Blik 1973/Eldgos við húsvegginn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Eldgos við húsvegginn


I. Flótti


Klukkan var orðin ellefu mánudagskvöldið 22. janúar (1973) og farin að halla í tólf. Eitthvað hindraði háttinn okkar hjóna, og mig sótti enginn svefn, aldrei þessu vant — mig, sem að öllum jafnaði nýt mín ekki eftir klukkan níu á kvöldin sökum svefndeyfu. — Veðrið er líka gjörbreytt orðið, komið logn og ljúfasta veður eftir öll ósköpin, sem yfir okkur dundu um daginn. Þá var austan suðaustan stórviðri í Vestmannaeyjum með úrhellis rigningu.
Sökum veðurofsans og hinnar ausandi úrkomu síðari hluta dagsins, hafði ég látið aka mér heim úr Sparisjóðnum, og það á sér ekki stað nema svo sem tvisvar á ári. Ég á sem sé engan bíl sjálfur og hef aldrei átt og aldrei áunnið mér annað en lélegt hjólbörupróf í aksturstækni. Það verð ég víst að láta mér nægja héðan af á þessari jarðnesku reisu minni.
Við hjónin sofnuðum brátt. En klukkan tæplega tvö um nóttina vöknuðum við bæði samstundis. — Hvaða dynur er þetta? Umferð? Allt, umferð bifreiða, bifreiðadynur, akstur margra bifreiða um miðja nótt? — Akstur út og suður, aftur og fram. — Og svo einhver annarlegur dynur?
Ég snarast fram úr rúminu og lít út um norðurgluggann á svefnherberginu okkar. Hér gefur á að líta. Bifreiðar þjóta austur og vestur Austurveginn, sem er næsti vegur norðan við húsið okkar. Og þær þjóta upp eftir og niður eftir þverveginum austan við húsið. Hvað er á seyði? Og svo er eins og bjarma slái á suðurvegg klettanna, sem blasa við mér, Heimakletts, Miðkletts og Yztakletts.

