Blik 1973/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja


2. kafli


Landbúnaðurinn


Síðustu aldirnar töldust vera 49 jarðir á Heimaey í Vestmannaeyjum. Ein þeirra hafði ekkert tún, var túnlaus. Það var 49. jörðin, Yztiklettur, sem eingöngu byggði tilveru sína á fuglaveiðinni þar og þá sérstaklega lundadrápinu.


ctr


Hrófin um aldamótin síðustu. Danskt verzlunarskip liggur á „Botninum“.


Jarðirnar á Heimaey voru allar litlar og búskapurinn þar sannkallaður kotungsbúskapur. Enda var öll afkoma bænda háð sjávarafla. Þeir stunduðu sjóinn mann fram af manni og voru margir þeirra útvegsbændur jafnframt eða þá hásetar á vertíðarskipum. Að sumrinu ráku þeir sérlegan atvinnuveg, ef svo mætti orða það, fuglaveiðarnar, bæði á Heimaey og í Úteyjum. Þannig var þrem stoðum skotið undir efnahag bændastéttarinnar í Eyjum: Landbúnaðurinn (1—2 kýr og nokkrar kindur), sjávarútvegurinn og fuglaveiðarnar, sem þeir höfðu einkarétt á, en miðluðu síðan að einhverju leyti til annarra gegn hluta af „afla“.
Nú verða hér skráðið þeir munir, sem Byggðarsafn Vestmannaeyja lumar á frá þessum forna atvinnuvegi í Eyjum, sem er vitaskuld jafngamall búsetu þar.
312. Bakkaljár („skozkur ljár“). Bakki ljásins er innlendur en blaðið erlent. Bakkaljáirnir leystu gömlu íslenzku ljáina af hólmi, af því að afköst hvers sláttumanns með skozka ljáblaðið við orf sitt „óx um allan helming“, svo að meira varð aflað heyja með óbreyttu vinnuliði en nokkru sinni fyrr.
Torfi búnaðarskólastjóri Bjarnason í Ólafsdal flutti fyrstur manna inn skozku ljáblöðin og kenndi íslenzkum bændum og búaliðum að nota þau.
Torfi Bjarnason dvaldist við búnaðarnám í Skotlandi á árunum 1866—1867. Þá kynntist hann skozku ljáblöðunum. Bit þeirra var meira og varanlegra, en Íslendingar áttu að venjast og búa við, þegar þeir smíðuðu sjálfir ljái sína, oft úr sorajárni, sem einokunarkaupmennirnir fluttu til landsins og seldu þeim.
Skozku ljáblöðin voru hnoðuð á íslenzkan ljábakka. Með þessum ljáum afköstuðu íslenzkir sláttumenn tvöföldu verki, svo að ekki sé of djúpt í árinni tekið, miðað við það, sem áður var eða átti sér stað á túni eða engjum. Skozku ljáblöðin urðu þess valdandi, að afkoma bændastéttarinnar í landinu batnaði stórum, og orðstír Torfa skólastjóra lifir enn með þjóðinni fyrir þetta þjóðheillaverk ásamt ýmsum verkum öðrum til eflingar íslenzkum landbúnaði. — Bakkaljáirnir í Byggðarsafninu eiga m.a. að minna á þessi afrek hans unnin til hagsbóta íslenzkri þjóð.
Skozku ljáirnir tóku að flytjast til landsins til almennra nota um 1870.
Bakkaljárinn þessi er úr dánarbúi Vigfúsar Jónssonar í Holti (nr. 2 við Ásaveg). Gefandi: Sölvi Magnússon, sem keypti Holt árið 1970.
313. Bakkaljár, 12 gata. Ljár þessi er smíðaður í Hallgeirseyjarhjálegu í Landeyjum, þ.e.a.s. ljábakkinn, og síðan ljáblaðið hnoðað við hann.
314. Beizliskjálkar (orðið beizlisstengur var notað helzt á Suðurlandi) úr eirblöndu. Höfuðleður fylgir kjálkunum. Þessa beizliskjálka steypti Magnús bóndi og smiður Jónsson í Kirkjubæjarkoti í Fljótshlíð. Beizlisstengurnar áttu hjónin í Suðurgarði, Jón bóndi Guðmundsson og frú Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja. Gefandi: Frú Anna Svala Johnsen, dótturdóttir hjónanna, húsfrú í Suðurgarði.
