Blik 1972/Guðrún Magnúsdóttir, ljósmóðir

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1972ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Guðrún Magnúsdóttir, ljósmóðir
1851-1936


Guðrún Magnúsdóttir, ljósmóðir.

Í Bliki 1960 og 1961 var minnzt tveggja merkiskvenna hér í byggðarlaginu, tveggja ljósmæðra, sem störfuðu hér um tugi ára, fórnuðu mörgum fátækum heimilum vinnu og margskyns aðstoð á ýmsa lund og settu svip sinn að sínu leyti á umhverfið. Þetta voru þær ljósmæðurnar Anna Benediktsdóttir, síðast búsett í Vanangri við Urðaveg, og Þóranna Ingimundardóttir í Nýborg við Njarðarstíg.
Hér óska ég að minnast þriðju ljósmóðurinnar, sem um tveggja áratuga skeið bar sinn hita og þunga af starfinu, var jafnan andlegur máttur snauðra mæðra og hjálparhellan mikla, þegar á bjátaði, enda þótt efni hennar væru ekki svo ýkja mikil. Og verður þó að segja það eins og það var, að efnahagur vestmannaeyískra heimila var mun betri á hennar starfsskeiði en hinna tveggja, sem ég nefndi.
Guðrún ljósmóðir Magnúsdóttir var sérleg kona sakir margra hluta; skörungur var hún, hreinlynd og djörf vitsmunakona, sem hafði reynt alveg óvenjulega miklar raunir og harma. En hverjir vissu það eiginlega af kunningjum hennar? Fáir, því að hún bar ekki harminn utan á sér og tjáði fæstum liðnar harmastundir. Hún lifði langa ævi og sýndi og sannaði til hinztu stundar hvílikri hetjulund hún var gædd, miklum vitsmunum og óvenjulega ríkri dómgreind bæði gagnvart sjálfri sér og öðrum, sem urðu á leið hennar eða höfðu samskipti við hana.
Æviferli fárra kvenna hefi ég kynnzt, sem var svo þrungin harmi og sorg, eins og ævi Guðrúnar Magnúsdóttur. En hverjir vissu það, spyr ég aftur? Aðeins fáir hennar nánustu. Þyngstu raunirnar hafði hún liðið, áður en hún fluttist hingað til Eyja og bar ekki minnin um þær á torg hér í byggð. Þögul um sorgir sínar og harma lifði hún sínu fábreytilega lífi með fágæddri hetjulund og hugprýði. Sálarlífið var hreint og fágað. Hún var trúuð kona og leitandi sál. Styrk og traust fann hún einvörðungu í trú sinni og trausti á algæzkuna.
Við hvörflum huga að bænum Dalseli, sem er einn af Hólmabæjunum í Vestur-Eyjafjallahreppi. Þar bjuggu um árabil fyrir og um miðja 19. öldina, sæmdarhjónin Magnús bóndi Þóroddsson og Guðríður Ólafsdóttir frá Múlakoti í Fljótshlíð. Bóndinn fylgdi öldinni að árum, fæddur um aldamótin 1800, en húsfreyjan var 12 árum yngri.
Dalselshjónin nutu trausts og virðingar samsveitunga sinna sökum mannkosta. Svo voru þau líka vel bjargálna, og þótti það jafnan grundvöllur til virðingar og metorða hinum snauðu íslenzku sveitum. En ríkust voru þessi hjón í sjálfum sér, lífshamingju sinni og barnaláni.
Þegar hér er komið sögu, eiga hjónin í Dalseli, Magnús og Guðríður, fjögur uppkomin börn, sem enn dveljast í foreldrahúsum.
Þóroddur sonur þeirra var elztur. Í fyllingu tímans kvæntist hann æskuvinkonu sinni, Kristínu Loftsdóttur bónda Guðmundssonar á Tjörnum þarna sunnar á Hólmabæjasvæðinu (nú í eyði). Þá hafði Magnús bóndi Þóroddsson, faðir hans, legið í gröf sinni um tveggja ára skeið.
Þóroddur og Kristín giftust árið 1871. Hún var kona vel gefin eins og þau systkini öll. En hún var heilsuveil. Gekk með sullaveiki.
Eftir þriggja ára hjónaband og húsfreyjustörf í Dalseli, leitaði hún sér lækninga hjá Þorsteini héraðslækni Jónssyni í Vestmannaeyjum. Hún var þá lögð inn á sjúkrastofu læknisins hjá frú Sigríði Árnadóttur í Frydendal. Þar lézt Kristín Loftsdóttir úr sullaveikinni 25. okt. 1874.
Annað barn þeirra Dalselshjóna, Magnúsar bónda Þóroddssonar og Guðríðar húsfreyju Ólafsdóttur, hét Karítas. Hún giftist Andrési bónda í Hól undir Eyjafjöllum. Dóttir þeirra var Guðríður heitin Andrésdóttir, kona Guðmundar Guðmundssonar í Hrísnesi við Skólaveg (nr. 12).
Þriðja barn Dalselshjónanna var Ólafur. Sonur hans var Þorsteinn heitinn Ólafsson, sem kenndur var hér við Vesturhús eystri, þar sem hann bjó með konu sinni um árabil. Þau eignuðust 17 börn. Ekkjan og nokkur börn þeirra hjóna búa enn hér í kaupstaðnum.
Fjórða og yngsta barn þeirra Dalselshjóna var svo Guðrún ljósmóðir Magnúsdóttir, sem ég geri hér að söguhetju minni að þessu sinni. Áf ásettu ráði hef ég hér að framan nefnt nokkurt ættfólk hennar, sem hér var og er búsett. (Sjá neðanmáls *).
* Sökum hinna mörgu afkomenda Lofts bónda Guðmundssonar á Tjörnum, sem hér búa, þykir mér rétt að nefna barnabörn hans, sem settust hér að á fyrsta og öðrum áratug aldarinnar.
Þórður bóndi Loftsson frá Tjörnum bjó í Ámundakoti í Fljótshlíð og síðast á Kirkjulandi í Landeyjum. Kona hans var Kristólína Gísladóttir.
Þau eignuðust 12 börn og komust átta þeirra til manndómsára. Þau voru þessi:
1. Magnús heitinn Þórðarson, formaður og útvegsbóndi í Dal hér í kaupstaðnum, dó 1915.
2. Kristín heitin Þórðardóttir í Borg, kona Sigurjóns Högnasonar, skrifstofustjóra Tangaverzlunarinnar um langt árabil.
3. Jóhanna Þórðardóttir, sem gift var Bernótusi heitnum Sigurðssyni, formanni og útvegsbónda í Vestra-Stakkagerði.
4. Gísli heitinn Þórðarson, fyrri maður frú Rannveigar Vilhjálmsdóttur.
5. Ágúst Þórðarson, fyrrverandi yfirfiskimatsmaður, Aðalbóli.
