Blik 1972/Magnús Þ. Jakobsson frá Breiðuhlíð í Mýrda

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



Magnús Þórbergur Jakobsson
frá Breiðuhlíð í Mýrdal


Magnús Þ. Jakobsson.

Hann fæddist að Breiðuhlíð í Mýrdal 16, september 1903. Foreldrar hans voru bóndahjónin þar, Jakob Björnsson og Guðríður Pétursdóttir. Þau hjónin voru bæði Mýrdælingar í ættir fram, að mér er tjáð.
Hjónum þessum varð 10 barna auðið og komust 6 þeirra til þroskaára. Eitt systkinanna er hér búsett og hefur verið það um tugi ára, Björn Jakobsson, starfsmaður Landsímans hér í kaupstaðnum.
Árið 1907 hættu bóndahjónin Jakob og Guðríður að búa í Breiðuhlíð og fluttu þá með allan barnahópinn sinn til Víkur, kauptúnsins í sýslunni. Í Vík stundaði Jakob Björnsson bæði smíðar og sjósókn. Hann var völundur bæði á tré og járn og dugnaðarsjómaður, þegar hann snéri sér að þeim störfum.
Hinn 26. maí 1910 voru Víkverjar að skipa upp vörum úr vöruflutningaskipi, sem lá þar úti fyrir ströndinni. Þá brimaði skyndilega, svo að slys hlauzt af. Sex menn drukknuðu í lendingunni. Einn af þeim var Jakob Björnsson fyrrum bóndi í Breiðuhlíð.
Þá var það Sæmundur Jakobsson, sonur þeirra hjóna, sem tók að sér forsjá heimilisins með móður sinni, ekkjunni Guðríði Pétursdóttur. Og árin liðu og yngsti bróðirinn, Magnús, náði fermingaraldri. Þá knúði hin ofurharða lífsbarátta á, svo að Magnús Jakobsson hóf að stunda sjó með bræðrum sínum út frá hinni hafnlausu strönd. Þannig liðu fjögur næstu árin. Árið 1921 réru þrír bræðurnir á einu og sama opna skipinu úr Víkurvör. Þá varð aftur slys. Skipinu, sem bræðurnir réru á, hlekktist á í lendingu. Eldri bræður Magnúsar, Sæmundur og Kári, drukknuðu báðir. Magnúsi varð með naumindum bjargað.
Þar bjó þá ekkjan Guðríður Pétursdóttir eftir með yngsta soninn og dætur sínar tvær, sem yngstar voru systkinanna.


ctr


Kauptúnið Vík í Mýrdal 1920.


