Blik 1973/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja


(I. kafli, framhald)


Í fyrra hófum við að birta í Bliki skrá yfir muni í Byggðarsafni Vestmannaeyja. Þá skráðum við þar 250 muni frá sjávarútveginum og birtum nöfn á þeim. — Áður en lengra er haldið, þá birtum við hér enn skrá yfir nokkra muni frá sjávarútvegi Eyjamanna. Þessi viðbót verður þá framhald af 1. kafla Minjaskrárinnar, sem fjallar einvörðungu um sjávararútveginn.


Sjávarútvegurinn


(Framhald 1. kafla (Sjá Blik 1972)).
251. Afberkingarjárn. Endaból á línu voru ýmist trébaujur eða belgir. En við þessi ból var tengt svokallað baujuskaft, — stöng. Á stöng þessari var oftast haft ljósker, svo að betur héldist sjón á því. Tréstangir þessar voru fluttar til landsins frá Noregi. Þær voru fluttar til landsins óafberktar eða eins og þær voru höggnar í norskum skógum. Fyrir notkun þurfti þess vegna að afberkja þær. Til þessa verks fluttu sumar verzlanir hér í bæ inn sérstök járn, — svo kölluð afberkingarjárn.
Byggðarsafnið á tvö afberkingarjárn norsk. Annað var keypt í kaupfélaginu Bjarma árið 1919 en hitt í kaupfélaginu Fram árið 1921. Hvortveggja voru verzlanir þessar félagsverzlanir útgerðarmanna í bænum.
252. Aðgerðarhnífur.
253. Austurtrog (eysill). Þetta austurtrog var um árabil notað á sumarbáti Magnúsar heitins Guðmundssonar formanns á Vesturhúsum, — hinum nafnkunna Hannibal.
254. Ár, — útlend, sívöl ár með breiðu blaði. Slíkar árar fylgdu mjög oft litlu, dönsku vélbátunum, sem keyptir voru hingað á árunum 1907 —1913. Þær voru til öryggis, þar sem bátavélarnar voru ekki sérlega gangvissar. Enda alltaf þá höfð segl við rá til öryggis sjómönnunum.
Síðar voru þetta algengar árar á snurpinótarbátunum við síldveiðarnar.
255. Áttaviti, lítill þurr í kassa með loki yfir. Þennan áttavita átti og notaði Ólafur Ástgeirsson frá Litlabæ. Hann stundaði hér trilluútgerð mörg ár, og fylgdi honum þá áttaviti þessi.
256. Áttaviti, — lítill vökvaáttaviti í harðviðarstokk. Þessi áttaviti á sér markverða sögu. Hann mun vera fyrsti vökvaáttavitinn, sem keyptur var hingað til Vestmannaeyja. Þorsteinn Jónsson á Hrauni, þá formaður á áttæringnum Ísak, síðar kenndur við íbúðarhús sitt Laufás hér í bæ, keypti þennan áttavita um eða rétt eftir aldamótin og notaði hann á hinum fræga áttæring, sem hann hóf formennsku á. Síðan keypti Þorsteinn Jónsson fyrsta vélbátinn til Eyja, vélbátinn Unni VE 80, sem gerður var fyrst út hér á vetrarvertíð 1906. Þá notaði hann áttavita þennan og nokkrar vertíðir eftir það.
