Blik 1971/Bréf til vinar míns og frænda, 1. kafli, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1971



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda


Vissulega færi ég þér alúðarþakkir eins og öllum öðrum velvildarmönnum okkar hjóna, sem sendu mér og okkur heillaóskir, er ég fyllti sjöunda áratuginn. Ég trúi því, að hugurinn sá fari ekki framhjá mér og okkur, heldur hríni á okkur a.m.k. allan áttunda áratuginn minn og leiði fram á veg til aukinna starfa með fararheill í stafni.
Jafnframt þakka ég þér allar spurningarnar, sem þú hvetur mig til að svara, já, skorar á mig að svara eftir föngum. Ég veit og skil, að þér gengur þar gott eitt til. Ég mun því reyna að svara þeim eftir beztu getu. Allar spurningar þínar, sem varða skólastarfið og skólamálin í heild þau 36 ár, er ég stjórnaði framhaldsskóla kaupstaðarins hér, færðu í Bliki næsta ár. Þá birti ég 6. kafla fræðslusögu Vestmannaeyja um leið og ég ræði þar hið gagnmerka skólastarf Páls skólastjóra Bjarnasonar frá Götu í Stokkseyrarhreppi, er hér var barnaskólastjóri frá 1920 til dauðadags 5. des. 1938. Ég fellst á þá skoðun þína, að gagnlegt geti það verið síðari kynslóðum að skrá eitthvað af sögu þessari, áður en atburðirnir hverfa í glatkistuna hjá mér á einn eða annan hátt. Það biður því til næsta árs, að ég svari spurningum þinum gagnvart ummælum Einars ríka og Þorbergs Þórðarsonar, er þeir láta fljóta með í bók sinni Fagur fiskur í sjó, er þeir geta þess, að ég hafi átt í útistöðum við nokkurn hluta skólanefndarinnar og að þær deilur hafi lengi vel staðið skólanum fyrir þrifum ofan á hið ófullkomna húsnæði, eins og þeir orða það.
Þú virðist bera skyn á ýmis mál og máladeilur hér í bæ, sem risið hafa upp hér á undanförnum áratugum. Sumt af þeim fróðleik hefur Blik mitt veitt þér. Það er mér vissulega ánægjuefni.

Ég kýs að skipta efni þessa bréfs í kafla, sjálfstæða kafla. Og trúlegt þætti mér það, að birting sumra kaflanna yrðu að bíða næsta heftis Bliks, sem á að koma út á næsta ári (1972).
Ekki get ég neitað því, að ég hefi eytt miklum tíma til þess að afla mér fróðleiks í viðhlítandi svör, svo að forvitni þinni yrði svalað svona nokkurn veginn og allt mitt mál yrði sannleikanum sem allra mest samkvæmast.
Ég tel hins vegar aldrei eftir mér neinn tíma eða fyrirhöfn, ef starfið leiðir til fróðleiksöflunar og skrásetningar á sögulegum fróðleik, sem ef til vill hefði annars hafnað gjörsamlegt í gleymskuhítinni eða glatkistunni.
Ég óska að byrja á því að rekja nokkra liði ættar okkar. Ég veit, að þú finnur ættarhlekkinn þinn, þegar ég hefi skráð nöfnin á börnum hjónanna á Hurðarbaki, Steinunnar húsfreyju Ásmundsdóttur og Þorsteins Þiðrikssonar, langömmu okkar og langafa.
Til gamans skrái ég svo hér nokkrar ættkvíslir kunnra manna til þess að svara áleitinni spurningu þinni um þjóðkunna menn í ættum okkar. Ég veit, að lesendur mínir fyrirgefa mér það og leggja það ekki út sem drílni fyrir mér, manni á mínum aldri, þar sem ég hefi ekki imprað á þessum ættarfróðleik fyrr. Sannar það ef til vill bezt bók hinna vísu manna, Einars ríka og Þórbergs, sem minnast á, að ég sé ættaður af Austurlandi! Þá kímdi ég. Og við yfirvegun hefi ég sem sé fallizt á þá skoðun þína, að láta einhvern fróðleik ,,út ganga á þrykk“ um þessi atriði. Enginn verður þar fyrir fjárhagslegum átroðningi, þar sem ég á Blik mitt sjálfur og einn.