6. Guðbjörg Þórðardóttir, kona Árna Þórarinssonar frá Oddsstöðum, fyrrverandi hafnsögumanns í kaupstaðnum.
7. Elínborg Þórðardóttir, systir þeirra, dvaldist hér um eitt skeið hjá frú Kristínu systur sinni í Borg. En hún festi ekki rætur hér í Eyjum.
Hið áttunda barn þeirra hjóna, Þórðar bónda og Kristólínu konu hans, var Loftur Þórðarson. Hann fór til Ameríku og andaðist þar.
Flutningur þessara systkina allra til Vestmannaeyja og búseta þeirra hér, er að vissu leyti glöggt dæmi um hið mikla aðstreymi fólks hingað úr byggðum Rangárvallasýslu á fyrstu tveim áratugum aldarinnar. Vil ég svo biðja fróðleiksfúsa lesendur Bliks að finna afkomendur þessara systkina hér á meðal okkar. Þeir eru býsna margir.
Til gamans vil ég geta þess, að Sigurgeir Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, er sonarsonarsonur Lofts bónda á Tjörnum.
Kristján Loftsson, faðir Sigurgeirs, var sem sé sonarsonur Lofts bónda Guðmundssonar.
Síðari kona Þórodds bónda Magnússonar í Dalseli var Sigríður Ólafsdóttir frá Múlakoti í Fljótshlíð. Dóttir þeirra var hin kunna húsfreyja hér í bæ, Guðríður Þóroddsdóttir í Víðidal við Vestmannabraut (nr. 33), gift Sigurjóni Jónssyni útvegsbónda þar. Svo sem kunnugt er, var frú Guðríður skáldmælt og kom á sínum tíma út ljóðabók eftir hana. Skáldmæltur var einnig Þóroddur bóndi faðir hennar. Sigríður Ólafsdóttir húsfreyja í Dalseli missti Þórodd mann sinn árið 1887. Tveim árum síðar giftist hún Ólafi Ólafssyni bónda á Bakka í Landeyjum. Hann var þá ekkjumaður. Fyrri kona hans hét Oddný Jónsdóttir. Ólafur bóndi og Sigríður kona hans bjuggu fyrstu 12 búskaparárin sín í Dalseli, en 1901 fluttu þau að Eyvindarholti, þegar Sighvatur alþingismaður Árnason hætti að búa á jörðinni. (Sjá Blik 1971, bls. 149). Börn Ólafs bónda í Eyvindarholti og Sigríðar konu hans, eru systkinin frú Ingibjörg Ólafsdóttir í Bólstaðarhlíð og Þóroddur rafveitustarfsmaður Ólafsson, Urðavegi 20 hér í bæ, hinir kunnu samborgarar okkar.

Guðrún ljósmóðir bjó hér lengst af í Fagradal við Bárustíg (nr. 16 A) eða nálega þrjá áratugi og var önnur aðalljósmóðir Eyjabúa fyrstu tvo áratugi aldarinnar. Margir eldri Eyjabúar minnast enn þessarar einstæðu konu, og það var hún í tvennum skilningi, hún Guðrún prjónakona í Fagradal, eins og hún hét hér síðustu æviárin, eftir að hún hætti með öllu ljósmóðurstarfinu.
Guðrún Magnúsdóttir var fædd að Dalseli árið 1851.
Rétt er að geta þess strax, að á uppvaxtarárum hennar í Dalseli bjuggu á Borgareyrum þarna skammt fyrir sunnan á Hólmabæjasvæðinu vestan við Markarfljótið, hjónin Jón bóndi Sveinsson og Ólöf Þórðardóttir. Þau hjón áttu a.m.k. þrjú börn, dóttur og tvo sonu. Eitt þeirra kemur hér við sögu, yngri bróðirinn, Þórður, fæddur 1846, og þannig 5 árum eldri en Guðrún heimasæta Dalseli.
Þessi bóndahjón á Borgareyrum fluttu af jörðinni um þetta leyti (1868) og fengu ábúð á Syðri-Rotum, sem er einn af svokölluðum Sandhólmabæjum austan við Markarfljót.
Það mun hafa verið árið 1869, sem Guðríður Ólafsdóttir húsfreyja í Dalseli missti Magnús bónda sinn. Þá var Guðrún dóttir hennar 18 ára gömul.
Eftir lát Magnúsar bónda Þóroddssonar bjó ekkjan í Dalseli tvö næstu árin. En 1871 kvæntist Þóroddur sonur hennar heimasætunni á Stóru-Tjörnum, Kristínu Loftsdóttur, eins og að framan getur. Hófu þau þá búskap á jörðinni. Samt dvöldust systkini hans heima í Dalseli og unnu þar móður sinni og svo ungu hjónunum.
Snemma hafði vaknað með Guðrúnu heimasætu í Dalseli löngun til að nema ljósmóðurfræði.
Samkvæmt landslögum bar landlækni að annast fræðslu og alla kennslu ljósmæðra í landinu, veita þeim bóklega fræðslu og koma þeim til ljósmæðra, þar sem þær lærðu verkleg tök og umhirðu sængurkvenna. Hið verklega námið önnuðust t.d. starfandi ljósmæður í Reykjavík og nágrenni.
Veturinn 1869-1870 mun Guðrún í Dalseli hafa dvalizt í Reykjavík undir handarjaðri Jóns landlæknis Hjaltalíns og numið bóklega ljósmóðurfræði hjá honum ásamt dálitlum hópi annarra ljósmæðraefna. Líkindi eru til þess, að verklegt nám í greininni, ef svo mætti orða það, hafi Guðrún hlotið hjá Þorbjörgu Sveinsdóttur, hinni þjóðkunnu ljósmóður í Holti við Skólavörðustíg, lært af henni rétt handtök og hirðingu sængurkvenna.
Frá blárri bernsku hafði Þórður Jónsson á Borgareyrum verið snortinn af nágrannastúlkunni, heimasætunni í Dalseli. Hann hafði heldur aldrei verið henni ógeðfelldur. Foreldrar Þórðar Jónssonar, Jón bóndi Sveinsson og Ólöf Þórðardóttir, sem nú voru flutt að Syðri-Rotum, voru tekin að eldast og þreytast á búskapnum, sérstaklega hún, sem komin var á sjötugsaldur. Þórður sonur þeirra herti því upp hugann og bað Guðrúnar heimasætu í Dalseli, hinnar lærðu ljósmóður á Hólmabæjunum. Þau felldu hugi saman, svo að heit spruttu af.
Vorið 1872 fluttist Guðrún ljósmóðir til unnusta síns að Syðri-Rotum. Þar bar samlíf þeirra hjónaefnanna brátt ávöxt. Árið eftir, eða hinn 12. júní 1873, gaf prestur þau saman. Þá var brúðurin komin langt á leið. Hún fæddi 31. ágúst um sumarið meybarn, sem hlaut nafn Guðríðar ömmu sinnar í Dalseli. Guðríður Þórðardóttir varð síðan hin mesta myndarstúlka, ellistoð móður sinnar og kunn piparmey í Fagradal í Vestmannaeyjum.
