Blik 1972/Tvö ljóð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



Séra ÞORSTEINN L. JÓNSSON:


Tvö ljóð


ÆTTARFYLGJAN
Á ættleifð í sveitinni Örbirgð
við allsleysi faðirinn bjó,
en áður hans afar og ömmur
þar ösluðu raunasjó.


Óðal hans réttnefnt hét Reynsla,
rytjulegt afdalabú - - -,
ættleifðin ömmu og afa,
erfingja fyrrum og nú.


Hver kona' er þar kinnfiskasogin,
krangaleg beinagrind,
þvi örbirgðin engan fitar,
en aflagar kvenlega mynd.


Bóndinn þrælar og þraukar,
þolinmóður sem klár,
hann kvartar samt aldrei né kveinar,
en kaldur hið ytra og fár.


Það syrtir oft að, því að sorgin
sækir þau óvænt heim,
svo táraperlur af trega
tindra hjá báðum þeim.


Þar efldist enginn af auði,
en andstreymi meir en nóg --,
hver bóndi varð ríkur af raunum,
svo ríkur, að loks hann dó.


AFMÆLISKVEÐJA
frá sjálfum mér, til min sjálfs
á 65 ára afmælinu, 19. júli 1971.
Allar mínar bænir beztu
berist þér með skeytinu,
að þær megi á þér rætast
út að hinzta leitinu.
Á gleðistund með geði og festu
gerðum þínum stilltu í mát,
en þegar að þér sorgin sækir
sigra', en ekki bugast lát.


Þitt innra líf er einkasaga,
með átök sár í lundinni,
slæm afleiðing af orsök hverri
angrar þig á stundinni.
Holdsins vill það orku aga,
eins þinn tala fyrir munn --,
forða þér frá villu' í verkum,
vitleysu, sem þér er kunn.


Lífið er í Herrans höndum,
herðist upp með seiglunni,
þú skírist sem hinn skærsti málmur
skínandi úr deiglunni,
siglir fyrir seglum þöndum,
við sjónarmiðin stefnu fest,
en þér mun reynast hismi og hálmur,
ef höfn og markmið hvergi sést.