Blik 1972/Páll Pálsson, kennari og jökulfari

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Páll Pálsson, barnakennari og jökulfari

Barnakennari í Vestmannaeyjum 1874-1875


Vorið 1959 birtist í Bliki 1. kafli sögu barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum. Sú grein mín fjallaði um stofnun og starfrækslu fyrsta barnaskóla á Íslandi. Var hann starfræktur hér í byggð á árunum 1745-1766. Þar kenndu fyrir lítinn og engan pening meðhjálpararnir við Landakirkju, þeir sómabændurnir Nathanel Gissurarson á Vilborgarstöðum og Bjarni Magnússon í Norðurgarði.
Árið eftir (1960) birti ég svo 2. kafla fræðslusögunnar, sem fjallaði um tímabilið 1800-1880, að fastur barnaskóli var stofnaður í Vestmannaeyjum.
Á þessu tímaskeiði er getið eins manns, er bar barnakennaratitilinn og starfaði að barnakennslu í Eyjum. Það var Páll Pálsson, nefndur jökull eða jökulfari að viðurnefni. Óska ég þess, að Blik geymi nokkur orð um ævi þessa manns, þar sem vitað er, að hann kenndi hér börnum, sem síðar urðu áberandi borgarar í byggðarlaginu, athafnamenn og forustumenn í félagsmálum Eyjabúa.
Ekki ber síðari tíma bókmenntum saman um það ár, er Páll Pálsson dvaldist við barnakennsluna hér í Eyjum. Kennaratal á Íslandi segir hann dveljast hér á áratugnum 1860-1870, en þá er Páll þessi við nám í Lærðaskólanum í Reykjavík. Hann hóf þar nám haustið 1866 og stundaði námið næstu 4 veturna, en hætti þá námi.
Önnur frásögnin á prenti segir Pál Pálsson kennara í Eyjum veturinn 1873-1874 og hefur þá fullyrðingu eftir merkum sögugrúskara, sem eitt sinn var hér búsettur. Ég þori að fullyrða, að það ártal er heldur ekki rétt.
Séra Brynjólfur Jónsson að Ofanleiti færði kirkjubækur Landakirkju skýrt og skilmerkilega, svo að fá eru dæmi um nákvæmari og greinarbetri færslur skýrslna á því sviði. Prestur segir skýrum stöfum, að Páll Pálsson, barnakennari, eins og prestur titlar hann, hafi dvalizt hér veturinn 1874-1875 og búið í Jómsborg, en húsmóðir þar var þá frú Jórunn Jónsdóttir prests Austmanns, ekkja 53 ára. Þetta var árið eftir að þau hjónin Gísli Engilbertsson og Ragnhildur Þórarinsdóttir fluttu frá Jómsborg í verzlunarhúsið Júlíushaab, þar sem hann gerðist þá verzlunarstjóri. Þess vegna fékk barnakennarinn inni í Jómsborg, þó að óvíst sé, hvort hann kenndi þar eða annars staðar.
Páll barnakennari Pálsson var fæddur að Hörgsholti á Síðu 17. ágúst 1848. Foreldrar hans voru hjónin Páll „snikkari“ Pálsson prófasts á Prestbakka og konu hans frú Guðrúnar Guðjónsdóttur, sem var alsystir Péturs Guðjónsens tónlistarmanns, söngkennara og svo organleikara við dómkirkjuna í Reykjavík.

ctr


Páll jökulfari og kennari Pálsson, með tveim börnum sínum: Guðrúnu Friðrikku og Júlíusi.


Páll barnakennari átti ættir að rekja til gáfaðra í báðar ættir og hafði ekki sjálfur farið varhluta af gáfum ættmanna sinna og dugnaði, þó að honum yrði minna úr en efni stóðu til, eins og svo mörgum öðrum, því miður.
Páll Pálsson lærði undir skóla hjá föðurbróður sínum, séra Páli Pálssyni á Prestsbakka, sem var kunnur gáfu- og mælskumaður. Síðan hóf Páll nám í Lærða skólanum haustið 1866, þá 18 ára gamall. Fjóra næstu vetur stundaði hann námið þar og stefndi að stúdentsprófi. En hann gafst upp eftir þessa fjóra vetur. Næstu vetur bendir margt til þess, að hann hafi stundað barnakennslu á vetrum en unnið við búskap hjá bændunum í Vestur-Skaftafellssýslu á sumrum.