1. kafli


Fróðleiksmolar um ætt okkar og uppruna


Svo að þú hengdir hatt þinn á þá fullyrðingu Þórbergs Þórðarsonar og Einars ríka í bók þeirra Fagurt er í Eyjum, að ég ætti ættir að rekja til Austurlands. Þú lætur í ljós óánægju þína með þá fullyrðingu, eins og eðlilegt er, þar sem við eigum ættir að rekja til sama ættstofnsins, sama bændafólksins í Borgarfirði syðra, - öðrum þræði. Föðurætt mín er svo „önnur saga“.
Ég skal fara að beiðni þinni og gera hér nokkra grein fyrir nánasta ættfólki okkar, eftir því sem hin mjög takmarkaða þekking mín og ættfræðikunnátta hrekkur til.
Svo sem okkur er báðum ljóst, þá erum við eilítill hlekkur í einni fjölmennustu bændaætt í Borgarfirði syðra og þar um slóðir. Báðir erum við 3. liður frá hinum mætu bóndahjónum á Hurðarbaki í Reykholtsdal, Steinunni húsfreyju Ásmundsdóttur og Þorsteini bónda Þiðrikssyni, langömmu okkar og langafa.
Frá Hvanneyrarárum mínum (1917-1919) hefi ég alltaf haft dálæti á Steinunni langömmu minni Ásmundsdóttur. Ekki veit ég eiginlega, hvernig það dálæti hefur orðið til eða þróast innra með mér. Ég geri ráð fyrir því, að móðir mín hafi á bernskuárum mínum sagt mér frá þeim hjónum og þá sérstaklega henni ömmu sinni, en móðir mín var 16 ára, er Steinunn amma hennar lézt.
Á Hvanneyrarárunum heimsótti ég æðioft móðurbróður minn, bóndann á Vatnsenda í Skorradal, Ólaf Þorsteinsson frá Geirshlíð í Flókadal. Hann ræddi við mig ættfólk okkar þarna í Borgarfjarðarsveitunum og fræddi mig. Einhvern veginn hreifst ég þá mest af frásögnum hans um Steinunni langömmu okkar. Einnig kom ég nokkrum sinnum á þessum árum að Hvítárvöllum til frændfólks míns og okkar þar, Ólafs bónda og Maríu húsfreyju. Þangað fannst mér alltaf ánægjulegt að koma. Ekki er ég alveg frá því, að elztu dætur þeirra hjóna, Málfríður og Ágústa heitin, sem báðar voru á mínu reki, hafi átt einhvern verulegan þátt í ánægjulegum heimsóknum þangað. Ólafur bóndi Davíðsson á Hvítárvöllum og móðir mín voru systkinabörn, hann sonur Málfríðar húsfreyju á Þorgautsstöðum Þorsteinsdóttur Þiðrikssonar og móðir mín dóttir Þorsteins bónda í Geirshlíð Þorsteinssonar Þiðrikssonar. Ólafur bóndi hafði ánægju af að fræða mig og svara spurningum mínum um þetta frændfólk mitt, og sérstaklega mundi hann vel ömmu sína Steinunni húsfreyju á Hurðarbaki, en hann var á 22. aldursári, er hún lézt. Ég fann brátt á orðum Ólafs frænda míns á Hvítárvöllum, að hann var bæði ættrækinn og þjóðrækinn maður og unni íslenzkri tungu og íslenzku þjóðerni. Löngu seinna las ég skrif séra Eiríks Albertssonar, dr. theol., um Ólaf bónda. Þar standa þessi orð: „Ólafur á Hvítárvöllum var þjóðrækinn ættjarðarvinur.“
Eftir því sem ég veit bezt og hefi haft kynni af, þá munu þessi orð séra Eiríks eiga vel við allan þorra þessa bændafólks, er við eigum rætur að rekja til. Það er mér óblandin ánægja og metnaður. Svo rík er þjóðerniskenndin í mínu eigin sálarlífi. Hins vegar er ég ekki jafnhrifinn af þeirri staðreynd, að íslenzkir annálar fjalla fyrst og fremst um presta, sýslumenn og aðra skólagengna valda- og áhrifamenn, en lítið sem ekkert um óbreytta bændur, sem voru þó um aldir bústólpar íslenzka þjóðfélagsins. Þannig minna þessar bókmenntir á stafrófskverið íslenzka, sem eitt sinn var gefið út hér á landi: Stafrófskver handa heldri manna börnum. Bændastéttinni, bústólpunum, er þokað til hliðar til þess að stéttir ,,hinna lærðu manna“, embættismennirnir, mættu njóta rýmisins á spjöldum sögunnar.
Frásagnir móður minnar og þessara frænda minna, er ég nú hefi nefnt, um ættfólk mitt og okkar í Borgarfjarðarsveitunum, og þá ekki sízt um Steinunni húsfreyju á Hurðarbaki, rifjuðust upp fyrir mér, er ég las rit fræðimannsins Kristleifs Þorsteinssonar frá Stóra-Kroppi um héruð Borgarfjarðar og bændafólkið þar, líf þess og störf, og þá ekki sízt það, sem hann skrifar um langömmu okkar, lífsstörf hennar og einkenni. Ekki get ég neitað því, að ég kannaðist við ýmislegt í fari mínu og sálarkjarna, er ég las lýsingu fræðimannsins. Hver er sjálfum sér næstur, og þá ekki sízt þeir, sem hugleiða, íhuga og grúska sjálfa sig. Það skyldi hver og einn gera, því að það veitir þroska og er mannbætandi, sé það gert með réttu hugarfari.

