Blik 1971/Auðæfum blásið burt

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1971



PÉTUR SIGURÐSSON:


Auðæfum blásið burt


Það er eins og fjandinn hirði það


[Þannig kemst skynugur náungi að orði eitt sinn um illa fenginn auð. Reynsla hans sjálfs eða vitneskja hans af reynslu náungans í þessum efnum mótuðu þessa hugsun með honum. Hvað sagði ekki Páll bóndi og skáld Ólafsson:

Illa fenginn auðinn þinn,
áður en lýkur nösum,
aftur tínir andskotinn
upp úr þínum vösum.

Árið 1968 kom út lítil bók í sniðum en markverð að efni. Það er bókin Auðæfum blásið burt eftir Pétur Sigurðsson ritstjóra. Sumir kaflar þessarar bókar eru svo eftirtektar- og athyglisverðir hugsandi fólki, eins og mörgum af lesendum Bliks (samkv. reynslu), að ritið vill birta hér nokkra kafla bókarinnar og fara jafnframt um þá nokkrum orðum.
Ef við, sem þegar höfum lifað alllanga ævi, hugleiðum ýmsa reynslu okkar og viðburði, sem átt hafa sér stað í kringum okkur á æviskeiði okkar, atburði og lífsreynslu, sem við höfum orðið áskynja um, þá er það allt vissulega íhugunarvert.
Við höfum séð einstaklinga og þjóðir, já stórveldi fyrst og fremst, kosta kapps um að sölsa undir sig fjármuni, já, geysileg auðæfi, og oftast með yfirgangi, undirokun og níðingshætti í fínni eða grófari mynd eftir atvikum.
Eftir lengri eða skemmri tíma hefur svo öllum þessum auðæfum verið sópað burt, þau hafa horfið „eigendunum“ á einn eða annan hátt. Þannig hefur aftur og aftur sannazt hið forna spakmæli: „Illur fengur illa forgengur“. Þessu veittu forfeður okkar á öllum tímum athygli og eftirtekt, og þó virðist mannskepnan yfirleitt lítið hafa af reynslu þessari lært fremur en veikgeðja menn hafa látið sér að kenningu verða og lífsreynslu óhamingju og böl áfengisneytendanna, sem Bakkus hefur gert að fórnarlömbum sínum ár eftir ár, áratug eftir áratug og öld eftir öld.
Einstaklingum og þjóðum hefur ávallt gengið illa að læra af biturri reynslu - læra af sjálfu lífinu þau lögmál, sem leiða til mestrar hamingju og farsældar.
Vitrir menn hafa uppgötvað þessi lögmál og talað til meðbræðranna, mælt til þeirra hugheilum aðvörunarorðum, sem hafa yfirleitt þotið um eyru þeirra sem vindurinn. Þó er reynsla spekinganna og spekimál þeirra og kenningar öllum auði dýrmætari. Það viðurkennum við mjög mörg í orði, en á borði verður þetta allt á annan veg fyrir okkur. Þ.Þ.V.]


Við skulum láta ritstjórann tala:


,,Eina mikla auðlegð á mannkynið - ómetanlega og ófölnandi. Það er spekimál mikilla spámanna og sjáenda, og stórskálda og spekinga allra alda. Úr þessum nægtabrunni geta kynslóðirnar ausið sér til hagsældar, ef þær ganga ekki blindandi framhjá auðlegðinni.
Enn er sambúð þjóða og viðskipti raunalegur óskapnaður. Mikil orka þeirra fer í óendanlegt fálm og tilraunir til að leysa flækjur og koma á jafnvægi og samræmi í einu og öðru. Árangurinn er oft hryggilega lítill. Því veldur skammsýni og vanhyggni, og skortur á áræði til að fara eftir leiðsögn mestu vitringanna. Þjóðum hefur gengið illa að læra af biturri reynslu. Spámenn og sjáendur sáu fram í tímann, hrópuðu oft viðvaranir til þjóða og boðuðu fyrirfram mikil óhöpp, en við slíku daufheyrðust þjóðir oftast.
Kristur grét yfir Jerúsalem og spáði henni miklum hörmungum. Mörgum öldum áður var flutt ógnvekjandi forspá um það, hvernig Ísrael myndi farnast, ef þjóðin gleymdi lögmáli drottins, gleymdi að iðka réttlæti og heiðarleik, og viki af vegi hins heilbrigða lífs.
Ádeilan er þessi: Hver maður rembist í eigingirni við að efla sinn eigin hag, en afrækir hús drottins. Hvað er þá hús drottins? Hvar býr Guð? Auðvitað er Guð allt í öllu og því erfitt að marka honum bás, en fyrst hann átelur mennina fyrir það, að afrækja að byggja hús sitt, þá hlýtur hér að vera átt við eitthvað takmarkaðra en altilveruna.
Þótt það sé fallegur siður að kalla hús þau, er menn nota til samfunda við iðkanir trúarlífs og tilbeiðslu, guðshús, þá eru þau samt ekki hið raunverulega hús drottins ... Bústaðir guðs á jörðu eru sálir mannanna, hjörtu mannanna, hugskot mannanna. Musteri Guðs á jörðu er hin andlega og trúarlega menning mannkynsins.
Með hliðsjón af þessum sannindum verður okkur ljóst, hvers vegna öfugstreymi í athafnalífi manna, viðskiptum og sambúð, hvers vegna óáran, ófarsæld og styrjaldir blása öllu burt, er við söfnum - ,,flytjum heim“ í skammsýni og eigingirni, ef við afrækjum ræktun huga og hjarta, afrækjum okkar andlegu menningu.
Þetta er afar auðskilið, auðskildara öllu öðru; en í þvermóðsku og blindni sökkva menn sér á kaf í efnishyggjuna, útiloka þar með alla guðshyggju, bítast svo og berjast um hin efnislegu gæði jarðlífsins, leggja alla orku sína í að rífa til sín, ,,flýta sér með sitt eigið hús,“ eins og spámaðurinn orðar það, en láta hús drottins - hina andlegu menningu - liggja í rúst. Þá dynur yfir afleiðingin, gerningaveðrin ógnþrungnu, styrjaldarbálin, sem eyða og öllu sópa burt. Þá rætist þetta: „Þótt þér flytjið það heim, þá blæs ég það burt.“ Hér er þetta orðaval notað að fornum sið, að drottinn blási þetta burt, drottinn geri allt, en hér er auðvitað hið harða og ófrávíkjanlega lífslögmál að verki, sem engar yfirtroðslur þolir og hegnir miskunnarlaust. Vilji menn ekki efla guðsríkið á meðal sín, þá leggst yfir þá hönd myrkravaldsins, sem öllu eyðir. Oft eru nú þjóðir búnar að fá yfir sig þennan hirtingarvönd, en hvað hafa þær þá lært? Eitthvað, en samt of lítið.
Allir, sem fyrr á öldum ætluðu að leggja undir sig heiminn, gnæfa hátt, en kúga aðra, hröpuðu til heljar niður og drógu venjulega með sér heilar þjóðir, ef ekki heilan heim. Þarf að minna á alla þá, er hátt hafa hreykt sér á þessari öld? Nöfn þeirra kunnum við utanbókar. Þar var ekki verið að hugsa um hús drottins. Nei, þar hugsaði hver og einn sannarlega um sig, þar flýtti hver sér með ,,sitt eigið hús“, sitt eigið fyrirtæki, sitt eigið ríki, sitt eigið vald. Hér er ástæða til að staldra við.
Fram til ársins 1914 höfðu ýmis stórveldi Evrópu auðgazt mjög á því að hrifsa til sín nýlendur víðsvegar um heim, og er sumt af þeim þjóðabúskap ófögur saga. Allir kannast við nýlenduöflun þjóða eins og Englendinga, Hollendinga, Frakka og fleiri þjóða. Viðskiptalíf stórveldanna varð stöðugt vandasamara, samkeppnin varð grimm. Upphaf skelfinganna var viðskiptasamkeppni og viðskiptastríð. Við, sem vorum um tvítugsaldur 1912, munum eftir spenningnum milli Breta og Þjóðverja. Þjóðverjar litu mjög á dugnað sinn og mátt og töldu sér allt fært. Sannarlega flýttu stórveldin sér, hvert með ,,sitt eigið hús“, en um „hús drottins“ - friðarviljann, góðvildina, sanngirnina og réttlætið, var minna hirt.