Vorið 1874 kemur Mr. William Watts, enskur lávarður, vísindamaður og jöklakönnuður, til Íslands með þeirri fyrirætlan að ganga yfir Vatnajökul um sumarið. Þegar leið á sumarið og veðrátta lofaði batnandi ferðaveðri yfir jökulinn, tók Mr. Watts sér ferð á hendur austur í Skaftafellssýslu. Fyrst og fremst vildi hann hitta að máli prestinn á Prestsbakka, því að honum treysti hann bezt til þess að leggja á viturleg ráð, svo mikið hafði hinn enski lávarður heyrt af viti hans og snilldarráðum látið, dugnaði hans og forustuhæfileikum. Þá hafði séra Páll verið prestur í Skaftafellssýslu undanfarin 12 ár og þingmaður Skaftfellinga 4 ár (1869-1873).
Árangurinn af viðræðum hins enska lávarðar við prestinn varð sá, að séra Páll kveður frænda sinn, Pál barnakennara Pálsson til fylgdar við Englendinginn. Prestur þekkti bezt dugnað Páls kennara, ferðahæfni hans og hestamennsku, en án góðra hesta yrði þessi jökulferð trauðla farin. Fleiri menn þurfti til fararinnar, og voru þeir ráðnir í samráði við prestinn og Pál kennara.
Jökulferðin hófst frá Núpstað 12. ágúst (1874). Brátt efldist traust hins enska ferðagarps á Páli ferðafélaga sínum, svo að gagnkvæmt traust ríkti milli þessara manna.
Þetta var fyrsta ferð yfir Vatnajökul, svo að skráanleg kynni væru af, enda þótt sögusagnir væru þá enn lífs í Austur-Skaftafellssýslu um ferðir Norðlendinga suður yfir jökulinn, er þeir stunduðu sjó á vertíðum suður í Suðursveit um langan aldur. Það var á miðöldum hinum síðari.
Daginn eftir að ferðin hófst, eða 13. ágúst, komu ferðagarparnir að felli nokkru, sem stendur þar í jöklinum. Það hreykti sér þar upp úr snæbreiðunni miklu. Þetta fell kaus Mr. Watts að kenna við hinn ötula og trausta ferðafélaga sinn, og kallaði Pálsfell. Svo heitir það síðan. Pálsfell er í hánorður frá bænum Kálfafelli og er 1.335 m hátt.
Þeir héldu nú norður fyrir Pálsfell vongóðir um sigur og sæld að leiðarlokum. En ferð þessi fór á annan veg. Norður á jöklinum, ekki ýkja langt norður af Pálsfelli, áttu þeir við farartálma og hættulega erfiðleika að stríða, sem þeir uppgötvuðu þá, að þeir væru ekki menn til að sigrast á sökum vanbúnaðar. Sá vanbúnaður stafaði af ókunnugleika á ferðalögum um þessar hættuslóðir. Það varð að ráði á milli þeirra ferðafélaganna, að þeir skyldu snúa aftur og ekki hætta á lengri jökulferð að því sinni, heldur búa sig betur út til annarra Vatnajökulsferðar næsta sumar (1875).
Áður en þeir félagar skildu, afréðu þeir að stefna að Vatnajökulsferð næsta sumar (1875). Skyldi þá allur undirbúningur byggður á þeirri reynslu, er þeir höfðu hlotið á ferð sinni um sumarið norður fyrir Pálsfell.
Haustið 1874 verður það að ráði, að Páll Pálsson flyzt til Vestmannaeyja og gerðist þar barnakennari.
Eins og ég drap á, fékk hann inni í tómthúsinu Jómsborg, því að þar var dálítið húsrými laust, eftir að Gísli verzlunarstjóri Engilbertsson flutti úr húsi þessu um vorið í verzlunarhúsin á Tanganum, verzlunina Júlíushaab, þar sem hann gerðist þá verzlunarstjóri. Í Jómsborg bjó Páll kennari þennan vetur (1874-1875), og líkindi eru til þess, að þarna hafi hann einnig stundað kennslustörfin, svo lítið sem var um hæfilegt húsnæði til skólahalds í byggðinni.