Haft var það á orði í Vestur-Eyjafjallahreppi, eftir brúðkaup þeirra Þórðar Jónssonar og Guðrúnar Magnúsdóttur, að hann hefði gefið henni 40 ríkisdali eða 20 spesíur í morgungjöf, eins og hún var kölluð, eins konar laun hins nýgifta til konu sinnar að morgni brúðkaupsnæturinnar. Það þótti þá býsna mikið fé hjá hinu sárfátæka fólki yfirleitt í hreppunum undir Eyjafjöllum.
Þórður Jónsson var flestum ungum mönnum efnaðri í Vestur-Eyjafjallahreppi. Hann hafði róið með færið sitt vertíð eftir vertíð á Landeyjaskipi, sem lá við í Vestmannaeyjum, og aflað jafnan vel, enda gætinn og hygginn um meðferð fjármuna sinna.
Árið 1874, 20. september, fæddi Guðrún, hin unga húsfreyja og eiginkona á Syðri-Rotum, annað barn þeirra hjóna. Það var tæpum þrettán mánuðum eftir fyrstu barneignina. Þetta var sveinbarn og hlaut nafn móðurföður síns, Magnúsar heitins Þóroddssonar bónda í Dalseli. Magnús Þórðarson varð nafnkunnur þjóðfélagsþegn í Vestmannaeyjum, giftist þar ekkju, skildi við hana og fór til Ameríku. Þar lézt hann.
Fyrstu fjögur búskaparárin bjuggu ungu hjónin á Syðri-Rotum í sambýli við gömlu hjónin, tengdaforeldra ungu húsfreyjunnar. Litla ánægju hafði hún af því sambýli. Ekki heldur áttu þau þarna neina framtíð, ungu hjónin, því að þessi kotjörð ,,bar ekki tvo“, og sízt þar sem Markarfljót braut meira og minna land af jörðinni ár frá ári.
Þegar svo hin aldraða ekkja í Hamragörðum þarna undir Seljalandsmúlanum, Katrín Einarsdóttir, féll frá, líklega árið 1876, afréðu ungu hjónin á Syðri-Rotum að leita eftir ábúð á þeirri jörð, þó að rýr væri.
Vorið eftir eða 1877 fluttust þau að Hamragörðum. Um svipað leyti fæddist þeim hjónum þriðja barnið. Það var sveinbarn og var skírt Ísleifur, sem var nafn Ísleifs Gissurarsonar bændahöfðingja á Seljalandi, en hann var afabróðir Guðrúnar ljósmóður og húsfreyju í Hamragörðum.
Það vekur eftirtekt, að Guðrún Magnúsdóttir fær að ráða nöfnunum á öllum börnum þeirra hjóna, og velur þau úr ætt sinni, nöfn foreldra og frænda. Satt að segja bendir ýmislegt fleira til þess, að aldrei hafi verið verulega ástúðlegt samband á milli Guðrúnar Magnúsdóttur og tengdaforeldra hennar, svo að hún hefur ef til vill ekki haft sérlega löngun til að ala börn til að viðhalda nöfnum þeirra eða ættfólks. - Skaplyndi ungu húsfreyjunnar og eiginkonunnar var óbifanlegt, þegar svo bar undir.
Fleira kom þó til um nafnaval Guðrúnar húsfreyju á börn sín. Einskonar átrúnaður lifði hjá ættfólki hennar og henni sjálfri á Þórodds-, Ísleifs- og Gissurarnafninu. Gömul var sú ættarsögn með því fólki, að þessi nöfn hefðu haldizt í ættinni frá því á söguöld og væru nöfn þeirra þremenninganna Þórodds goða, Gissurar hvíta og Ísleifs biskups, en þeir áttu eftir ættarsögninni að vera forfeður fólks þessa og Seljaland ættarleifðin mikla og markverða.
Rétt er að geta þess hér, að Ólöf Þórðardóttir, tengdamóðir Guðrúnar húsfreyju í Hamragörðum, dvaldist hjá henni, eftir að hún missti manninn, Jón bónda Sveinsson, árið 1877. Þar réði öðrum þræði meðfædd samúðarkennd Guðrúnar Magnúsdóttur húsfreyju og drenglund athöfnum hennar og gjörðum.
Svo gekk lífið sinn vanagang hjá hjónunum í Hamragörðum næstu 8-9 árin. Orð fór að skörungsskap og dugnaði Guðrúnar húsfreyju. Hún þótti á ýmsa lund vera fremri flestum konum þar að vitsmunum og hetjulund. Hún var hrein og bein, djarfmælt og afgerandi, en þótti jafnan stórlynd nokkuð, en drengur góður, eins og sagt er um húsfreyjuna á Bergþórshvoli.
Og vissar trúarhræringar fóru um byggðir Suðurlandsins á þessum tímum. Postilla meistarans og kenningar hins orðdjarfa biskups þótti ekki öllum einhlít til sáluhjálpar, þegar á reyndi. Og heldur ekki aðrar húslestrarbækur.
Mormónar létu á sér kræla þar um byggðir. Ýmislegt í kenningum þeirra varð mönnum deiluefni, eins og staðreyndin var í Vestmannaeyjum, þar sem þeir voru taldir eiga einskonar trúarhreiður. Ungir menn í Suðurlandsbyggðum hentu sérlega gaman að þeirri kenningu mormóna, að mönnum væri bæði eiginlegt og leyfilegt að eiga margar konur og njóta þeirra allra eftir beztu getu. Ungir gárungar ólu á, en helzt voru það eldri húsfreyjur og eiginkonur sem fussuðu og sveiuðu!
Mjög var um það rætt á Hólmabæjunum og í Rangárvallasýslu allri, að hinn kunni samborgari þeirra og sýslufélagi, Eiríkur Ólafsson frá Brúnum, bænum þarna suður af Dalseli, hefði tekið mormónatrú og væri orðinn prédikari mormóna þar vestur í Utha í henni stóru Ameríku. - Svo færðist staðreyndin nær þessu fólki, þegar Eiríkur frá Brúnum tók að ferðast um byggðir þess, prédika mormónatrú og brigzla prestum jafnframt um villikenningar og rangtúlkun heilags guðsorðs.
Presturinn, séra Sveinbjörn Guðmundsson í Holti, hafði fengið bréf frá þessum fóstursyni Hólmabæjanna, þar sem honum var brigzlað um margskonar misgjörðir í starfi og kenningum, þegar hann t.d. framkvæmdi barnaskírn og fl. í stað þess að fremja niðurdýfingarskírn, eins og Biblían boðaði og framkvæmd hafði verið á sjálfum Kristi. Fregnin um bréf þetta barst um sveitina. Það var dagsett 26. nóvember 1881 og var þrungið af ásökunum, - stórorð ádeila.