315. Beizlisstengur úr járni, mjög gamlar. Sú sögn fylgir beizlisstöngum þessum, að frú Jórunn Jónsdóttir prests Austmanns hafi fundið beizlið, er hún og fyrri maður hennar, Jón hafnsögumaður Salomonsen, settust að í Ottahúsi 1859. Ottahús hét áður Breiðfjörðshús, kennt við Sigurð skáld Breiðfjörð, sem kvæntist fyrri konu sinni Sigríði Nikulásdóttur hér í Eyjum 1827 og hóf búskap sinn í húsinu. Ekki verður annað vitað en að skáldið og beykirinn hafi sjálfur byggt hús þetta. Frú Jórunn, sem lézt hér í Eyjum eftir aldamótin, lét þá sögn fylgja bezlisstöngunum, að skáldið hefði átt þær. Þær hafa borizt Byggðarsafninu frá einu fósturbarni frú Jórunnar um hendur annars ættliðs.
316. Beizlisstengur úr eirblöndu úr dánarbúi Ísleifs bónda Guðnasonar í Kirkjubæ og konu hans Sigurlaugar Guðmundsdóttur, síðast til heimilis í Miðgarði (nr. 13 A) við Vestmannabraut.
317. Beizlisstengur. Þessar stengur átti Jón bóndi og sjómaður Jónsson í Gvendarhúsi. Halldór Brynjólfsson (Dóri blindi) fóstursonur Jóns bónda, erfði stangirnar. Úr búi hans hér í Sjávargötu hafa þær með tíma borizt Byggðarsafninu.
318. Beizlisstengur. Þær átti Friðjón bóndi Magnússon í Gvendarhúsi (1927).
319. Gjarðahringjur, fimm að tölu. Allar hringjurnar steypti Gísli bóndi Eyjólfsson í Sigluvík í Vestur-Landeyjum.
320. Gjarðahringja úr búi Guðlaugs Jónssonar bónda í Stóra-Gerði.
321. Gjarðahringja. Gjarðahringju þessa áttu hjónin Tíli bóndi í Norðurgarði (d. 1883) og Guðríður Jónsdóttir kona hans. Jón Jónsson frá Svaðkoti í Eyjum gaf Byggðarsafninu hringjuna.
322. Gjarðahringja. Þessa Gjarðahringju átti frú Sigríður Árnadóttir Johnsen, húsfreyja í Frydendal. Hringjan er sögð vera úr búi foreldra hennar, Árna bónda Þórarinssonar og k.h. Steinunnar Oddsdóttur, sem fluttust hingað frá Hofi í Öræfum eftir miðja 19. öld.
323. Hestasteinn. Þennan hestastein áttu hjónin í Norðurgarði, Einar bóndi Jónsson og Árný húsfreyja Einarsdóttir. Frú Guðbjörg Einarsdóttir, húsfr. í Norðurgarði, dóttir þeirra hjóna, gaf Byggðarsafninu steininn.
324. Heynál. Upprunalega er heynál þessi úr búi Péturs bónda Benediktssonar í Þórlaugargerði. Síðan notaði Jón bóndi Pétursson, sonur hans, nálina allan sinn búskap í ÞórlaugargerSi. Síðan fóstursonur hans, Jón bóndi Guðjónsson frá Oddstöðum. Síðast gaf hana Byggðarsafninu frú Ingibjörg Jónsdóttir í Þórlaugargerði árið 1966.
325. Heynál úr búi Sæmundar bónda Ingimundarsonar í Draumbæ.
326. Heynál. Upprunalega átti heynál þessa Jón bóndi Símonarson í Gvendarhúsi. Hann fluttist úr Landeyjum til Vestmannaeyja árið 1837 eða þar um bil. Sonur hans var Jón bóndi í Gvendarhúsi, f. 1833, d. 1919. Hann notaði heynál þessa allan sinn búskap í Gvendarhúsi.
