látúnslæsingu. Engin deili vitum við á nálaprillu þessari.
522. Nálhús. Það er smíðað úr birki úr Ásólfsstaðaskógi í Þjórsárdal. Nálhúsið átti Lýður bóndi Guðmundsson á Keldum á Rangárvöllum. Frú Jenný Jakobsdóttir, húsfr. að Nýlendu við Vestmannabraut (nr. 42) gaf Byggðarsafninu nálhúsið.
523. Nálhús úr málmblendi, aldargamalt, rennt. Nálhús þetta átti um tugi ára frú Þórunn húsfreyja Þorsteinsdóttir á Hrauni (Landagötu 4) hér í bæ, gift Jóni Einarssyni. Þau voru foreldrar Þorsteins Jónssonar, skipstjóra og útvegsbónda í Laufási (nr. við Austurveg). Á botni þess er grafið ártalið 1871. Á loki stóðu stafirnir Þ.Þ. — fangamark frú Þórunnar, — en lokplötuna vantar.
524. Nálhús úr harðviði, rennt. Þetta nálhús átti frú Guðfinna húsfr. Þórðardóttir í Gerði, kona Stefáns Guðlaugssonar útgerðarmanns og skipstjóra þar.
525. Nálhús, rennt úr harðviði með skrúfuðu loki. Nálhús þetta átti frú Fríður Lárusdóttir hreppstj. Jónssonar á Búastöðum. Hún gaf sjálf Byggðarsafninu nálhúsið. Hún erfði það eftir móður sína, Kristínu húsfr. Gísladóttur á Búastöðum, sem lézt 1921.
526. Nálhús úr harðviði með skrúfuðu loki, mjög gamalt. Þetta nálhús átti frú Sigríður Árnadóttir húsfr. í Frydendal í Eyjum. Móðir hennar, frú Steinunn Oddsdóttir, húsfr. á Oddstöðum og fyrr í Öræfum, átti nálhúsið og kom með það austan úr Öræfum til Eyja 1860. — Sonur frú Sigríðar Árnadóttur, Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti hér, gaf Bygðarsafninu gripinn.
527. Nálhús úr málmi, rennt með skrúfuðu loki. Þetta nálhús átti Ólöf Lárusdóttir húsfr. á Kirkjubóli. Gjöf frú Láru dóttur hennar til Byggðarsafnsins.
528. Nálhús, sérlegt að lögun, úr harðviði með skrúfuðu loki. Þetta nálhús átti frú Marta húsfr. Jónsdóttir í Baldurshaga við Vesturveg (nr. 5A). Hún var kona Högna hreppstj. Sigurðssonar þar. Frú Ingibjörg dóttir þeirra hjóna gaf Byggðarsafninu nálhúsið.
529. Nálhús úr harðviði, óvenjulega lítið en snilldarvel gjört. Nálhús þetta átti ein kunnasta kona í Eyjum á sinni tíð, frú Kristín Gísladóttir, húsfr. á Búastöðum, ekkja Lárusar bónda og hreppstj. þar Jónssonar. Fríður dóttir hennar gaf Byggðarsafninu nálhúsið.
530. Pressujárn. Þetta fatapressujárn átti og notaði á heimili sínu ein mesta sauma- og hannyrðakona hér í Eyjum á sinni tíð, frú Marta Jónsdóttir í Baldurshaga, kona Högna hreppstjóra Sigurðssonar þar.
531. Pressujárn. Þetta fatapressujárn átti og notaði hér um tugi ára hinn kunni klæðskeri hér í bæ, Matthías Jónsson frá Dölum í Eyjum.
532. Pressujárn.
533. Saumakassi (saumastokkur). Á hann er skorið konunafnið Salvör Þórðardóttir. Hún var seinni kona Filippusar Bjarnasonar, föður Árna gjaldkera Filippussonar í Ásgarði, og stjúpa Árna. Hún lézt í Ásgarði við Heimagötu (nr. 29) hjá stjúpsyni sínum og konu hans frú Gíslínu árið 1911. (Sjá Blik 1962).