Hvernig fór 1914?


Um hvað voru stórveldin að hugsa þá, fyrst og fremst, t.d. Englendingar og Þjóðverjar? Hefðu þeir sagt þá hver við annan: Nú skulum við vinna saman eins og kristnum menningarþjóðum sæmir, vera heiminum fyrirmynd í friðsamlegu samstarfi, og þannig skulum við svo efla hag allra þjóða og sem heilbrigðust viðskipti og alla sambúð. Hvað hefði þá gerzt 1914? Því getur víst enginn svarað til fulls, en þá hefði samt engin heimsstyrjöld orðið, en henni varð ekki afstýrt. Allir menn, sem komnir eru til aldurs, þekkja söguna um það, sem þá gerðist, en hinir þekkja það af afspurn.
Miklu hafði verið safnað, oft með miklum og himinhrópandi rangindum, mikið ,,flutt heim“, hver og einn hugsaði um sig, og svo? Svo var öllu blásið burt. Stormviðrið skall á hinni miklu menningarbyggingu, sem reist var á sandi. Hún hrundi og fall hennar varð mikið.
Á fjórum stuttum árum, en þó ægilega löngum og þjáningarfullum styrjaldarárum, var öllum auðæfum, sem í eigingirni höfðu verið flutt heim, eins og spámaðurinn kemst að orði, blásið burt. Stormurinn geisaði heiftþrunginn og sópaði niður mörgu, sem hátt hafði gnæft, sérstaklega herveldunum sjálfum. Hallir hrundu, borgir og bæir lögðust í rúst, lönd voru tætt í „trefjar og flög“, skipastóll þjóðanna sökk í djúp sjávar, mannslífin týndust svo milljónum skipti og ríki stórveldanna lágu í rúst. Hús drottins höfðu þau vanrækt og hús þeirra hrundu. Hvað styrjaldir kosta þjóðir, verður aldrei reiknað til fulls. Eftir heimsstyrjöldina 1914-1918 reyndu menn að gera sér grein fyrir þessu, og urðu niðurstöðurnar ærið misjafnar. Árið 1943, 17. nóvember, birti vikublaðið Fálkinn skýrslu um þetta. Þar segir: ,,Nú hefur frakkneskur maður nýlega gert kunnar skýrslur, er hann hefur safnað og byggðar eru grandgæfilegum rannsóknum margra ára. Eru tölur hans álitnar að vera einhverjar hinar nákvæmustu, sem menn hingað til hafa átt kost á.
Heimsstyrjöldin (1914-1918) kostaði samtals fleiri mannslíf en hinar sjö blóðugu styrjaldir á undan henni.
Í heimsstyrjöldinni einni féllu 10 milljónir manna ... Auk þess særðust 19 milljónir manna og 10 milljónir urðu aumingjar. Samtals voru 7 milljónir herfanga ... Níu milljónir barna misstu föður sinn á vígvellinum og 5 milljónir kvenna urðu ekkjur...
Alls voru 500 skipum sökkt í stríðinu og þau voru samtals 12.250.000 smálestir að stærð. Bretar misstu 8.610.000 smálestir skipa. Næst kemur í röðinni hinn hlutlausi Noregur með 1.287 þúsund smálestir. Frakkland með 972 þúsund smálestir, Ítalía með 923 þúsund smálestir, Bandaríkin með 613 þúsund smálestir og Japan með 182 þúsund smálestir.
Þannig sópa stormar eyðileggingarinnar burt því, sem þjóðirnar safna, oft í eigingirni og ókristilegri sjálfselsku, og öllum þeim menningarháttum, sem blind efnishyggja byggir á sandi. Það er því ekkert undur, þó að sjáandinn tvítaki hvatningarorðin: „Takið eftir, hvernig fyrir yður fer. Þér búizt við miklu, en fáið lítið í aðra hönd, og þótt þér flytjið það heim, þá er því blásið burt, og það illviðri er vakið upp af efnishyggju og guðleysi þjóðanna. Hús drottins - hin trúarlega og andlega menning - er afrækt, og hirtingin er alltaf óumflýjanleg.
Þegar stórviðri styrjaldarinnar hætti að blása og sópa burt því, sem safnað hafði verið, þá voru stórveldi ekki aðeins gjaldþrota, heldur stundu þau einnig undir óbærilegum stríðsskuldum. Svo gersamlega hafði auðæfum þeirra verið kastað í sjóinn og þau notuð til niðurrifs og eyðileggingar megni þess, sem léttvæg og blekkjandi menning, fátæk af Guði, hafði hrúgað upp í eigingirni, öfundsýki og stundum fullum fjandskap. Svo gersamlega var auðæfum þjóðanna blásið burt, að milljónir manna dóu úr hungri, og enn fleiri milljónir úr drepsóttum, sem fóru í kjölfar dauðaskipsins mikla. Saga hungursins og drepsóttirnar eftir fyrri heimsstyrjöldina er vissulega hryllileg.
Nú er röðin komin að okkur. Höfum við þá lært eitthvað af þessu? Á hverju fóðrum við sálir æskumanna okkar? Glæpakvikmyndum þrisvar á dag, reyfurum og klámritum, bæði í lesstofum og heimahúsum, einnig útvarpi, á glæparitum, brennivíni og siðspillandi skemmtunum. Vissulega gerir þjóðfélagið allmikið til þess að mennta æskumenn, en megnið af því er andlaust stagl, sem vekur sáran lífsleiða og hungur og þorsta í skemmtanir og nautnir. Allt það dauða fróðleiksstagl efnishyggjunnar veitir sál æskumannsins litla vörn gegn ægiþunga þess flóðs, er á honum skellur af framboði hins skaðlega, sem öll ágirnd og peningagræðgi manna stendur á bak við. Mest af því, sem haldið er að upprennandi kynslóð, skilur eftir í sálum æskumanna ægilegt tóm - og tómt hús er alltaf til leigu. Þar geta hvaða sjö illir andar setzt að sem vilja. Gegn þessu er engin vörn til, engin nægileg vörn nema sú, að sálir barna og unglinga fyllist af hinum góða og heilaga anda Guðs, það er, anda sjálfsafneitunar, mannástar, sannrar lífsgleði og góðvildar, anda þjónustuvilja og fórnfýsi. Í hugarfar og hjarta manns, sem fullskipað er þessum anda, þessum englum Guðs, fá engir sjö illir andar inngöngu. Þar er vel búið og þar er vel stjórnað. Þar er enginn tómleiki og þar ríkja engin leiðindi. Þar er enginn þorsti í saltvatn nautnanna, því að sá sem á lífsfyllingu þess fagnaðar, er samlífið við allt hið sanna, fagra og góða veitir, þekkir ekki slíkan þorsta og fær strax óbragð í munninn, ef hann ber varir sínar eða réttar sagt, varir sálar sinnar að bikar skaðnautnanna og gjálífsins.“