327. Hnakktaska úr leðri. Þessa hnakktösku átti og notaði Halldór héraðslæknir Gunnlaugsson, þegar hann var læknir í Rangárþingi 1905 (marz) fram á vorið eða sumarið 1906. Þá fluttist hann og þau hjónin til Vestmannaeyja. Gef.: Börn héraðslæknishjónanna.
328. Hnakktaska úr boldangi. Þessa tösku langar mig að biðja Byggðarsafnið að geyma fyrir mig. Hún er merkt mér, sem þetta skrifar, fullu nafni. Þessa tösku bar ég á bakinu um langan veg eða sunnan úr Borgarfirði norður og austur á Austfirði. — Úr Borgarfirði norður og austur í Bárðardal haustið 1919, og norðan úr Bárðardal austur á Norðfjörð síðla vors 1920.
329. Hnappheldur, þrjár að tölu. Þær eru fléttaðar úr ullarbandi. Þær voru notaðar hér sem höft á hesta. Hnappheldur þessar fléttaði Guðmundur heitinn Guðlaugsson að Faxastíg 19 (Sólbrekku) hér í bæ, og gaf hann þær Byggðarsafninu.
330. Hornhagldir tvær merktar J.E. Hagldir þessar átti Jón bóndi Einarsson á Hrauni (nr. 4) við Landagötu hér í bæ. Árni símritari Árnason gaf Byggðarsafninu hagldirnar. Þessar hagldir eru kallaðar jómfrúhagldir, — hagldir með tveim augum.
331. Hornhögld. Þessi óvenjulega stóra högld er skaftfellsk, send Byggðarsafninu frá Herjólfsstöðum í Álftaveri. Skaftfellska nafnið á henni er gifthögld. Gefandinn er Hannes bóndi Hjartarson á Herjólfsstöðum, send okkur fyrir atbeina Friðþjófs Mássonar frá Valhöll hér í kaupstaðnum.
332. Hornhögld af venjulegri stærð, eins og þær voru notaðar á reipi íslenzkra bænda um aldaraðir. Smíðuð úr hrútshorni.
333. Hornístöð. Þau eru skorin höfðaletri og eru mjög gömul. Þau munu skaftfellsk að uppruna. Ístöðin átti fyrrv. húsfreyja á Á í Síðuhreppi í V-Skaftafellssýslu, Sigríður Sigurðardóttir, móðir Sigurðar Þorleifssonar í Hruna. (Sjá Blik 1972), enda eru ístöðin merkt með fangamarki hennar. Á þeim standa stafirnir S.S.D. fagurlega skornir. (Hornístöð hafa orðið kunn í sögunni okkar, sérstaklega sökum þess, að séra Hallgrímur sálmaskáld og prestur Pétursson í Saurbæ notaði þau á efri árum. Hann orti hina alkunnu vísu til mannsins, sem dró dár að ístöðunum hans. Vísan er þannig:

Líttu á, hvernig lukkan hröð
laglega fer að stíma.
Hugsaðu, maður, að hornístöð
hafirðu einhvern tíma.

Sögnin að stíma þýðir að heyja baráttu, takast á við ... Hamingjufylgjan okkar leitast jafnan við að sigra öfl óhamingjunnar. Ef til vill mætti ætla, að þessi hafi verið hugsun hins mikla skálds.
Barnabörn frú Sigríðar húsfreyju Sigurðardóttur frá Á gáfu byggðarsafninu ístöðin. Fróðir menn um fornminjar segja þau ein hin falllegustu, sem til eru í fornminjasöfnum hér á landi.
334. Hófjárn. Þetta hófjárn fannst á sínum tíma í gamla Kornhól á Skansi. Gefandi Örn Einarsson frá Brekku (nr. 4 við Faxastíg).
335. Hófjárn. Þetta hófjárn átti og notaði síðast Sigurður Vigfússon tómthúsmaður á Fögruvöllum.
336. Hófjárn tvö, sem ég veit engin deili á.
337. Hrífa með brúnspónstindum. Brúnspónn var fluttur til landsins fyrir 1870 og notaður í hrífutinda. Á Suðurlandi mun hann hafa verið tekinn í notkun nokkru síðar en á Norðurlandi. Hrífutindar úr járni voru orðnir algengir um 1920. Gefandi frú Jónína Jónsdóttir húsfrú í Gerði.