Í þessum svifum er lamið allharkalega á hurðina milli hæðanna í Goðasteini, íbúðarhúsinu okkar. Ég skýzt fram, sný lykli og opna dyrnar. Dóttir okkar, sem býr á neðri hæðinni með manni sínum og tveim börnum þeirra, tjáir mér hugmikil og óttaslegin, að kviknað muni í húsi austur á Kirkjubæjum, því að þeim hjónum virðist bjarma slá á klettana úr austurátt. Ég snarast austur í enda hússins og lít út um austurglugga. Þarna sé ég sjón, sem mér mun seint úr minni líða: Ég tel átta eldsúlur í röð stíga upp af jörðinni. Jarðeldur hefur brotizt út á sjálfri Heimaey. Og hvað austarlega? Spölkorn austan við Kirkjubæina. — Nú, svo sem 700 metrum austan við húsið okkar, álykta ég eftir tölum, sem synir okkar létu okkur í té á uppvaxtarárunum, þegar þeir stunduðu víðavangshlaup í hópi félaga sinna milli Goðasteins og Kirkjubæja.
Ég tjái konu minni þessa ægilegu staðreynd. — Við göngum austur að glugga og skyggnumst um. Og brátt teljum við fjórtán eldsúlur stíga upp í beinni röð. Jörðin er að rifna. — Nú heyrum við vaxandi dyn, og bifreiðar þjóta.
Við klæðumst í skyndi og göngum út, röltum suður að hliðinu okkar við Kirkjubæjarbrautina (húsið okkar var nr. 11 við þá braut) og tökum fólk þar tali. Þarna standa býsna margir og horfa þögulir á hamfarirnar. Já, strax eru nokkrir komnir á stjá, konur sem karlar. Fólkið stendur þarna á víð og dreif og starir á ósköpin. — Við ræðum við það. Hvað er til ráða? Fólkið er rólegt. Enginn asi á neinum. Margt af því hafði ekki enn gengið til náða sökum þess, að bátarnir voru ekki farnir til veiða, en voru að tygja sig til fiskjar, þegar eldurinn brauzt út. Allur bátaflotinn var þó enn í höfn sökum veðrofsans um daginn.
Brátt koma menn á bifreiðum aðvífandi. Þeir tjá okkur, að sumir skipstjórar hafi þegar kallað vélamenn sína og háseta til skips. Vélaskellir heyrast brátt við bryggjurnar. Þeir bergmála í klettaveggjunum. Og við fréttum, að fólk sé tekið að þyrpast í bátana, koma sér burt frá hættunni.
Enn horfum við um stund á hamfarirnar sem steini lostin. Og við fréttum, að fyrstu bátarnir væru þegar að leggja af stað til Þorlákshafnar með fjölda fólks. Einhver hefur orð á því, að nú verði gamla kjörorðið í heiðri haft: „Sjálfur bjarg þú sjálfum þér.“
Röltir nú hver til síns heima, og við hjón tökum að ráða ráðum okkar. Bezt að flýja eins og hinir til þess að bjarga lífi og limum, því að hugsanlegt var, að jarðeldurinn brytist víðar út á Heimaey.
Konan mín kostar kapps um að ná símasambandi við sonu okkar í Hafnarfirði og dóttur okkar í Reykjavík. Ég næ í tvær handtöskur og hún setur í þær nauðsynlegustu föt og aðrar nauðsynjar að okkur finnst. Svo örkum við út að hliðinu sunnan við húsið okkar og bíðum átekta. — Nú teljum við 30—40 eldsúlur í röð suður og þær syðstu hverfa suður með Helgafelli austanverðu. — „Lokaðirðu húsinu?“ spyr hún. „Já, aflæsti því vandlega,“ svara ég og brosi til hennar. Þá sá ég, að engin hræðslumörk voru á andliti hennar og enginn ótti í fasi hennar.
Brátt kemur þarna bifreið, jeppabíll, aðvífandi. Bifreiðarstjórinn er gamall nemandi minn. Hann býður okkur akstur vestur í Friðarhöfn. Við þiggjum það.
Við allar bryggjur liggja bátar með vélar í gangi, og fólkið þyrpist í bátana. Við fylgjum straumnum, við hjónin og dóttir okkar með börnin, en maður hennar verður eftir, því að hann var og verður starfandi í slökkviliði kaupstaðarins, ef takast mætti að bjarga húsum eða húsmunum frá eldi og eimyrju eða þá fólki, sem sérstakrar hjálpar þyrfti með. Hugur minn er altekinn.
Vélaskellir fylla loftið þarna við bryggjurnar, svo að undir tekur í bergveggjunum norðan við höfnina. Tugir vélbáta eru viðbúnir að leggja af stað til Þorlákshafnar með fjölda fólks innanborðs. Sumir eru þegar komnir út fyrir Klettinn, þ.e. Yztaklett.
Við göngum um borð í einn þessara báta. Síðar kom í ljós, að við höfðum tekið okkur far með v/b Lunda VE 110, þar sem kunningi okkar, Sigurgeir Ólafsson frá Heiðarbæ í Eyjum, er skipstjórinn. Hann er einnig eigandi bátsins. Þarna reyndust gamlir nemendur mínir í hópi hásetanna, og var það mér ánægjuefni, hversu vel þeir hugsuðu um alla farþegana, sem voru töluvert á annað hundrað.
Við komum okkur brátt fyrir undir þiljum í lúkar bátsins. Þarna var mikil þröng eins og í öllum vistarverum hans. En engin æðruorð heyrðust frá þessum fjölda. Fólkið var þögult og rólegt.
Brátt fengum við öll að vita, að báturinn „okkar“ var vélavana. Hann var dreginn af öðrum stórum báti, sem einnig var þéttsetinn fólki. Okkur til huggunar fylgdi þessari bágu frétt sú fullyrðing, að þrír eða fjórir vélsmiðir væru með í förinni, og ynnu þeir að viðgerð á vél bátsins.
Vonir stóðu til, að báturinn gengi fyrir eigin vélaafli síðari hluta leiðarinnar til Þorlákshafnar. Svo reyndist það einnig, eins og ætlað var.
Á leiðinni til Þorlákshafnar sótti svefn á nokkurn hluta farþeganna, ekki sízt börnin. Allar „kojur“ voru þéttskipaðar og margir lágu á gólfinu í öllum vistarverum í stafni þessa stóra báts, — festu þar blund öðru hvoru að öllum líkindum. Mikil var sú heppni, að veður hafði gengið niður og sjór var orðinn sæmilega sléttur.
Þegar til Þorlákshafnar kom, þurftum við að bíða æði tíma úti fyrir hafnarmynninu sökum þrengsla við bryggjurnar, þar sem svo margir Vestmannaeyjabátar voru þegar komnir þangað á undan okkur.
Þegar farkosturinn okkar lagðist að bryggju í Þorlákshöfn, voru þar fyrir útréttar hendur valinna manna frá Rauða krossi Íslands eða Almannavörnum til þess að taka við okkur á bryggjubrún og vísa okkur til sætis í langferðabifreiðum, sem biðu þar á bryggjunni. Á leið okkar til Reykjavíkur vorum við látin skrá nöfn okkar og væntanlegt heimilisfang til bráðabirgða, — heimilisfang okkar, sem höfðum að einhverju að hverfa. Í þeim efnum treystum við hjónin á börn okkar búsett í Hafnarfirði og Reykjavík. Sumir virtust ekki hafa að neinu að hverfa. Við fundum til með þeim.
Ekið var rakleitt að Vogaskóla, þar sem við farþegarnir fengum vel úti látna hressingu í mat og drykk.