Ég ber nöfn tveggja sona Steinunnar Ásmundsdóttur, þeirra, er hún mun hafa unnað einna mest barna sinna, - afa míns, Þorsteins bónda Þorsteinssonar í Geirshlíð, og bróður hans, afabróður míns, Þórðar bónda Þorsteinssonar á Leirá. Báðir voru þessir bændur ömmubræður þínir, eins og þú berð skyn á.
Af framangreindu fellur mér þess vegna auðveldlega að trúa því, að hugar- eða sálartengsl ríki og hafi ávallt ríkt milli okkar Steinunnar langömmu minnar gegnum skilvegg hinna tveggja heima, og að hún hafi ávallt verið mér og mínu einskonar verndarvættur. Ég veit, að slík trú kemur ýmsum kynlega fyrir sálarsjónir. En hvað vitum við mennirnir með fullri vissu á þessu sviði? Hvað býður ekki þjóðskáldinu okkar, séra Matthíasi Jochumssyni, hugur um, er hann kveður:

„Einn ertu aldrei,
svo innir hyggjan mín,
því verur eru nærri,
sem vilja gæta þín.“

Vissulega lifum við mennirnir við geysilegan vöxt vísindalegrar þekkingar. En lífsspekin sjálf er þar skemmra á veg komin. Mikil rækt hefur verið við það lögð og miklu til kostað að efla vit og þekkingu mannsins. Og á því sviði hefur manninum sannarlega orðið mikið ágengt. En um lífsaflið mikla, „þráðinn að ofan“, ef ég mætti nota þessi einföldu og látlausu orð spekingsins, ber okkur mönnunum ekki saman sökum skorts á óyggjandi þekkingu. Þó er sú þekking mergurinn málsins að mínum dómi og fjölmargra annarra, - aflið, sem ræður örlögum einstaklingsins og þjóðanna, al-lífsaflið, hvort sem við njótum þess beint frá uppsprettunni miklu eða óbeint með aðstoð eða hjálp eða fyrir atbeina sálna handan við skilvegginn mikla. Þá er sú aðstoð í þjónustu hinnar miklu og voldugu lífsuppsprettu, lífslindarinnar altæku og almáttugu, sem Einar skáld Benediktsson, hið djúphyggna þjóðskáld okkar, hefur í huga er hann kveður:

,,En volduga aflið, sem aldrei dvín,
er iðandi, blikandi ljósvakans straumur.“

Ég bið þig vinsamlegast að hugleiða þetta allt með mér.
Hinir skelfilegustu atburðir gerast, einnig með íslenzku þjóðinni, svo að vitneskjan um þá kemur yfir okkur eins og reiðarslag. - Eru þeir hending ein? - Hvað veldur? - Hver veldur? - Hvaða öfl spinna þessa ógnvekjandi örlagaþræði?
Nei, við vitum það ekki. Svo langt nær ekki mannleg þekking eða mannlegur skilningur. Mennirnir hafa heldur ekki lagt sig svo mjög í líma eða kostað kapps um að öðlast hina dýpstu þekkingu á þessu sviði. Útþensla mannlegrar þekkingar á hinum eðlis- og efnafræðilegu sviðum eða vettvöngum skapa meiri frægðar- og hagnaðarvonir. Hin dýpsta þekking á sviði allífsins leiddi að öllum líkindum ekki til neinnar „tunglfarar“ fyrir mannkynið.
Og þetta að lokum, áður en lengra er haldið:
Sjötug heiðurskona tjáir mér, að spákona í Reykjavík hafi spáð fyrir sér, er hún var 19 ára gömul. Heiðurskonan fullyrðir, að spádómurinn hafi rætzt svo bókstaflega, að hún undrist, er hún hugleiðir staðreyndirnar. Hvernig getur þetta gerzt? Hvernig getum við skýrt þessar staðreyndir? Hvað veldur þvílíkri spádómsgáfu? Ekki kemur mér í hug að trúa því, að hér hafi átt sér stað einskær tilviljun. Nei, fjarri fer því. Eitthvert afl er hér að verki, þó að við skiljum það ekki. Okkur er ekki list sú léð, þrátt fyrir alla þekkinguna, allan lærdóminn.
Sannarlega var þetta útúrdúr hjá mér. En spurningarnar sækja á hugann. Og svo sný ég mér að þér og áhugamálum þínum varðandi Vestmannaeyjar, byggðarlagið okkar góða, fengsæla og farsæla, vil ég segja.
Áður en lengra er haldið, set ég upp í hinum einföldustu dráttum nokkra ættliði langömmu okkar, Steinunnar Ásmundsdóttur húsfreyju á Hurðarbaki í Reykholtsdal frá árinu 1843 til dauðadags 26. sept. 1879.
Til þess að koma sem mest og bezt til móts við óskir þínar og áhugamál, óska ég að rekja hér nokkra ættboga frá feðgunum í Ásgarði í Grímsnesi, Sigurði bónda Guðnasyni og Ásmundi syni hans. Jafnframt færi ég gömlum skólabróður mínum, Guðmundi Illugasyni, hreppstjóra og ættfræðingi að Borg á Seltjarnarnesi, alúðarþakkir mínar fyrir þá kærkomnu fræðslu og hjálp, sem hann hefur veitt mér við ættargrúsk þetta.