Þegar síminn var lagður yfir sundið milli Heimaeyjar og lands síðla sumars 1911, hafði sjávarbotninn verið kannaður áður og lænur þar milli hraunklappa miðaðar m.a. með þessum áttavita. Hann var þá talinn hinn fullkomnasti og öruggasti í útvegsstöðinni. Síðan var strengurinn þræddur eftir lænunum eftir því sem tök voru á, og þá var þessi áttaviti notaður.
Á gamalsaldri gaf Þorsteinn Jónsson, þá hinn kunni formaður og útgerðarmaður í Laufási um tugi ára, dóttursyni sínum, Ólafi Jónssyni, nú til heimilis að Ásbyrgi í Eyjum, áttavitann og hann gaf hann síðan Byggðarsafninu til minningar um afa sinn.
257. Baulur þrjár úr rótarviði. Stundum voru hringir þessir kallaðir rifhringir. Þeir voru festir á afturlý seglsins á skútunum, aftan við rifbandaraðirnar og var kló seglsins fest í þá, þegar rifað var seglið í stormi eða hvassviðri. Á milli hringanna var um það bil einn metri á lýinu.
258. Bátaskafa.
259. Bátasleði. „Sleðar“ þessir fylgdu fyrstu dönsku vélbátunum. Þeir voru nokkrir með hverjum vélbáti og til þess gerðir að kjölur bátsins rynni eftir þeim, þegar bátarnir voru dregnir á land eða settir fram til sjávar. Kjölurinn lék á hinum öflugu járnvölturum.
260. Bátshaki, — þríkrækill, íslenzk smíði án skafts.
261. Bátshaki, einkrækill, útlend smíði án skafts.
262. Blýsakka, teinalaus. Þessi sakka er af franskri gerð, eins og fleiri með þessari lögun hér á Safninu. Gefandi: Sigurður Kristjánsson. Búastaðabraut 14.
263. Blýsakka með heilteini, — tvíteinungur, — sem Sigurður Kristjánsson, hinn kunni matsveinn á v/b Gjafari VE 300 eignaðist, þegar hann var að alast upp í Flatey á Skjálfanda. Hann gaf Byggðarsafninu gripinn.
264. Blýsakka með heilteini, — tvíteinungur, — sem hinn kunni skipstjóri Rafn Kristjánsson á v/b Gjafari átti frá því hann ólst upp í Flatey á Skjálfanda. Sakkan gefin Byggðarsafninu eftir hans dag.
265. Burðartré. Á miðju þess eru festir tveir járnhakar, sem leika á „hjörum“. Tré þetta var notað til að bera frá opnu skipi í lendingu stóra drætti, svo sem hákarlaskrokka, flakandi lúður o.s.frv., þar sem þurfti gott átak tveggja manna.
Hafsteinn Stefánsson, skipaeftirlitsmaður hér, gaf Byggðarsafninu tæki þetta.
266. Dorg með tveim önglum.
267. Fiskdráttarkrókur. Krók þennan átti Guðmundur Jónsson frá Málmey hér í bæ. Gefandi: Frú Kristbjörg Einarsdóttir, ekkja hans.


