Blik 1971/Bréf til vinar míns og frænda, 1. kafli, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Stökkva á: flakk, leita

Efnisyfirlit 1971ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda
(síðari hluti fyrsta kafla)


Hér kemur þriðja barn þeirra hjóna í Ásgarði, Steinunn Ásmundsdóttir, fyrst og fremst við sögu mína. Hún óx úr grasi og varð hin álitlegasta heimasæta og hinn mikli kvenkostur í Búrfellssókn. Árið 1732 eða þar um bil giftist hún dönskum manni, Hans Klingenberg, ættuðum líkl. frá Holstein í Suður-Danmörku. Hvernig hún kynntist honum, hefur verið ágizkun með afkomendum þeirra sumra um árabil, en þeir eru býsna margir með Íslendingum bæði vestan hafs og austan nú á síðari hluta 20. aldarinnar.
Því hefur verið haldið fram á prenti, að Hans Klingenberg hafi verið einn af bændum þeim, er konungsvaldið sendi til Íslands á 18. öldinni til þess að kenna landsmönnum að stunda fjölbreytilegri landbúnað en þá tíðkaðist með þjóðinni. Sú fullyrðing fær ekki staðizt, með því að útlendu bændurnir komu hingað til lands eftir miðja 18. öldina, en fyrsta barn þeirra hjóna, Steinunnar Ásmundsdóttur og Hans Klingenbergs, fæðist 1733.
Fer ég nú fáum orðum um sendimenn konungs hingað til lands á þessu tímaskeiði vegna staðreyndanna um hjónaband þeirra Steinunnar og Hans og búskapar þeirra á Krossi í Garðasókn á Akranesi um langt árabil. Þau voru hjón meira en hálfa öld.
Víkur því sögu minni út fyrir landsteinana.
Öldin 18. verður ávallt talin mesta hörmungar- og þrengingartímabil íslenzku þjóðarinnar. Danska konungsvaldið hafði á stundum nokkrar áhyggjur af tilveru þessarar þjóðar og framtíð. - Voru einhver tök á að kenna Íslendingum að lifa mannsæmandi lífi á landi sínu með því t.d. að kenna þeim að nota það af meiri þekkingu? - Til voru þeir menn, líka hér landi, sem fullyrtu eða héldu því fram eins og Jón hrak hjá Stefáni G., „að hver, sem kynni hversdagstök á náttúrunni, gæti léttar lífsins starfa lokið og til meiri þarfa.“ Það atriði þótti margsannað erlendis.
Reynandi var að kenna Íslendingum t.d. að reka fjölbreyttari landbúnað, kenna þeim að rækta korn og garðávexti. Einnig var hugsanlegt að stofna til brennisteinsnáms á Íslandi, - kenna Íslendingum að vinna brennistein á jarðhitasvæðunum.
Kunnugt er úr sögu okkar, að 14 norskir og danskir bændur voru sendir til Íslands strax eftir miðja 18. öldina (1753) til þess að kenna íslenzkum bændum og búaliðum fjölbreyttari jarðræktarstörf en grasræktina eina saman. Hlunninda- og sérhagsmunakjara urðu þessir útlendu bændur að njóta til þess að fást í för þessa til hins afskekkta og kalda lands. Þeir skyldu t.d. verða undanskyldir herþjónustu í heimalandinu, ef þeir vildu dveljast við landbúnaðarstörf á Íslandi næstu 8-10 árin og kenna Íslendingum að rækta korn og garðávexti, t.d. kartöflur og rófur. Sýslumennirnir víðsvegar um landið voru látnir greiða þessu erlenda bændafólki götuna hér heima, veita því margskonar fyrirgreiðslu um jarðnæði og vistarverur.
Því hef ég séð haldið fram á prenti, að í hópi þessa erlenda bændafólks, - en bændurnir voru flestir kvæntir menn og höfðu fjölskyldur sínar með sér, hafi verið ungsveinninn Hans Klingenberg. En það stenzt ekki söguleg rök og staðreyndir. Hans Klingenberg kom fyrr hingað til landsins, já, 20-30 árum fyrr. Þó get ég þessa erlenda bændafólks til þess að sanna hug kóngs til að bæta lífsafkomu íslenzku þjóðarinnar, kenna henni að notfæra sér með aukinni þekkingu gæði landsins og sigrast á aðsteðjandi erfiðleikum sökum legu þess og landkosta. Kóngur efndi til margra ferða eða heimsókna kunnáttumanna til Íslands í þessu skyni. Í einum slíkum ferðahóp var Hans Klingenberg á fyrri hluta 18. aldarinnar. En áður en ég kem að hópnum þeim, vil ég til staðfestingar þessu máli mínu og áherzlu minna á för Matthíasar Jochumssonar Vagel (Þ.Th.) hingað til lands árið 1729. Hann kom hingað fyrir atbeina konungsvaldsins til þess að rannsaka aðstöðu alla til brennisteinsnáms og útflutnings á honum, einkum þó með tilliti til þess, hvort ekki yrðu tök á að fá hér ódýrari brennistein en annars staðar. Einnig skyldi Vagel athuga gaumgæfilega, hvort tök væru á að stofna til hvalveiða á Íslandi. Við skulum álykta á kristilega vísu, að ferðir þessar hafi öðrum þræði a.m.k. miðað að bættum þjóðarhag, þó að nokkrir eiginhagsmunir hafi leynzt að baki þessum athugunum öllum.
Ekki get ég séð af heimildum, að Hans Klingenberg hafi fylgt Vagel til Íslands árið 1729, verið aðstoðarmaður hans í þessari rannsóknarför, þó að tíminn gæti komið heim við fæðingarár fyrsta barns þeirra Steinunnar Ásmundsdóttur í Ásgarði, Önnu Katrínar, en hún fæddist 1733 eða þar um bil.
Danskir einokunarkaupmenn og sjófarendur þeirra kvörtuðu tíðum til konungsvaldsins yfir skorti á viðhlítandi sjókortum, er þeir sigldu til Íslands. Á 18. öldinni var þessum kvörtunum loksins sinnt að ráði. Þá hófst, svo að vitað er með vissu, landmælingar og kortagerð hér á landi á grundvelli stærðfræði og vísindalegrar þekkingar, t.d. stjörnufræði. Þó höfðu verið gerðir uppdrættir af ýmsum stöðum áður á landinu, en allt var það verk handahófskennt og óvísindalega unnið. Nákvæm kort af ströndum landsins var Íslandssiglendum lífsnauðsyn.