Aðeins hinir efnaðri feður í Eyjum gátu kostað börn sín í skólann hjá Páli. Ástæða er til að ætla, að skólagjaldið hafi verið á milli 10 og 15 krónur á nemanda hvern fyrir allan veturinn. Álykta ég þá eftir því skólagjaldi, er afráðið var, er föstum barnaskóla var komið á í Eyjum árið 1880.
Ef til vill hefur barnakennarinn fengið einhver matvæli að auki við skólagjaldið eða fengið það allt greitt með matvælum. Ekki kom til mála, að allur þorri Eyjabúa hefði efni á að greiða þetta skólagjald, svo að börn þeirra og unglingar fengju notið kennslunnar hjá Páli Pálssyni.
Séra Brynjólfur Jónsson tekur það beinlínis fram í kirkjubókinni, hvaða börn, sem komin voru að fermingu, njóti kennslu í barnaskóla Páls. Öll eru þau börn hinna efnaðri heimilisfeðra. Prestur nefnir tvö börn Jes Thomsen verzlunarstjóra Miðbúðarinnar, þá Nicolai og Jóhann, dóttur hreppstjórahjónanna í Stakkagerði, Jóhönnu Árnadóttur Diðrikssonar, þrjú börn hjónanna á Vilborgarstöðum, Árna meðhjálpara Einarssonar og Guðfinnu Jónsdóttur, þau Þórdísi, Lárus og Kristmund. Þá gekk í skólann Margrét Þorsteinsdóttir héraðslæknis Jónssonar og Sigríður Ingimundardóttir bónda og útgerðarmanns á Gjábakka.
Prestur tekur ekki fram um skólagöngu hinna yngri barna til Páls kennara. Þetta álykta ég út frá Gísla Lárussyni á Búastöðum, síðar hinum kunnasta borgara hér í bæ. Hann tjáði mér eitt sinn, er við tókum að kynnast og ræða sögulega viðburði hér í byggð, að hann hefði notið kennslu þennan vetur hjá Páli Pálssyni. En hann var 9 ára um haustið 1874 (f. 1865), er hann tók að læra hjá honum skrift og reikning. Svo mun hafa verið um fleiri af hinum yngri börnum hinna efnaðri borgara.
Þegar Páll hafði lokið barnakennslunni í Eyjum vorið 1875, fluttist hann austur til frænda sinna og vina í Skaftafellssýslu. Um sumarið hittust þeir svo aftur, ferðafélagarnir, jökulfararnir, og fastréðu ferð sína yfir jökulinn á ný. Mr. Watts fól Páli að útvega hesta og samferðamenn, hjálparmenn á jökulferðinni. Lesa má af frásögn Mr. Watts af ferð þessari, að ókleift hefði honum reynzt að efna til þessarar ferðar og sigrast á öllum þeim erfiðleikum, er mættu þeim á ferðalaginu, án röskleika Páls kennara, dugnaðar hans og fyrirhyggju.
Ferð þessi norður yfir Vatnajökul varð allsöguleg og skrifaði Mr. Watts um hana og Íslandsferðir sínar heila bók, sem kom út í íslenzkri þýðingu fyrir fáum árum. (Jón Eyþórsson, veðurfræðingur þýddi bókina).
Til Reykjavíkur komu þeir aftur úr jökulferð sinni hinni síðari, seinast í ágúst (1875). Blaðið Þjóðólfur segir frá komu þeirra félaga suður 2. september með þessum orðum : ,,Mr. Watts og félagi hans Páll Pálsson eru komnir að norðan og ætla utan með póstskipinu.“ Þannig voru þeir Mr. Watts, sem kostaði jökulförina, og Páll kennari, nefndir í sama orðinu um hetju- og glæfraferð þessa, sem hafði næstum kostað þá lífið, því að þeir hrepptu stórhríð á leiðinni yfir jökulinn.