ctr


Fiskgarðarnir.


Fiskigarðarnir. Frá þeim er sagt í Bliki 1972, bls. 185 og áfram. Í Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, sérprentun úr Bliki 1972, er frásögnin um fiskigarðana á bls. 10.
268. Flatningshnífur. Íslenzk smíði. Skaftið er gjört úr þykku „vatnsleðri“. Hnífinn átti Kristján Ingimundarson, formaður í Klöpp við Strandveg.
269. Flatningshnífur, stór með gildum blýhólki. Þessir hnífar voru víða kallaðir sleddur. Franskir skútusjómenn notuðu almennt þvílíka hnífa við fiskaðgerð á skútum sínum hér við land.
Flatningshnífur þessi er gefinn Byggðarsafninu úr dánarbúi hjónanna í Gerði, Guðbjargar húsfr. Björnsdóttur frá Kirkjubæ og Jóns Jónssonar, útgerðarmanns og formanns frá Presthúsum. Þau hjónin bjuggu um 40 ára bil í Gerði, og var Jón bóndi formaður hér í mörg ár, alltaf með sama vertíðarskipið, Halkion. Hann gerðist formaður á Halkion 17 ára gamall, þegar faðir hans lét af því starfi.
Margir munir úr búi þessara merku hjóna eru nú geymdir í Byggðarsafninu fyrir atbeina barna þeirra, Jónínu og Björns í Gerði.
270. Handbörur, tvennar. Hvorar tveggja handbörurnar eru frá útgerð og fiskverkun Gísla J. Johnsen hér í Eyjum. Á stakkstæðum var fiskurinn borinn frá fiskstakknum á handbörum. Einnig að stakknum, þegar fiskurinn var tekinn saman. Til margra hluta annarra voru handbörur notaðar, þegar flytja þurfti eitt og annað úr einum stað í annan. Handbörur voru algengasta burðartækið fyrstu þrjá áratugi þessarar aldar, svo að ekki sé of djúpt í árinni tekið.
271. Handfœraöngull, hvippaður, — líklega útlendur.
272. Handfœraöngull, óhvippaður, íslenzk smíði.
273. Hákarlaöngull, hákarlasókn, gefin Byggðarsafninu úr dánarbúi Guðmundar Jónssonar, Málmey við Hásteinsveg hér í bæ. Frú Kristbjörg Einarsdóttir, ekkja Guðmundar, gaf Safninu sóknina.
274. Herpinótarspil, tvö að tölu, sem Holtsbræður gáfu Byggðarsafninu. Þegar þeir stunduðu herpinótarveiðar fyrir Norðurlandi á vélbáti sínum Voninni VE 279, notuðu þeir spil þessi. (Sjá hér í ritinu greinina Vigfús Jónsson frá Túni).
275. Hlunni, breiður hvalbeinshlunni. Gefandi: Hafsteinn Stefánsson, skipaeftirlitsmaður.
276. Hraðamœlir, logg af v/b Skaftfellingi. Það var fylgihlutur vélskipsins, þegar Skaftfellingar keyptu það til landsins árið 1918. Síðast átti Helgi útgerðarmaður Benediktsson Skaftfelling. Þegar þetta er skráð, hefur hann staðið uppi í Dráttarbrautinni hér í nokkur ár. (Sjá Blik 1960, bls. 133).
277. Járnblökk, lítil. Hún er sögð vera af v/b Knerri, — vélbátnum, sem Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson sigldi heim til Eyja frá Danmörku í sept. 1905.
278. Járnræði af áttæring. Þollar (tollar) og þrælka úr járni, felld á eikarklampa.
279. Járnsakka ydd. Hún er til þess gerð að mæla dýpi. Gjafarútgerðin gaf Byggðarsafninu þessa sökku.
280. Járnvinda, öll gerð úr járni. Þessar handvindur voru notaðar á snurpinótarbátunum til þess að létta drátt nótarinnar, meðan bátar þeir voru notaðir við síldveiðar.