[Eftir óveðrið óskaplega, sem sópaði burt mannslífum í tugmilljónatali og auðæfum í milljörðum milljarða, kom hlé, en aðeins um stundarsakir.
Einstaklingarnir og þjóðirnar tóku til að safna auði á ný, byggja upp og skapa sér hamingju og heillalíf á ný. Enn ríkti þó andi rangsleitni, misréttis og kúgunar í viðskiptum þjóðanna og einstaklinganna og hver reyndi eftir megni að skara eld að sinni köku án tillits til meðbróðurins eða viðskiptaþjóðarinnar. Sérstaklega kom þessi andi síngirni, ofbeldis og tillitsleysis í flestum myndum harðast niður á vanþróuðu þjóðunum, sem svo eru oft nefndar.
Andi bölvunarinnar sveif yfir öllum vötnum enn á ný. Mannkynið hafði enn ekkert lært af sögu sinni.]


Og svo segir Pétur ritstjóri:


,,Allir fulltíða menn kannast við framhald þessarar sögu. Stormurinn skall á í annað sinn, heiftugri en nokkru sinni áður. Öllu, sem ,safnað‘ hafði verið, var ,blásið‘ burt, auðæfum þjóðanna sópað burt, mannslífum sópað burt, borgir þjóðanna lagðar í rúst, skipaflota þeirra sópað burt óútreiknanlegum verðmætum var blásið burt. Byggt hafði verið á sandi. Stormarnir blésu, húsið hrundi og fall þess varð mikið.
Engir sagnfræðingar munu nokkru sinni geta talið upp né reiknað út til fulls allt það tjón, er heimsstyrjöldin 1939-1945 hafði í för með sér.
Í síðara bindi verksins Heimsstyrjöldin 1939-1945, eftir Ólaf Hansson, menntaskólakennara, eru nefndar nokkrar tölur. Þar segir: ,,Af Bretum og brezku samveldisþjóðunum munu hafa fallið um 350.000 manns alls, og eru þá taldir með þeir, er fórust í loftárásunum á Bretland ... Rússar misstu 7 milljónir manna í styrjöldinni, og eru þá taldir með óbreyttir borgarar ... Af Frökkum er talið, að um 800.000 hafi beðið bana af styrjaldarorsökum ... Af Belgum biðu 10.000 bana, en af Hollendingum miklu fleiri. Nokkur þúsund Norðmanna og Dana biðu bana af ýmsum styrjaldarorsökum .. . . Áætlað er, að manntjón Þjóðverja í styrjöldinni sé um 3 1/2 milljón ... Samkvæmt skýrslum japönsku herstjórnarinnar biðu 510.000 Japanir bana á vígvöllum, en bandamenn telja þessa tölu of lága. Auk þess hafa áreiðanlega mörg hundruð þúsundir manna farizt í loftárásum á japanskar borgir.“
„Það mun ekki ofhátt áætlað,“ segir í „Heimsstyrjöldinni“, að 25-30 milljónir manna hafi alls beðið bana vegna beinna og óbeinna hernaðaraðgerða, og ef til vill yrði þessi tala miklu hærri, ef nákvæmar skýrslur fengjust frá Kína.“
Sem sýnishorn af eignartjóninu er talið upp í þessu sögulega verki það, sem hér segir: „Í London urðu t.d. 700 þúsund hús af 800 þúsundum húsa fyrir einhverjum skemmdum. Um 70 þúsund hús gjöreyðilögðust, og 122 þúsund hús önnur skemmdust mjög mikið. Verst var þó Þýzkaland leikið. ,,Flestar borgir þess í rústum að meira en hálfu leyti.“
Hér er svo það tjón, sem er ef til vill hið alvarlegasta. Um þetta segir Ólafur Hansson í áður nefndu verki: ,,Hitt er þó alvarlegra, ef mikill hluti mannkynsins hefur beðið verulegan andlegan hnekki við styrjöldina eins og sumir óttast. Styrjaldir valda alltaf mikilli siðferðilegri afturför. Hér er ekki fyrst og fremst átt við siðferði í kynferðismálum, þó að áhrifa styrjalda gæti að jafnaði mikið á því sviði og mjög til ills. Spillingin er miklu víðtækari. Í styrjöldum er hnefarétturinn settur í hásætið og manndrápin löghelguð. Þetta verkar óbeint á hugsunarhátt fólks, einkum æskulýðsins, sem er að vaxa upp. Hann fær aðdáun á ofbeldi, frekju og ruddaskap í hvers konar mynd, og sú kynslóð, sem