Hálfur sannleikur var það um utanför þeirra, því að Mr. Watts fór utan með póstskipinu, en Páll kennari og jökulfari fór austur til Skaftfellinganna sinna og lengra þó. Hann efndi til brúðkaups síns með Önnu Ingibjörgu Sigurbjarnardóttur prests að Kálfafellsstað Sigfússonar. Kona séra Sigurbjörns var mad. Guðný Friðrikka Pálsdóttir prests að Sandfelli Thorarensen.
Séra Sigurbjörn Sigfússon var fallinn frá, þegar hér var komið sögu, og prestsekkjan flutt frá Kálfafellsstað að Brunnum, sem er jörð í nágrenni Kálfafellsstaðar þarna í Suðursveitinni.
Frú Ingunn Jónsdóttir frá Kornsá sat brúðkaup þetta og fer nokkrum orðum um það í bók sinni Gömul kynni. „Gleðskapur var þar mikill og óspart veitt áfengi. En hvernig sem reynt var að skemmta sér, fannst mér og sumum öðrum þetta vera átakanlegur sorgarleikur. Brúðurin var tæplega komin af barnsaldri og var þó enn meira barn að lífsreynslu og grunaði minna en marga aðra, hvaða kjör biðu hennar. Auðséð var, að hún bar ótakmarkaða ást og traust til bóndans, en það datt víst engum öðrum í hug, að hann yrði nokkru sinni nákvæmur eða umhyggjusamur heimilisfaðir, enda var síðar sagt, að hún hefði orðið fullsödd lífdaganna í sambúðinni við hann.“ Þetta voru orð frú Ingunnar eftir bók hennar, er ég nefndi. Forleikur harmleiks settur á svið! Og ástæðan? - Páll barnakennari hafði þegar leyft snáki ógæfunnar að hringa sig á botni lífsbikarsins: Hann var þegar orðinn áfengisneytandi, þræll áfengisnautnarinnar, þessi dugmikli og gáfaði maður. Þetta vissu og skildu brúðkaupsgestirnir, og þess vegna bauð þeim í grun.
Ungu hjónin bjuggu fyrst á Brunnum hjá prestsekkjunni móður Önnu, hinnar ungu húsfreyju. En brátt fluttu þau austur í Lón og tóku að búa á jörðinni Hraunkoti þar í sveit. Ekki festu þau rætur þar, heldur fluttu þau aftur vestur í Suðursveit og bjuggu á jörðinni Skálafelli þar um sinn.
Eftir 7 ára búskaparbasl í Austur-Skaftafellssýslunni, flytja þessi hjón austur á Seyðisfjörð og setjast að á Vestdalseyrinni. Það var árið 1882. Þá var uppgangur mikill á Seyðisfirði og víðar þar austurfrá sökum síldveiða Norðmanna þar. Á Vestdalseyrinni vann Páll jökulfari venjulega verkamannavinnu. Landbúskapinn hafði hann lagt að fullu á hilluna.
Á Vestdalseyrinni dvöldust þessi hjón í 15 ár við ömurleg lífskjör vegna óreglu Páls og ástleysis gagnvart konu sinni, þessari indælu konusál og göfugu mannveru, eins og kunnugir orðuðu það, er þeir minntust hennar. Drykkjuskapur hans varð þeim báðum til hinnar hörmulegustu ógæfu.
Annað veifið dvaldist Páll Pálsson utan heimilis síns, leitaði sér atvinnu utan Seyðisfjarðar, jafnvel suður á Reykjanesi.
Anna kona Páls lézt árið 1897. - Eftir andlát húsfreyjunnar leystist heimilið upp, og yngstu börnunum var komið í fóstur til skyldmenna eða vandamanna. T.d. var tveim börnunum komið í fóstur norður í Vopnafjörð eftir fráfall móðurinnar. Hvað varð svo um föður barnanna. Erfitt er að komast að því sanna í þeim efnum. Drykkjusakapurinn olli því, að þessi gáfaði dugnaðarmaður, Páll Pálsson jökulfari, fór gjörsamlega í hundana eins og svo mörg átakanleg dæmin gerast enn á landi okkar Íslandi. Árið 1898, árið eftir að frú Anna dó, segir í kirkjubók sóknarinnar, að Páll Pálsson sé farinn ,,á Fjöll“, eftir að hann hafi dreift börnunum út um hvippinn og hvappinn, en börn þeirra hjóna urðu sex talsins.