281. Kjötpoki eins og þeir voru algengastir á síldarbátum Eyjamanna hér áður fyrr, áður en frystikistur urðu algengar í síldarskipum
Í þessum kjötpoka voru geymdir 2-3 kjötskrokkar, sem kjöt var soðið af daglega handa skipshöfninni.
Pokinn var venjulega látinn hanga aftan við stýrishúsið.
Kjötpoki þessi var gefinn frá útgerð v/b Gjafars VE 300, hinu kunna síldveiðiskipi Eigendur: Rafn Kristjánsson, skipstj., Sigurður Kristjánsson, matsveinn, og Sveinbjörn Guðmundsson, Hólagötu 23, meðeigandi þeirra að skipinu.
282. Klýfurbaula, bugsspjótsrakki. Þessi rakki er af vélbátnum Olgu VE 239, sem var 13,91 smálest að stærð með 30 hestafla Alfa-vél.
Þeir bræður Magnús og Guðmundur (á Háeyri) Jónssynir frá Gamla- Hrauni smíðuðu vélbát þennan hér í Eyjum árið 1920. Guðmundur var síðan sjálfur skipstjóri á honum í 16 vertíðir (1920—1936). Hann notaði oft segl á bátnum og þá ekki sízt klýfur (klýfir). Á bátnum var bugspjót, og var rakki þessi notaður til þess að „hlaupa fram“ bugspjótið með klýfurinn, þegar sigla skyldi. — Guðmundur Jónsson á Háeyri, sem var að hálfu leyti eigandi bátsins og skipstjóri á honum, gaf Byggðarsafninu rakka þennan eða klýfurbaulu.
283. Knúbakki, — stór goggur, — stór járnkrókur á tréskafti. — Gísli gullsmiður Lárusson í Stakkagerði, sem var um eitt skeið hákarlaformaður hér í Eyjum á síðari hluta síðustu aldar (Sjá Blik 1972, bls. 140l, lét þeim, sem þetta ritar, í té fyrir 40 árum glögga lýsingu á tæki þessu. Eftir henni er knúbakki þessi smíðaður.
Goggur þessi var notaður á hákarlaskipum Eyjamanna til þess m.a. að hagræða hákarlaskrokkum, þegar lokið var við að draga þá upp í siglutréð, meðan lifrinni var náð úr þeim. Þá var knúbakkinn notaður til þess að halda með honum opnum kviðarskurðinum, meðan lifrin var losuð úr risafiskinum. „Blað skilur bakka og egg,“ segir skáldið. Hér mynduðu knúarnir á hendi sjómannsins „bakkann“. Þannig er orð þetta hugsað og myndað. Hvergi hef ég fundið það í orðabókum.
284. Króarlyklar. Byggðarsafnið hefur eignazt nokkra gamla lykla frá fiskikrónum gömlu, sem stóðu hér beggja vegna við Strandstíginn. Fyrir þessum fisksöltunarhúsum voru skrár, smíðaðar úr kopar eða eirblendi til þess að standast áleitni saltlofts og sjávarseltu þarna niður við höfnina. Alla þessa lykla smíðaði Magnús bóndi Eyjólfsson á Kirkjubæ í smiðju sinni þar.
285. Króaskrár. Byggðarsafnið á nokkrar skrár frá hinum gömlu fiskkróm eða aðgerðar- og fisksöltunarhúsum útvegsbænda í Eyjum. (Sjá Blik 1971, bls. 141). Þær eru allar smíðaðar úr koparblendnum málmi, svo að þær stæðust ásókn seltunnar í lofti og legi. Allar þessar skrár hefur sami maðurinn smíðað: Magnús bóndi og smiður Eyjólfsson á Kirkjubæ.
Þessa króarskrá átti Stefán útgerðarmaður Björnsson í Skuld. Frú Margrét Jónsdóttir, kona hans, gaf Byggðarsafninu skrána eftir hans dag.
286. Króarskrá. Þessi skrá er frá fiskkró Jóns bónda og formanns Jónssonar í Gerði, sem var faðir systkinanna þar, frú Jónínu og Björns bónda. Þetta er króarskrá Halkionsútgerðarinnar nafnkunnu. Frú Jónína húsfreyja í Gerði gaf Byggðarsafninu skrána.