Svo var það ári síðar en bréfið var skrifað og sent eða nokkru fyrir jólin 1882, að einhvern veginn barst sú frétt austur undir Eyjafjöll, að Eiríkur Ólafsson Rangæingur frá Brúnum væri á leiðinni austur í trúboðserindum mormóna og tæki helzt presta tali og segði þeim til syndanna, - skýrði fyrir þeim villukenningar þeirra, eins og hann kallaði það, samkvæmt kenningum heilagrar ritningar. Hann var sagður leggja alveg sérstaklega áherzlu á niðurdýfingarskírn og frjálsræði til fjölkvænis. Fregnin barst um sveitir og vakti undrun sumra, hneykslun annarra, óhug trúaðra og megna forvitni alls þorra hins óbreytta bændaliðs og uppvaxandi kynslóðar undir Eyjafjöllum.

Eiríkur dvaldist hjá séra Matthíasi Jochumssyni í Odda á leiðinni austur. Þá hafði séra Matthías verið þar prestur í tvö ár. Hjá prestshjónunum gisti hann þrjár nætur. Honum fannst til um það, að hann, mormóninn, var látinn snæða með sjálfum sóknarprestinum og þjóðskáldinu.
Furðu vel fór á með þeim séra Matthíasi. Prestur mætti orðum hins ákafa trúboða með skynsemi og gætni, gaf úr og í og taldi ekki ólíklegt, að mormónarnir hefðu að einhverju leyti rétt fyrir sér, t.d. um niðurdýfingarskírnina, sem var þeim einna mest áhuga- og hitamál. Þannig liðu gistidagarnir og -næturnar hjá prestshjónunum í Odda með spekt og í friðsemd.
Frá Odda lá leið mormónans að Breiðabólstað í Fljótshlíð. Þar var þá prestur séra Skúli Gíslason. Allt fór þar fram með friði og spekt fyrst í stað, en gesturinn sótti á og varð stórorður á köflum, sérstaklega um villukenningar íslenzkra presta, eins og honum var svo gjarnt að orða það. Tók þá heldur betur að hvessa. Séra Skúli lét þá hart mæta hörðu, svo að öldur risu og stóryrði fuku. Þeir skildu í heift og bræði.
Svo var Eiríkur frá Brúnum við Stóradalskirkju á sjálfan jóladaginn. Að undanförnu hafði honum glæðzt skilnigur á því, að hann varð fram að fara með allri gætni, ef ekki ættu að spretta vandræði af komu hans í átthagana.
Í Stóradalskirkju tók hann sér ekki sæti, meðan messan stóð yfir, heldur tók sér stöðu í námunda við prédikunarstólinn og stóð þar alla messuna.
Margt fólk var við kirkju, bæði í tilefni hátíðarinnar og fyrir forvitni sakir sökum orðrómsins um gestinn í byggðinni.
Nokkur hiti glæddist í brjóstum sumra af sóknarbörnum prestsins, séra Sveinbjarnar Guðmundssonar í Holti, sem árinu áður hafði fengið hið meinyrta bréf frá mormóna þessum, þar sem það sá hinn harðskeytta og ákafa mormónatrúboða standa þarna í kirkjunni þögulan og þungbúinn framan við prédikunarstólinn, meðan presturinn flutti jólaræðuna, svo sem eins og til þess að storka sjálfum sóknarprestinum, sem sóknarbörnin öll báru hlýjan hug til og virðingu fyrir.
Svo gefum við Eiríki Ólafssyni mormóna orðið:
,,... Strax eftir embætti tók meginið af kirkjusöfnuðinum mig fyrir og gerði mér aðsúg með hrindingum, skömmum og hatursfullum orðum, og voru þeir forsprakkar að því synir séra Sveinbjarnar og presturinn sjálfur, nýkominn ofan úr stólnum, fylgdi fólkinu að skamma mig og sagði, að ég hefði stolið versum úr Passíusálmunum til þess að setja í bókina mína. Þar voru margir greindir og gildir bændur við kirkjuna, sem voru lausir við þetta og skiptu sér heldur ekkert af því, hvernig farið var með mig ... Ég talaði ekkert orð, frá því að ég kom út úr kirkjunni ...“
Nú víkur sögunni til Guðrúnar Magnúsdóttur húsfreyju í Hamragörðum og ljósmóður í hreppnum, sem var ein af kirkjugestunum við Stóradalskirkju þennan jóladag. Þegar hún hafði horft á atburðina og heyrt, hversu ókristilega var þarna að orði komizt, hrópaði hún upp yfir kirkjufólkið: „Það er stórminnkun fyrir fólkið að fara svona með skikkanlegan og sakalausan mann nú á helgum degi, nýkomið út úr kirkjunni.“ Ég skal geta þess hér, að þessi orð eru tekin orðrétt eftir Eiríki sjálfum. Húsfreyjan í Hamragörðum talaði þarna fleira í þessum anda. - Það sló á söfnuðinn. Enginn sagði orð, en presturinn greip taum hests síns, sté á bak og reið heim í skyndi. Aðrir fóru að gjörðum hans. Sumir virtust sneipast við orð hinnar lágvöxnu en hörkulegu húsfreyju í Hamragörðum. Hún var svo sem ekki mikil fyrir manni að sjá þarna úti fyrir kirkjudyrunum. En safnaðarfólkið þekkti hana, virti og mat. Það fann með sjálfu sér, að hún hafði lög að mæla og virti drengskap hennar og réttlætiskennd.
Atburður þessi varð Eiríki mormóna svo minnisstæður, að hann gleymdi honum aldrei. Ekki átti húsfreyjan í Hamragörðum minnstan þáttinn í því að gera hann svo minnisstæðan.
Fjórða barn þeirra hjóna ól Guðrún húsfreyja líklega 1884. Það var stúlkubarn, sem var skírt Karólína. Það andaðist tveggja ára gamalt eða svo, 15. júlí 1886. Þá hefst hin mikla harmasaga Guðrúnar Magnúsdóttur í Hamragörðum.
Níu mánuðum eftir lát Karólínu litlu lézt Þórður bóndi Jónsson í Hamragörðum (15. apríl 1887). Þá var hann rúmlega fertugur að aldri. Þau Guðrún höfðu þá verið gift í tæp 14 ár.
Síðla haustsins sama ár eða 9. nóvember, andaðist bróðir Guðrúnar Magnúsdóttur, Þóroddur bóndi Magnússon í Dalseli, þá 40 ára. Einkar kært var alltaf með þeim systkinum, Þóroddi og Guðrúnu, hann elzta barn Dalselshjónanna, hún yngsta barnið, gælubarnið ástfólgna á bernskuskeiðinu.