Til þess að geta mælt landið og gert af því rétta og sem allra nákvæmasta uppdrætti, þurfti til brunns að bera mikla kunnáttu í stærðfræði, stjörnufræði og öðru, sem laut að landmælingalist. Jón biskup Árnason er talinn hafa verið einna færastur allra Íslendinga á sinni tíð (1665-1743) í þessum fræðum öllum. Ýmsir höfðu þó borið við landmælingar og kortagerð á Íslandi, svo sem Magnús Arason og séra Hjalti Þorsteinsson. Þeir höfðu bæði þekkingu til brunns að bera og þá æfingu, er krafizt var til þess að geta gert viðunandi landabréf og siglingakort. Báðir unnu þessir Íslendingar að kortagerð hér á landi. T.d. gerði séra Hjalti Þorsteinsson í Vatnsfirði landakort af öllum Vestfjörðum og fjörðum í Strandasýslu ¹.
¹ Eftir dauða séra Hjalta, skemmdu landar hans málverk hans og landabréf, en prestur var málari af snilld. Þá birtist prestur einum af skemmdaröngunum í draumi og kvað:

„Lífs hjá guði lifi ég enn,
leystur af öllum pínum.
Hafið þið brjálað, heilla menn,
handverkunum mínum.“

Magnús Arason starfaði að landmælingum og kortagerð fyrir konungsvaldið danska hér á landi síðustu ár ævinnar, en hann drukknaði 1728.
Árið 1728 var Kristian Guldencrone, fríherra, riddari og konferenzráð, skipaður stiftamtmaður yfir Íslandi. Vitaskuld sat hann ekki sjálfur hér heima, heldur hafði hann umboðsmann sinn búsettan á Bessastöðum. Sá var Niels Fuhrmann.
Kr. Guldencrone hafði mikinn áhuga á vísindalegum landmælingum á Íslandi og kortagerð í samræmi við þær. Í þeim efnum vildi hann fyrst koma til móts við einokunarkaupmennina og skipstjórnarmenn þeirra.
Íslendingurinn Magnús Arason hafði notið opinbers styrks til landmælinga og kortagerðar hér heima á áratugnum 1720-1730. En hann lézt árið 1728 eins og áður getur.
Mælingatæki hans voru geymd hér heima. Það vissi stiftamtmaðurinn. Þau vildi hann láta nota og þannig halda áfram hinum vísindalegu landmælingum hér og kortagerð. Þannig urðu til ástæðurnar fyrir því, að árið 1730 beitti stiftamtmaðurinn áhrifavaldi sínu í þessa átt, og leiddi það til þess, að fyrirliði í norska herliðinu var sendur til Íslands til þess að vinna þar að landmælingum næstu árin. Nafn þessa fyrirliða og landmælingamanns var Thomas Hans Henrich Knopf. För hans til Íslands var gerð út af sjálfri ríkisstjórninni og fátt til sparað.
Knopf kom til landsins vorið 1730 við tíunda mann. Kona hans var í för með honum, börn og astoðarmenn. Einn af aðstoðarmönnum Knopfs landmælingamanns mun verið hafa Daninn Hans Klingenberg, ungur að árum þá.
Brátt eftir komuna hingað tók Knopf landmælingamaður og aðstoðarmenn hans til að ljúka við þær landmælingar í Árnessýslu, er Magnúsi Arasyni hafði ekki enzt aldur til að ljúka við. Sumarið eftir dvöldust menn Knopfs einnig við landmælingar þar austur í sýslunni. Þá mældu þeir einnig (1731) í Rangárvallasýslu og Vestmannaeyjum.
Eftir fyrsta veturinn hér á landi kvartaði Knopf landmælingamaður sáran yfir því við stjórnarvöldin að þurfa að búa með börn og konu í íslenzkum sveitabæ eða torfkofa. Einnig skorti þá mælingamennina húsrými við teikningar sínar og kortagerð. Lét þá stiftamtmaður byggja hús handa þeim á Nesi við Seltjörn. (Á Seltjarnarnesi). Þetta hús mælingamannanna var kallað Knopfsborg og stóð þar nokkur ár.
Þegar mælingamennirnir dönsku störfuðu að landmælingunum að sumrinu, höfðu þeir mikið samneyti við íslenzkt bændafólk, þar sem þeir störfuðu að landmælingunum í byggðum og sveitum. Þeir heimsóttu þar meiri háttar bændur og nutu gestrisni þeirra og þekkingar á staðháttum og örnefnum. Eitt þessara myndarheimila var Ásgarðsheimilið í Grímsnesi, þar sem ekkja Ásmundar Sigurðssonar bjó, Sigríður húsfreyja Jónsdóttir, með börnum sínum. Þarna mun Hans Klingenberg hafa fyrst auga litið heimasætuna Steinunni Ásmundsdóttur, sem þá var um tvítugt.
Á vetrum unnu landmælingamennirnir dönsku að kortagerðinni í Knopfsborg á Seltjarnarnesi.
Gera má ýmsu skóna.
Steinunn heimasæta í Ásgarði dvaldist á vetrum hjá frændfólki sínu við Faxaflóa og þarna í námunda við Seltjörn, þar sem mælingamennirnir störfuðu að kortagerðinni. Þeir voru kunnugir Ásgarðsfólkinu frá mælingastörfunum austur í Árnessýslu.
Móðursystir Steinunnar heimasætu var mad. Þóra Jónsdóttir, kona séra Gísla Sigurðssonar sóknarprests í „Holmens Distrikt“, þ.e. Reykjavík og næsta nágrenni. Prestshjónin bjuggu á Lambastöðum á Seltjarnarnesi eftir tengdaforeldra frúarinnar, séra Jón Stefánsson og mad. Steinunni Jónsdóttur, afa og ömmu Steinunnar heimasætu. Allir íbúar í Holmens Distrikt áttu því kirkju að sækja til séra Gísla Sigurðssonar.
Þá var einnig móðurbróðir Steinunnar heimasætu frá Ásgarði búandi að Gufunesi. Það var Stefán lögréttumaður Jónsson, bóndi þar.
Þarna voru því hæg heimatökin, þegar hugir beggja stefndu að einu marki. Tekst þá tveir vilja, og þá ekki sízt í ástarmálunum. Sameiginleg kirkjusókn hefur ekki sjaldan greitt þá götu fram á leið að settu marki, svo sem kunnugt er.
Hvað sem öllu líður, þá er það víst, að heimasætan unga frá Ásgarði Grímsnesi og danski mælinga- og kortagerðarmaðurinn Hans Clingenberg (eins og hann var skrifaður þá) felldu hugi saman og gengu í hjónaband. Sú hjónavígsla ætla ég að fram hafi farið árið 1732. - Fyrsta barn þeirra hjóna fæddist 1733. Það var Anna Katrín Hansdóttir, síðar húsfreyja á Ytra-Hólmi og svo enn síðar að Krossi í Garðasókn.