Nú féll það í hlut Magnúsar að vera fyrirvinna móður sinnar og systranna tveggja, þar sem Björn dvaldist annars staðar.
Að tveim árum liðnum lézt móðirin Guðríður Pétursdóttir. Það var árið 1923. Fáar konur höfðu svo hörmulega fengið að kenna á hinni skelfilegu lífsbaráttu Vestur-Skaftfellinga við öflun fæðunnar úr djúpi sjávarins eins og hún. Raunir hennar og hin sára lífsreynsla voru táknrænar. Hvergi í hinum landsfjórðungunum var bændum og búaliði búið svo tíðum grand eins og við hina hafnlausu sandströnd Suðurlandsins, ef þeir höfuð kjark og dug og hug til að draga sig til bjargar á sæ út.
Eftir fráfall móðurinnar bjuggu systkinin þrjú saman næstu þrjú árin. En svo skildu ýmsir atburðir þau að eins og gengur. Systurnar eiguðust með tímanum sín eigin heimili og Magnús fluttist til Vestmannaeyja. Það var árið 1928. Þá réðst hann sjómaður að útgerð Stefáns Björnssonar í Skuld (nr. 40 við Vestmannabraut) og þeirra hjóna sem áttu og gerðu út vélbátinn Skallagrím VE 230. Upp frá því batzt Magnús Jakobsson því heimili, svo að nálega mun einsdæmi vera á þessum tímum með svo breyttum þjóðfélagsháttum.
Í Skuld dvaldist Magnús síðan meir en 40 ár og var þar eins og einn af fjölskyldunni, nánast eins og eitt af börnum hinna öldruðn hjóna.
Magnús Jakobsson réri á bát þeirra hjóna um tvo áratugi, fyrst óbreyttur háseti, þá vélstjóri og síðast formaður fyrir bátnum.
Um 1950 hætti hann að stunda sjó og réðst að smíðaiðn. Árið 1952 gerðist hann fastur starfsmaður hjá vélsmiðju Þorsteins Steinssonar við Urðaveg. Því starfi hélt hann við mikinn og góðan orðstír til hinztu stundar. Magnús Þ. Jakobsson lézt af slysförum 7. febrúar 1970.
Mér þykir hlýða að taka hér upp kafla úr ræðu sóknarprestsins okkar við kistu Magnúsar Þ. Jakobssonar í Landakirkju, er hann var jarðsettur 14. febrúar 1970. Séra Jóhann Hlíðar komst þannig að orði:
„Það var ekki aðeins, að Magnús væri ósérhlífinn verkmaður og húsbóndahollur, heldur fjölhæfur hagleiksmaður. Ef vélstjóra vantaði, þá tók hann að sér vélstjórastarfið. Vantaði formann, þá var Magnús sjálfkjörinn í það vandasama ábyrðarstarf. Hann reyndist hvarvetna traustur og heill, - reiðubúinn og hjálpfús, hver sem til hans leitaði og hvenær sem vera vildi. Þannig var það og með sjómennsku hans, að síðustu árin, sem Stefán (Björnsson) gerði út, fól hann Magnúsi formennsku, og fórst honum hún vel úr hendi, var aflasæll og hafði vinsemd og virðingu allra þeirra, sem þekktu hann.
Eins og siður var þá, er menn réðust til skips, höfðu þeir líka húsaskjól og kost hjá húsbændum sínum. Þannig atvikaðist það, að Magnús kom í Skuld og naut vináttu og trúnaðartrausts hjónanna Stefáns og hans einstöku gæðakonu Margrétar Jónsdóttur. Og í heimili hennar hafði Magnús verið full 40 ár, er hann var kvaddur á braut 7 þ.m. (7. febrúar). Magnús mat húsbændur sína að verðleikum, og virðing hans fyrir Margréti og þakklæti hans til hennar fyrir allt hennar viðmót og hlýhug og umhyggju og vináttu, verður ekki með orðum lýst. Hann hafði orð á því við mig, að hún hefði alla tíð verið sér sem bezta móðir. Og þannig reyndist hann henni öll árin sem bezti sonur. Hann batzt vinar- og bróðurböndum við börn þeirra hjóna og reyndist barnabörnum Margrétar og Stefáns sem sannur föður- eða móðurbróðir, hugulsamur, nærgætinn, hjartahlýr og þolinmóður og ráðhollur vinur ... Hann var sannur barnavinur.“
Við, sem þekktum Magnús Þ. Jakobsson vel og nutum vinarþels hans og hins einstaka velvilja til daglegra starfa okkar og athafna, vitum að presturinn okkar segir hér ekki of mikið. Og það mun einstakt dæmi og sérlegt, að aðkomumaður, sem leitar sér hér atvinnu á vertíð, ílendist hér um tugi ára og svo að segja grær við sama heimilið, verður sem eitt af börnum hjónanna, sem hann ræðst til og starfar fyrir. Ég hygg, að fátt sanni betur ríkjandi mannkosti beggja vegna. Og vináttan, fórnarlundin, nærgætnin og hugarhlýjan, hvað er gleggra dæmi um fagurt mannlíf?
Magnús Jakobsson var einlægur og heitur trúmaður og skynjaði nálægð og leiðandi hönd, sem svo mörgum er alltof oft hulinn. Er hér ekki fundin undirstaða hins fagra mannlífs?
Að lokum óska ég að geta þess, að þessi vinur okkar og velvildarmaður var vel hagmæltur, svo að ekki sé of mikið sagt. Hann orti mikið, sérstaklega á seinni árum. Í ljóðum sínum tjáði hann kenndir sínar gagnvart hinu fagra, sem hann skynjaði í náttúrunnar ríki, þjóðlegum háttum og siðum og heimabyggðunum í Skaftafellssýslu, sem hann unni.
Í Bliki 1967 voru birt nokkur ljóða hans og hér koma enn nokkur, sem tjá okkur kveðskap hans og kenndir.