287. Króarskrá frá fiskkró Jóns heitins Ingimundarsonar í Mandal, Mandalskrónni. Jón heitinn Stefánsson, dóttursonur Jóns útgerðarmanns og formanns, gaf skrána Byggðarsafninu.
288. Línuakkeri. Þetta línuakkeri átti og notaði Ársæll Sveinsson, formaður og útgerðarmaður á Fögrubrekku við Vestmannabraut (nr. 68). Hann gaf Byggðarsafninu hlut þennan.
289. Línuból, línubelgur, hnöttóttur, svartur, mjög tjöruborinn.
Þessir línubelgir voru útlend verksmiðjuframleiðsla og tóku hér við af kálfsbelgjunum íslenzku.
Þeir voru notaðir, þar til plastbelgirnir leystu þá af hólmi.
Byggðarsafninu barst þessi línubelgur frá útgerð Gísla útgerðarmanns og skipstjóra Magnússonar í Skálholti við Urðaveg (nr. 43).
290. Línurúlla, lítil, með andæfurum úr járnhólkum. Þessa línurúllu smíðaði og notaði Ólafur smiður Ástgeirsson, trilluformaður frá Litlabæ.
291. Línurúlla af elztu gerð. Hún var notuð hér á áraskipi um síðustu aldamót, þegar Vestmannaeyingar hófust handa um notkun línunnar (1897). Þessa línurúllu átti Guðmundur heitinn Jónsson, hinn kunni sjómaður frá Málmey við Hásteinsveg. (nr. 32). Ekkja hans, frú Kristbjörg Einarsdóttir, gaf Byggðarsafninu línurúllu þessa.
292. Línuönglar nr. 7 með spaða. Þannig voru þeir um tugi ára, eftir að notkun línunnar hófst. Öngultaumurinn var hnýttur um öngulinn fyrir ofan spaðann og síðan hert að hnútnum. Nú eru lykkjur gerðar á öngulinn og öngultauminum smeygt í þær og brugðið um.
293. Miðakort. Þetta miðakort yfir helztu fiskimið Vestmannaeyinga, þau sem næst eru Eyjum, gaf Sverrir Guðmundsson skipstjóra Vigfúsar frá Holti Byggðarsafninu. Það er að því leyti sérkennilegt, að miðalínur eru dregnar á það. Guðmundur faðir gefanda mun hafa notað kortið um árabil, þegar hann var skipstjóri hér við útgerð sína, Vonarútgerðina.
294. Netasteinar úr móbergi. Þetta eru fjörusteinar, sem notaðir voru hér á þorskanet á árunum 1908-1916. Hola var boruð í steininn og þar festur snærishanki með tré pinna.
295. Prímus. Þessi gerð prímusa var notuð til að hita upp glóðarhausinn á elztu bátavélunum. Þessi „báta prímus“ er nýr og ónotaður. Gefandi: Helgi kaupmaður og útgerðarmaður Benediktsson.
296. Prímus, — bátaprímus, gamall og mikið notaður. Hann átti Mandalsútgerðin, útgerð Jóns formann Ingimundarsonar og dóttursonar hans, Jóns Stefánssonar, sem gaf Byggðarsafninu gripinn.
297. Reknet „af gömlu gerðinni“. — hnýtt úr baðmullargarni. Þetta reknet gaf Netagerð Ingólfs í Eyjum Byggðarsafninu.
298. Reknet af nýjustu gerð. Gefandi: Netagerð Ingólfs.
299. Reknetjarúlla. Þessa reketjarúllu notuðu Holtsbræður á síldarútvegi sínum og gáfu hana Byggðarsafninu. (Sjá greinina Vigfús Jónsson frá Túni hér í Bliki).
300. Rœði. Nokkur járnræði útlend hefur Byggðarsafninu borizt. Hin stærstu þeirra eru frá fyrstu árum vélbátaútgerðarinnar hér í byggð. Vélar hinna fyrstu báta þóttu ekki gangvissar, svo að haft var segl við rá og árar með á sjóinn. — Ræðisþollinum var stungið í þar til gerða holu í hástokki bátsins, þegar róa þurfti honum eða snúa til hagstæðs hyrjar, þegar vélin var biluð. Síðar voru ræði þessi algeng á snurpinótarbátum við síldveiðar. Minni ræðin voru notuð á „jullur“ eða léttabáta.