Þegar Knopf mælingamaður hvarf af landinu sumarið eða haustið 1734, fengu ungu hjónin inni í Knopfsborg. Þangað hurfu þau í ósköpunum miklu, er jarðskjálftinn í Árnessýslu í marzmánuði 1734 vakti ótta og skelfingu í flestum sveitum Suðurlandsins og hristi fjölda sveitabæja í rúst, sérstaklega í Grímsnesinu og nálægum sveitum. Sjálfsagt hefur ekkjan í Ásgarði, móðir Steinunnar, og börn hennar ekki farið varhluta af þeim ógnum og erfiðleikum.
Ekki væri það ólíklega til getið eins og allt var í pottinn búið hér heima, að hinn danski mælingamaður á ungum aldri, eins og hann var, hafi kosið að mega hverfa heim til Danmerkur með fenginn sinn, íslenzku bóndadótturina. En þá hefur komið babb í bátinn. Hún hefur heldur kosið að vera án hans en hverfa burt af landinu sínu. Það hefur að sjálfsögðu verið Dananum íhugunarefni um sinn að afsala sér allsnægtunum og menningarlífinu heima í Danmörku og setjast að á Íslandi, kalda landinu allslausa eða snauða af flestu því, sem kallaðist þá mannsæmandi líf. En svo fóru leikar, að hann kaus heldur ástir heimasætunnar íslenzku en allt hitt, er hann átti kost á heima hjá efnaðri embættismanna- og bændafjölskyldu suður á hinu brosandi landi við sundin blíðu. Enda hefði Steinunni Ásmundsdóttur í Ásgarði verið illa í ætt skotið, ef hún hefði umhugsunarlítið og án allra kennda yfirgefið ættland sitt, svo kunnir eru afkomendur Ásmundar bónda Sigurðssonar og mad. Sigríðar Jónsdóttur að þjóðrækni og ættjarðarást. Því máli mínu til sönnunar vísa ég til ættboganna, sem birtir eru hér að framan í greinarkorni þessu.
Mjög er það sennilegt, að ungu hjónin hafi hafið búskap sinn í húsmennsku hjá Sigríði húsfreyju í Ásgarði, meðan danska bóndaefnið var að kynnast íslenzkri fjárhirðingu, íslenzkum bústörfum og staðháttum öllum. Ekkjan í Ásgarði bjó þá með börnum sínum, og var Sigurður sonur hennar bústjóri hennar og forsvarsmaður, - fyrirvinna, eins og það var víða kallað.
Vissir atburðir, - stórkostlegar náttúruhamfarir, - ollu því, að hjónin ungu kusu heldur að fá sér jörð til ábúðar annars staðar en á Suðurlandi. Því ollu hinir ógurlegu jarðskjálftar, sem hófust síðari hluta marzmánaðar 1734, er hart nær 50 bæir hrundu í rúst á 2-3 vikum, flestir í Grímsnesinu og Flóanum. (Sbr. Hvammsannáll). Þá var það sem ungu hjónin kusu að festa sér jörð utan við jarðskjálftasvæðið. Árið 1734-1735 fengu þau inni í húsi því á Nesi við Seltjörn, er konungsvaldið lét byggja handa Knopf og fjölskyldu hans og kortagerðarmönnunum og ég hef getið um. Árið eftir festu þau kaup á jörðinni Krossi í Garðasókn á Akranesi. Þar búa þau svo, þegar bændatalið fór fram árið 1752.
Vissulega hafa ungu hjónin getað hafið búskap sinn við rúman fjárhag. Fyrst og fremst voru hjónin í Ásgarði, foreldrar hennar, vel efnum búin, svo að Steinunn hefur fengið nokkurn arf eftir föður sinn. En jörðina Ásgarð áttu þau ekki. Hana átti biskupsstóllinn í Skálholti. Hins vegar sanna hin mikilvægu trúnaðarstörf feðganna í Ásgarði, föður Ásmundar bónda og afa, hversu vel efnum búnir þeir hafa verið. (Sjá ættliðaskrána hér að framan). Fátæklingar nutu ekki slíkrar hefðar þá í íslenzka þjóðfélaginu. (Sjá A. 1.-2).
Sögufróður maður hefur tjáð mér, að Klingenbergsættin danska hafi yfirleitt búið við góð efni þar í landi kynslóð fram af kynslóð, enda kunn embættismanna- og bændastétt frá miðöldum, sagði hann. Hans Klingberg bóndi á Krossi í Garðasókn er því líklegur til þess að hafa fengið dágóðan fjárhagslegan stuðning að heiman, er hann hóf búskap á Krossi. Er þau hjón girntust að kaupa Kross, voru þar fjórir bændur búandi, þeir Bjarni Sigurðsson, Grímur Sigurðsson, Sigurður Rafnsson og Illugi Björnsson. Smám saman festu þau hjón kaup á allri jörðinni, sem var 25 hundruð að dýrleika fyrir utan hjáleigur, sem þau eignuðust einnig.
Við bændatalið 1752 eru hjónin eigendur allrar Krosstorfunnar, sem var 40 hundruð að dýrleika alls. Þá voru þau hæstu skattgjaldendur í Garðasókn og Heynessþingum. Þar að auki telja hjónin þá fram 28 lausafjárhundruð til skuldlausrar eignar að bezt verður séð.
Hjónin á Krossi, Steinunn Ásmundsdóttir og Hans Klingenberg, eignuðust þrjú börn að ég bezt veit. Þau voru þessi:
1. Anna Katrín Hansdóttir, f. 1733 að Ásgarði í Grímsnesi. Hún varð tvígift. Fyrri maður hennar hét Jón. Föðurnafn er mér ekki kunnugt um. Dóttir þeirra var Steinunn Jónsdóttir, er dvaldist með móður sinni á Ytra-Hólmi, er hún bjó þar með seinni manni sínum, Ísleifi Sigurðssyni. Þau hjón bjuggu á Ytra-Hólmi um 1785 og síðar á Krossi í Garðasókn í húsmennsku hjá Steinunni móður Önnu Katrínar, ekkju þá, en taldist þó fyrir búinu, enda þótt hún væri þá háöldruð, um og yfir áttrætt. Anna Katrín lézt 24. maí 1799 eða 5 árum síðar en móðir hennar.
2. Jörgen (Jören, Jörin) Hansson (sjá A. 5). Kona hans var Guðrún Magnúsdóttir, sem mun hafa verið fædd um 1738. Þau giftust árið 1763 eða þar um bil og bjuggu á Elínarhöfða.