534. Saumakassi eða skrautskrín. Þennan kassa átti frú Fríður Lárusdóttir frá Búastöðum, enda er nafn hennar letrað á hann. Kassinn var keyptur í Austurbúðinni (Bryde-verzlun) árið 1903, og þá gefinn Fríði í jólagjöf. Gísli Lárusson, gullsmiður í Stakkagerði, bróðir frú Fríðar, letraði nafn hennar á kassann. — Öðrum þræði notaði hún kassann til þess að geyma í honum skrautmuni sína, svo sem nælur, festar og skúfhólka. — Eiginmaður frú Fríðar, Sturla Indriðason, gaf Byggðarsafninu kassann eftir hennar dag.
535. Saumakassi með ísaumi á loki. Hann er sagður vera um 200 ára gamall. Hann er kominn til Suðurlands frá Hólmi í Hjaltadal um 1850. Hjónin Jarþrúður og Sigfús M. Johnsen áttu síðast stokk þennan, og var hann erfðagripur þeirra. Þau gáfu hann Byggðarsafninu.
536. Saumakassi ársettur 1720. Þessi 250 ára gamli saumastokkur er skreyttur og fagurlega gerður. Hann á langa og merka sögu, sem ekki er mér kunn nema að mjög litlu leyti. Hún verður ekki sögð hér af gildum ástæðum.
Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti, gaf Bygðarsafninu kassann.
538. Saumakassi, lítill úr maghoní. Stokk þennan átti hér frú Anna Gunnlaugsson kaupkona, ekkja Halldórs héraðslæknis Gunnlaugssonar. Stokkurinn er gjöf barna hennar til Byggðarsafnsins.
539. Saumavél — („saumamaskína“). Þetta er elzta saumavélin í Byggðarsafninu og e.t.v. elzta saumavél, sem til er á Íslandi, að mér er tjáð.
Saumavél þessa átti frú Karólína Kristín Oddsdóttir húsfreyja í Jómsborg við Heimatorg, kona Jóns Sighvatssonar bóksala þar. Veturinn 1879—1880 var Karólína vinnukona hjá héraðslæknishjónunum í Landlyst, Þorsteini Jónssyni og frú Matthildi Magnúsdóttur, þá 23 ára. Nokkrum árum síðar giftist hún Jóni Sighvatssyni. Þau hjónin fluttust til Eyja frá Efri-Holtum árið 1898 og bjuggu hér æ síðan. Þau létust hér bæði á fjórða áratugnum.
Þorsteinn Jónsson (Johnson) bóksali hér, sonur þeirra hjóna, gaf Bygðarsafninu vélina.
540. Saumavél úr dánarbúi héraðslæknishjónanna Halldórs Gunnlaugssonar og frú Önnu Gunnlaugsson. Börn þeirra gáfu Byggðarsafninu vélina.
541. Saumavél. Þessa saumavél átti og notaði allan búskap sinn á Kirkjubóli á Kirkjubæjum frú Ólöf Lárusdóttir húsfreyja, kona Guðjóns bónda Björnssonar. Frú Lára á Kirkjulandi, dóttir þeirra hjóna, gaf Bygðarsafninu vélina.
542. Saumavél. Þessa saumavél átti frú Þóranna Ingimundardóttir ljósmóðir í Nýborg, kona Sigurðar Sveinssonar „snikkara“ þar. Hún mun hafa eignazt vélina um 1890. — Frú Jónína Sigurðardóttir húsfr. á Háeyri við Vesturveg (nr. 11) dóttir hjónanna, gaf Byggðarsafninu vélina.
543. Saumavél. Saumavél þessa átti og notaði um árabil frú Valgerður Guðmundsdóttir á Lundi við Miðstræti (nr. 221). Guðlaugur útgerðarmaður Brynjólfsson, eiginmaður frú Valgerðar, gaf Byggðarsafninu saumavélina til minningar um konu sína.