hefur orðið fyrir þessu, verður mótuð af því til æviloka og hefur meiri og minni áhrif á komandi kynslóðir. Hætt er við, að þessi styrjöld hafi haft dýpri áhrif á sálarlíf og andlegt jafnvægi þeirrar kynslóðar, er fyrir henni varð, en flestar fyrri styrjaldir. Veldur því margt. Styrjaldaræsingar og múgsefjun komst á hærra stig en nokkru sinni fyrr vegna síaukinnar áróðurstækni með útvarpi og blöðum. Styrjaldaráróður í öllum löndum skírskotar venjulega til lægstu hvata fólksins, gagnrýnislausrar aðdáunar, skefjalauss ofstækis, blinds haturs. Sú kynslóð, sem hefur orðið fyrir slíkum áhrifum, er ekki líkleg til að íhuga nein mál rólega og velja og hafna að íhugun lokinni...
Komum nú aftur að orðum spámannsins og athugum þar einn sérstakan þátt: ,,Svo segir drottinn: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer. Þér sáið miklu, en safnið litlu, etið, en verðið eigi saddir, drekkið, en fáið eigi nægju yðar, klæðið yður og verðið þó eigi varmir, og sá, sem vinnur fyrir kaupi, vinnur fyrir því í götótta pyngju.“ Hvað segið þið, góðir samborgarar? Tolla aurarnir í pyngju ykkar? Eða er hún oftast tóm? Er hún í raun og veru „götótt“?
Og hvað hefur svo verið kjarni lögmáls Guðs á öllum öldum? Menn geta deilt um tilveru Guðs, en um hitt verður ekki deilt, að krafa þess Guðs, sem æðstur hefur verið boðaður á meðal manna, hvort sem hann er þeim raunverulegur eða aðeins trúarsjón, hefur á öllum öldum verið hin eina og sama, og hana orðaði spámaðurinn mjög vel á þessa leið:
,,Hann hefur sagt þér, maður, hvað gott sé. Og hvað heimtar drottinn annað af þér en að gera rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti fyrir Guði þínum.“ Mika 6, 8.
Hér er ekki um langan og torskilinn lagabálk að ræða. Nei, aðeins þetta, að iðka réttlæti og ástunda kærleika. Hlýðni við þetta er krafizt til þess að við getum allir notið ,,landsins gæða“.
Hvað veldur því, að mannkynið vill ekki fara þessa leið? Er það ekki vanþroskinn? Er maðurinn ekki svo sáralítið fremri ferfætlingnum? Stjórnast ekki flestir menn fremur af eðlishvötum en rökréttri hugsun? Ef þjóðir stjórnuðust af rökréttri hugsun, mundu þær ekki hegða sér eins og þær gera. Mest öll pólitík er matarpólitík, hugsunarlaus togstreita og blindingjaárekstrar.
Maðurinn hreykir sér upp og kallar sig ,,homo sapiens“ - dýrið sem hugsar. En mestur hluti mannkynsins hefur ekki mikinn hæfileika til að hugsa. Það er oftast einn af tugum milljóna. Edison var aðeins einn af tugum milljóna. Hann var hinn hugsandi maður, hinir aðeins lærðu. Flestir læra aðeins og fást við það, sem hugsuðurinn hefur komið til vegar. Flestir stjórnast af skynjun en ekki hugsun, af hæfileika skilningarvitanna, sjón, ilman, smekk og tilfinningu, en alls ekki hugsun. Þess vegna fer nú eins og fer. Menn fara ekki hina sjálfsögðu og krókalausu hamingjubraut, af því að þeir hugsa ekki, en ganga áfram í hugsunarleysi. Þar af koma allir árekstrarnir og öll stríðin. Það er kappið, ákefðin, græðgin, en ekki hin rökrétta hugsun, sem er að verki.
Við segjum reyndar, að menn hugsi, en það er engin hugsun. Útkoman sannar það bezt. Það er því von að alvizkan áminni og segi:
„Takið eftir, hvernig fyrir yður fer.“
Og nú sjáum við, hvernig farið hefur fyrir blindingjum allra alda, sem keppt hafa að því einu, að undiroka, að rífa til sín sem mest og geta gúknað yfir sem mestu. - Hrun á hrun ofan, endalaus hröp, sem leitt hafa hinar ægilegustu þjáningar yfir mannkynið.