Ekkjan Guðrún húsfreyja í Hamragörðum stóð nú höllum fæti í lífsbaráttunni, beygð af sorg og hörmum, eftir allt, sem hún hafði misst á undanförnum tveim árum. Hún hafði þrjú börnin sín á framfæri: Guðríði 14 ára, Magnús 13 ára og Ísleif 10 ára. Og Hamragarðarnir voru í rauninni rýrðarkot, sem litlar höfðu engjar. Þurfti því að kaupa slægjur á fjarlægum engjum.
Hjónin í Stóru-Hildisey í Landeyjum, Þórður bóndi Guðnason og Margrét Jónsdóttir, voru vinafólk prestshjónanna í Holti undir Eyjafjöllum, séra Kjartans Einarssonar sóknarprests og madömu Guðbjargar Sveinbjarnardóttur prests Guðmundssonar.
Þegar hér er komið sögu (1877) áttu hjónin í Stóru-Hildisey a.m.k. sex uppkomin börn og voru fimm þeirra enn í foreldrahúsum. Ólafur sonur þeirra bjó á Grund, nágrannabæ prestssetursins að Holti, og var hann forsöngvari í sóknarkirkjunni. Öll voru börn þeirra hjóna í Stóru-Hildisey hin mannvænlegustu og höfðu Rangæingar á orði, hversu söngvin þau voru og gædd mikilli og fagurri söngrödd.
Markús hét yngsta barn þeirra Hildiseyjarhjóna. Hann var fæddur 1860.
Að sjálfsögðu bar sóknarprestinum að sjá til með ekkjunni í Hamragörðum, leggja henni lið og leita fyrir sér um starfskrafta henni til handa.
Séra Kjartan Einarsson sóknarprestur í Holti kom að máli við Ólaf Þórðarson bónda og forsöngvara á Grund. Mundu tök á að fá Markús bróður hans ráðinn vinnumann eða „fyrirvinnu“ til ekkjunnar í Hamragörðum? Mundi hann vilja gerast þar stjórnandi heimilisins utan veggja, gerast fyrirvinna, eins og það var kallað? Hjónin á Grund höfðu áður rætt þetta mál sín á milli. Ástæður voru til þess. Steinunn húsfreyja á Grund Sigurðardóttir var æskuvinkona Guðrúnar í Hamragörðum, því að hún var frá Steinmóðarbæ, einum af Efri-Hólmahjáleigubæjunum, og vildi hún umfram allt geta lagt henni lið í lífsbaráttunni.
Meðan hjónin á Grund og sóknarpresturinn ræddu og íhuguðu þetta mál, bar gest að garði í Hamragörðum. Gesturinn var einn af ríkustu bændum í byggðum Rangárvallasýslu, þekktur óðalsbóndi og búmaður mikill. Og hvert var svo erindi óðalsbóndans að Hamragörðum að þessu sinni? - Áður hafði hann gert hosur sínar grænar fyrir ekkjunni í Hamragörðum, en nú var hann á biðilsbuxunum, - kominn til að biðja hennar. Og nú var Guðrún Magnúsdóttir sjálfri sér lík. Hún svaraði stórbóndanum á þessa lund: „Við eigum ekki skap saman, svo stórlynd sem við erum bæði. Samlíf okkar yrði því okkur báðum til óhamingju. En ég skal benda þér á konuefni, meir að þínu skapi. Það er hún Birna vinkona mín á Bakka. (Nöfnum hef ég breytt). Hún er bæði lagleg og góð stúlka og myndarhúsmóðir getur hún orðið.“
Með þetta svar hvarf óðalsbóndinn frá Hamragörðum.
Nokkru síðar flaug sú frétt um byggðina, að óðalsbóndinn ríki og hún Birna heimasæta á Bakka væru heitbundin og brúðkaup væri fyrirhugað innan skamms.
Eftir brúðkaupið breyttist framkoma frú Birnu á Bakka gagnvart vinkonunni í Hamragörðum. Hún var þóttafull og heilsaði naumast, ef fundum þeirra bar saman. Þá var Guðrúnu Magnúsdóttur nóg boðið. Eitt sinn er fundum þeirra gömlu vinkvennanna bar saman við kirkju, laumaði Guðrún þessum orðum í eyra Birnu húsfreyju og óðalsbóndakonu: „Láttu ekki svona mikið yfir þér, manneskja, og vertu ekki að hreykja þér þetta. Bóndi þinn bað mín og ég vísaði honum til þín, því að ég vildi hann ekki.“ Vinkonan rak upp stór augu, sagði ekkert en breytti um svip, og framkoman gagnvart ekkjunni í Hamragörðum varð önnur eftir það.
Markús Þórðarson frá Stóru-Hildisey gaf þess kost að ráðast fyrirvinna ekkjunnar í Hamragörðum. - Svo liðu tímar og þau Markús og Guðrún felldu hugi saman. Lýst var með þeim til giftingar í ágústlok 1890. Þau voru svo gefin saman um haustið (4. október). Markús Þórðarson var þá þrítugur að aldri og Guðrún 39 ára.
Þegar þau giftust, hafði ekkjan og ljósmóðirin hálfgengið með barn þeirra.
Hún ól sveinbarn 25. janúar 1891. Sá sveinn var vatni ausinn og skírður Markús, nafni föður síns. Það var gjört að vilja og fyrirlagi Guðrúnar móður hans, sem unni Markúsi manni sínum hugástum. Þennan ástmög sinn misstu þau hjónin rúmlega tveggja ára gamlan (9. apríl 1893). Enn var höggvið í hinn sama knérunn. Enn lagðist sorgin herðar þessarar margmæddu konu, Guðrúnar Magnúsdóttur.
Árið áður en þessi sorgaratburður átti sér stað í Hamragörðum, hafði Guðrún fætt bónda sínum meybarn, sem skírt var Karólína, nafni stúlkunnar litlu, sem hún missti í fyrra hjónabandi sínu. Karólína Markúsdóttir í Hamragörðum náði aðeins tveggja og hálfs árs aldri. Hún andaðist 11. nóvember 1894, eða ári síðar en Markús litli.
Þrem vikum áður en þessi síðari sorgaratburður gerðist í Hamragörðum, fæddi Guðrún húsfreyja og ljósmóðir þriðja barn þeirra hjóna. Það átti sér stað 24. október 1894. Þetta var meybarn og skírt Þórunn - Þórunn Markúsdóttir, sem náði 25 ára aldri og giftist Jóni Gíslasyni í Sandprýði árið 1919. Hann var síðar kenndur við húseignina Ármót við Skólaveg.
Og enn dundi sorgin og harmurinn yfir Guðrúnu í Hamragörðum. Árið 1895 lézt yngsta barn hennar, sem þá var á lífi frá fyrra hjónabandi, Ísleifur Þórðarson, þá 18 ára, mikill efnispiltur.