A


1. Guðni bóndi og lögréttumaður á Tungufelli í Hrunamannahreppi Jónsson Stefánssonar prests í Odda Gíslasonar (Sjá Lögréttumannatal, bls. 200-201). Kona Guðna bónda Jónssonar var Guðrún Þorsteinsdóttir sýslumanns á Þykkvabæjarklaustri Magnússonar. Guðni bóndi fæddist nálægt árinu 1600, eftir því sem næst verður komizt.
2. Sigurður bóndi og lögréttumaður í Ásgarði í Grímsnesi Guðnason, f. 1636. Kona hans var Katrín Finnsdóttir frá Snjallsteinshöfða í Landssveit. (Sjá Manntal 1703 og Lögréttumannatal). Katrín húsfreyja í Ásgarði var fædd árið 1638 eða þar um bil.
3. Ásmundur bóndi Sigurðsson í Ásgarði, f. 1676. Kona hans var Sigríður Jónsdóttir sóknarprests að Nesi við Seltjörn Stefánssonar. Prestssetrið var Lambastaðir á Seltjarnarnesi. - Sigríður húsfreyja í Ásgarði var fædd árið 1682 eða þar um bil.
4. Steinunn Ásmundsdóttir (hin eldri í ættinni) frá Ásgarði, síðar húsfreyja á Krossi í Garðasókn á Akranesi. Hún fæddist í Ásgarði árið 1711. Hún giftist um eða eftir 1730 dönskum manni, líklega frá Holstein. Nafn hans var Hans Jörgensen Klingenberg. Við finnum nafn hans meðal ábúenda að Nesi við Seltjörn í bændatali árið 1735. Þar er hann skrifaður Hans Jörgenson. Síðan finnum við nöfn þeirra hjóna, Steinunnar og hans, í Bændatalinu 1752. Þá búa þau á Krossi í Garðasókn.
5. Jörgen (Jören, Jörin) bóndi Hansson (Klingenbergs) á Elínarhöfða á Akranesi. Óvíst er um fæðingardag hans og fæðingarár, en nokkur líkindi eru til þess, að hann hafi fæðzt á árunum 1734-1738. Kona Jörgens bónda Hanssonar var Guðrún Magnúsdóttir (f. um 1737 og d. 1804). Hún býr ekkja með börnum sínum á Elínarhöfða 1785 og svo til dánardægurs. Hvenær Jörgen bóndi lézt, er mér ekki kunnugt um, því að engar heimildir hefi ég fundið fyrir því.
6. Ásmundur bóndi Jörgensson á Elínarhöfða. Hann var fæddur 1766. Og hann lézt árið 1822. - Ásmundur bóndi var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Málmfríður Jónsdóttir frá Mýri í Kelduhverfi bónda Jónssonar þar o.v. Málmfríður húsfreyja andaðist árið 1804. (Sjá B. 6).
7. Steinunn Ásmundsdóttir frá Elínarhöfða, langamma okkar beggja, gift Þorsteini Þiðrikssyni, síðast bónda á Hurðarbaki í Reykholtsdal. Steinunn húsfreyja fæddist 8. apríl 1796 á Marbakka í Garðasókn. (Sjá B. 7). Hún giftist Þorsteini bónda Þiðrikssyni frá Geirshlíð í Flókadal 4. ágúst 1816. Hún andaðist 26. sept. 1879.
8. Þorsteinn bóndi Þorsteinsson, afi minn, bóndi í Geirshlíð í Flókadal. Hann var fæddur 31. okt. 1819 og lézt 24. júní 1885 úr krabbameini. Hann var kvæntur Ingibjörgu Jónsdóttur frá Miðteigi á Akranesi. Hún var fædd 24. júní 1823, dóttir Jóns bónda og hreppstjóra Arasonar í Miðteigi og konu hans Guðrúnar Ásmundsdóttur frá Elínarhöfða, hálfsystur Steinunnar langömmu okkar. Þannig eru tveir skammtar af Klingenbergsblóðinu í æðum okkar systkinanna, með því að Þorsteinn afi og Ingibjörg amma, sem bjuggu allan sinn búskap í Geirshlíð, voru systrabörn. Ingibjörg dó 6. júní 1900.
9. Jónína Guðrún Þorsteinsdóttir frá Geirshlíð (móðir okkar systkinanna), f. 5. júlí 1863 og d. 10. okt. 1954. Hún giftist föður okkar, Víglundi Þorgrímssyni, fóstursyni prestshjónanna í Stykkishólmi, séra Eiríks Kúlds og frú Þuríðar Sveinbjarnardóttur, haustið 1897 í Mjóafjarðarkirkju eystra. Þau skildu.
10. liður erum við systkinin fimm, og erum við nú fjögur á lífi.


B

Móðurætt Steinunnar Ásmundsdóttur, langömmu okkar.
1. Jón bóndi á Valþjófsstöðum í Núpasveit Jónsson Þórarinssonar prests á Skinnastöðum Sigmundssonar prests Guðmundssonar (Sjá Íslenzkar æviskrár). Kona Jóns bónda á Valþjófsstöðum var Guðrún Jónsdóttir prests á Skinnastöðum Þorvaldssonar.
2. Þorvaldur Jónsson (f. 1635, d. laust eftir 1713) sóknarprests á Prestshólum í N-Þingeyjarsýslu. Kona séra Þorvaldar var Ingibjörg Sigurðardóttir prests og skálds á Prestshólum Jónssonar.
3. Jón Þorvaldsson (f. um 1664, d. 25. jan. 1731) sóknarprestur að Miklabæ 1690-1731. Kona hans var mad. Guðrún Jónsdóttir Hólaráðsmanns Illugasonar.
4. Málmfríður Jónsdóttir húsfreyja á Stóru-Giljá í Húnaþingi. Gift var hún Grími bónda þar og lögsagnara Grímssyni bónda og fálkafangara í Brokey í Skógarstrandarhreppi. (Sjá Lögr.mannatal, bls.168).
Brúðkaup („kaupöl“) þeirra hjóna, Gríms og Málmfríðar, átti sér stað á Þingeyrum í des. 1730.
Málmfríður Jónsdóttir húsfreyja á Giljá lézt 1845.
Grímur lögsagnari, maður hennar, var fæddur 1699 eða þar um bil og hafði verið lögsagnari um þriggja ára bil, er hann kvæntist Málmfríði Jónsdóttur.
5. Ingibjörg Grímsdóttir, húsfreyja að Mýri o.v. í Kelduhverfi, gift Jóni bónda Jónssyni.
6. Málmfríður Jónsdóttir, húsfreyja á Elínarhöfða, fyrsta eiginkona Ásmundar bónda þar Jörgenssonar Hanssonar (Klingenbergs). Ásmundur og Málmfríður giftust 15. okt. 1795. Þeirra hjónaband varð stutt, því að hún lézt árið 1804 af blóðlátum.
7. Steinunn Ásmundsdóttir, langamma okkar (A. 7).
8. (Sjá A. 8).
9. (Sjá A. 9).
10. /Sjá A. 10).