Kunn eru mér að nafninu til 4 börn þeirra hjóna: Magnús, f. 1764; Ásmundur, f. 1766; Sigríður, f. 1771; Sigurður, f. 1778.
Guðrún húsfreyja á Elínarhöfða lézt 1804 og hafði þá búið ekkja á Elínarhöfða í Garðasókn um árabil.
3. Ellen Sif, f. 1743. Nafn hennar varð Ellisif í daglegu tali fólksins. Hún var ljósmóðir í Garðasókn. Maður hennar var Árni Þorsteinsson ( sennilega frá Leirárgörðum) f. 1733. Þau búa í einskonar húsmennsku hjá Steinunni Ásmundsdóttur, móður Ellisif, á Krossi á árunum 1785-1792, en hin aldraða ekkja telst fyrir búinu. Ellisif hefur líklega látizt árið 1817.
Vekja má athygli á því, að Steinunn Ásmundsdóttir lætur mann sinn ráða nöfnunum á öllum börnum þeirra. Gerði hún það til þess að bæta honum að einhverju leyti upp það, sem hann hlaut að fara á mis við með því að dvelja við búskapinn heima á Íslandi til dauðadags? Hans Klingenberg mun hafa andast árið 1784 eða þar um bil.
Steinunn Ásmundsdóttir húsfreyja á Krossi í Garðasókn lézt 1. júní 1794 á 85. aldursári. Eftir því sem næst verður komizt, þá hefur hún búið ekkja á Krossi um það bil einn áratug.
Séra Jón Grímsson í Görðum gerir gömlu konunni, öldruðu ekkjunni á Krossi, hærra undir höfði en flestum eða öllum öðrum sóknarbörnum sínum, er hann skráir fráfall hennar í kirikjubókina. Prestur segir Steinunni húsfreyju hafa búið í hjónabandi í 52 ár. Eftir dauða bónda síns lifði hún 10 ár. Allt kemur þetta heim við giftingarár þeirra hjóna og fæðingu elzta barns þeirra, Önnu Katrínar (f. 1733), sem lézt 24. maí 1799. Prestur segir Steinunni Ásmundsdóttur hafa verið „rólfæra“ til hinztu stundar, en „heyrnardaufa“. Samt hélt hún bú, taldist húsmóðir á Krossi til aldurtilastundar.
Jörgen Hansson (Klingenberg) kvæntist konu sinni, Guðrúnu Magnúsdóttir, (f. 1738) líklega 1762 eða 1763. Fyrsta barn þeirra, Magnús, fæddist 1764. Annað barn þeirra, sem hér kemur sérstaklega við sögu, var Ásmundur, - Ásmundur Jörgenson (f. 1766), síðar bóndi á Elínarhöfða á Akranesi og hreppstjóri í Garðasókn. Hann var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Málmfríður Jónsdóttir (sjá B. 6) húsfreyja á Elínarhöfða.
Þau giftust 15. okt. 1795. Þá var hann 29 ára að aldri og hún 27 ára (f. 1768). Árið eftir fæddist þeim hjónum fyrsta barnið, stúlkubarn, sem hlaut nafn langömmu sinnar, Steinunnar Ásmundsdóttur á Krossi. Hún fæddist 8. apríl 1796 að Marbakka í Garðasókn. Hér er þá komin Steinunn Ásmundsdóttir, langamma okkar. (A. 7 og B. 7.)
Steinunn, sem var elzta barn hjónanna á Elínarhöfða, Málmfríðar Jónsdóttur og Ásmundar Jörgenssonar, óx úr grasi hraust og tápmikil, þó að ekki yrði hún stór vexti, en hnellin var hún snemma, kvik í hreyfingum og dugleg með afbrigðum. - Í þessu sambandi vísa ég til skrifa Kristleifs fræðimanns Þorsteinssonar frá Stóra-Kroppi um Steinunni. - Einnig var hún vel gefin sálarlega, svo að prestur sá ástæðu til að hafa orð á því í kirkjubókinni.
Steinunn á Elínarhöfða fermdist 2. sunnudag eftir páska árið 1810. Þá var hún 14 ára gömul. Prestur segir hana hafa lært fyrir fermingu allan ,,Nýja lærdóminn“; en ,,hinn tornæmum ætlaður,“ segir prestur, eins og komizt er að orði í kirkjubókinni.
Málmfríður Jónsdóttir húsfreyja á Elínarhöfða, móðir Steinunnar, lézt árið 1804 af blóðlátum. Steinunn litla var þá 8 ára, er hún missti móður sína.
Á síðari hluta gelgjuskeiðsins var Steinunni heimasætu á Elínarhöfða komið í vist hjá hjónunum á Innra-Hólmi, Magnúsi konferenzráði Stephensen og frú Guðrúnu Vigfúsdóttur, sem var hin mikla húsmóðir og myndarkona í hvívetna, svo að betri húsmóðurskóla var þá naumast hægt að veita ungu heimasætunni.
Vinnumaður hjá hjónunum á Innra-Hólmi var bóndasonur frá Geirshlíð í Flókadal, Þorsteinn Þiðriksson bónda Ólafssonar í Geirshlíð. Þorsteinn var fjármaður konferenzráðsins.
Magnús Stephensen, konferenzráðið á Innra-Hólmi, stóð í stórræðum á þessum árum eins og reyndar oftar. Hann hafði m.a. sett sér það mark, að kynbæta búféð íslenzka. Kóngurinn í Kaupmannahöfn hafði mikinn áhuga á þessari fyrirætlan hins tigna embættismanns síns. Fyrir eigið fé keypti kóngur tvær spænskar gimbrar og hrút og afhenti konferenzráðinu. Þessar kindur ól hinn tigni embættismaður heima á Innra-Hólmi og hugðist síðan dreifa kynbótahrútum víðsvegar til bænda í sveitum landsins.
Til þess að annast fjárhirðinguna og hinn mikla búrekstur annan á Innra-Hólmi hafði konferenzráðið m.a. leitað eftir fjármanni vönum og atorkusömum uppi um sveitir Borgarfjarðar. Þaðan réð hann síðan til sín Þorstein Þiðriksson frá Geirshlíð í Flókadal bónda Ólafssonar, sem brátt varð hægri hönd Magnúsar Stephensens við fjárræktina. Þorsteinn hafði verið „fyrirvinna“ móður sinnar frá því að hún missti manninn í maí 1803. Síðustu árin, áður en hann réðst að Innra-Hólmi, hafði hann verið vinnumaður á bæjum í Borgarfjarðarsveitum. Frá Vilmundarstöðum mun hann hafa flutzt að Innra-Hólmi og gerzt þar fjármaður og heyskaparmaður vorið 1815.