Og hvernig hefur svo farið fyrir okkur hér á landi? Hver er árangurinn af öllu kappi hvers og eins að rífa til sín, heimta sem mest? Hvar er nú þjóðarbúskapurinn kominn? - Auðvelt er að spyrja og spyrja, en erfiðara oftast að svara. Eitt er víst, að við umflýjum ekki fremur en aðrir afleiðingar þess að brjóta hið eilífa lögmál réttlætisins. „Réttlætið upphefur lýðinn, en Syndin“ - rangsleitnin er skömm allra þjóða. Rangsleitnin, ósanngirnin og eigingirnin leiðir alltaf til niðurlægingar og falls. Slíkt verður aldrei umflúið til lengdar, og værum við hugsandi menn, þá mundum við nú snúa við, allir sem einn maður.
Þeir menn, sem gerast svo djarfir, að taka í leyfisleysi eigur annarra manna, hafa löngum verið kallaðir þjófar. Þeir menn, sem nota vissa aðstöðu til þess að rífa til sín langt fram yfir það, sem sanngjarnt er og velferð heildarinnar þolir og hagur þjóðar, eru í raun og sannleika þjófinum engu betri. Þetta er beiskur sannleikur, en sannleikur engu síður.
Engir menn, sem þannig breyta, leggja stein í „hús“ drottins. Þeir eru sýklarnir í mannfélaginu, sem eyða og tæta, valda upplausn og hruni. Þeir leiða að síðustu eyðileggingu yfir þann þjóðfélagslíkama, sem þeir lifa í og auðvitað yfir sjálfa sig um leið. Það eru hin óumflýjanlegu laun eigingirninnar. Vilji maðurinn ekki láta stjórnast af siðgæðisþroska innan frá og vera réttlátur og sanngjarn, verður einhver að taka að sér að stjórna oflátungnum utan frá, og þá er það ævinlega svipan í einhverri mynd, og afnám frelsisins. Hvað eigum við þá í vændum, ef við snúum ekki við? Taki menn nú eftir, hvernig fyrir þeim hefur farið og ráði af því, hvernig fyrir þeim muni fara.
Stjórnist maðurinn ekki af þeim anda guðs, sem knýr á í sálu hvers manns, þá verður hlutskipti hans að stjórnast af undirokandi harðstjóra. Iðki maðurinn ekki réttlæti í stóru og smáu, ræktar hann ranglæti, sýkir mannfélagið og leiðir það í glötun. Hér er ekki um neitt að villast. Sorgarleikurinn hefur endurtekið sig hvað eftir annað, og lögmálið stendur enn óhagganlegt og miskunnarlaust. Afleiðingu gerða sinna umflýr maðurinn ekki.