C


Föðurætt Ingibjargar Jónsdóttur, ömmu minnar, húsfreyju í Geirshlíð í Flókadal, gift Þorsteini bónda Þorsteinssyni Þiðrikssonar bónda í Geirshlíð Ólafssonar.
1. Við flettum upp í Fitjaannál við árið 1675. Þar stendur skráð: „Þá andaðist sá vísi og virðulegi mann Ormur Vigfússon í Eyjum (í Kjós), sýslumaður ... á 99. ári síns aldurs: Giftist anno 1597, lifði helgu hjónabandi með sinni æru- og ættgöfugri kvinnu Guðríði Árnadóttur prests frá Holti Gíslasonar, í 71 ár. Þar eftir 7 ár karlægur; áttu saman 17 börn.“ Í annálum er einnig svo að orðum komizt um hjón þessi, er hér var komið ævi Orms sýslumanns : „... Alls áttu þau hjón þá 75 barnabörn og 104 barnabarnabörn, sem fæddust að honum lifandi.“
,,Ormur Vigfússon var 13 ár landskrifari Gísla lögmanns Hákonarsonar. Skálholtsráðsmaður var hann eitt ár, sýslumaður Borgfirðinga í nokkur ár. Síðan hafði hann lengi Kjósarsýslu.“
2. Þórður Ormsson var eitt af hinum 17 börnum Orms sýslumanns og frú Guðríðar. Hann var bóndi á Möðruvöllum og lögmaður, kvæntur Ingibjörgu Guðmundsdóttur.
3. Helga Þórðardóttir húsfreyja á Hóli í Svínadal í Borgarfjarðarsýslu. Hún var gift Gísla Nikulássyni bónda þar.
4. Guðrún mad. Gísladóttir, kona séra Þórhalla prests á Borg á Mýrum Magnússonar. Mad. Guðrún lézt árið 1732.
5. Jón bóndi Þórhallason á Skeljabrekku í Andakíl o.v., kvæntur Helgu Þórðardóttur.
6. Ingibjörg Jónsdóttir, gift Ara bónda Teitssyni í Miðteigi á Akranesi.
7. Jón bóndi og hreppstjóri Arason í Miðteigi. (Síðar fékk jörð þessi nafnið Guðrúnarkot). Kona Jóns bónda Arasonar var Guðrún Ásmundsdóttir, hálfsystir Steinunnar Ásmundsdóttur, langömmu okkar.
8. (Sjá A. 8).
9. (Sjá A. 9).
10. (Sjá A. 10).


D


Þá æskir þú þess, kæri frændi og vinur, að ég reki ættboga, þar sem þjóðkunnir menn hafa sprottið fram af þessum ættstofni.
Hér skal einn ættboginn rakinn:
1. Guðni bóndi Jónsson í Tungufelli (A. 1).
2. Sigurður bóndi Guðnason í Ásgarði (A. 2).
3. Ásmundur bóndi Sigurðsson í Ásgarði (A. 3).
4. Sigurður Ásmundsson bóndi Ásgarði, albróðir Steinunnar húsfreyju á Krossi í Garðasókn (A. 4). Kona hans var Guðrún Ívarsdóttir bónda Helgasonar.
5. Jón Sigurðsson sóknarprestur á Rafnseyri við Arnarfjörð (f. 1740, d. 1821). Kona hans var mad. Ingibjörg Ólafsdóttir, d. 1799.
6. Sigurður Jónsson sóknarprestur á Rafnseyri. Kona hans var mad. Þórdís Jónsdóttir prests að Holti í Önundarfirði.
7. Synir prestshjónanna á Rafnseyri, séra Sigurðar og mad. Þórdísar, voru bræðurnir Jón forseti Sigurðsson (1811-1879) og Jens rektor Sigurðsson (1813-1872).
8. Jón Jensson yfirdómari (1855-1915), kvæntur Sigríði Hjaltadóttur Thorbergs.
9. Bergur sýslumaður og alþingismaður Jónsson, f. 1898 í Reykjavík. Andaðist í Ósló 18. okt. 1953.
10. Sigríður Þórdís, gift Oliver Steini Jóhannssyni, bóksala í Hafnarfirði og bræður hennar Jón skrifstofum. og Þórir tryggingafræðingur.