Til þess að sem mestur og beztur árangur gæti orðið af þessu kynbótastarfi sínu fyrir allt landið, þá sendi Magnús Stephensen fjármann sinn eða fjármenn vestur á Firði til þess að kaupa þar kynbótaær, því að á Vestfjörðum var sauðfé þá talið vænna en annars staðar á landinu. - Þessar fyrirhuguðu kynbótaær lét konferenzráðið kaupa í Strandasýslu og Ísafjarðarsýslu norðan verðri.
Árangurinn af þessu kynbótastarfi þeirra á Innra-Hólmi varð ekki eins og til var ætlazt. Hvernig sem fjármennirnir dekruðu við vestfirzku ærnar, þrifust þær ekki á Innra-Hólmi. Hins vegar þreifst útlenda sauðféð býsna vel hjá fjármanninum borgfirzka, og er fullyrt í merkum heimildum, „að hið útlenda fé hafi hvergi eins vel artast og hjá konferenzráðinu, og mun hann nú varla eiga óblandað íslenzkt fjárkyn,“ stendur þar.
Árið 1816 sendi kóngurinn sjálfur konferenzráðinu á Innra-Hólmi bola og kvígu af dönsku kyni til kynbóta á íslenzka nautgripakyninu. Hvort hinn verðandi ektamaki, Þorsteinn Þiðriksson, sem þá þegar var heitbundinn Steinunni Ásmundsdóttur heimasætu frá Elínarhöfða, hirti þessi nauzku kynbótadýr líka, læt ég ósagt.
Þá vík ég sögu minni frá kynbótastarfinu á Innra-Hólmi og fjármanninum þar, honum Þorsteini Þiðrikssyni, til hans sjálfs og kennda hans þarna í vinnumennskunni.
Ekki hafði borgfirzki fjármaðurinn lengi dvalizt á Innra-Hólmi, er hann tók að gera hosur sínar grænar fyrir Steinunni Ásmundsdóttur vinnukonu frá Elínarhöfða. Hann veitti henni stórum meiri athygli en hinum vinnukonum konferenzráðshjónanna. Þar sem hann leysti heyið í heykumlunum við fjárhúsin (heyhlöður þekktust þá ekki á Íslandi) eða rölti við kynbótaféð úti á beitilandinu að vetrinum eða sló á túni og engi, þá dvaldi hugur hans alltaf öðrum þræði hjá ungu og tápmiklu vinnukonunni frá Elínarhöfða. - Loks lét hún tilleiðast, og þau felldu hugi saman.
Þorsteinn Þiðriksson og Steinunn Ásmundsdóttir giftust 4. ágúst árið 1816. Þá stóð hún á tvítugu, en hann var 26 ára (f. 17. maí 1790), eða 6 árum eldri. Hjónavígslan fór fram heima á Innra-Hólmi. Og 20 spesíur fékk langamma í „morgungjöf“.
Eftir hjónavígsluna dvöldust ungu hjónin áfram á Innra-Hólmi hjá konferenzráðshjónunum í vinnumennsku eða húsmennsku, með því að húsbændur þeirra töldu sér ekki hagkvæmt, já, síður en svo, að missa þau frá búrekstri sínum, hann frá fjárhirðingunni og hana frá vinnukonustörfunum, þjónustubrögðum, eldhúsvafstri og heyskaparumsvifum eða önnum.
Í húsmennskunni á Innra-Hólmi fæddist ungu hjónunum tvö fyrstu börnin, en börn þeirra, sem upp komust, urðu 13 alls. Tvö börn munu þau hafa misst mjög ung.
Eftir þriggja ára húsmennskudvöl og - störf á Innra-Hólmi, afréðu ungu hjónin að gerast sjálfstæð bóndahjón. Þá fengu þau jörðina Gröf í Skilamannahreppi til ábúðar. Þangað fluttust þau vorið 1819. Þarna undu þau aðeins eitt ár. Vorið 1820 fengu þau jörðina Kjalardal í sömu sveit til ábúðar. Þar munu þau hafa búið í 8 ár eða til vorsins 1828. Það vor flytja hjónin búferlum upp í Flókadal á jörðina Brennistaði. - Alltaf uxu þau að álnum, þrátt fyrir tíðar barneignir, og alltaf stefndu þau að því marki að fá til ábúðar og eignast jörð, sem þau með meðfæddri atorku og elju, dugnaði og búhyggni gætu gert að höfuðbóli með auknum jarðabótum og góðum húsakosti, eftir því sem þá gerðist bezt í þeim efnum í íslenzkum sveitum. Þetta tókst þeim. Þau náðu markinu árið 1842 eða næsta vetur. Vorið 1843 flytja hjónin að Hurðarbaki í Reykholtsdal. Þar bjuggu þau æ síðan.
Þorsteinn bóndi Þiðriksson, langafi okkar, drukknaði í Hvítá 30. des. 1858. Lík hans fannst vorið eftir.
Að manni sínum látnum bjó Steinunn langamma okkar á Hurðarbaki til dánardægurs, og var Bjarni sonur hennar fyrir búinu með henni. Hún andaðist 26. sept. 1879.
Kristleifur Þorsteinsson, bóndi og fræðimaður á Stóra-Kroppi, getur um Steinunni langömmu okkar í 3. bindi ritverks síns Úr byggðum Borgarfjarðar.
Þar kemst hann svo að orði um Steinunni húsfreyju á Hurðarbaki Ásmundsdóttur:
,,Erlindur (þ.e. Erlendur Gunnarsson, hinn merki bóndi, síðar á Sturlureykjum) ólst upp hjá Steinunni Ásmundsdóttur á Hurðarbaki, ekkju Þorsteins Þiðrikssonar, og móðir þeirra mörgu og tápmiklu Hurðarbakssystkina ... Þar var kona, sem þá hafði að mestu lokið löngu ævistarfi. Það var Steinunn Ásmundsdóttir á Hurðarbaki ... Hún var smávaxin, en frábæru fjöri og tápi, sem henni var áskapað, var ekki enn með öllu lokið. Mikið skap samfara drenglyndi þótti einkenna þessa konu, sem nú er orðin formóðir fjölda manna...Steinunn var öldruð, er ég sá hana fyrst, smávaxin, svarthærð og harðleg. Búforkur var hún talin og víkingur til vinnu. - Bjarni sonur hennar, síðar stórbóndi á Hurðarbaki, stjórnaði búi hennar.