Það sem reisir fallinn


Við höfum nú dvalið um stund við mikið og geigvænlegt hrun, hrun voldugra þjóða á sviði sambúðar, fjárhags og siðgæðis. Við höfum dvalið við skuggahlið mannlífsins, leitt hugann að nærgöngulu vandamáli okkar eigin þjóðar og allra þjóða. Bölvaldurinn er ávallt og alls staðar hinn sami, það er hinn illi andi óvildar, eigingirni og sundrungar.
Í sambandi við þetta höfum við hugleitt heilræði spámanns hinnar fornu útvöldu þjóðar. Heilræði hans er gott og sígilt á öllum tímum. En hvað segja þá mestu andar okkar eigin þjóðar? Hver eru heilræði þeirra? Langt mál yrði nú að telja upp hvatningarorð og heilræði mestu skálda okkar á liðnum tímum, einmitt á innblástursaugnablikum þeirra. Minnumst hér þjóðsöngva okkar og veglegustu hátíðaljóða, og minnumst Hallgríms Péturssonar.
Hér skal þó að þessu sinni vikið aðeins stuttlega að orðum nútímamannsins, heimsborgarans og eins mesta skáldjöfurs þjóðarinnar, Einars Benediktssonar. Hvorki verður honum brugðið um skort á viti, þekkingu né hæfileika til þess að hugsa og kafa djúpt í leyndardóma tilverunnar né hyldýpi mannlegrar lífsbaráttu.
Allt hið mikla kraftakvæði hans: Meistari Jón, er hlaðið lífsspeki og máttugri kenningu. Þar er þetta stef:

Meistari fólksins jafnt fyrrum sem nú,
förumanns herra og bróðir, -
hann signir hér ennþá byggðir og bú;
þar brenna þær fornhelgu glóðir.