301. Síldarnet úr hampi.
302. „Sleði“. Þessir „sleðar“ með tveim völtum, gildum járnvöltum, fylgdu oft fyrstu vélbátunum dönsku. Þeir voru til þess gerðir að láta undir kjöl þeirra, þegar þeir voru settir á land eða settir fram til sjávar. Þeir voru einskonar hlunnar. Nokkrir slikir valtar fylgdu hverjum báti, er þeir voru keyptir til landsins.
303. Sveigur, masturssveigur, af skútu. Þeir voru fastir við seglið fyrir neðan rána eða gaffaleyrun, og lágu umhverfis siglutréð. Þeir voru einskonar „rakkar“, sem „hlupu“ upp og niður siglutréð eftir því, hvort segl var þanið eða fellt.
304. Vaðsteinn, lítill og léttur. Þessir litlu vaðsteinar voru hafðir á handfærum drengja, sem vildu stunda handfæraveiðar endur og eins að sumrinu.
305. Vaðsteinn, nokkuð sérlegur. Hann er gerður úr holóttu hraungrýti. Hann fannst í harðfiskkró í fiskigarði vestur í Hrauni fyrir um það bil 150 árum.
Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti hér, gaf Byggðarsafninu þennan óvenjulega vaðstein.
306. Vestmannaeyja-Þór, — líkan af fyrsta björgunar- og varðskipi íslenzku þjóðarinnar. Saga þess er kunn og það mikla afrek, sem Eyjafólk framkvæmdi, er það keypti þetta skip til landsins árið 1920. Landbúnaðarráðuneytið danska seldi Björgunarfélagi Vestmannaeyja skipið. Þá ruddu Vestmannaeyingar markverðar og mikilvægar brautir í björgunar- og landhelgismálum þjóðarinnar. (Sjá Blik 1971, bls. 70—82). Skipið var byggt árið 1899. Það strandaði á Sölvaskerjum utan við Blöndós í árslok 1929.
Líkan þetta gjörði Sigurður Jónsson frá Hallgeirsey í Landeyjum, — „modelsmiður“ Landssmiðjunnar í Reykjavík.
307. Þorskanet úr hampi. Þetta þorskanet af gömlu gerðinni gaf Netagerð Ingólfs hér Byggðarsafninu. Eigandi: Ingólfur Theodórsson. Hann tjáir okkur, að slangan sé ein hin síðasta, sem hér var hnýtt í Netagerð Vestmannaeyja. Og hnýtingarvélina flutti inn Sigurjón Pétursson á Álafossi árið 1912, þegar hann hóf veiðarfæragerð. Síðan var vélin keypt hingað til Eyja.
308. Þorskanet úr næloni, — hin nýja gerð þorskanetjanna. Gefandi: Netagerð Ingólfs.
309. Þorskanetjanálar, — nokkrir tugir nála. Þessar nálar geymir Byggðarsafnið til minningar um netjagerð þá, sem Gagnfræðaskólinn rak hér á sínum tíma til þess að kenna nemendum sínum (piltum) að hnýta þorskanet, bæta þau og setja upp. Ásamt kennslu um gerð báta- og bifreiðavéla og meðferð þeirra, þá vildi skólinn knýta þannig nemendur sína aðalatvinnuvegi byggðarlagsins, útveginum.
310. Þurrkvoð, — lestarþurrkari. Þetta tjald var notað til að veita loftstraum ofan í lest á fiskiskipi, þegar þurrka skyldi lestina. Þá var tjaldi þessu þannig fyrir komið yfir lestaropinu, að loftstrauminn, vindinn, lagði niður í lestina og um hana.
Þurrkvoð þessa átti útgerð v/s Gjafars VE 300, og gáfu eigendurnir Byggðarsafninu lestarþurrkara þennan.