Steinunn var af þýzkum eða suðurjózkum ættum, og er lítill vafi á því, að þaðan hafi verið runnin sú skapgerð, sem einkenndi mjög greinilega þessa fjölmennu ætt. Frábært fjör og léttleiki, sem er rótgróin ættarfylgja, samfara nokkru óstýrilæti og hneigð til þess að brjótast undan yfirráðum, en liðsinna snauðum, - hjálpsemi, en jafnframt glöggleiki til að sjá sér leik á borði í viðskiptum.“
Þetta voru orð hins merka fræðimanns um langömmu okkar, Steinunni Ásmundsdóttur. Skyggnist svo hver ættingi eða afkomandi hennar, sem þetta kynni að lesa, í eigin barm og spyrji sjálfan sig: Hvað hefi ég erft af þessum eiginleikum gömlu konunnar?
Þegar Steinunn langamma okkar var húsfreyja í Kjalardal, skráði sóknarprestur þetta um hana í kirkjubók Garðasóknar: ,,Vel að sér um alla kvenlega hluti, vel gáfuð. - Barnauppfræðing er hér vel stunduð.“ Þetta skráði prestur eftir húsvitjun í Kjalardal árið 1826.
Freymóður Þorsteinsson, bæjarfógeti hér í Vestmannaeyjum, tjáir mér, að legsteinn Þorsteins Þiðrikssonar, langafa okkar, standi enn í Reykholtskirkjugarði. Þegar Freymóður gekk til spurninga hjá prestinum í Reykholti, gerði hann sér það til gamans að skrifa hjá sér áletranir á legsteinum þar í kirkjugarðinum. M.a. skráði hann hjá sér áletrunina á legsteini Þorsteins langafa okkar. Bæjarfógeti kveður hana hljóða þannig: ,,Hér hvílir hold heiðursbóndans Þorsteins Þiðrikssonar. Hann var fæddur 1791 (á að vera 1790). Giftur 1817 (á að vera 1816) Steinunni Ásmundsdóttur. Með henni varð honum 15 barna auðið. Hann deyði 1858. - Guðrækinn, gestrisinn, góðhjartaður, trúfastur maki, tryggur vinur. Hagur, ráðsettur, hygginn fjármaður. Sitt kall með sönnum sóma stundaði. Lofsvert því enti lífsskeið að kvöldi dags, þegar drottinn dýrðar nam kalla sál hans til sinna sælu bústaða. Sínum föður setti Ásmundur.“
Hér skrái ég síðan börn þeirra hjóna og nánustu afkomendur, ef ég veit eða kann að nefna þá með vissu. Þar finnur þú þinn hlekk í festinni.
1. Málfríður (m-ið fellur nú niður úr nafninu) Þorsteinsdóttir, f. að Innra-Hólmi 2. okt. 1816. Hún giftist Davíð Þorbjarnarsyni gullsmiðs á Lundum Jónssonar. Þau hófu búskap á Brennistöðum, þegar foreldrar hennar fluttu þaðan að Hurðarbaki árið 1843. Þaðan fluttust þau svo að Þorgautsstöðum í Hvítársíðu og bjuggu þar æ síðan. Synir þeirra voru Ólafur Davíðsson bóndi á Hvítárvöllum og Þorsteinn bóndi Davíðsson á Arnbjargarlæk. Börn Ólafs Davíðssonar eru hin mörgu Hvítárvallasystkin. (Sjá bókina Merkir Borgfirðingar eftir dr. theol. Eirík Albertsson ).
Synir Þorsteins bónda á Arnbjargarlæk voru bræðurnir Þorsteinn sýslumaður og alþingismaður Dalamanna, sá er sjálfur batt hey sitt á túni sínu í Búðardal og safnaði bókum, og Davíð bóndi Þorsteinsson á Arnbjargarlæk, er talinn var ríkasti fjárbóndi landsins á Hvanneyrarárum mínum.
2. Ólafur Þorsteinsson, f. á Innra-Hólmi 10. des. 1817.
3. Þorsteinn Þorsteinsson, afi minn, f. að Gröf í Skilamannahreppi 31. okt. 1819. Kona hans var Ingibjörg Jónsdóttir bónda Arasonar í Guðrúnarkoti (áður Miðteigi á Akranesi (A. 8)). Mæður þeirra hjóna voru hálfsystur og hjónin þannig systrabörn. - Eitt barn þeirra hjóna var Jónína Guðrún Þorsteinsdóttir, móðir okkar systkinanna. (Sjá A. 9). Hún leitaði sér atvinnu eins og svo margir Sunnlendingar austur til Mjóafjarðar vorið 1896. Þar kynntist hún föður mínum, sem flutzt hafði austur í Mjóafjörð í atvinnuleit vorið 1894. Þau giftust í Mjóafjarðarkirkju haustið 1897 og hófu búskap á Melum, sem var timburhús inni á Kolableikseyri sunnan fjarðarins.
Afi og amma bjuggu í Geirshlíð í Flókadal. Hann andaðist árið 1885. Krabbamein leiddi hann til dauða.
4. Margrét Þorsteinsdóttir, f. í Kjalardal 19. júní 1820, d. 13. jan. 1895. Óg. bl.
5. Ásmundur Þorsteinsson, f. 14. nóv. 1822 í Kjalardal. Hann kvæntist Sigríði Jónsdóttur bónda á Haukagili. Þau bjuggu víða. (Sumir segja á 13 jörðum, áður yfir lauk). Ásmundur reisti föður sínum minnisvarðann í Reykholtskirkjugarði.
6. Steinunn Þorsteinsdóttir, f. 13. okt. 1825 í Kjalardal, dáin 1904. Hún giftist Guðmundi bónda Sigurðssyni á Auðsstöðum í Hálsasveit. Börn þeirra: Þorsteinn Guðmundsson bóndi á Auðsstöðum; Valgerður Guðmundsdóttir húsfreyja á Búrfelli; Jón Guðmundsson, bóndi á Vatnshömrum.
7. Guðrún Þorsteinsdóttir, f. í Kjalardal 5. maí 1827. Var kona Magnúsar bónda á Melaleiti.
8. Þórður Þorsteinsson, f. 20. marz 1830 á Brennistöðum í Reykholtsdal. Hann kvæntist Rannveigu Kolbeinsdóttur frá Hofsstöðum í Hálsasveit 1854. Þau gerðust bóndahjón á Leirá í Leirársveit árið 1869 eða árið eftir að jörðin losnaði úr ábúð, er Jón skáld og sýslumaður lézt (1868). Þórður bóndi á Leirá lézt 3. marz 1889. Rannveig húsfreyja á Leirá var fædd 27. desember 1831 og andaðist 7. maí 1913. Hún mun hafa búið á Leirá 21 ár eftir fráfall manns síns eða verið þar við loðandi, en 1910 eða 1911 flytur hún að Vogatungu í sömu sveit. Þá áttræð eða þar um bil. Þar andaðist hún.