Við bæina dvelja bændur og hjú, -
þótt bekkir verði nú hljóðir.
Á hillunni er bók. Hún boðar trú,
sem blessar og reisir þjóðir


Blessar og reisir þjóðir


Við höfum séð, hvað fellir þjóðir og breytir mannlífi í kvöl. Það er ekki öll trú, sem blessar og reisir þjóðir, hversu ákaft sem hún er boðuð. Það er ekki trú á mátt sverðsins eða harðstjórans. Það er ekki trú efnishyggjunnar né undirokandi „ísmanna“. Nei, sú efnishyggja fellir, en reisir ekki né blessar. Slíkt er fullsannað, og hefur hér nægilega verið vikið að hruni og hrapi þjóða. Það er allt önnur trú, sem skáldið á við, trúin sem bókin boðar, lá í hillu Jóns biskups Vídalíns. Það er trú guðsmanna allra alda, trú spámanna og spekinga, trúin, sem blessar og reisir þjóðir. Þá trú boðaði bók biskupsins.

,,Hann lýsti sín háborð í helgi og kyrrð,
þótt heimstötrum væri hann búinn,
en sveið ekki vængi hjá vítis hirð.
Hans vegur til sannleiks var trúin.“

Sú trú gerir allt í senn. Hún blessar og reisir, hún hreinsar, leiðbeinir og vísar til vegar og unir ekki óréttvísi.
Um biskupinn og trú hans segir skáldið ennfremur:

,,Um samsekt í þögn yfir þjóðarvömm
var þungur lestur hans reiði.
Hvar frekja sig ræmdi og raupaði af skömm,
þar reiddi hann öx að meiði.
Hver illgresi banvænu biður hlíf,
hann bælir og traðkar í eyði.
Sé drepinu hlúð, visnar heilbrigt líf,
og hefndin grær á þess leiði.“

Þessi trú, sem blessar og reisir þjóðir, útrýmir allri heimtufrekju.
Hún þolir enga samsekt í þögn yfir þjóðarvömm. Hve margir eru á Íslandi samsekir í þögn yfir því, sem er réttnefnd þjóðarskömm, yfir þeim voða, sem eigingirnin, sundurlyndið, heimtufrekjan og síngirnin leiðir ávallt yfir þjóðir? Er ekki illgresinu beðið vægðar? Nægilegt svar við þessari spurningu væri, að minna á áfengispestina, en nefna mætti þó margan annan ósóma. Er sú sveit nægilega sterk í landinu, sem vill vaka og vinna og efla sem bezt þá trú, sem blessar og reisir?
Vissulega hafa þjóðirnar enn lært af beiskri reynslu liðinna alda, þar sem þær státa nú af að hafa í höndum sér það aleyðingarvopn, sem eytt geti öllu mannlífi á jörðu, dýralífi og gróðri og öllum afrekum kynslóðanna á sviði lista og vísinda. Eitthvað hafa þær samt lært og er það ljósgeisli í myrkri blindninnar. Þetta má ekki gleymast né vanþakka. Eftir heimsstyrjaldirnar tvær hafa þjóðir gert tilraun með alþjóðleg samtök og samvinnu til að leysa stjórnmálaflækjur, afstýra styrjöldum, bæta heilsufar manna og efla hag afskiptra þjóða, sem enn eru á gelgjuskeiði. Þetta eru vissulega spor í rétta átt. Þjóðir hafa „tekið eftir, hvernig fyrir þeim hefur farið“ og lært nokkuð af sárri reynslu, en sannarlega ekki nægilega mikið.
Enn flýtir hver og einn sér með ,,sitt eigið hús“, sinn eigin hag, en afrækir ,,hús drottins“, afrækir að leita fyrst af öllu „ríkis guðs og hans réttlætis“, svo að þeim veitist ,,allt hitt“!
,,Hver þjóð, sem í gengi og gæfu vill búa, á Guð sinn og land sitt skal trúa.“ Einar Ben.

Það er einmitt þessi trú, sem blessar og reisir þjóðir, en þessa trú hefur heimshyggjan reynt að kæfa og með því snúið arfi guðsbarna í bölheim. Og það er þessi trú, sem verður að vinna endurreisnarverkið.“

P.S.


Kunningi minn
Flestra gæða fer á mis;
flösku gælir hann við stút.
Alltaf þetta endemis
eirðarleysi á labbakút.
Þ.