338. Hrossabrestur. Þessi hrossabrestur var um tugi ára notaður í Bjarnarey, þegar fuglaveiðimenn lágu þar við til veiða. Þeir notuðu hann til að stugga fé frá bóli (viðlegukofa sínum), svo að næturfriður fengist. Gjöf frá fuglaveiðimönnum í Bjarnarey.
339. Hrossabrestur, mjög gamall. Gefandi: Einar Sigurfinnsson, fyrrum bóndi á Efri-Steinsmýri í Meðallandi og síðar bóndi á Iðu í Biskupstungum. Hrossabrest þennan átti Einar bóndi frá barnsaldri og notaði hann á búskaparárum sínum á Efri-Steinsmýri (1910—1911) og síðan á Iðu.
340. Hrosshárshönk, — spunnið hrosshár, tvinnað og fléttað. Mjög algengt efni í reipum, og hnakk- og reiðingsgjörðum.
341. Hrosshárssnœlda. Á snælduna var hrosshárið spunnið, eftir að það var táið og kembt. Á snældunni er spunninn hrosshársþráður. Guðmundur heitinn Guðlaugsson, Sólbakka við Faxastíg (nr. 21), spann þráðinn og gaf síðan snælduna Byggðarsafninu.
342. Hrosshársreipi, — reiptöglin eru fléttuð úr hrosshári. Tréhagldir, — jómfrúhagldir. Reipi þetta er sent Byggðarsafninu frá Helgu Marinósdóttur á Skáney í Reykholtsdal. Hrosshárið spann og fléttaði Eiríkur bóndi Ólafsson á Grjóti í Þverárhlíðarhreppi, sem gaf það handa Safninu okkar.
343. Hrosshársreiptagl. Sigurður Eiríksson, verkamaður í Neskaupstað, gaf Byggðarsafninu taglið.
344. Högld, — smíðuð úr hvalbeini. Kristján Sigurðsson, verkamaður að Brattlandi við Faxastíg (nr. 19), smíðaði högldina og gaf hana Byggðarsafninu.
345. Kaðalreipi, — töglin úr mjóum kaðli (hampi).
346. Kaðalreiptagl, fléttað úr tánum hampi. Gefandi: Sigurður Eiríksson, verkamaður í Neskaupsstað.
347. Klár eða klára. Tæki til ávinnslu á túni.
348. Klyfberahögld.
349. Klyfberi. Upprunalega átti Sæmundur bóndi Ingimundarson í Draumbæ þennan klyfbera. Þá var hann af gömlu gerðinni með fasta klakka úr eik. Síðar eignaðist Guðni bóndi Finnbogason í Norðurgarði klyfberann. Hann breytti honum: setti á hann „lamir og lás“ að austfirzkum hætti. Þá þurfti ekki lengur að „standa undir“, þegar heybaggarnir voru „teknir ofan“. Ekki þurfti þá lengur að lyfta böggunum upp af klakknum. Vísir að nýrri tækni.
350. Klyfberi af gömlu gerðinni eins og þeir gerðust hér á landi frá fyrstu tíð. Við hann eru tengdar gjarðir, sem brugðnar eru úr hrosshári. Sigurður smiður Sæmundsson á Hallormsstað (nr. 11A) við Brekastíg, brá gjarðirnar, tengdi þær við klyfberann á „þjóðlega vísu“ og gaf síðan Byggðarsafninu þetta kunna landbúnaðartæki.
351. Klyfberi af Austfjörðum með klakka á „hjörum“ og „lás“. Klyfberinn er úr dánarbúi Jósefs Axfjörð bónda að Fannardal í Norðfirði.
352. Klyfberi. Klakkar á hjörum. Gamlar hrosshársgjarðir. Guðmundur Guðmundsson, Kirkjuvegi 88 hér í kaupstaðnum, gaf klyfberann Byggðarsafninu.