Þau hjónin Þórður og Rannveig byggðu barnaskólahús á jörð sinni Leirá. Þar var starfræktur barnaskóli um nokkurt árabil.
Mesta ánægju vakti mér afskipti Þórðar afabróður míns af kaupunum á Hvanneyrarjörðinni, er Björn, síðar bóndi í Grafarholti, vildi stofna þar búnaðarskólann. Björn hafði fest kaup á jörðinni, en hafði ekki efni á að standast straum af greiðslum, afborgunum, á andvirði hennar, meðan valdamenn í Borgarfirði voru að melta með sér búnaðarskólastofnunina.
Hinn 22. júní 1885 gera þeir með sér kaupsamning um Hvanneyrarjörðina og hjáleigur þar, Björn Bjarnarson og Þórður Þorsteinsson, sem þá var sýslunefndarmaður og bjó á Leirá í Leirársveit. Svo var að orði komizt í samningum, að eignin væri seld Þórði með „afbýlunum“ Svíra og Hamrakoti og svo kirkjujörðunum Ausu, Ásgarði, Horni, Stóru-Drageyri ásamt sjálfri jörðinni Hvanneyri. Kaupverðið var 16 þúsundir króna. Kaupandi tók að sér allar áhvílandi skuldir og greiðslur afborgana af jörðinni. Skuldirnar námu samtals um 15 þúsundum króna. Síðan voru þau ákvæði sett í kaupsamninginn, að kaupandi væri skyldur til að selja eignina aftur til búnaðarskólahalds, ef það kæmist á fyrir árslok 1893. Og skyldi þá söluverð jarðanna vera hið sama og kaupverðið. Hér unnu tveir hugsjónamenn að sameiginlegu marki. Annar neytti fjármuna sinna til þess að bjarga hugsjóninni, þegar hinn brast getuna. Þannig bjargaði Þórður bóndi á Leirá, afabróðir minn, hugsjón þessari. Að vissum tíma liðnum féllust valdamenn Borgarfjarðarhéraða á að stofna búnaðarskólann á Hvanneyri, og afhenti þá Þórður jörðina til þeirra hluta eins og ráð var fyrir gert.
Hefði svo ekki ráðizt, var Þórður skyldur til að afhenda Birni eða erfingjum hans Hvanneyrartorfuna með sömu kjörum og hann keypti hana. Þessi ákvæði sanna okkur bezt tilgang þessara tveggja manna með kaupsamningnum. Eigingirni Þórðar kom þar engin til greina. Aðeins markmiðið eitt, að bjarga jörðinni frá nauðungarsölu, meðan gert var út um búnaðarskólastofnunina.
Sæmundur Eggertsson bóndi á Hávarðsstöðum Ólafssonar skrifaði nokkrar minningar sínar í 37. tbl. Sunnudagsblaðs Tímans 15. okt. 1967. Þar kemst hann svo að orði um Þórð á Leirá, afabróðir minn:
„Þórður Þorsteinsson var skapmaður mikill og héraðsríkur höfðingi og á undan samtíð sinni um margt, svo sem sést á því, að hann byggði barnaskóla á Leirá og réð þangað kennara. Hús þetta, sem var járnvarið timburhús, stóð fram yfir aldamót. Það var einnig notað sem þinghús. Þórður var ferðamaður mikill og lét sér að sögn fátt mannlegt óviðkomandi. Hann var drykkjumaður allmikill.“
Rannveig Kolbeinsdóttir, kona hans, lifði nær 24 ár eftir dauða hans. Hún var sögð búforkur og búsýslukona mikil. Þessi hjón fengu Leirá til ábúðar eftir fráfall Jóns skálds og sýslumanns Thoroddsen 1868.
Sonarsonur beirra hjóna er Þórður Þ. Þórðarson bifreiðaeigandi og bifreiða-„útgerðarmaður“ á Akranesi. Hann er landskunnur.
9. Jón Þorsteinsson, f. 19. ágúst 1831 á Brennistöðum í Flókadal. Bóndi í Þinganesi.
10. Sigríður Þorsteinsdóttir, f. 4. jan. 1833. F.m. Jón Pálsson Jakobssonar frá Húsafelli. S.m. Þorbjörn Björnsson, sem kallaði sig þorskabít.
11. Þuríður Þorsteinsdóttir, f. 14. júní 1834 á Brennistöðum. Giftist Ólafi bónda Jónssyni á Sturlureykjum.
12. Þiðrik Þrsteinsson, f. 26. ágúst 1835 á Brennistöðum. Hann bjó lengst af á Háafelli og var við þann bæ kenndur.
13. Bjarni Þorsteinsson, f. 13. okt. 1838 á Brennistöðum. Hann stóð á tvítugu, er faðir hans féll frá. Þá gerðist hann „fyrirvinna“ móður sinnar á Hurðarbaki. Bjarni bjó síðan á Hurðarbaki til dánardægurs 17. marz 1899. Kona hans var Vilborg Þórðardóttir. Synir þeirra hjóna eru Þorsteinn Bjarnason, kunnur stórbóndi á Hurðarbaki, og Bjarni Bjarnason, fyrrv. bóndi í Skáney, hinn kunni söngstjóri Reykhyltinga um árabil og organisti í Reykholtskirkju.

Hvað missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur, er sannara reynist. Svo mælti hinn heiðarlegi höfundur. Þessi merku orð vil ég hér með gera að mínum. Ég vil biðja ykkur frændfólk mitt að leiðrétta, fari ég ekki satt og rétt með í greinargerð minni. Mjög er mér ábótavant um þekkingu í þessum efnum. Ég mælist þess vegna eindregið til þess, að frændfólk mitt, sem meira og betur veit, skrifi mér og veiti mér aukna fræðslu um þetta frændfólk okkar. Ég skal halda öllum þeim fróðleik til haga. Árangurinn af þeirri samvinnu okkar getur orðið fróðleiksheimild um ættfólk þetta. Hver veit, nema ég geti látið prenta þann fróðleik og sent síðan fræðurum mínum.

Kæri vinur og frændi. Ég læt hér staðar numið um þetta efni í bráð. Óska þó að svara nokkrum sérlegum spurningum þínum.
Auðvitað eru sérstök einkenni áberandi og arfgeng í ætt okkar, bæði jákvæð og neikvæð, ef ég mætti orða það þannig. Vissulega er þekking mín í þeim efnum ekki tæmandi eða fullkomin fremur en annars staðar.