II. Rauði kross Íslands


ctr


Til vinstri: Björn Tryggvason, aðstoðarbankastjóri, formaður Rauða kross Íslands. — Til hœgri: Eggert Ásgeirsson, framkvœmdastjóri R.K.Í. — „... orðstírr deyr aldrigi, hveims sér góðan getur.“

Með því að allir þessir atburðir eru svo áhrifaríkir, afdrifaríkir og hrikalegir, að þeirra verður minnzt í sögu lands og þjóðar um alla framtíð, þá óska ég að endurprenta hér frásögn forustu- og framkvæmdamanna Rauða kross Íslands, um störf hans og hinn mikilvæga þátt í björgunarstarfinu, eftir að Vestmannaeyingar höfðu skilað sjálfum sér yfir álinn til Þorlákshafnar örlaganóttina miklu, aðfaranótt 23. jan. s.l. Það er örlagaríkur þáttur í sögu Eyjabúa.
Þá leyfi ég mér að vekja athygli á þeirri samvinnu, sem ýmis félagasamtök í Eyjum og einstaklingar áttu upptök að með Rauða krossi Íslands til hjálpar Eyjafólki á erfiðustu stundum til að leysa úr margháttuðum vandræðum þess.
Rauði kross Íslands gaf út sérstakt blað í maímánuði s.l., og er þessi greinargerð prentuð orðrétt upp eftir blaði því með vinsamlegu leyfi réttra aðila. Þarna er greint með skýrum orðum frá ýmsu varðandi okkur Vestmannaeyinga, — ýmsu markverðu, sem ekki má gleymast eða falla í skuggann.
Hér hefst svo frásögn Rauða kross-blaðsins:
„Eldgosið í Heimaey hófst um tvöleytið aðfararnótt 23. janúar 1973. Mannfjöldi í Eyjum var þá rúmlega 5200. Brottflutningur fólks til lands var hafinn um klukkutíma síðar á fiskiskipaflota Eyjamanna, sem allur var í höfn. Þátt í flutningunum tóku um 70 bátar, og fluttu þeir fólkið til Þorlákshafnar.
Starf að hálfu Rauða krossins hófst á þriðja tímanum um nóttina, hjá Almannavarnarráði í nýju lögreglustöðinni. Langferðabifreiðir voru þá að fara til Þorlákshafnar, og var búizt við að fólkið byrjaði að koma til borgarinnar um morguninn. Rauði krossinn tók í sínar hendur að eiga hlut að móttöku fólksins. Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur tók að sér að undirbúa skólastjóra og kennara þeirra fimm skóla sem nota átti sem móttökustöðvar.
Starf á skrifstofu Rauða krossins á Öldugötu 4 hófst á fjórða tímanum. Þá þegar voru sjálfboðaliðar farnir að gefa sig fram. Byrjað var á að hringja í kvennadeild Reykjavíkurdeildar RKÍ. Kvennadeild Flugbjörgunarsveitarinnar bauð fram starf sitt. Einnig starfaði Fræðslustjóri Reykjavíkur með Rauða krossinum um morguninn. Unnið var að skipulagningu móttökunnar, afla liðs, setja yfirmenn Rauða krossins við hvern skóla og undirbúa veitingar og viðlegu. Fluttar voru dýnur og teppi í skólana, því búizt var við gistingu þar. Sá slökkviliðið um þann þátt.
Forstjóri Múlakaffis tók að sér kl. 4.30 að skipuleggja matseld í skólunum, og fékk hann Hótel- og veitingaskóla Íslands sér til hjálpar, stóð hann og skólastjórinn að móttöku fólksins í Sjómannaskólanum. Í mötuneytum skólanna voru veitingar látnar í té, og voru flutningar þeirra hafnir frá Mjólkursamsölu og verzlunum.
Um klukkan sex var skráning á fólkinu undirbúin á skrifstofu Rauða krossins. Bað Rauði krossinn lögregluna að setja upp stjórnstöð við lögreglustöðina í Árbæ, en þar skyldi afhenda skráningarspjöld og fyrirmæli til bifreiðastjóranna hvert haldið skyldi með fólkið. Á skráningarspjöldunum var gert ráð fyrir nafni, fæðingardegi og ári, heimilisfangi í Vestmannaeyjum og nýju heimilisfangi á landinu.