Þ.Þ.V.
Ómar
Þegar tónar lífsins ljóða
líða um í vitund minni,
strýkur „dísin“ strengi góða,
straumur fer um sálar inni.


Morgundýrð
Fjöllin sveipast fögrum skrúða,
fagur dagur risinn er,
jörðin glitrar öll í úða,
ó, hvað nú er dýrðlegt hér.


Sólin gyllir loftið logum,
lífið fyllir unaðssýn,
og í stilltum víkum, vogum
vefur snilli töfralín.


Ég dái fegurð
Ég dái þá, sem fagurt mæla mál,
en mest samt þá, er hafa bjarta sál.
Ég dái jökul, fjallsins bröttu brún,
býli fögur, þeirra iðgræn tún,
fugla loftsins, líf þeirra og söng,
litskrúð vorsins, sumarkvöldin löng.


Fellibylur
Lyftir, sviftir, sundur kremur,
sogar, lemur fellibylur.
Eyðir, deyðir, ógnum veldur,
áfram heldur, eftir skilur.


Kvenlýsing
Þú ert kona hýrleg, hrein,
hreinn kvistur af sterkri grein,
allvel gild og efnisrík,
ávexti hverjum góðum lík.


Misjöfn túlkun
Einn segir, að orðin mín
aðeins séu hjóm.
Annar leggur á þau
öðruvísi dóm.
En þau mun enginn skilja
alveg eins og ég,
því að engra leiðir liggja
lífs um sama veg.


Í næturró
Er himinljósin blika björt
í blíðri næturró
og slæða breiðist ljúf og létt
um landið milt og sjó,
þá er svo yndis unaðsríkt
að eiga draumaval,
að láta huga leika sinn
um lífsins töfradal.


Sumarkoma
Baðar Eyjar ljósið ljúfa,
ljómandi er risinn dagur.
Um loftið þýtur draumadúfa
drifin gulli, - batnar hagur.


Að sunnan komnir sumarboðar
syngjandi á vængjum þöndum,
fyrir sumri senn nú roðar,
sviptist jörðin klakaböndum.


Allt úr dróma leysist lífið,
léttir yfir hugum manna,
fuglar kliða, vermist vífið,
voldug ástin flest mun spanna.


Rós út springur, grænkar grundin,
grænum skrúða landið klæðist,
lifnar allt, - já, stór er stundin,
- stór, þá líf að nýju fæðist.
Vestmannaeyjum 1968.


Spörvinn
Ó, litli, ljúfi vinur,
svo léttur, fagur, hreinn,
situr þú og syngur ljóð,
þótt sætið þitt sé steinn.


Og ljóðið þitt hið ljúfa
það líður eins og blær
út yfir mjúkan móinn
og margra eyrum nær.


Ég hlusta á þig hrifinn
og hugsa um það nú,
hvað lofgjörð þín til lífsins
er ljós og full af trú.


Ég hlusta á þig hrifinn
og hugsa um það nú,
landið missti ærinn auð,
ef aldrei sæist þú.


Vetrarkvöld
Ó, blessað kvöld, ég birtu gleðst af þinni,
er beinir augum ofar jörðu mínum.
Þú vekur frið og fögnuð innst mér inni
með undrafögrum himinljósum þínum.
Og kyrrð þín djúp fer um mig ástareldi,
þú ert mér skin frá alvalds dýrðarveldi.