E


(A. 1). (A. 2). (A. 3). (A. 4). 5. Salvör Sigurðardóttir (f. 1733, d. 1821) alsystir Jóns Sigurðssonar sóknarprests á Rafnseyri. Hún giftist (1760) séra Ögmundi Högnasyni (f. 1732, d. 1805). Séra Ögmundur var einn af sonum séra Högna prestaföður, sem svo var kallaður. (Sjá Íslenzkar æviskrár).
6. Sæmundur bóndi Ögmundsson hreppstjóri í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum (f. 1776, d. 1837). Kona Sæmundar bónda var Guðrún húsfreyja Jónsdóttir frá Hallgeirsey í Landeyjum.
7. Séra Tómas Sæmundsson (f. 1807, d. 1841), prófastur að Breiðabólstað í Fljótshlíð. Svo sem kunnugt er, þá var séra Tómas einn af útgefendum tímaritsins Fjölnis. Kona séra Tómasar var mad. Sigríður Þórðardóttir sýslumanns í Garði Björnssonar.
8. Þórhildur Tómasdóttir, gift Helga lektor Hálfdánarsyni í Rvík.
9. Jón biskup Helgason.
10. Hálfdan prófastur á Mosfelli og þau systkin.


F


(B. 1). (B. 2). (B. 3). (B. 4). 5. Jón Grímsson, sóknarprestur í Görðum á Akranesi. Hann var albróðir Ingibjargar Grímsdóttur, húsfreyju á Mýri í Kelduhverfi (sjá B. 5), langömmu Steinunnar Ásmundsdóttur húsfreyju á Hurðarbaki (langömmu okkar). Séra Jón var fæddur árið 1755. Hann lézt 1797. Hann hélt Garða frá 1782 til dánardægurs (1. sept. 1797). Kona hans var mad. Kristín Eiríksdóttir bónda á Helluvaði í Holtum Eiríkssonar.
6. Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja á Bessastöðum (f. 1784, d. 1865), eiginkona Þorgríms gullsmiðs Tómassonar þar og bryta skólans og skólaráðsmanns.
7. Grímur Thomsen skáld og alþingismaður m.m. var sonur þeirra hjóna, svo sem kunnugt er.
Ath. Albróðir Ingibjargar húsfreyju á Bessastöðum var Grímur amtmaður Jónsson. Dóttir hans var Þóra Grímsdóttir Melsteð, stofnandi og stjórnandi Kvennaskólans í Rvík.
Við hvörflum huga austur í Ásgarð í Grímsnesi við manntalið 1729. Þá býr þar Sigríður húsfreyja Jónsdóttir, ekkja Ásmundar bónda Sigurðssonar, 47 ára gömul og því fædd 1682 eða þar um bil. Ekki er mér kunnugt um það, hvenær Ásmundur bóndi féll frá. En ókvæntur var hann við manntalið 1703, svo að hjónaband þeirra hefur ekki varað ýkjamörg ár.
Börn þeirra, sem mér er kunnugt um, voru þessi:
1. Sigurður Ásmundsson, f. 1708.
2. Þórdís Ásmundsdóttir, f. 1709.
3. Steinunn Ásmundsdóttir, f. 1711. Hún bar nafn ömmu sinnar, mad. Steinunnar Jónsdóttur bónda í Héraðsdal Jónssonar lögmanns á Reynistað Sigurðssonar.
Mad. Steinunn var gift séra Jóni Stefánssyni sóknarpresti í Seltjarnarnessþingum og bjuggu prestshjónin á Lambastöðum á Seltjarnarnesi. Mad. Steinunn lézt árið 1710.
4. Ingibjörg Ásmundsdóttir, f. 1712.
5. Ásmundur Ásmundsson, f. 1714. Hér getur munað einu ári til eða frá eftir atvikum, en kirkjulegar heimildir eru ekki til frá þessum árum.

Síðari hluti