Móttaka fólksins
Starfslið Rauða krossins og skólanna var tilbúið að taka á móti fólkinu um klukkan sjö. Frá stjórnstöðinni í Árbæ var fyrsta bílnum beint að Árbæjarskóla og kom hann þangað klukkan 8.15.
Áður, eða um klukkan tæplega sjö, kom beiðni frá Reykjavíkurflugvelli að starfslið vantaði við móttöku á sjúklingum og gamalmennum, sem komu flugleiðis. Fór starfslið Rauða krossins þangað og beindi fólkinu áfram, aðallega til slysavarðstofunnar, en læknar og starfslið þar ákváðu næsta dvalarstað fólksins. Sumt fór til Melaskólans, og kom þangað klukkan 7.30.
Í skólunum gekk móttaka fólksins fljótt og skipulega. Starfsfólkið var tilbúið með nauðsynlega aðhlynningu, heita hressingu, og fólkið gat lagt sig í stofunum. Það sem átti skyldfólk eða vini hafði samband við það símleiðis. Þess var vandlega gætt að enginn yfirgæfi skólana, án þess að skila skráningarspjöldum með nýju heimilisfangi. Rauði krossinn hafði samband við bifreiðastjórafélagið Frama, með beiðni um, að þeir stuðluðu að sjálfboðaliðaakstri stöðvabílstjóra frá skólunum með fólkið. Síðast en ekki sízt gáfu Reykvíkingar sig fram í stórum stíl til að taka á móti fólkinu inn á heimili sín og leystu þannig stærsta vandann.
Það var langt liðið á tíunda tímann um morguninn, að talið var að skólarnir fimm, Árbæjarskóli, Sjómannaskóli, Austurbæjarskóli, Melaskóli og Hamrahlíðarskóli, væru orðnir þéttsetnir. Var þá leitað til skólastjóra Vogaskóla um, að skólinn yrði sem fyrst móttökustöð. Var skólinn rýmdur í snatri, og var hann tilbúinn til móttökunnar um kl. 10.30. Um 400 manns snæddu hádegisverð í Héðni, en fyrirtækið bauð 1000 manns í mat kl. 6 um morguninn.
Þegar spjaldskrárkassarnir bárust á skrifstofu Rauða krossins seinna um daginn, kom í ljós að heildartala þeirra Vestmannaeyinga, sem til Reykjavíkur komu samkvæmt skrám Rauða krossins, voru 4.216, og skiptist þannig:

Árbæjarskóli 497
Austurbæjarskóli 626
Hamrahlíðarskóli 680
Langholtsskóli 36
Melaskóli 716
Sjómannaskóli 945
Vogaskóli 377
Annað (sjúkrahús,/elliheimili 339

Þess ber að geta að margir karlmanna urðu eftir í Eyjum við nauðsynleg störf. Áhafnir bátanna komu ekki í land fyrr en seinna. Þar að auki varð bæði fólk eftir fyrir austan fjall, svo og komu ýmsir áður en skráning hófst.
Sjómannaskólinn var gerður að gististað fyrir Eyjafólk fyrst í stað. Þegar líða tók á daginn fól Almannavarnarráð Rauða krossinum að standa að gistingu fyrir fólkið að Hótel Esju. Var verulega vísað á þessa gistingu frá Hafnarbúðum, í nafni Rauða krossins, einkum handa fólki, sem ekki tókst að fá inni á heimilum. Eins bjuggu nokkrar fjölskyldur þarna, allt frá fyrsta gosdegi.
Verulega fór að fækka í skólunum upp úr hádegi, og úr því var hægt að loka þeim smátt og smátt.