ctr


Þessi mynd er tekin a athafnalífi á Edinborgarbryggjunni á árunum 1910—1913. Haraldur Blöndal myndasmiður, sem hér var þá á ferð, tók myndina. Hinir fyrstu vélbátar liggja við bryggjuna og svo skögtbátar, og vélbátar og skögtbátar liggja við ból á höfninni. Húsin eru enn við lýði á Eiðinu. Þar má greina verksmiðjugrunn hins franska rœðismanns í Reykjavík, Brilluoins (Les grein. Halldórs Magnússonar um Fiskimjölsverksmiðjuna í Blik 1972). Á Nausthamrinum slendur skúr, sem var m.a. notaður til að geyma í ýmislegt, sem varðaði skipaafgreiðslu Gísla J. Johnsens. Hrogna(gotu)tunnur liggja ofarlega við jaðar bryggjunnar. Enn eru engin stýrishús á vélbátunum. (Helgi Benediktsson gaf Byggðarsafninu þessa mynd).


ctr


Lækurinn, athafnasvæði Vestmannaeyinga í þúsund ár.

(Litmynd af málverkinu sett inn af Heimaslóð.is)


311. Lœkurinn, — athafnasvœði Vestmannaeyinga í þúsund ár.

Nafnið er dregið af því, að þarna seytluðu eilitlar lækjarsprænur fram undan hraunbrúninni norðan við Strandveginn við fjarandi sjó, - sjór, sem flætt hafði inn í holt hraunið.
Til vinstri á myndinni sér á Stokkhellu. Á henni byggði sýslufélagið „Gömlu bæjarbryggjuna“ í áföngum 1907 og 1911.
Til hægri blasir Nausthamarinn við með græna gróðurtorfu á toppi. Henni hélt hann um aldir þrátt fyrir ásókn sjávarstorma og sævarkólgu.
Við Nausthamarinn vestanverðan og fast við hann byggði Gísli J. Johnsen fyrsta vísi að bryggju sinni sumarið 1907.
Hrófin — skipanaustin — voru þarna efst við Strandveginn ofan við lækjaseytlurnar. Þangað var skipunum ráðið til hlunns að enduðum hverjum róðri. Annað var ekki öruggt, því að brotsjóir gengu inn á höfnina í austan og suðaustan veðrum, meðan engir voru hafnargarðarnir.
Hér er athafnasvæðið sýnt, áður en mannshöndin kom til með nokkrar hafnarbætur eða framkvæmdir í þá átt. Þó er rétt að geta þess, að Godthaabsverzlunin — Miðbúðin, — lét byggja bryggjuna í Læknum á næst seinasta áratug síðustu aldar. Það var trébryggja, en burðartréin eða bryggjubjálkarnir lágu á ferhyrndum grjóthleðslum. Bryggjan lá norðvestur í stefnu á Stokkhellu. Þegar Gísli J. Johnsen keypti leifar Miðbúðarinnar 1901, eignaðist hann þessa bryggju og notaði hana a.m.k. til ársins 1910.
Þessi áraskip sjást á myndinni: Tvö áraskipin koma að landi. Skipið, sem á undan fer, er áttæringurinn Ísak, blár í sjó en hvítur að ofan með rauðu borði. Skipshöfnin er 18 menn. Formaður er Þorsteinn Jónsson frá Hrauni í Eyjum, síðar kunnur útgerðarmaður og skipstjóri í Laufási. Hann var formaður á Ísak fyrstu fimm vertíðir aldarinnar. — Síðara skipið, skipið til hægri, er teinæringurinn Skrauti, svartur með hvíta rönd, skipshöfnin er 20 menn. Formaður er Sigurður Sigurðsson frá Frydendal (Vertshúsinu í Eyjum).
Austan við Stokkhelluna utanverða liggja þrjú áraskip. Þar er áttæringurinn Farsæll, grænn í sjó, svartur að ofan með tvær hvítar rendur. Formaður á áttæring þessum er Kristján Ingimundarson í Klöpp. Verið er að seila aflann úr skipinu og bera úr því farviði (siglutré og árar) í land til þess að létta skipið fyrir setning.
Í námunda við Farsæl er áttæringurinn Mýrdælingur, svartur með hvíta og svarta reiti á næst efsta borði. Það var kallað „kanonport“. Formaður á Mýrdæling var þá Guðlaugur bóndi Vigfússon á Vilborgarstöðum.
Þá er þarna þriðja áraskipið og snýr framstafni í suður. Þetta skip er áttæringurinn Blíða, græn í sjó en hvít að ofan með svarta rönd. Formaður á Blíðu er Stefán Gíslason í Hlíðarhúsi.
Fyrir framan Blíðu og næst okkur er teinæringurinn Áróra, stærsta áraskipið í verstöðinni. Skipshöfnin er að rétta skipið við og búa það undir setning. Við teljum þófturnar í teinæringi þessum. Formaður á Áróru er Sigfús Árnason organisti og póstafgreiðslumaður á Löndum.