544. Saumavél. Karl skipstjóri Guðmundsson, Sóleyjargötu 4, gaf Byggðarsafninu saumavél þessa.
545. Saumavél. Þessa saumavél átti frú Þórunn Þórðardóttir, Vesturvegi 23 hér í bæ, eiginkona Unnsteins Sigurðssonar, bátasmiðs. Saumavél þessari fylgir dálítil saga, sem befur sérlegt sögulegt gildi og getur verið saga flestra saumavélanna, sem Byggðarsafnið á.
Saumavélin var keypt í Bryde-verzlun í Vík í Mýrdal árið 1901. Hún kostaði þá 32 krónur, ef hún var tekin út í reikning, eins og það var kallað, en 30 krónur, væri hún greidd út í hönd. Árskaup kaupandans, Þórunnar Þórðardóttur, var þá 30 krónur og þótti gott kaup, enda var hún orðlögð dugnaðarvinnukona. Frú Þórunn Þórðardóttir notaði vélina mikið. Aldrei bilaði hún.
Frúin gaf Byggðarsafninu saumavélina um síðastliðin áramót.
546. Saumavél. Þessa saumavél gaf frú Elísabet Hallgrímsdóttir, Hásteinsvegi 17, Byggðarsafninu. Allar framanskráðar saumavélar, átta að tölu, eru gerðar úr málmi að öllu leyti. Fimm yngri gerðir saumavéla á Byggðarsafnið, og verða þær nú skráðar hér.
547. Saumavél með tré„fæti“ — tréplötu. Þessa saumavél átti frú Elín Sigurðardóttir, húsfr. að Skólavegi 25 hér í bæ. Maður hennar, Halldór Jón Einarsson, útgerðarmaður og síðast verkstjóri, gaf Byggðarsafninu vélina eftir lát konu sinnar. Saumavélar af þessari gerð voru hér algengar á árunum 1915— 1930.
548. Saumavél. Þessa vél átti frú Valgerður Jónsdóttir húsfr. í Holti (nr. 2 við Ásaveg). Hún var síðari kona Vigfúsar útgerðarmanns Jónssonar frá Túni. (Sjá grein um hann hér í ritinu). — Gefandi: Sölvi Magnússon, sjóm., sem keypti Holt árið 1970.
549. Saumavél. Þetta er fyrsta saumavélin, sem Unglingaskóli Vestmannaeyja eignaðist, og fyrsta kennslutæki sinnar tegundar, sem skóli í Eyjum eignaðist.
Sá, sem þetta ritar, keypti hana handa Unglingaskólanum haustið 1927, er hann hóf hér kennslustörf og baráttu fyrir tilveru skólans.
Saumavél þessi var afhent Byggðarsafninu að gjöf árið 1972.
550. Saumavél — stigin. Saumavél þessa átti hér upprunalega Steinn klæðskeri Sigurðsson, sem bjó hér að Landagötu 3 (Ingólfshvoli). Hann dvaldist hér á árunum 1909—1917. Einn af nemendum hans var Anna Einarsdóttir.
Hún eignaðist saumavélina, þegar St.S. fluttist héðan árið 1917 og notaði hana hér um tugi ára. Eftir hennar dag (1971) gáfu erfingjar hennar Byggðarsafninu vélina.
551. Saumavélarkassi. Svo mikið dálæti höfðu húsmæður á saumavélum sínum, að þær létu smíða utan um þær sérstaka kassa með glerrúðu á framhlið. Hún var á hjörum. Þarna sást djásnið án þess að taka það úr kassanum. Beztu smiðir, sem völ var á, voru jafnan fengnir til þess að smíða saumarvélarkassann.
Þennan saumavélarkassa átti frú Ölöf húsfreyja Lárusdóttir á Kirkjubóli.
Vélin er gjöf frú Láru á Kirkjulandi, dóttur hennar, til Byggðarsafnsins.
552. Saumavélarkassi. Þennan saumavélarkassa átti frú Margrét Eyjólfsdóttir, húsfr. í Gerði. Jón Vigfússon, bóndi og líkkistusmiður í Túni, smíðaði kassann.