353. Koparístöð með ól úr dánarbúi Jóns bónda Guðmundssonar í Suðurgarði. Dótturdóttir þeirra hjóna, Anna Svala Johnsen, húsfr. í Suðurgarði, gaf Byggðarsafninu.
354. Koparístöð. Þórður Þórðarson, rakarameistari við Miðstræti hér í kaupst. gaf Byggðarsafninu ístöðin.
355. Kornjata. Lausajata þessi var notuð til þess að gefa lömbum í henni korn að haustinu. Jatan er úr búi feðganna í Þórlaugargerði, Péturs Benediktssonar og Jóns bónda, sonar hans. Fóstursonur Jóns Péturssonar, Jón Guðjónsson frá Oddstöðum, gaf Byggðarsafninu jötuna.
356. Kýrkambur, einn sá allra fyrsti, sem hér sást rétt eftir aldamótin, keyptur í Austurbúðinni 1903 og notaður um tugi ára á Kirkjubæ.
357. Kýrklafi úr hrosslegg. Klafar þessir voru helzt notaðir á nautgripi, sem lag höfðu á að smeygja fram af sér kaðalbandi, þar sem þeir stóðu bundnir á bás.
358. Ljábrýni, steinbrýni. Einu sinni átti Jón bóndi og smiður Vigfússon í Túni þetta ljábrýni. Sonur hans, Guðjón bóndi og líkistusmiður Jónsson á Oddsstöðum, gaf Byggðarsafninu brýnið, sem keypt var í Miðbúðarverzluninni hér á síðasta áratug 19. aldarinnar.
359. Ljábrýni, mjög gamalt. Þetta brýni átti Lárus hreppstjóri Jónsson bóndi á Búastöðum. Hann keypti það í Austurbúðinni (Brydeverzluninni), þegar hann fluttist hingað til Eyja um 1860. Gefandi: Frú Fríður Lárusdóttir frá Búastöðum.
360. Meis, heymeis, — venjuleg stærð. Meisinn er úr búi Jóns smiðs og bónda Péturssonar í Þórlaugargerði. Jón Guðjónsson, fóstursonur bónda, gaf Byggðarsafninu meisinn.
361. Meis, ábætismeis.
362. Meis, lítill ábætismeis. Þessir þrír meisar (nr. 360, 361 og 362) eru allir frá Þórlaugargerði úr búi Jóns bónda Péturssonar.
363. Nautshringur frá Hábæjarbúinu hér í Eyjum. Eigandi Hábæjarbúsins, Helgi heitinn Benediktsson, gaf Byggðarsafninu hringinn. Kúabúið að Hábæ var eitt stærsta kúabú í Eyjum á sinni tíð.
364. Orf með orfhólkum. Þetta orf átti og notaði Jón bóndi og formaður Jónsson í Gerði. Sigurður Vigfússon (Siggi Fúsa) á Fögruvöllum smíðaði orfið. Orfið er gjöf til Byggðarsafnsins frá börnum hjónanna í Gerði, Jóns bónda og Guðbjargar Björnsdóttur, þeim Jónínu húsfreyju þar og Birni Jónssyni, en í Gerði hafa þau systkinin búið í tvíbýli um árabil.
365. Páll, stungupáll. Þetta gamla jarðyrkjutæki átti og notaði hér eða lét nota á sinni búskapartíð í Nýjabæ Þorsteinn bóndi og alþingismaður Jónsson. Ekkja alþingismannsins, Kristín húsfreyja Einarsdóttir (d. 1899) gaf Gísla gullsmið í Stakkagerði pálinn, er hann hóf búskap og jarðrækt í Stakkagerði um 1886. Sú saga fylgir pálnum, að Gísli gullsmiður og bóndi Lárusson hafi pælt fyrsta matjurtagarð sinn á lendum jarðarinnar með páli þessum. Pállinn er slitinn mjög og bendir það til mikillar notkunar. Þorsteinn Jónsson var alþingismaður Vestmanneyinga frá árinu 1875 til dauðadags 28. ágúst 1886. Mörgum árum eftir lát hjónanna í Stakkagerði, Gísla gullsmiðs og Jóhönnu húsfreyju Árnadóttur, barst pállinn Byggðarsafninu að gjöf. Brennimerktur Þ.J.