Eftir að Markús Þórðarson frá Stóru-Hildisey og Guðrún Magnúsdóttir felldu hugi saman og giftust, var hann mátturinn hennar og hin styrka stoð í raununum miklu, því að hann var hinn mesti mannkostamaður, ástríkur og tillitssamur eiginmaður og heimilisfaðir. Hún unni honum heitt. Frá æskuskeiði hafði Guðrún ávallt verið trúuð kona og bænrækin. Ekki skal því gleymt, hversu trúin veitti henni mikinn styrk í raununum.
Alltaf þráði Markús bóndi Hamragörðum að flytjast búferlum vestur í Landeyjarnar, fá sér jörð þar til búskapar. Þessa ósk sína fékk hann uppfyllta.
Árið 1897 fluttu þau hjónin frá Hamragörðum að Lágafelli í Austur-Landeyjum. Þá höfðu þau verið gift í sjö ár. Var þá Markús bóndi 37 ára og Guðrún kona hans 46 ára gömul. Þeim fylgdi að Lágafelli börn Guðrúnar frá fyrra hjónabandi, þau sem á lífi voru, Guðríður 24 ára og Magnús 23 ára. Þá var Þórunn Markúsdóttir, einkabarn þeirra hjóna, sem á lífi var, 5 ára gömul. Alls höfðu hjónin þá 10 manns á framfæri sínu með tökubörnunum og vinnuhjúum, en sótzt var eftir að koma munaðarlausum börnum til Guðrúnar Magnúsdóttur sökum þess, hve góð hún var þeim og umhyggjusöm húsmóðir.
Og nú dundu hörmungarnar yfir heimili hennar enn á ný.
Veturinn 1898 lá nákominn vinur Markúsar bónda á Lágafelli fyrir dauðanum. Hann hafði gert Markúsi boð að finna sig til að kveðja sig hinztu kveðju, eins og hann orðaði það sjálfur. Markús bóndi brást fljótt við. Yfir vötn var að fara. Ýmist voru vötnin ísilögð eða auð, svo að vaða varð þau. Þegar Markús bóndi kom heim úr för þessari, var hann bæði blautur og kaldur. Hann lagðist í lungnabólgu og lézt eftir skamma legu.
Nú fannst Guðrúnu Magnúsdóttur hún ekki hafa lengur mátt til að mæta andstreymi lífsins. Þessum eiginmanni sínum hafði hún unnað eins og lífinu í brjósti sér. Nú fannst henni, að hún gæti ekki lifað lengur eða vilja lifa lengur við öll harmkvælin. Hún neytti hvorki svefns né matar en sat allar stundir við kistu eiginmanns síns nótt sem nýtan dag og virtist fólki helzt, að hún hefði í hyggju að svelta sig í hel. Hér um munu fæst orð vera hið viturlegasta, því að hinum sáru tilfinningum þessarar margræddu konu verður hvort eð er aldrei nægilega með orðum lýst. Hér fari hver og einn í eigin barm og láti kenndir og hugvit hjala.
Næstu tvö árin bjó ekkjan á Lágafelli með dætur sínar tvær, Guðríði 26 ára og Þórunni 7 ára. Hjá henni voru munaðarleysingjar eins og löngum áður. Það var engu líkara en að það væri henni huggun í raunum og fróun að hlynna að þeim og láta þeim líða sem allra bezt hjá sér. Þannig var þessi mæta kona gerð. Hvað var til ráða fyrir þessari einstæðings ekkju? Sálarlífið var lamað af sorg og andstreymi. Guðríður dóttir hennar var nú henni önnur hönd, umhyggjusöm, nærgætin og dugleg.
Séra Magnús Þorsteinsson héraðslæknis Jónssonar í Landlyst í Vestmannaeyjum vígðist aðstoðarprestur séra Halldórs Ó. Þorsteinssonar sóknarprests í Krosssókn í Landeyjaþingum 26. september 1897 og fékk prestakallið ári síðar. Hann bjó á Bergþórshvoli. Ekkjan á Lágafelli var sóknarbarn séra Magnúsar, sem hafði ríkan hug á að hjálpa henni af fremsta megni til þess að geta framfleytt sér og barni sínu í ómegð. Séra Magnús Þorsteinsson skrifaði föður sínum til Eyja og tjáði honum vandræði ekkjunnar. Héraðslæknirin brást vel við og afréðu þeir feðgar, að Guðrún Magnúsdóttir skyldi flytja til Eyja. Öll ráð hlaut hinn valdamikli héraðslæknir í kauptúninu að hafa til þess að greiða götu hennar þar, ekki sízt, þar sem hún var ljósmóðir. Anna Benediktsdóttir ljósmóðir í Vanangri var nú nær sjötugu, svo að öryggis vegna var það skynsamlegt að hafa þrjár ljósmæður í kauptúninu, meðan ljósmóðirin í Vanangri var smám saman að leggja niður störfin. Einnig var Þóranna ljósmóðir í Nýborg farin að eldast.
Síðasta ár aldarinnar, árið 1900, fluttu þær mæðgur, Guðrún Magnúsdóttir og Guðríður Þórðardóttir, frá Lágafelli til Vestmannaeyja. Þórunni litlu dóttur sinni kom móðirin hins vegar fyrir í fóstur hjá hjónunum í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð, Árna bónda Ólafssyni og Guðríði konu hans. Betra heimili gat Guðrún naumast kosið dóttur sinni. Svo viðurkennd voru þau hjón fyrir manngæzku og myndarbrag **.
** Árni bóndi í Hlíðarendakoti var bróðir Ólafar í Baldurshaga hér í bæ, konu Ágústs kennara og smiðs Árnasonar. Bróðir þeirra var Páll verzlunarmaður Ólafsson á Sunnuhvoli, sem drukknaði milli lands og Eyja árið 1923.

Í Hlíðarendakoti dvaldist Þórunn Markúsdóttir síðan til þroskaaldurs.
Þær mæðgur fengu inni í svokallaðri Sjóbúð hér í bæ. Hús þetta stóð vestan við húseignina Vegamót við Urðaveg. Sjóbúð var að hálfu leyti íveruhúsnæði (efri hæð) og vörugeymsluhús (neðri hæð). Verzlun Gísla J. Johnsen byggði þetta hús á sínum tíma og átti það. Efri hæð húss þessa var um árabil leigð á vetrarvertíðum aðkomusjómönnum, sem hér lágu við, t.d. Landeyingum eða Fjallamönnum. Eftir því sem næst verður komizt, mun Sjóbúð hafa verið rifin árið 1926.
Á efri hæð Sjóbúðar bjuggu þær mæðgur næstu fimm árin eftir flutninginn til Eyja.