Upplýsingamiðlun
Um klukkan fjögur eftir hádegi voru spjaldskrár komnar frá skólunum til skrifstofu Rauða krossins. Var þá tilkynnt að Rauði krossinn gæti upplýst um nýja dvalarstaði Vestmannaeyinga. Varð þá strax það mikið að gera, að tilkynna varð að einungis væri hægt að veita upplýsingar og svara fyrirspurnum til þess að leiða sundurskildar fjölskyldur Eyjamanna saman.
Vélritunarstúlkur frá Seðlabankanum og Reykjavíkurborg vélrituðu allar upplýsingar um fólkið inn á skrá, og lauk því verki eftir miðnætti aðfaranótt miðvikudagsins 24. janúar.
Um morguninn þann 24. bauð IBM á Íslandi að tölvuvinna skrá um alla Vestmannaeyinga, og var unnið við þetta verk að hálfu IBM og þeirra fyrirtækja annarra, sem aðstöðu höfðu til að gata upplýsingar á skýrsluspjöld, allan daginn og um nóttina. Var þessu verki lokið um klukkan tíu á fimmtudagsmorgun, og þá afhent í þremur útgáfum, skrá eftir stafrófsröð, eftir heimilisfangi í Eyjum og eftir nýjum heimilisföngum á landinu. Var hér um að ræða ómetanlegan grundvöll að öllu hjálparstarfinu.
Mjög mikið var að gera á skrifstofu Rauða krossins að Öldugötu 4 þennan dag. Mikið starfslið kom til viðbótar fjögurra manna fastastarfsliði Rauða krossins og munu sjálfboðaliðarnir hafa verið um 200. Margt af þessu fólki vann óskipt að hjálparstörfunum næstu 2 vikurnar, og annað fólk tók við. Margt af þessu fólki fékk frí hjá atvinnurekendum sínum.


Þáttaskil í hjálparstörfum
Reykjavíkurborg bauð Vestmannaeyjakaupstað Hafnarbúðir til afnota fimmtudaginn 25. janúar. Komu fulltrúar Vestmannaeyjakaupstaðar til Rauða krossins og buðu samvinnu.
Var hjálparstarf Rauða krossins flutt að miklum hluta í Hafnarbúðir þegar sama dag. Fyrstu vikurnar var 2. og 3. hæðin til ráðstöfunar auk kjallara, en sunnudaginn 28. var stór salur á jarðhæð einnig tekinn undir starfsemina. Stór símamiðstöð var sett upp í Hafnarbúðum með miklum samstarfsvilja bæjarsímans. Urðu símatæki yfir 20.


Fjárhagsaðstoð
Ríkisstjórnin skipaði nefnd þriggja ráðuneytisstjóra til að vinna að málefnum fyrir fólkið í samvinnu við Rauða krossinn. Óskaði nefndin eftir því, að Rauði krossinn hefði forgöngu um fjárhagsaðstoð til þeirra, sem á henni þurftu að halda.
Hófst útborgun framlaga kl. 16 fimmtudaginn 25. janúar. Voru beiðnir afgreiddar í viðtölum við fulltrúa Rauða krossins og bæjarstjórnar. Eitt kvöldið voru framlög afgreidd í Ölfusborgum og Þorlákshöfn. Voru afgreidd tæplega 1700 framlög á 8 dögum, samtals um 17,8 millj. króna, af andvirði söfnunarfjár.
Meðalframlög reyndust vera kr. 10.880,00. Var í aðalatriðum farið eftir þeirri reglu, að hjón fengju kr. 10.000, en 2000 með hverju barni. Einhleypir aðilar fengu frá 2000 til 7000 kr. Nauðsynlegt var að hefja borgun framlaga strax, enda fólkið yfirleitt peningalaust. Er enginn vafi að fátt eitt hefur haft eins mikil áhrif á að gefa fólkinu sjálfstraust á ný, eins og það að það fékk skjóta fjárhagsaðstoð.
Systrafélagið Alfa lét í té fatnað frá og með fimmtudeginum, og var það þegið af mörgum.
Útborgun fjárframlaga beint frá Rauða krossinum lauk föstudaginn 3. febrúar, eftir heila umferð. Þá tók við framfærslunefnd á vegum bæjarstjórnar Vestmannaeyjakaupstaðar, sem byrjaði starf 6. febrúar.