Eftir fráfall eiginkonunnar mun Páll Pálsson jökulfari, eins og hann nefndi sig oft sjálfur, hafa haft ofan fyrir sér með ferðamennsku á sumrum og barnakennslu í einhverri mynd á vetrum.
Árið 1903 flyzt hann að Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum og síðan að Hlíð til Páls bónda, hálfbróður síns. Á árunum 1905-1908 á Páll jökulfari heima á Höfðabrekku í Hvammshreppi. Er hann þá öðrum þræði a.m.k. sýsluskrifari hjá Björgvin sýslumanni Vigfússyni. - Síðar gerðist hann aftur heimiliskennari hjá bróður sínum í Hlíð og andaðist þar 21. júlí 1912.
Börn hjónanna Páls og Önnu voru þessi:
1. Guðrún Friðrikka, sem giftist Sigmundi Jónssyni Long trésmið í Vestmannaeyjum. Þau skildu. Eftir það dvaldist Guðrún Pálsdóttir um árabil austur á Nesi í Norðfirði og mun hafa andast þar 13. maí 1916.
2. Sigbjörn, fæddur 15. desember 1878. Dó ungbarn.
3. Einar Árni Páll, fæddur 9. apríl 1880. Lézt árið 1899.
4. Guðlaug Sigríður, fædd 19. október 1885. Húsfreyja í Reykjavík. Lézt 1945.
5. Júlíus, fæddur 29. nóvember 1886, búfræðingur að menntun og bóndi á Karlsstöðum í Arnarfirði og síðar í Austmannsdal í sömu sveit, að mér er tjáð.
6. Lára Magnea, fædd 2. nóvember 1892, húsfreyja í Reykjavík, giftist Þorsteini Sigurðssyni trésmíðameistara.
Tvö börn hjónanna létust kornbörn.
Árið 1902 eignaðist Páll jökulfari son með Guðlaugu Ólafsdóttur vinnukonu á Heiði í Mýrdal. Það er Páll Pálsson hinn kunni myndar- og merkisbóndi að Litlu-Heiði í Mýrdal.
Lýsing á Páli Pálssyni jökulfara: ,,Föngulegur, svarthærður, mikill yfir sig, greindur og léttur í máli, en vínhneigður og fremur staðfestulítill.“
Frú Ingunn Jónsdóttir frá Kornsá skrifar: ,,Hann kom ævinlega á nótt eða degi eins og hvirfilvindur. Maður vissi varla af honum fyrr en hann var kominn inn í baðstofu, hlæjandi og syngjandi, - masandi. Frá mörgu kunni hann að segja, því að víða hafði hann farið og þekkti fólk um land allt og sagði oft fjörlega frá, en eins og fleiri ættmönnum hans hafði honum hlotnazt meira af gervileik en gæfu.“ Frú Ingunn dvaldist á ungum árum í Suðursveit og þar kynntist hún þessum háttum Páls jökulfara.
Við þessi orð frúarinnar vildi ég aðeins bæta þessum orðum: Ógæfa Páls jökulfara var áunninn hann bakaði sér hana sjálfur. Á yngri árum sínum var honum farið eins og svo mörgum ungum manninum íslenzka fyrr og síðar: hann vandi sig á neyzlu áfengis til þess að geta ,,talizt maður með mönnum“. Þessi hugsunarháttur varð honum sú ógæfa, sem fylgdi honum ævilangt. Og sú ógæfa virtist loða við suma afkomendur hans. T.d. var barnabarn Páls jökulfara einn kunnasti róni og auðnuleysingi hér í Vestmannaeyjum um skeið, „ólánsgreyið“, sem Guðrún ljósmóðir Magnúsdóttir stuggaði við í kjallaraganginum við Vestmannabrautina forðum daga, þegar hann vildi hrella frú Åsbö. (Sjá gr. um ljósmóðurina hér í ritinu).