Vera má, að Þorsteinn héraðslæknir í Landlyst hafi að einhverju leyti sannprófað hæfni Guðrúnar Magnúsdóttur til ljósmóðurstarfanna, eftir að hún settist að í Eyjum. En þegar Guðrún hafði dvalizt nokkra mánuði í kauptúninu, tók hún á móti fyrsta barninu. - Hjón nokkur voru til heimilis hjá læknishjónunum í Landlyst. Þau hétu Andrés Ólafsson og Arndís Jónsdóttir. Í febrúar 1901 fæddi kona þessi barn og lét héraðslæknirinn Guðrúnu Magnúsdóttur annast ljósmóðurstörfin. Henni fórst það vel úr hendi, svo að hún ávann sér brátt orð og traust í starfinu. Hinn virti valdamaður í kauptúninu, Þorsteinn héraðslæknir, sýndi henni þegar mikið traust. Á eftir kom almenningur, svo að starf hennar í ljósmóðurstöðunni fór vaxandi ár frá ári.
Þegar Guðrún settist hér að og hóf ljósmóðurstörfin, var í ýmsu tilliti annar háttur ríkjandi um reifa- eða kornabörnin en undir Eyjafjöllum. Hér þekktist naumast sá siður, að ljósmóðirin tæki nýfæddu börnin heim með sér, þegar hún hvarf frá sængurkonunni, eftir að hafa annazt hana fyrstu 5-6 dagana eftir fæðingu. Undir Eyjafjöllum var þessi siður ekki óalgengur, svo að ekki sé ofmikið fullyrt. Þessi börn voru þar kölluð „ljósubörn“. Enn búa hér á meðal okkar nokkur „ljósubörn“ Guðrúnar Magnúsdóttur ljósmóður Í Hamragörðum. Ljósubörnin dvöldust heima hjá ljósu sinni jafnvel 2-3 fyrstu vikur ævinnar.
Þegar Guðrún Magnúsdóttir hafði selt bústofn sinn í Landeyjum og aðrar eignir, gat hún talizt sæmilega efnum búin á þá tíðar mælikvarða. Hún hafði ávallt í búskapnum verið hinn mesti búforkur, afkastamikil og hyggin búkona.
Árið 1905 var hafin bygging íbúðarhúss í austurjaðri Þykkvabæjarins svo kallaða í Vestmannaeyjum. Það er húseignin nr. 16 A við Bárustíg. Fagridalur hét húsið og heitir enn. Byggjendurnir voru fleiri en einn og fleiri en tveir. T.d. áttu hjónin Magnús Eyjólfsson og Þorbjörg Jónsdóttir, síðar hjón á Grundarbrekku við Skólaveg (nr. 11) nokkurn hluta húseignarinnar. Guðrún Magnúsdóttir ljósmóðir keypti hlut í þessu húsi.
Þetta fólk flutti í Fagradal árið 1905. Þar bjó Guðrún ljósmóðir síðan með Guðríði dóttur sinni, meðan þær lifðu báðar. (Guðríður Þórðardóttir andaðist 8. september 1921) og Guðrún sjálf í tæp 30 ár. - Þó er rétt að geta þess hér, að nokkra vetur dvaldist Guðríður utan Eyjanna. Þá bjó Guðrún ljósmóðir ein í íbúð sinni í Fagradal. Guðríður dóttir hennar var t.d. við nám tvo vetur á Hvítárbakkaskóla í Borgarfirði, veturna 1909-1911. Veturinn 1912 var hún heimiliskennari í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum og kenndi þar m.a. tungumál og fatasaum, en hún var bráðmyndarleg í öllu handverki, sem hún hafði lært eða iðkað. Fatasaum lærði hún í Reykjavík.
Dvöl Guðríðar Þórðardóttur í Hvítárbakkaskóla smitaði út frá sér. Þórunn systir hennar Markúsdóttir í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð gekk t.d. í Hvítárbakkaskólann veturna 1910-1912 fyrir hvatningarorð Guðríðar systur sinnar. Fleiri ungmenni undir Eyjafjöllum sóttu þennan skóla að frumkvæði Guðríðar Þórðardóttur.
Eftir að Guðrún ljósmóðir fluttist hingað til Eyja, stundaði hún alltaf tóskap öðrum þræði. Hún kembdi og spann og prjónaði bæði handprjón og vélaprjón. Og hún afkastaði miklu starfi á þessu sviði, því að forkur dugleg var hún þar sem annars staðar, þar sem hún lagði hönd að verki. Einvörðungu stundaði hún tóskap eftir að hún hætti ljósmóðurstörfunum, rúmlega sjötug, og svo kenndi hún börnum að lesa. Þau sóttu heim til hennar í Fagradal þessa kennslu.
Svo sem vitað er hér í bæ, þó að hvert hús sé tölusett nú orðið, þá heitir eitt af íbúðarhúsunum í Þykkvabænum, krikanum milli Bárustígs og Vestmannabrautar, Sandprýði (nr. 16 B við Bárustíg). Þar bjuggu um árabil hjónin Helga Guðmundsdóttir og Einar Halldórsson. Áður var frú Helga gift Gísla snikkara Gíslasyni verzlunarstjóra Bjarnasen. Með þessum manni sínum átti hún a.m.k. þrjú börn, Halldóru, Jórunni og Jón. Hún missti Gísla mann sinn árið 1897. Árið 1902 giftist hún aftur Einari útgerðarmanni Halldórssyni. Hann drukknaði 10. janúar 1912 með Sigurði formanni Sigurðssyni í Frydendal, þegar slysið mikla átti sér stað í Vestmannaeyjahöfn. Þeir áttu saman v/b Ísland, VE 118 m.fl.
Sonur hjónanna frú Helgu og Gísla var Jón Gíslason (f. 1888), síðar ætíð kenndur við íbúðarhús sitt Ármót við Skólastíg (nr. 14). Hann lézt árið 1970 ***.

*** Dóttir frú Helgu Guðmundsdóttur að síðara hjónabandi er frú Vilmunda Einarsdóttir, kona Hinriks Gíslasonar, vélstjóra, Skólavegi 15 hér í bæ.

Jón Gíslason í Sandprýði óx þar úr grasi og 31 árs gamall (1919) kvæntist hann Þórunni Markúsdóttur, yngri dóttur Guðrúnar Magnúsdóttur í Fagradal. Þá var hún 25 ára að aldri. Synir þessara mætu hjóna eru bræðurnir og samborgarar okkar hér í kaupstaðnum, Markús og Þórarinn Jónssynir. Þórunn Markúsdóttir, húsmóðir og eiginkona í Sandprýði, lézt 1. júní 1921 á 14. degi eftir að hafa fætt son sinn Þórarinn. - Eitt áfallið enn fyrir Guðrúnu ljósmóður í Fagradal.
Oft vann Guðrún Magnúsdóttir að hekli eða prjóni á nóttunni, vann nótt með degi. Ástæðurnar fyrir vinnu hennar um nætur voru sálræns eðlis. Þær voru tengdar tilfinningalífi hennar og sárum minnum. Ef hún vaknaði á næturþeli, og það gerði hún iðulega, settust að henni hugsanir, sárar minningar, sem vörnuðu henni svefns. Alveg sérstaklega voru minnin um hamingju hennar með seinni manninum áleitin og saknaðarfull. Þá reis hún upp í sæng sinni og tók til að hekla eða prjóna, þar til svefninn yfirbugaði hana á nýjan leik. Þannig lifði hún lífi sínu mörg síðustu ár ævinnar.