553. Saumavélarkassi.
554. Segl- eða skinnklœðahanzki. Þetta áhald kom til sögunnar eftir aldamótin og er erlent að hugsun og gerð. Það kom í stað leggjatanganna við sjóklæða- og seglasaum. Eyjólfur Gíslason, fyrrv. skipstjóri, gaf Bygðarsafninu.
555. Síll eða alur. Notaður til þess að víkka út nálspor við verpingu á leðurskóm, þegar þeir voru gerðir.
Frú Jóhanna Jónsdóttir, vistkona á Elliheimilinu að Skálholti (Urðavegi 43) gaf Byggðarsafninu tæki þetta.
556. Síll með 8-mynduðu handhaldi. Hann var notaður ýmist við skinnklæðasaum eða skógerð til að víkka út nálspor. Sílinn átti frú Sigurlaug Guðmundsdóttir, fyrrv. húsfreyja að Kirkjubæ í Eyjum, kona Ísleifs bónda Guðnasonar þar. Síðar var frú Sigurlaug kennd við húseignina Miðgarð við Vestmannabraut (nr. 13A), þar sem hún átti heimili sitt hjá börnum sínum. Frú Sigurlaug Guðmundsdóttir andaðist 1953. Frú Una Helgadóttir í Miðgarði, tengdadóttir frú Sigurlaugar, gaf Byggðarsafninu sílinn.
557. Skinnklœðanálar. Þær voru venjulega af tveim gerðum. Sú gildari og lengri var kölluð fyrirseyma, og var henni fyrst stungið gegnum skinnið og þá notuð leggjatöng. Síðan var mjórri nál, eftirseymunni stungið gagnstætt í sama nálsporið og svo hert að sporinu. Þannig urðu saumarnir á skinnklæðunum vatnsheldir. Um langan aldur var saumþráðurinn, saumgarnið, íslenzkur ullarþráður. Á 19. öldinni tók að flytjast hvítt garn til landsins til þess að sauma með m.a. skinnklæði. Það var kallað ljósagarn. Við skinnklæðasaum var ljósagarnið haft fjórfalt til sexfalt. Stundum var þessi margfaldi þráður hafður tvöfaldur, þegar mikið þótti við liggja að saumarnir væru traustir.
558. Skónálar. Þær eru allar íslenzk smíði. Eins og nafnið bendir til þá voru þær fyrst og fremst notaðar við skinnskógerð — við saum á leðurskóm og sauðskinnsskóm.
559. Þráðarkefli, lítið tveggja þráða kefli; mjög gamalt. Frú Ragnheiður Ólafsdóttir, Urðavegi 41, gaf Bygðarsafninu keflið.
560. Þráðarleggur útskorinn. Þegar hann var gefinn Byggðarsafninu, var hann sagður um 200 ára gamall. Frú Sigríður Hróbjartsdóttir að Hvítingavegi 10 hér í bæ, kona Magnúsar smiðs Magnússonar, gaf Bygðarsafninu gripinn — þá við aldur. Sagði hún langömmu sína hafa átt legginn og hefði hann síðan erfzt frá kynslóð til kynslóðar.
561. Þráðarleggur. Á honum er spunnið ullarband. Þennan þráðarlegg átti frú Lára Kolbeins, prestsfrú að Ofanleiti, kona séra Halldórs Kolbeins. Þráðarlegginn hafði hún átt frá æskuárum, er hún ólst upp á Hvallátrum á Breiðafirði. Hún gaf Byggðarsafninu hlutinn, þegar prestshjónin fluttu frá Eyjum árið 1961.
562. Þráðarleggur. Þessi þráðarleggur er arfleifð úr dánarbúi frú Kristínar Gísladóttur húsfr. á Búastöðum, ekkju Lárusar hreppstjóra Jónssonar. Tengdadóttir hennar, frú Júlíana Sigurðardóttir, fyrrv. húsfr. á Búastöðum, gaf Byggðarsafninu legginn. Maður hennar var Pétur bóndi Lárusson á Búastöðum.

Til baka