366. Reiptögl fléttuð úr röktum hampi. Gefandi: Sigurður Eiríksson, verkamaður í Neskaupstað.
367. Reiptögl fléttuð úr ullarþræði. Gefandi: Sigurður Eiríksson, verkamaður í Neskaupstað.
368. Reka, — tréblað með járnvari, eins og þær voru gerðar á landi hér um langan aldur. Kristján Sigurðsson, Brattlandi (nr. 19 við Faxastíg), smíðaði rekuna og gaf hana Byggðarsafninu.
369. Réttin. Líkan af sauðfjárréttinni gömlu, sem var á Eiðinu í Eyjum frá fyrstu landnámsárum þar að öllum líkindum. (á 10. öld). Réttin stóð á Þrælaeiði vestanverðu og var í daglegu tali Eyjafólks kölluð Almenningurinn. Um aldir gengu á Heimaey nokkur hundruð fjár. Í Almenningnum var féð réttað tvisvar eða þrisvar á ári og stundum oftar. Þá var þar mannmargt og glatt á hjalla. Réttin var notuð fram á fyrstu tvo áratugi þessarar aldar. — Um og eftir 1920 tók sjórinn að brjóta niður Eiðið í aftökum, og brátt sundraði hann réttinni. Árið 1930 voru aðeins eftir nokkrar leifar hennar.
Réttarlíkan þetta gjörði Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ með aðstoð tveggja aldraðra Vestmannaeyinga, sem dregið höfðu fé með Kristni í rétt þessari á yngri árum sínum, þeim Eyjólfi skipstjóra Gíslasyni, bóndasyni frá Búastöðum, og Guðjóni Sveinssyni Scheving, málarameistara, bóndasyni frá Steinsstöðum (Sjá Blik 1959). Vitað er með vissu af áreiðanlegum heimildum, hvaða jarðir notuðu hvern dilk réttarinnar, áttu hann frá fornu fari tveir eða þrír bændur saman.
Vestmannaeyingafélagið Heimaklettur lét gera líkanið og gaf það síðan Byggðarsafninu.
370. Skeifur úr dánarbúi Péturs bónda Lárussonar á Búastöðum.
371. Snœrisnet, — girðingarnet, hnýtt úr snæri, þ.e. úr þriggja punda línu. Snærisnet þessi voru notuð umhverfis kálgarða, — kartöflugarða, rófugarða o.s.frv. og þá sérstaklega til varnar sauðfé.
372. Snœrisnetjanálar. Þær voru notaðar til þess að ríða snærisnetin.
373. Svipa, — kvensvipa, merkt Bjarnhildur. Svipu þessa átti frú Bjarnhildur Einarsdóttir, kona Lúðvíks Hjörtþórssonar, Miðstræti 30. Hann gaf Byggðarsafninu svipuna eftir hennar dag.
374. Svipa, — karlmannssvipa með ól. Svipu þessa átti Árni sjómaður Jónsson, sem bjó í Garðsauka (nr. 27) við Vestmannabraut. Svipu þessa hafði hann átt frá unglingsárunum.
375. Svipa, — silfurbúin kvensvipa með ól. Jóhannes Albertsson, fyrrv. lögregluþjónn hér í kaupstaðnum, gaf Byggðarsafninu svipuna.
376. Svipa, — kvensvipa með ól. Á svipuna er grafið nafnið Idda.
377. Svipa, — svipuskaft. Á það er grafið nafnið Torfi.
378. Svipa, — karlmannssvipa.
379. Svipa.
380. Svipuskaft, rennt úr hvalbeini. Skaftið renndi Árni bátasmiður í Sjólyst á Eskifirði. Gefandi: Pétur Stefánsson, fyrrv. lögregluþjónn hér í kaupstaðnum.
381. Svipuskaft, silfurbúið. Þetta svipuskaft átti Ingimundur Jónsson, bóndi og hreppstjóri á Gjábakka. Gefandi: Frú Margrét Jónsdóttir á Gjábakka Hjálmarssonar og Fríðar Ingimundardóttur Jónssonar.