Guðrún Magnúsdóttir var trúuð kona, leitandi sál. Hún fann huggun og fróun í guðstrú sinni og ýmsum spaklega orðuðum kennisetningum og spakmælum ritningarinnar.

Þórunn Markúsdóttir.

ctr

Jón Gíslason,
Ármótum við Skólaveg.

Meðan sálarrannsóknir Haraldar Níelssonar og Einars Kvarans voru sem mest á tali með þjóðinni, lagði hún eyra við og lét um tíma sannfærast og huggast með niðurstöður þeirra í huga. Hún keypti þá tímaritið Morgun og las það.
En einhverra hluta vegna hætti hún von bráðar að leggja eyrun að kenningu spíritista, og snéri svo algjörlega bakinu við kenningum þeirra.
Í júlímánuði 1921 bar sérlega gesti að garði í Eyjum. Þeir voru Norðmaðurinn Erik Åsbö, kunnur trúboði hvítasunnufólkssafnaðarins, og frú Signy Åsbö, kona hans, og hin kunna íslenzka trúboðskona Sveinbjörg Jóhannsdóttir. Gestir þessir héldu hér samkomur, og fólk flykktist að til að hlusta á kenningar þeirra. Einn hinna áhugasömu og leitandi áheyrenda var Guðrún Magnúsdóttir í Fagradal. Og hún varð gagntekin af boðskap þessara prédikara. Næstu fimm árin dvöldust erlendu hjónin öðrum þræði hér í kaupstaðnum og söfnuðu fólki að kenningum sínum. Þegar svo Betelssöfnuðurinn var formlega stofnaður hér með niðurdýfingarskírn 19 Eyjabúa í júlímánuði 1926 (sjá Blik 1967), var Guðrún Magnúsdóttir einn af skeleggustu stofnendunum.
Iðulega voru samkomur þessa nýja safnaðar haldnar í stofunni hennar í Fagradal, áður en söfnuðurinn byggði sitt Betel (1926) við Faxastíg (nr. 6).
Í öllum trúarsamfélögum manna um allan heim þróast jafnan nokkur skoðanamunur og mismunandi sjónarmið á atriðum ýmissa kennisetninga. Þannig átti þetta sér einnig stað á fyrstu tilveruárum Betelssafnaðarins í Vestmannaeyjum, rétt eins og innan þjóðkirkjunnar. Guðrún í Fagradal hafði sjálfstæðar skoðanir á ýmsum trúarlegum atriðum og fylgdi fram sannfæringu sinni af nokkurri harðskeytni, eins og henni var eiginlegt, því að hver og einn er sér um sefa og skaplyndi. Af þessu spratt nokkur óánægja um stundarsakir innan safnaðarins. En lánið var með. Åsbö trúboði kom aftur og enn til bæjarins. Það mun verið hafa árið 1935. Hann ræddi deiluatriðin við Guðrúnu Magnúsdóttur, sem svo að segja tilbað þennan læriföður sinn. Svo mildilegum orðum og móðurlegum höndum fór trúboðinn um ágreiningsatriðin, að allt féll í ljúfa löð og enginn ágreiningur bærði á sér hjá hinni sanntrúuðu konu Betelssafnaðarins eftir það. Drengskap trúboðans og hreinskilni kunni Guðrún Magnúsdóttir að meta, því að hún átti þá eiginleika sjálf í svo ríkum mæli.
Fyrstu árin varð fólk Betelssafnaðarins fyrir nokkru aðkasti samborgaranna, eins og algengt var í þessu þjóðfélagi okkar á fyrstu árum sértrúarflokkanna í landinu. Sjálfur minnist ég skrílslátanna á Austurlandi, er Hjálpræðishersfólkið lét fyrst sjá sig þar opinberlega eða hélt þar samkomur.
Åsböhjónin leigðu íbúð í kjallara við Vestmannabraut fyrstu árin, sem þau dvöldust hér við trúboðsstarfið. Kunnur róni í bænum lagði eitt sinn leið sína inn í gang kjallaraíbúðarinnar til þess að hrella frú Signýju Åsbö, er hún var ein heima í íbúðinni. Til allrar hamingju hafði hún íbúðina aflæsta, svo að róninn komst þar ekki inn. En hrædd varð frúin samt og miður sín. Eftir drykklanga stund bar Guðrúnu Magnúsdóttur þar að garði og barði að dyrum hjá frú Signýju. Frúin opnaði ekki strax, en lét þó til sín heyra, sagði sem var, að ölvaður maður hefði látið ófriðlega þarna í ganginum og knúð dyra. En þar var kolsvartamyrkur. Heyrði nú Guðrún að snarkaði í dónanum, þar sem hann lá „dauður“ á ganggólfinu. Þá hljóp gömlu konunni kapp í kinn, þótt hún væri þá á níræðisaldri. Hún ýtti við rónanum með fætinum og sagði: „Rístu á fætur, ólánsgreyið þitt, og hypjaðu þig út strax.“ Dóninn skreiddist á fætur og hundskaðist út steinþegjandi og hljóðalaust. - Sagan flaug um bæinn og fólk sagði: „Þetta var henni Guðrúnu líkt. Aldrei hefur hana skort kjarkinn.“
Nú dregur að leikslokum, að enda máls míns um Guðrúnu Magnúsdóttur í Fagradal.
Guðríður Þórðardóttir bjó ávallt hjá móður sinni í Fagradal, þegar hún dvaldist í Eyjum, og það gerði hún, eftir að hún hafði lokið námi og hætti að vera heimiliskennari hjá efnuðum bændum undir Eyjafjöllum. Hún var móður sinni einkar góð og hjálpsöm. Hún lézt hér á Franska sjúkrahúsinu árið 1921, eins og ég hef tekið fram, þrem mánuðum eftir lát Þórunnar.
Árið 1935 var Guðrún Magnúsdóttir orðin lasburða, svo að ekki þótti gerandi eða sæmandi, að hún byggi lengur ein í íbúð sinni í Fagradal. Tók þá Jón tengdasonur hennar á Ármótum og það fólk hana til sín. Það hafði ávallt reynzt henni vel í alla staði.
Á Ármótum dvaldist hin aldraða sæmdarkona síðasta ár ævinnar. Hún andaðist 15. júní 1936, 85 ára að aldri, sæl í trú sinni og sátt við guð og menn. Minnin um hana lifa hér enn. Þau hafa valdið því, að ég lét tilleiðast að setja saman þetta greinarkorn um hana. Ég færi þeim þakkir, sem lagt hafa mér lið í því starfi.