Skyndilán
Föstudaginn 26. janúar var hafin veiting skyndilána. Var til þeirra stofnað af hálfu Seðlabankans, Sparisjóðs Vestmannaeyja, Útvegsbankans og Rauða krossins. Fram til 20. febrúar voru veitt lán samtals tæplega 56 milljónir króna.


Húsnæðismiðlun
Hún hófst þegar af fullum krafti fimmtudaginn eftir að gosið hófst með 10 til 15 manna starfsliði, sem vann yfirleitt 10-12 tíma á dag við að tengja saman framboð og eftirspurn. Komu Vestmannaeyingar smám saman meira inn í það starf.
Voru annir á þessari skrifstofu miklar og stuðlað að hundruðum lausna til frambúðar og til skemmri tíma. Geysileg hreyfing var á Vestmannaeyingum fyrstu vikurnar, úr einni bráðabirgðaaðstöðunni til annarrar. Þegar í nauðir rak, var fólkinu vísað til dvalar á hótelum, einkum Hótel Esju.
Er það ósagður þáttur, en sá mikilvægasti í öllu hjálparstarfinu fyrstu 3—4 vikurnar og fram á þennan dag, sá opni faðmur sem mætti Vestmannaeyingum af hálfu heimila á meginlandinu.
Þá má geta mikils starfs verkalýðsleiðtoga frá Eyjum í samvinnu við Alþýðusambandið, og þá ekki sízt í sambandi við opnun Ölfusborga, en þangað voru komnir um 280 Vestmannaeyingar þann 27. janúar.
Húsnæðismiðlun Rauða krossins var lögð niður 9. febrúar, og voru þá eftir óleystar beiðnir 305 barnafjölskyldna, 2-12 manna, með ófullnægjandi lausn.


Aðseturstilkynningar
Áður hefur verið rætt um skráningu fólksins fyrstu tvo dagana. Næstu tvær til þrjár vikurnar hafði Rauði krossinn á hendi með aðstoð sjálfboðaliða í Hafnarbúðum í fullu starfi, aðseturstilkynningar í samvinnu við Hagstofuna, jafnframt því sem IBM-skráin var uppfærð jafnóðum og aðsetursskipti voru tilkynnt.
Vestmannaeyingar sýndu gott samstarf og var mjög annt um að tilkynna aðsetursskipti.


Mötuneyti í Hafnarbúðum
Konur frá Vestmannaeyjum byrjuðu að veita kaffi í mötuneytinu í Hafnarbúðum fimmtudaginn 25. janúar og kvenfélagið Heimaey, sem er félagsskapur kvenna ættaðra frá Vestmannaeyjum, bauð fram alla vinnu við mötuneytið, nema sjálfa eldamennskuna.
Enn var leitað til Hótel- og veitingaskólans og Friðriks Gíslasonar skólastjóra, sem tók að sér stjórn mötuneytisins, og honum til aðstoðar 40 nemar við skólann. Stóðu þeir að allri matseld í mötuneytinu næstu tvær vikurnar, og var skólanum lokað að samþykki ráðherra meðan á þessu stóð.
Byrjaði full matseld með heitum mat 26. janúar, og fór fjöldi heitra máltíða upp í allt að 300 í mál. Þess á milli var á boðstólum kaffi með kökum og brauði. Myndaðist þarna mótsstaður fyrir fólkið, sett var upp sjónvarp og útvarp, og reynt að skapa aðstöðu fyrir þá sem biðu eftir aðstöðu í hinum ýmsu deildum.
Þetta mötuneyti er enn rekið í samstarfi við bæjarstjórn Vestmannaeyja og Rauða krossinn.


Upplýsingamiðstöðin, vinnumiðlun
Upplýsingamiðstöð bæjarstjórnar var tekin til starfa síðla dags fimmtudaginn 25. janúar undir forystu bæjarlögfræðings og bæjarritara.
Voru miklar annir varðandi veitingu fararleyfa til Eyja í samstarfi við Almannavarnir.
Verkalýðsfélögin settu þegar upp vinnumiðlun og starfaði hún allan tímann og flutti síðan í Tollstöðina. Starfsmenn í vinnumiðluninni skipulögðu dvöl fólks í Ölfusborgum, sem áður greindi frá, og komu á laggirnar barnaheimili í Riftúni.
Auk þess féll á starfsmenn bæjarins og sjálfboðaliða feikilegt annað starf, milliganga við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum, almenn upplýsingaþjónusta, símaþjónusta og fleira og fleira, svo sem móttaka fréttamanna, einkum erlendra.