382. Svœfingarjárn, eins og þau gerðust hér á landi um langan aldur og voru notuð við aflífun nautgripa, áður en byssur voru almennt teknar í notkun til þeirra hluta. Svæfingarjárn voru þó nokkuð víða notuð hér á landi, eftir að byssur voru orðnar algengar, sérstaklega við heimaslátrun nautgripa.
Svæfingarjárninu var stungið inn í „svæfingarholuna“ svo kölluðu neðan við hnakka nautgripsins.
Guðjón Jónsson, vélsmiður í Vélsmiðjunni Magna hf. hér í bæ, smíðaði járnið og gaf það Byggðarsafninu.
383. Taðkvísl. Hún var notuð til þess að mylja áburð á túni og dreifa honum síðan. Taðkvísl þessa smíðaði og gaf Byggðarsafninu Sigfús verkamaður Sveinsson frá Selkoti undir Eyjafjöllum, nú til heimilis að Kirkjubæjarbraut 8 hér í bæ.
Lagið á tæki þessu mun hafa verið ríkjandi undir Eyjafjöllum og e.t.v. víðar um Suðurland frá miðöldum.
384. Taumbeizli. Taumurinn fléttaður úr hampi.
385. Torfljár, — Tvíristu torfljár. Hann átti Jón bóndi, formaður og útgerðarmaður, Jónsson í Gerði, og mun ljárinn hafa verið notaður um langt skeið af þeim Gerðisbændum öllum, o.fl., meðan rist var hér torf á þök og hey, þó að það væri alltaf gert í smáum stíl hér á Heimaey af gildum ástæðum. Um torfristu á Heimaey og í Úteyjum giltu strangar reglur af ótta við uppblástur.
386. Torfljár, — einristutorfljár, merktur P.B. Torfljá þennan átti Pétur bóndi Benediktsson í Þórlaugargerði, síðan Jón bóndi sonur hans, og síðast Jón Guðjónsson frá Oddstöðum, fóstursonur hjónanna í Þórlaugargerði Jóns bónda Péturssonar og Rósu húsfreyju Eyjólfsdóttur (Sjá mynd í Bliki 1961, bls. 197).
Blaðið á torfljá þessum smíðaði Sæmundur ... faðir Einars smiðs Sæmundssonar á Staðarfelli við Kirkjuveg (nr. 53), en skaftið smíðaði Pétur bóndi sjálfur. Ljárinn var um árabil notaður við torfristu á Ofanleitisbæjunum á síðari hluta 19. aldar og fram yfir aldamótin.
387. Tréhagldir frá ýmsum bændaheimilum hér í Eyjum. Þessar hagldir eru úr tré með tveim augum (götum) voru almennt kallaðar jómfrúhagldir.
388. Ullarreipi, — fléttað úr ullarþræði, — með tréhögldum, jómfrúhögldum.
Reipi þetta gjörði Eiríkur bóndi Ólafsson á Grjóti í Þverárhlíðarhreppi í Borgarfirði og gaf það Byggðarsafninu fyrir atbeina Helgu frænku minnar Marinósdóttur á Skáney í Reykholtsdal og með fyrirgreiðslu fjölskyldunnar á Kvíum í Þverárhlíð.
389. Veggjahnallur, þúfnahnallur, staurasleggja. Þessi hraungrýtissleggja var um langan aldur notuð til þess að þjappa saman mold, þegar hlaðnir voru tvöfaldir torfveggir, þar sem fyllt var upp með mold milli ytri og innri hleðslu. Þá var hnallur þessi notaður á vorin til þess að slá niður þúfnakolla, sem gera vildu vart við sig í túnum eftir að holklaki hvarf úr jörðu. Eftir að farið var að girða tún í Eyjum, þótti hnallurinn valinn til að reka niður girðingarstaura með honum, — var notaður í sleggjustað, — staurasleggja.
Steinsleggja þessi fannst um 1880 í gömlu fiskbyrgi eða fiskkró í sunnanverðu Agðahrauni. Hún virðist þess vegna hafa verið í eigu Ofanbyggjara, bænda fyrir ofan hraun. Jón heitinn Valtýsson, bóndi á Kirkjubæ, gaf Byggðarsafninu sleggjuna.


III. hluti

Til baka