Eftir því sem ég kemst næst, munu helztu jákvæðu einkennin: Dugnaður og viljastyrkur, búvit í betra lagi (en yfirleitt minna um bókvitið), hagsýni, þrautseigja og þjóðlegt lyndi, rík þjóðerniskennd. Í því sambandi langar mig að minna á, að Steinunn Ásmundsdóttir, húsfreyja á Krossi í Garðasókn, hélt föðurnafni sínu og bætti ekki við það hinu danska ættarnafni manns síns. Hún var þannig enginn hégómi, gamla konan hún formóðir okkar. Og þó var sá andi ríkjandi þá eins og oftar með þjóð okkar, að það væri svo „yfirmáta fínt“ að dubba upp á íslenzka nafnið sitt með dönsku eftirnafni. Minnimáttarkenndin og niðurlægingin í undirokuninni olli því, að sjálfsagt þótti að semja sig sem mest að dönskum háttum, væri þess nokkur kostur. Í því fólst „upphafningin“ frá hinu þjóðlega og lítilmótlega. En Steinunn Ásmundsdóttir hin eldri í ættinni hafði aðra skoðun á þeim hlutum. Þökk sé henni og heiður fyrir það. Hennar orðstír lifi! Hún lét prestinn einnig við húsvitjanir skrá nöfn barna sinna að íslenzkum hætti. Þau voru öll Hansbörn, en ekki Klingenbergs. En þó þykir mér rétt að vekja athygli á því, að fornöfn barna þeirra hjóna eru öll af dönskum uppruna. Ég hefi getið þess, að nafnið Anna Katrín er þekkt nafn Klingenbergsættinni dönsku. Svo er mér tjáð af fróðum manni í danskri sögu. Þá er Jörgen þekkt danskt nafn fyrst og fremst, þó að það sé ekki óalgengt hér á landi nú orðið. Ellen er danskt nafn, en seinna nafnið (Sif ) er hánorrænt, - þekkt nafn í Eddu.
Hvernig skyldi hafa staðið á því, að Hans bóndi virðist hafa fengið að ráða fornöfnum allra barnanna? Persónulega finnst mér auðvelt að gera því skóna. Hann fékk að ráða fornöfnum barnanna, en hún fékk að ráða rithættinum um föðurnafnið, kenna börnin á íslenzka vísu við föðurinn. Þannig fékk hún fullnægt meðfæddri og ættgenginni þjóðerniskennd.
Það hefur vakið óskipta athygli mína, að við skráningu á búendum eða heimilisfeðrum á Nesi við Seltjörn árið 1735, lætur Hans Klingenberg, sem er einn af 11 heimilisfeðrunum þar þá, skrá sig Hans Jörgensson. Þannig kennir hann sig þá við skírnarnafn föður síns á íslenzka vísu. Auðvitað gætir þarna sterkra áhrifa eiginkonunnar, Steinunnar húsfreyju. - Hins vegar notaði Hans bóndi alltaf ættarnafn sitt, eftir að hann gerðist bóndi á Krossi í Garðasókn, en skrifaði það með K en ekki C. Gætir þar einnig íslenzkra áhrifa.

Þiðrik bóndi Ólafsson í Geirshlíð, faðir Þorsteins langafa okkar, drukknaði ásamt Ólafi syni sínum 3. maí 1803 við Akranes. Þar stunduðu þeir þá sjóróðra. Það slys var óskaplegt áfall fyrir Geirshlíðarfjölskylduna, ekkjuna með öll börnin sín.
Þegar þetta slys átti sér stað, var Þorsteinn langafi okkar 13 ára og Þuríður systir hans, síðar húsfreyja í Ögri, 15 ára (f. 1788).
Brátt var unglingsstúlkunni komið í vist til þess að létta á framfærslu Geirshlíðarheimilisins, eftir áfallið mikla. Þuríði Þiðriksdóttur var komið að Hesti til prestshjónanna þar, séra Arnórs prófasts Jónssonar og konu hans mad. Sigríðar Sveinsdóttur. Með prestshjónunum fluttist hún vestur í Vatnsfjörð, er séra Arnór fékk það prestakall árið 1811.
Þuríður Þiðriksdóttir, langafasystir okkar, eignaðist markverða sögu. Gils Guðmundsson rithöfundur skrifar hlýlega um hana í bók sinni Frá yztu nesjum (V.).
Þuríður bóndadóttir frá Geirshlíð giftist Þorsteini Sigurðssyni Ólafssonar í Ögri við Ísafjarðardjúp árið 1813. Þau hjón voru jafngömul. Þau eignuðust þrjú börn. Eftir 13 ára hjónaband og búskap í Ögri drukknaði Þorsteinn bóndi í Ísafjarðardjúpi þá aðeins 38 ára. Þau höfðu búið myndarbúi í Ögri og gréru að álnum.
Árið 1828 giftist Þuríður Þiðriksdóttir í annað sinn og þá Einari Jónssyni bónda Einarssonar í Hvítanesi. Árið eftir giftinguna fluttu hjónin í Ögur og bjuggu þar í einbýli og stórbúi til æviloka Einars bónda. Þau ráku bæði landbú í þó nokkuð stórum stíl og mikla útgerð árabáta úr Ögurvör. Þó að Einar bóndi í Ögri væri athafnamaður mikill og rausnarhúsbóndi, þá var þó Þuríður kona hans talin honum fremri um bústjórnina, stendur þar. ,,Einar var hreppstjóri mörg síðustu árin, og mun yfirleitt hafa verið mest virti bóndi sveitar sinnar,“ segir Gils rithöfundur. Einar bóndi lézt 24. nóv. 1855. Þuríður húsfreyja lifði 7 ár eftir fráfall Einars bónda. Hún lézt í Ögri hjá Hafliða bónda þar, fóstursyni sínum, 23. júlí 1862. „Þótti hún hafa verið hinn mesti skörungur í bústjórn sinni og meðal fremstu húsfreyja hér vestra á sinni tíð,“ segir höfundur. Við þökkum höfundi þessi hlýju viðurkenningarorð um langafasystur okkar.
Þegar Þorsteinn Sigurðsson, eigandi stórjarðarinnar Ögurs, kvæntist Þuríði Þiðriksdóttur, þótti foreldrum hans lítið koma til þessa ráðahags. Þeim fannst borgfirzka bóndadóttirin alltof snauð af efnalegum fjármunum. Um þetta segir höfundur: „En þótt Þuríður Þiðriksdóttir færði ekki auð í bú þeirra Þorsteins, reyndist hún hin mesta forstands- og búkona, og var hún jafnan mikils virt. Kemur hún lengi og með sæmd við sögu Ögurs.“ Þetta voru orð Gils Guðmundssonar um langafasystur okkar, Þuríði húsfreyju Þiðriksdóttur frá Geirshlíð.

2. kafli

Til baka