Flutningamálin
Búslóðaflutningar hófust strax upp úr fyrstu helginni. Flutningadeildin byrjaði fyrst í kjallara Hafnarbúða með óskilamuni, en þriðjudaginn 30. janúar var þessi starfsemi orðin risavaxið fyrirtæki. Var oft unnið allan sólarhringinn.
Leitað var til varnarliðsins og voru 20 stórir vörubílar í förum frá þeim í nokkra daga frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur. Vaktir voru settar upp við birgðarskemmur í Fellaskóla, á Reykjavíkurflugvelli, í Sundahöfn og víðar.
Geysilegt sjálfboðastarf var unnið í Þorlákshöfn við uppskipun. Stofnað var til mötuneyta fyrir sjálfboðaliða, og mikil vinna hlóðst á sveitarstjórn Þorlákshafnar og víðar við ýmiss konar fyrirgreiðslu.
Þriðjudaginn 30. janúar fór Almannavarnarráð þess á leit við Rauða krossinn, að hann endurskipulegði og hefði yfirstjórn mötuneytis björgunarsveitanna í Vestmannaeyjum. Voru þá um 1000 manns að störfum í Eyjum. Var yfirstjórn í höndum tveggja sjálfboðiliða Rauða krossins, sem hafa mikla reynslu á þessu sviði og störfuðu þeir samfellt í eina viku.


Almennt um starfið í Hafnarbúðum
Þar skapaðist á nokkrum dögum geysilega sterkt og náið samstarf Vestmannaeyinga og Rauða kross-starfsmanna. Það kom á Rauða krossinn að skapa aðstöðu, útvega skrifstofuhúsgögn o.s.frv. Kvennadeild Rauða krossins vann mikið starf í húsinu til aðstoðar fólkinu. Biðraðir mynduðust víða einkum við útborgun framlaga. Þurfti oft að veita fólki aðstoð, fólki sem yfirkomið var af þreytu. Var ómetanlegt að hafa hið rúmgóða mötuneyti, þar sem veitingar voru á boðstólum allan daginn.
Var húsið þétt skipað fólki fyrstu þrjár-fjórar vikurnar, mikil spenna og órói oft ríkjandi, og álag á starfsfólki geysimikið, en allt starf unnið af óbilandi áhuga.
Föstudaginn 2. febrúar var húsnæðismiðlun Rauða krossins í Hafnarbúðum hætt og starfið tekið upp á ný í nýrri skrifstofu í Tollstöðvarhúsinu, sem tók til starfa 5. febrúar. Rauði krossinn starfrækti enn um sinn skrifstofu í Hafnarbúðum fyrir aðseturstilkynningar, en starfið var smám saman yfirtekið af starfsfólki Hagstofunnar. Mötuneytið starfaði áfram af fullum krafti.


Húsnæðis- og vinnumiðlun
í Tollstöðvarhúsinu
Tollstjóri bauð Rauða krossinum þann 29. janúar, mikið óinnréttað húsnæði í Tollstöðvarhúsinu til afnota. Var því tilboði tekið, og rýmið hólfað niður um helgina. Lögðu starfsmenn tollstjóra sig fram um að flýta innréttingu, sex símar lagðir til og bankarnir og tollstjóraembættið lögðu til húsgögn og fleira. Húsnæðsmiðluninni í Hafnarbúðum var hætt 2. febrúar og við tók miðlun húsnæðis með starfsliði bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Vinnumiðlunin flutti og í þetta húsnæði, og fengin var aðild ríkis og viðskiptabankanna þriggja. Lögðu þeir til starfsmenn, sem stuðluðu að bankalánum húsráðenda og Vestmannaeyinga til að kippa í lag húsnæði, sem taka átti í notkun með litlum fyrirvara. Var unnið á grundvelli húsnæðiskönnunar Rauða krossins. Starfið í Tollstöðvarhúsinu var skipulagt af starfsmönnum IBM og framboð húsnæðis unnið í skýrsluvélum. Var framboðið húsnæði kannað af úttektarmönnum áður en því var ávísað, og lagði Reykjavíkurborg fram þessa starfsmenn.
Hefur starfsemin í Tollstöðvarhúsinu verið óslitin síðan, og mikið og gott starf unnið. Hið framboðna húsnæði hefur reynzt veigaminna, þegar til átti að taka, en vonir stóðu til. Mörgum lausnum, jafnvel yfir 50 íbúðir, var ekki sinnt, þar sem lausnir þóttu of dýrar og fjármagn ekki fyrir hendi. Smám saman tók Viðlagasjóður frumkvæðið í húsnæðismálunum. Breyttist starfið í að kanna þörfina fyrir innflutt tréhús. Þegar þetta er ritað, hafa farið fram tvær kannanir um þessi hús og komu fram í seinni umsóknir um tæplega 900 hús.