Skipin í Hrófunum eru þessi talin frá vinstri: Áttæringurinn Gideon, svartur með hvítu borði. Verið er að setja skipið upp í Hrófin. Nokkru austar í Hrófunum er ættæringurinn Friður, svartur með hvíta hástokka og skvettlista. Formaður á Frið er Gísli Lárusson, bóndi, útgerðarmaður og gullsmiður í Stakkagerði. Austan við Frið stendur áttæringurinn Ingólfur, rauður í sjó, hvítur að ofan með rauðu borði. Formaður á Ingólfi er Magnús Guðmundsson bóndi á Vesturhúsum.
Öll skipin í verstöðinni eru máluð þannig, að eitthvað ber á milli um lit eða einkenni, svo að þau þekkist af bæjunum á austanverðri Heimaey, er þau koma að landi. Þannig fá aðgerðarkonurnar vitneskju um það, að skipið með aflann, sem þær gera að, er komið að. Þá er ekki til setu boðið fyrir þær. Þær tigja sig til starfans og „ganga í Sandinn“, eins og það hét á Eyjamáli.
Allur fiskur var seilaður við skipshlið sökum útgrynnis eða örfiris í Læknum. Á hverri seil voru 50—70 fiskar. Síðan voru seilurnar dregnar að landi og aflanum skipt eftir föstum reglum milli skipshafnarmanna og skipsins (skipshlutir). Alls var skipt í 20—22 hluti eftir stærð skipsins.
Konurnar, sem „gengu í Sandinn“ til þess að gera að fiskinum, voru ýmist vinnukonur bændanna, sem jafnframt voru útgerðarmenn oft og tíðum og fengu þá skipshlutina, eða eiginkonur tómthúsmannanna, en flestir hásetarnir voru úr tómthúsmannastéttinni og bjuggu í kofum niður við höfnina, — hafnarvoginn.
Aðgerðarkonurnar gerðu að hlutum sjómannanna, hvers fyrir sig og svo skipshlutunum, ef þær voru vinnukonur á heimilum skipseigendanna.
Aðgerðarkonurnar „drógu fiskinn úr Sandi“ með þar til gerðum krókum, fiskdráttarkrókum, og voru tveir fiskar dregnir í hvorri hendi frá skiptistað upp fyrir (suður fyrir) Strandveginn, þar sem þær gerðu að aflanum úti á öllum tímum árs, hvernig sem viðraði.
Þegar búið var að fletja fiskinn og þvo hann, var hann saltaður inni í króarholu, — kofa, sem byggður var úr torfi og grjóti. Aðgerðarkrær þessar stóðu í röðum sunnan við Strandveginn.
Á myndinni er að öðru leyti þetta að sjá: 1. Tvær konur klæddar strigasvuntu með prjónahyrnu á herðum og ullarklút (skýluklút) um höfuðið „draga fisk úr Sandi“ upp fyrir Strandveg til aðgerðar. — 2. Aðgerðarkona ber sjó í tveim fötum upp fyrir Strandveg til þess að þvo fiskinn úr. — 3. Kona færir bónda sínum kaffi á blikkbrúsa til þess að hressa hann, nýkominn af sjónum — 4. Verið er að skipta afla á einni sjávarklöppinni. — 5. Seilaður fiskur flýtur við borð tveggja skipa. — 6. Fjórir hásetar koma vaðandi í land með farviði (siglutré og árar) á öxlum sér til þess að létta skipið og búa það undir setning. — 7. Tveir sjómenn bera bjóð undir hendinni, en lína var tekin í notkun hér í Eyjum 10. apríl 1897. Þá var hún beitt í svokölluð bjóð, trékassa með sérstöku lagi (Sjá bjóð á Byggðarsafninu). — 8. Háseti ber saltpoka á baki sér austan úr Austurbúð. Það er saltið í hlutinn hans þann daginn. Svo smátt er þetta allt í sniðum og framkvæmd. — 9. Maður ber burðarskrínu á baki til vörukaupa austur í Austurbúð (Garðsverzlun, hina gömlu einokunarverzlun). Hundur eltir húsbónda sinn. — 10. Á grasflötunum næst okkur á myndinni voru farviðir skipanna lagðir og geymdir milli róðra. Þar skyldu toppar siglutrjánna og svo hlummar (leiðr.) áranna vita í áttina að skipinu, sem þeir voru af, svo að vissu trúaratriði væri fullnægt. Annars var ekki rétt að þessu staðið og hart tekið á því, ef það starf var kæruleysislega af hendi innt eða brugðið út af vana þeim. — 11. Skerið til vinstri á myndinni er Ytra-Básaskerið. Á því var öðrum þræði byggður haus Básaskersbryggjunnar, hins mikla mannvirkis, á árunum 1927—1936. — 12. Austan við Nausthamarinn, upp með honum að vestnverðu, var sérstakt uppsátur, sem „landmenn“ fengu oft not af, er þeir lágu við til fiskveiða á vertíðum í Eyjum. Þetta uppsátur var kallað Fúla.
Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ í Eyjum gerði málverkið.


II. hluti