Ráðleggingastöð Rauða krossins
í Heilsuverndarstöðinni
Hún tók til starfa 2. febrúar og hefur frá upphafi verið unnið þar í sjálfboðavinnu. Voru það læknar, félagsráðgjafar, lögfræðingar og endurskoðendur til viðtals daglega frá klukkan 17-20. Verður gerð grein fyrir þessu merkilega starfi annars staðar.


Niðurlag
Ótal önnur verkefni hafa verið í hjálparstarfinu. Má þar nefna starfsemi tveggja barnaheimila. Að Silungapolli er rekið barnaheimili ásamt hjálparstofnun kirkjunnar með starfsfólki frá Vestmannaeyjum, sem bæjarstjórn Vestmannaeyja valdi, en kaþólska kirkjan lagði fram Riftún í Ölfusi.
Einnig hefur verið komið á fót aðstöðu fyrir unglinga í Tónabæ, með söfnunarfé.
Hér hefur ekki verið greint frá óteljandi öðrum verkefnum, sem skrifstofa Rauða krossins hefur unnið í sambandi við Vestmannaeyjamálið, svo sem móttöku framlaga, útborgun reikninga, samskipta við óteljandi erlenda og innlenda aðila, stjórnvöld og sendingu á hraunmolum til útlanda.
Heildarkostnaður hjálparstarfs á vegum Rauða krossins er nú um 30 milljónir króna.
Fjárframlög þau, sem borizt hafa til Rauða krossins, nema þegar þetta er ritað um rúmlega 130 milljónum króna, auk „norsku gjafarinnar“, sem nemur tugum milljóna króna, og varið verður í samráði við Hjálparstofnun kirkjunnar og í samvinnu við bæjarstjórn Vestmannaeyja og ýmis sveitarfélög. Liggur uppgjör ekki fyrir, en fé þetta kom inn með almennum söfnunum, þar á meðal með frægum sjónvarpsþætti.
Aðstæður til hjálparstarfs í byrjun voru sérstaklega góðar. Yfir 4000 manns voru teknir opnum örmum inn á einkaheimili á nokkrum klukkustundum. Er það reyndar heimssögulegur atburður, en slíkt er mögulegt í íslenzku samfélagi. Mesta hjálparstarfið var unnið og er enn unnið á heimilum.
Allar hendur voru á lofti í skipulegu starfi til að hjálpa, en sá aðili, sem reyndi að sameina kraftana hér á Reykjavíkursvæðinu var Rauði krossinn. Einstaklega heppilegt var, að Hafnarbúðir stóðu að mestu auðar, tilbúnar til notkunar. Rauða krossinum barst strax mikið fé, sem gerði honum kleift að taka ákvarðanir í miklar framkvæmdir fyrirvaralaust.
Vill Rauði krossinn þakka allt samstarf og ekki sízt þeim 200-300 sjálfboðaliðum hans, sem gerðu allt starfið mögulegt. Þá ber að þakka hið órjúfandi samstarf og samvinnu, sem hefur jafnan verið við bæjarstjórn Vestmannaeyja og starfsmenn þeirra, forystumenn verkalýðsfélaga í Eyjum og sjálfboðaliða úr röðum Vestmannaeyinga.
Að endingu skal ekki úr því dregið, hve Vestmannaeyingar sjálfir stóðu vel að því að bjarga sér og sínum, bæði við alla flutninga á sínu fólki og seinna húsmunum, til lands, svo og við að koma sér fyrir og til vinnu. Hér var sannarlega ekki á ferðinni flóttafólk í venjulegum skilningi.“
Hér lýkur greininni í blaði Rauða krossins. Þarna eru mörg vinsamleg orð sögð og skrifuð okkur Eyjabúum til lofs og framdráttar. Blik þakkar.